08.12.1987
Efri deild: 17. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1581 í B-deild Alþingistíðinda. (1128)

181. mál, stjórn fiskveiða

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forseta fyrir hugulsemina að hafa gert ráðstafanir til þess að ég yrði látinn vita þegar umræða hæfist eða ég kæmist að. En það sem ég ætlaði að fara yfir voru nokkrir þættir þessa máls. Ég ætlaði aðeins að ræða um aðdragandann á undanförnum vikum og mánuðum. Ég ætlaði aðeins að fjalla um tillögur þær sem fyrir liggja frá Alþb. í hv. deild. Og ég ætlaði síðan að víkja að öðrum almennum þáttum þessara mála. Ég tel að það sé þarflaust og ástæðulaust að ég sé að teppa ræðustól lengi vegna þess að hér hafa verið haldnar ágætar ræður þar sem hefur verið tekið myndarlega á þessum málum, bæði í þeirri ræðu sem hv. 4, þm. Vesturl. flutti í gær og ekki síður í þeirri ræðu sem hv. 3. þm. Vestf. flutti áðan.

Það sem ég vildi kannski víkja aðeins að er það sem lýtur að nokkrum átökum um þetta mál sem hafa verið í ríkisstjórninni um skeið og fram kom í blöðum á undanförnum vikum og mánuðum. Það hófst með því að Alþfl. lýsti því yfir að frv. sjútvrh. væri hið versta mál, alvarlegt sáttmálabrot um stærsta mál Íslands, sagði hæstv. fjmrh., væri hið versta mál, alvarlegt sáttmálabrot um stærsta mál Íslands, sagði hæstv. fjmrh., formaður Alþfl. Og Alþýðublaðið fylgdi þessu eftir í leiðara sem bar yfirskriftina „Þumbarafrumvarpið og Alþýðuflokkurinn“ en þumbarafrumvarpið mun vera frv. hæstv. sjútvrh. Og Alþýðublaðið var ekkert að draga af sér í ummælum um þetta frv. Það var talið í raun og veru óalandi og óferjandi að öllu leyti. Það var sagt í forustugrein Alþýðublaðsins um þumbarafrv., með leyfi hæstv. forseta, sem ég veit að veitir góðfúslega leyfi til að vitna í Alþýðublaðið:

„Þessi nefnd hefur ekki skilað af sér þeim störfum sem til var ætlast. Í drögum að frv. um fiskveiðistefnuna sem lagt hefur verið fram í þingflokkum er greinilegt að litlu sem engu á að breyta í fiskveiðistefnunni. Ofríki sjútvrh. virðist endurspeglast í frv. en sem formaður stjórnarnefndarinnar um endurskoðaða fiskveiðistefnu hefur hann greinilega staðið í vegi fyrir breytingum og dregið málin á langinn.

Árangurinn er kvótafrv. sjútvrh. sem miðar að því að halda sem flestu óbreyttu. Ekki hefur verið haft það víðtæka samráð við hagsmunaaðila í sjávarútvegi og fiskiðnaði sem stjórnarsáttmálinn segir til um. Afleiðingin lætur ekki á sér standa. Um allt land rís fólk upp sem á hagsmuni sína undir breyttri sjávarútvegsstefnu og andmælir kröftuglega þeirri óbreyttu þumbarastefnu sem sjútvrh. leggur fram.“

Þessu hélt síðan áfram með nokkrum blaðaskrifum næstu daga og það er óhjákvæmilegt að koma þessu í þingtíðindin til þess að halda til haga sögu þessa máls. Daginn eftir birtist viðtal við hæstv. fjmrh. í Tímanum þar sem sagði: „Alvarlegt sáttmálabrot um stærsta mál Íslands“. Og Alþfl. hélt áfram hinni hetjulegu baráttu sinni dag eftir dag eftir dag við þennan samstarfsmann sinn sem þeir kalla þumbara, hæstv, sjútvrh., það eru ekki mín orð heldur Alþfl., og þegar búið var að liggja yfir þessu máli langtímum saman og hæstv. sjútvrh. sagði að þetta yrði erfiður mánuður fyrir stjórnina, mjög erfiður mánuður fyrir stjórnina, í viðtali við DV og kallar hann nú eins og kunnugt er ekki allt ömmu sína vegna þess að hann hefur setið lengi í ríkisstjórn og er reyndur stjórnmálamaður þrátt fyrir ekki mjög háan aldur.

En síðan gerast hin miklu undur og hin miklu stórmerki. „Halldór gaf sig," segir hér í málgagni Alþfl. 4. des. 1987. Hann gaf sig. Hinir skeleggu talsmenn Alþfl. í þessum sjávarútvegsmálum sátu fyrir á mynd eins og hv. þingdeild getur hér séð (KP: Hverjir eru nú það?) talið frá vinstri — hv. 3. þm. Vestf., mér finnst ánægjulegt að fá þessa áminningu, ég biðst afsökunar. Það eru hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, Jón Sigurðsson og Kjartan Jóhannsson. Og það var sagt hér í myndatexta á þessa leið, með leyfi forseta: „Þeir mótuðu tillögurnar sem nú hafa farið inn í kvótafrv., Sighvatur Björgvinsson, Jón Sigurðsson og Kjartan Jóhannsson (Gripið fram í.) ásamt Eiði Guðnasyni sem nú er í útlöndum“, þannig að hann getur ekki verið með á myndinni og þar af leiðandi ekki notið þess mikla heiðurs sem því er fylgjandi að hafa beygt þennan mikla þumbara, svo að ég vitni í þeirra eigin orð, með leyfi forseta, hæstv. sjútvrh. Þetta var sem sagt niðurstaðan og hið mikla afrek Alþfl. að knésetja sjútvrh. með þessum hætti.

Nú er kannski ekki úr vegi, herra forseti, að kanna í hverju hin miklu afrek Alþfl. liggja í þessum málum. Í hverju liggja hin miklu afrek? Hvar var það sem hæstv. sjútvrh. beygði sig eða „gaf sig“, eins og það heitir í skrifum Alþýðublaðsins sem hv. þm. Arni Gunnarsson hefur kannski komið nálægt en hann er kominn hér inn í Ed. úr þeirri neðri. Jú, það er í 1. gr. frv. Þar stendur: „Fiskstofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu.“ Þessu náðu þeir inn fjórmenningarnir, fjórmenningaklíkan sem beygði hæstv. sjútvrh. Þetta eru falleg orð. En það er með þau eins og mörg önnur falleg orð að þeim þarf að fylgja innihald ef eitthvert gagn á að vera í þeim. Og staðreyndin er sú að það er mála sannast að í öllum hinum greinunum sem á eftir koma, þ.e. 20 greinum, er efnislega í raun og veru allt dregið til baka sem segir í 1. gr. vegna þess að samkvæmt þessum greinum sem á eftir koma er útgerðinni afhentur aðgangsmiðinn að fiskimiðunum.

Hvað er það annað sem hv. þm. Alþfl., hin mikla sveit víkinganna undir forustu hv. þm. Sighvats Björgvinssonar, hins mikla leiðtoga, ná hér inn? Hvað er það annað? Það er nefnd. Það er hvorki meira né minna en nefnd og það sé sett í lög að það eigi að skipa nefnd. Heil nefnd sem á að skipa. Og það er reyndar þannig með þetta frv. að fyrir utan kvótaákvæði þess kveður það á um hvorki meira né minna en þrjár nefndir. Það er ein nefnd á hverjar sjö greinar frv.

Fyrst er það í 15. gr., með leyfi forseta: „Sérstök samráðsnefnd, skipuð einum fulltrúa tilnefndum sameiginlega af samtökum sjómanna og einum tilnefndum af samtökum útvegsmanna auk formanns sem skipaður er af ráðherra án tilnefningar, skal fjalla um álita- og ágreiningsmál varðandi veiðileyfi, aflamark og sóknarmark samkvæmt lögum þessum og reglugerð settri samkvæmt þeim og gera tillögur til ráðherra um úrlausn þeirra.“ Þetta er ein nefndin.

Nefnd tvö: „Sjávarútvegsráðherra skal skipa nefnd samkvæmt tilnefningu þingflokka og helstu hagsmunaaðila í sjávarútvegi til að undirbúa tillögur um fyrirkomulag fiskveiðistjórnar að loknum gildistíma þessara laga," þ.e. til að gera tillögur um það kerfi sem tekur við frá og með 1. jan. 1992 þegar þessi lög eiga að renna úr gildi samkvæmt þeim tillögum sem hér liggja fyrir. „Jafnframt skal nefndin móta tillögur um breytingar á lögum þessum á gildistíma þeirra eftir því sem tilefni verður til.“ Hérna er nú snarplega til orða tekið — framsóknarlega til orða tekið. „Nefndin skal meðal annars kanna áhrif laganna á afkomu og hagkvæmni í sjávarútvegi og skynsamlega nýtingu fiskistofna. Einnig skal hún athuga tilhögun veiðiheimilda, m.a. heimilda sem ekki séu bundnar við skip. Nefndin skal hefja störf hið allra fyrsta og starfa á gildistíma laganna. Skal hún skila fyrsta áliti eigi síðar en haustið 1989," þ.e. þegar mjög verulega er liðið á annað ár þessara laga sem hér er verið að setja.

Og síðan segir hér í ákvæði til bráðabirgða II: "Sjútvrh. skal í lok hvers árs setja reglugerð um meginþætti stjórnar botnfiskveiða á komandi ári og hafa við það samráð við sjávarútvegsnefndir Alþingis og samtök helstu hagsmunaaðila í sjávarútvegi.“

M.ö.o., afrekið liggur í því einu að það er ákveðið að skipa nefnd til fjögurra ára. Hún á að skila fyrsta áliti í lok ársins 1989 og hún á síðan að skila endanlegum tillögum fyrir árslok 1991. Og ég segi alveg eins og er að miðað við þær fregnir sem hafa farið af hæstv. núv. ríkisstjórn síðustu dagana finnst mér ekkert benda til þess að hún lifi fram á árið 1991.

Mín niðurstaða er því sú, því miður, að Alþfl. hafi ekkert haft upp úr krafsinu nema fyrirsögnina „Halldór gaf sig“ og leiðarann „Þumbarafrumvarpið og Alþýðuflokkurinn“. Það er ekkert í rauninni annað sem liggur eftir en ákveðin fúkyrði í garð hæstv. sjútvrh. sem hafa birst í Alþýðublaðinu. Það er ekkert annað sem næst hér inn, bókstaflega ekki neitt. Og maður hlýtur auðvitað að spyrja sig þeirrar spurningar þegar maður stendur frammi fyrir staðreynd eins og þessari: Hvað er að marka orð stjórnmálamanna? Alþfl. gaf yfirlýsingar um það einn, hygg ég, stjórnmálaflokka þar sem hver einasti þm. greiddi atkvæði gegn kvótafrv. 1985. Ég hygg að flestir þm. Alþfl. og Alþfl, hafi þá lýst beinni andstöðu við þetta mál. Hæstv. núv. fjmrh. flutti um það langar ræður hve fráleitt þetta kerfi væri, óréttlátt, kvótakerfi, landbúnaðarkerfi, Framsóknarkerfi, og allt það. Þær ræður veit ég að menn kunna. Hann er ekki fyrr kominn inn í ríkisstjórn en hann í rauninni slær striki yfir allar þessar löngu og ítarlegu ræður sem hann flutti um þessi mál hér á hv. Alþingi meðan þessi mál voru til meðferðar, t.d. haustið 1985. (SalÞ: Það er hægara um að tala en í að komast.) Það er akkúrat, en það ætti að vera regla, hv. þm. Salome Þorkelsdóttir, að þeir sem eru að gefa yfirlýsingar og taka að sér forustu fyrir stjórnmálaflokkum hefðu einhverja hugmynd um það að það er samhengi á milli þess að tala og í að komast.

Ég held að þetta hljóti að vera mönnum ákaflega alvarlegt umhugsunarefni og svo er líka það að hv. þm. eða frambjóðendur Alþfl. á Vestfjörðum fyrir kosningarnar sl. vor lýstu því yfir, bæði hv. þm. Sighvatur Björgvinsson og hv. þm. Karvel Pálmason, að þeir mundu aldrei fara inn í stjórn eða styðja stjórn sem ekki breytti þessu kerfi og afnæmi kvótakerfið. (Gripið fram í.) Og það var sagt fullum fetum, ekki aðeins á fundum sem haldnir voru í hinum litlu byggðarlögum hér og þar á Vestfjörðum, þetta var endurtekið aftur og aftur, m.a. í ræðum sem þessir tveir hv. þm., frambjóðendur þá, fluttu fyrir alþjóð í útvarpi og sjónvarpi fyrir kosningarnar 1987.

Ég heyri hvað hv. 3. þm. Vestf. segir. Hann stendur fast á sinni skoðun í þessu efni. Ég sé hins vegar ekki betur en að hinn mikli leiðtogi, sem að eigin sögn hefur beygt hæstv. sjútvrh., hafi gjörsamlega snúið við blaðinu og sé núna að styðja stefnu sem hann sagði fyrir kosningarnar 1987 að hann mundi aldrei styðja vegna þess að þetta er í grunninn nákvæmlega sama stefnan og í rauninni er gengið mikið lengra í átt til aflakvóta en var í frv. og lögunum 1985.

Við skulum muna eftir því að samkvæmt þessum pappírum frá sérfræðingum sem liggja fyrir í grg. frv. kemur það fram að allur fiskurinn kom á aflakvóta á fyrsta ári kvótakerfisins. Á næsta ári var það um 70%, á þar næsta ári 38% vegna þess að í lögunum 1985 var tekið upp sóknarmark sem skapaði möguleika á meiri sveigju en áður var. Núna á að snúa þarna til baka og draga úr möguleikum á því að taka upp sóknarmark. M.ö.o., hafi þetta gengið langt sem kvótafrv. og kvótalög 1985 er það alveg ljóst að þetta frv. sem Alþfl. er að styðja núna gengur mikið lengra sem kvótafrv. en nokkurn tíma frv. 1985.

Þannig liggur það. Og það er ekki að undra, þó að maður velti því fyrir sér við slíkar aðstæður hvernig á því stendur að menn láta hafa sig í það að standa að þessu eða kannski öllu heldur hvernig á því stendur að menn létu hafa sig í það að gefa yfirlýsingarnar á sínum tíma þegar þeir áttu að vita að það væri ekkert eins einfaldur hlutur og að losa sig út úr kvótakerfinu. Það voru að vísu fleiri en alþýðuflokksmenn sem mótmæltu þessu kerfi núna nýlega. Í þeim hópi var t.d. forusta sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík og á Reykjavíkursvæðinu þar sem kvótakerfinu var sérstaklega mótmælt. Ég heyrði ekki betur en að hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson væri að búa sig undir það verandi þó einn af þessum forustumönnum sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík að styðja þetta mál. Ég hef ekki orðið var við það að hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson, sem er einn af þm. Sjálfstfl. í Reykjavík, beitti sér eða mundi beita sér sérstaklega gegn þessu máli eins og það liggur fyrir og þannig hefur þetta verið aftur og aftur og aftur.

Það er búið að halda hér langar ræður og miklar á löngum fundum um þetta kvótakerfi núna alveg síðan 1983. Það hafa komið hér upp í ræðustólinn menn eins og hv. þm. Matthías Bjarnason, hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson, hæstv. fjmrh. og fleiri og fleiri og sagt: Aldrei, aldrei kvótakerfi ef ég fæ einhverju ráðið. Og hv. þm. Matthías Bjarnason er reyndar orðinn formaður í sjútvn. Nd. rétt eins og hv. þm. Karvel Pálmason er formaður í sjútvn. Ed. Og ég segi: Ef þeir tækju sig nú saman, formenn sjávarútvegsnefnda beggja deilda þingsins, gætu þeir örugglega það sem Alþýðublaðið sagði að þeir fjórmenningar hefðu gert en gerðu ekki, þ.e. beygt hann, hæstv. sjútvrh. Þeir gætu það ef þeir vildu, eða hvað? Jú, ekki væni ég hv. þm. Karvel Pálmason um skort á einlægni í þessu efni. Það geri ég ekki og hef enga ástæðu til þess. En hvernig stendur á því að þessir hv. þm. með þessi lykilvöld hér í þinginu, bæði í Ed. og í Nd., neyta ekki færis og þess afls sem aðild þeirra að stjórnarliðinu gefur þeim með því að þeir eru formenn í þessum tveimur nefndum?

Það er reyndar ekki að furða að maður eins og hv. þm. Karvel Pálmason og fleiri hv. þm. Vestf. leggi sig mjög fram um það að reyna að hafa áhrif á mótun fiskveiðistefnunnar. Staðreyndin er sú að ekkert byggðarlag, enginn fjórðungur á landinu, er í rauninni jafnháður þessari auðlind og Vestfirðir. Það er alveg ljóst að Vestfirðingar hafa ekki í neitt annað að sækja, hafa ekki í neina aðra auðlind að sækja, og þess vegna eiga þeir, að mínu mati, þó að ekki kæmi annað til að vera með aukinn rétt til þess að ganga inn á fiskimiðin miðað við önnur byggðarlög sem búa við aðrar auðlindir og betri aðstæður frá náttúrunnar hendi á mörgum sviðum en Vestfirðingar, enda hefur það komið í ljós að það hefur átt sér stað verulegur samdráttur í hlutdeild Vestfirðinga í heildarþorskafla á undanförnum árum.

Ef við tökum árið 1983 sem viðmiðun var hlutfall Vestfirðinga 16,4% af heildarþorskafla miðað við óslægðan fisk í landinu öllu. Árið 1987 verður þessi tala í kringum 14%. Þarna á milli er verulegur þorskafli, verulegur vinnsluafli, sem skiptir gríðarlega miklu máli fyrir þetta litla byggðarlag sem Vestfirðirnir eru. Og horfurnar fyrir Vestfirðina, hvernig ætli þær séu ef haldið er eins áfram á komandi árum og gerst hefur á undanförnum árum? Horfurnar eru þær að ef svo heldur fram sem horfir fækkar íbúum á Vestfjörðum svo fram til aldamóta að þeir verða um aldamót það miklu færri að nemi því að Bolungarvík öll legðist í eyði.

Hv. þm. sem hér eru í salnum og þekkja t.d. skýrslur Byggðastofnunar, eins og hv. þm. Stefán Guðmundsson, mættu gjarnan skoða hvaða útreið byggðarlag eins og Patreksfjörður hefur orðið fyrir af mörgum ástæðum á undanförnum árum og menn mættu velta því fyrir sér hvaða áhrif staðan þar hefur á viðhorf fólks á Patreksfirði og annars staðar á Vestfjörðum til að búa áfram, til að lifa og skapa verðmæti í þessu byggðarlagi. Og það er satt að segja þannig að ég hygg að eðlilegt væri að flytja um það till. til þál.alþm. allir færu eins og eina ferð saman um Vestfirði og kynntu sér hvernig ástandið er í byggðarlögunum þar því að þar er ekki bara spurning um tölur á blaði sem menn geta lesið hér suður á Rauðarárstíg eða hér suður í Alþingishúsi. Það er líka spurning um það hvernig þetta ástand hefur leikið hinn almenna mann á Vestfjörðum á undanförnum árum, börnin, unga fólkið og aðra. Þess vegna er það ekki að furða þótt manni eins og hv. þm. Karvel Pálmasyni sé mikið niðri fyrir þegar hann kemur að þessum málum hér á hv. Alþingi. Ég skora á hann að gera allt sem hann getur til að reyna að hafa áhrif í rétta átt í þessu efni og heiti honum þeirri hjálp sem ég get veitt í þeim efnum. Hann getur haft áhrif ef hann vill og ég er viss um að hann vill beita sínum krafti af fullu í þessu efni.

Þessu næst, herra forseti, eftir að hafa rakið nokkuð aðdragandann og afrek Alþfl. í þessu efni, vil ég aðeins víkja að einum þætti þessa máls, sem ekki hefur verið minnst á í þessum umræðum enn þá, sem snertir eftirlit með framkvæmd þessara laga.

Fyrir nokkrum vikum birtist niðurstaða frá Mannréttindadómstóli Evrópu um það að meðferð réttarkerfisins á Íslandi á tilteknum málum Jóns Kristinssonar á Akureyri stæðist ekki þær kröfur sem Mannréttindasáttmáli Evrópu gerir til réttarfars í lýðræðisríkjum. Ég vík að þessu hér, herra forseti, vegna þess að í okkar kerfi núna varðandi fiskveiðistjórn er það svo að það er sami maður, eða framlenging á valdi hans, sem fer með eftirlit, sem fer með rannsókn, sem framkvæmir úrskurði og skipar fyrir um aðför. Ég er sannfærður um að þessi ákvæði fiskveiðilaganna standast ekki venjulegar kröfur í lýðræðisríkjum sem vilja hafa mannréttindi í heiðri, þar sem menn geti varið sig á hverju stigi með eðlilegum hætti og þar sem það er tryggt að eftirlitið, rannsóknin, úrskurðurinn og aðförin séu óháð þeim aðila sem að öðru leyti lætur af hendi rakna það sem lögin kveða á um, þ.e. úthlutun veiðileyfa í þessu tilviki. Ég tel að svona ákvæði, sem hnýta þetta þannig saman: eftirlit, rannsókn, úrskurð og aðför, ég er sannfærður um að svona lög eru til í öðrum ríkjum. En ég er jafnviss um að við viljum ekki taka þau ríki okkur til fyrirmyndar.

Það hefur verið sagt að þessi ákvæði séu með þessum hætti til að tryggja skilvirkni í framkvæmd. Skilvirk lagaframkvæmd má hins vegar aldrei verða á kostnað réttaröryggis borgaranna. En það er það sem þessi lagaákvæði gera. Ég hef heldur enga trú á því, herra forseti, að hæstv, sjútvrh. hafi endilega hug á því að viðhalda þessu kerfi óbreyttu um aldur og ævi þó það hafi verið sett inn í lögin í upphafi og hafi haft í för með sér býsna alvarlegar niðurstöður, eins og kunnugt er, á síðustu mánuðum. Ég vil þess vegna hreyfa því hvort ekki væri hugsanlegt, jafnframt því sem við skoðum þessi mál að öðru leyti, að fara með þessi mál varðandi eftirlit, rannsókn, úrskurði og aðför, eins og gerist í öðrum málum: Það sé óháður eftirlitsaðili, það sé óháður rannsóknaraðili, það sé óháður úrskurðaraðili og síðan fari málið dómstólaleiðina, hina venjulegu, ef ástæða þykir til og óhjákvæmilegt er að mati sjútvrn. eða þess aðila sem með eftirlitið og rannsóknirnar fer.

Ég er alveg sannfærður um að þetta kerfi þætti býsna gott í ýmsum ríkjum Suður-Ameríku og Afríku. Býsna gott. Mjög skilvirkt. Vegna þess að það er hægt að hafa eftirlit með mönnum, rannsaka mál þeirra, úrskurða og gera að þeim aðför á sömu stundu af sama manni, án þess að velta því fyrir sér eitt augnablik. En þetta er ekki kerfi sem samræmist og er sæmandi lýðræðisríki sem vill byggja á mannréttindum frekar en öðru.

Ég vænti þess, herra forseti, að hæstv. sjútvrh. taki þessum ábendingum vel og komi inn á þær í máli sínu sem ég geri ráð fyrir að hann flytji hér á eftir.

Ég vil þessu næst, og að síðustu af minni hálfu að sinni, víkja að þeim brtt. sem fyrir liggja á þskj. 205, brtt. frá Alþb. Hv. þm. Skúli Alexandersson hefur gert ítarlega grein fyrir þessum till. Hv. þm. Eiður Guðnason sagði hér áðan að margt í þessum till. væri þannig að hann gæti út af fyrir sig fallist á þær. Og ég hef orðið var við það hjá fleiri þm. stjórnarliðsins að þeir telja að ýmislegt sé áhugavert í þessum till. sem þeir teldu ástæðu til að skoða með jákvæðum hætti.

Hv. þm. Eiður Guðnason sagði í sinni ræðu hér fyrr í dag að hann byggist ekki við að við hefðum lagt till. fram til að fá þær samþykktar. Þetta er misskilningur. Við leggjum till. fram í trausti þess að þm. hér í hv. Ed. hafi það sjálfstæði að þeir skoði þær efnislega og við förum fram á það við þessa þm., ef þeir geta fellt sig við till. að öðru leyti, að þeir greiði atkvæði með eðlilegum hætti. Fullburða gagnvart sinni eigin samvisku. Ég held að það sé fjöldamargt í þessum till. varðandi byggðakvótann sem þm. annarra flokka gætu ákaflega vel fellt sig við. Enda er þetta líka óvenjulegt mál. Hér eru engin handjárn, eða hvað? Hér virðast þm. stjórnarflokkanna hafa ákaflega mismunandi áherslur. Það á auðvitað einnig við um þm. stjórnarandstöðuflokkanna eins og gengur. Hér er reynt að finna samnefnara. Kannski er það ekki hundrað prósent þessi samnefnari sem menn gætu fellt sig við, en eitthvað nálægt þessu. Ég skora á hv. efrideildarmenn að taka þannig á þessu máli að þeir gangi til verksins með opnum huga og svari þeirri spurningu fyrir sjálfum sér: Væri hægt að leysa þetta mál til langframa með einhverri svipaðri aðferð og þeirri sem hér er nefnd? Væri það hægt? Ég held að það sé óhjákvæmilegt að skora á hv. þm. að reyna að fara yfir málin þannig með opnum hætti.

Ég vil einnig í allri vinsemd benda á það sem hv. 3. þm. Vestf. kom hér inn á áðan. Það er fjöldi mála sem liggur fyrir þinginu núna. Það er fjöldi mála sem eftir er að koma inn í þingið. Sum þessara mála eru veigamikil efnahags- og skattamál sem snerta svo að segja alla þætti í tekjuöflun ríkisins. Ef stjórninni er einhver alvara í því að reyna að ná þessum málum með eðlilegum hætti í gegn, þá er skynsamlegt að leita samkomulags eins víða og kostur er, bæði varðandi efni og vinnubrögð, fremur en að þumbast, sem Alþýðublaðið segir að hæstv. sjútvrh. hafi gert í þessu máli þegar hann lagði fram „þumbarafrumvarpið“ á sínum tíma. Ég bið hann að afsaka, en ég er að vitna í Alþýðublaðið. Málgagn ríkisstjórnarinnar. Ég held að það sé ekki vænlegt að þumbast í þessu efni. Ég held að það sé vænlegast að við reynum að horfa til allra átta og kanna hvort hægt er að finna samkomulagsfleti bæði varðandi efni og vinnubrögð í sambandi við þetta mál og fleiri mál sem hér koma inn næstu daga.

Ég ætla ekki að tala mikið lengur, herra forseti. Áður en ég heyrði umræðuna hefjast hafði ég hugsað mér að lesa úrvalskafla úr ræðum formanns Alþfl., „samlede værker“ er það kallað stundum á skandinavísku, „samlede værker“ úr þingtíðindum. Ég hætti við það þegar ég heyrði ræðu hv. þm. Karvels Pálmasonar. Mér fannst að hæstv. fjmrh. væri búinn að fá alveg nægan skammt í dag og veit líka að við Karvel, hv. þm., höfum báðir nægan raddstyrk til að láta það berast hér yfir í næsta herbergi, þó að hæstv. formaður Alþfl. kjósi að fela sig á bak við þær dyr í þessari umræðu.