03.12.1987
Sameinað þing: 25. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1454 í B-deild Alþingistíðinda. (1046)

154. mál, deilur um forræði barna

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Hv. fyrirspyrjendur bera upp margar spurningar um deilur um forræði barna. Spurningarnar eru í svo mörgum liðum að það kann að reynast erfitt að svara þeim öllum á þeim stutta tíma sem þingsköp mæla fyrir um, en ég mun þó reyna.

Í fyrsta lagi er spurt um fjölda forræðisdeilumála sem úrskurðuð hafi verið í dómsmrn. á árabilinu 1983–1986. Á þessu bili ára voru kveðnir upp í dómsmrn. u.þ.b. 40 úrskurðir um forsjá barna á ári hverju til jafnaðar. Það vekur sérstaka athygli að forsjárúrskurðunum hefur ekki farið fjölgandi þrátt fyrir verulega aukinn fjölda hjónaskilnaðarmála og má ætla að ástæða þessa sé sú að aukin áhersla hafi verið lögð á sáttaumleitanir í ráðuneytinu og hjá barnaverndarnefndum.

Í öðru lagi er spurt um fjölda barna sem hlut hafi átt að máli. Því miður liggja upplýsingar um barnafjöldann ekki fyrir því skrásetningin á málunum í ráðuneytinu ber ekki með sér barnafjölda í hverju deilumáll og það er ekki unnt að gera um hann yfirlit nema með verulegri fyrirhöfn. Því miður vannst ekki tími til þess í þetta sinn, en úr því verður vonandi bætt síðar.

Í þriðja lagi er spurt um fjölda mála sem vísað hafi verið til úrskurðar barnaverndarráðs. Ég vildi fyrst segja skýrt að ráðuneytið vísar ekki slíkum málum til úrskurðar barnaverndarráðs heldur eru þau send ráðinu til umsagnar sem er ekki skuldbindandi fyrir ráðuneytið en höfð til hliðsjónar við úrskurði þess. Á árunum 1983–1986 sendi ráðuneytið eftirfarandi fjölda forsjármála til umsagnar barnaverndarráðs: 1983 25 mál, 1984 17 mál, 1985 14 mál, 1986 10 mál.

Síðan er spurt um lengd afgreiðslutíma að jafnaði. Ég get því miður ekki svarað þessari spurningu nákvæmlega að svo stöddu þar sem skráningar skortir, en þó er ljóst að það er verulegur munur á afgreiðslutímanum eftir því hvað það tekur barnaverndarnefndirnar langan tíma að kanna málin og gefa um þau lögboðna umsögn samkvæmt 38. gr. barnalaganna. Lokaafgreiðsla málanna í ráðuneytinu tekur yfirleitt fáar vikur eftir að umsögn barnaverndaryfirvalda er fengin. Stysti afgreiðslutíminn, af því að um hann var spurt, er einn til tveir mánuðir í heild en lengsti afgreiðslutími sem finna má er á annað ár. Þó má finna þarna undantekningar um enn lengri afgreiðslutíma þegar upp hafa komið atvik sem hindra þá meðferð málsins sem lögboðin er. En skýrslur um afgreiðslutímann eru því miður ekki aðgengilegar til að gefa á þessu nánari skýringar.

Loks er spurt um áform ráðuneytisins í þá veru að stytta afgreiðslutímann. Um það vil ég segja að í dómsmrn. er fullur skilningur á því að það sé nauðsynlegt að stytta þann tíma sem afgreiðsla forsjármálanna tekur, enda eru það náttúrlega fyrst og fremst hagsmunir barnanna sem eiga að vera þarna leiðarljós. Skýringanna á því hvernig þessi mál vilja tefjast er að okkar dómi ekki síst að leita í löngum afgreiðslutíma hjá barnaverndaryfirvöldum sem stafa mun af miklum önnum hjá þeim og starfsmönnum þeirra.

Ég get getið þess til fróðleiks að samkvæmt upplýsingum yfirmanns fjölskyldudeildar Félagsmálastofnunar Reykjavíkur þurfa forsjármál sem ráðuneytið sendir til barnaverndarnefndar Reykjavíkur að bíða í allt að 4–5 mánuði áður en afgreiðsla þeirra hefst. Það mun þó vera í bígerð að fjölga starfsmönnum við þetta verkefni.

Ég þarf varla að taka það fram í þingsal að starfsemi barnaverndaryfirvalda er ekki á vegum dómsmrn. og það eru fyrst og fremst sveitarstjórnirnar sem þurfa að bæta svo aðstöðu þessara nefnda að þær geti afgreitt málin á skemmri tíma.

Í sjötta og sjöunda lagi í þessari löngu fsp. var spurt um það hversu algengt sé að börn gangist undir sálfræðirannsókn vegna forræðisdeilna og einnig hversu algengt sé að foreldrar ráði sér lögfræðinga til aðstoðar. Það liggur því miður ekki fyrir nein úttekt á þessum atriðum. Það er hins vegar ljóst að til undantekningar heyrir að sama barn gangist undir sálfræðilegar rannsóknir bæði á vegum barnaverndarnefndar og barnaverndarráðs þótt um það séu dæmi í erfiðustu forsjármálunum. Það er líka algengt að foreldrar ráði sér lögfræðinga til aðstoðar við rekstur svona mála þótt sjaldan sé í reynd um flókin lögfræðileg álitamál að ræða. Vandamálin liggja yfirleitt annars staðar, þ.e. á hinu félagslega og sálfræðilega sviði.

Eins og svör mín hafa borið með sér liggja ýmsar af þeim upplýsingum sem um var beðið ekki á lausu eins og stendur þar sem ekki hafa verið unnar skýrslur um þetta úr frumgögnunum einfaldlega af því að til þess er ekki mannafli í ráðuneytinu. Ég vil þó geta þess að prófessor Þórólfur Þórlindsson hefur á undanförnum mánuðum staðið fyrir umfangsmikilli könnun á ýmsum atriðum sem varða lögskilnaðarmál og samkvæmt upplýsingum hans má vænta fyrstu niðurstaðna af þeirri rannsókn í byrjun næsta árs.