03.12.1987
Sameinað þing: 25. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1430 í B-deild Alþingistíðinda. (1016)

87. mál, orkusala erlendis

Iðnaðarráðherra (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Aðeins vegna orða hv. 2. þm. Austurl. Það er rétt sem kemur fram í hans máli að það er afar ólíklegt að ákvarðanir verði teknar um útflutning á raforku eins og hér hefur verið gert að umtalsefni. Til þess er vegalengdin of mikil miðað við núverandi tækni, en hins vegar má vera að í augsýn sé ný tækni með ofurleiðurum sem gætu breytt þessu ef hægt er að breyta efnasamsetningu þeirra. Að því er unnið, en það getur tekið áratugi eins og hv. þm. veit. Það er ekki dýpið sem er mesta vandamálið. Það eru lagðir sæstrengir á miklu meira dýpi en á milli Íslands og þeirra landa sem rætt hefur verið um að leggja þessa sæstrengi til.

Hins vegar er það alveg rétt, og undir það vil ég taka, að það er spurning hvort ekki eigi að nota orkuna til annarra hluta. Ég vil sérstaklega taka fram að að mínu áliti er það án efa mun hentugra að nota hana til orkufreks iðnaðar hér á landi einmitt vegna þess að það hefur meira hagrænt gildi, er heppilegra fyrir okkur, það útvegar atvinnu og þar getum við samið við aðila sem eru nokkuð meira bundnir við þetta land. Að því er þess vegna unnið, eins og kom fram í máli hv. þm., að athuga þjóðhagslega hvort ekki sé heppilegt að setja 2500 gígawattstundir til nýs álvers við Straumsvík.