09.12.1987
Efri deild: 18. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1658 í B-deild Alþingistíðinda. (1199)

40. mál, Útflutningsráð Íslands

Guðrún Agnarsdóttir:

Hæstv. forseti. Eitt er nú að ganga svipugöngin hver fyrir annan. Hitt er öllu verra ef fleira er jafnruglað og misskilið í störfum þingsins og milli deilda og þetta mál. En af nefndarstörfum undanfarna daga virðast margir lausir endar og mér er til efs að það náist að hnýta þá alla fyrir jól. Ég held því að menn ættu að fara að skipuleggja störf sín ögn betur og setja niður forgangsröð um það hvaða málum verður að koma í gegnum þetta þing fyrir þinghlé því að þau munu ekki öll ganga í gegn, held ég, svo að vel sé.

Ég ætlaði að segja nokkur orð í sambandi við frv. til l. um breytingu á lögum um Útflutningsráð Íslands og eru þau auðvitað samhangandi bæði það og eins það frv. sem á eftir fer um útflutningsleyfi.

Þessar breytingar, sem hér á að gera á útflutningsviðskiptum, að færa þau yfir til utanrrn., voru ræddar talsvert á sl. kjörtímabili í hv. utanrmn. þar sem ég átti sæti og sýndist að vísu sitt hverjum þar. Þó voru menn almennt á því að það þyrfti að endurskipuleggja utanríkisþjónustuna að ýmsu leyti og að það væri skynsamlegt að koma á formlegra sambandi milli viðskrn. og utanrrn. vegna þess að ýmsir viðskiptafulltrúar ættu jafnan sæti eða væru í nánum tengslum við sendiráð erlendis. Ennfremur að margar þær fsp. og þau erindi, sem bærust sendiráðum erlendis, væru af viðskiptalegum toga og þess vegna þyrfti að tengja þetta betur saman. Ég er alveg sammála því. Slíkar breytingar mætti gjarnan gera.

Hins vegar kom það fram í umræðum í Nd. og er flestum ljóst, sem fylgdust með stjórnmálum á sl. sumri, að aðdragandinn að þessum breytingum nú, eins brátt og hann ber að og með jafnlitlum undirbúningi og raun ber vitni, er fyrst og fremst í tengslum við stjórnarmyndunarviðræður og e.t.v., eins og einhverjir komust að orði, hrossakaup um ráðherrastóla. Ég álít að þarna hefði mátt standa mun betur að málum og skipuleggja betur þær breytingar, sem atti að gera, og tel mjög vafasamt að hefði átt að venda umsjón þessara mála svona kyrfilega yfir í annað ráðuneyti án þess að skipuleggja aðdragandann betur, þó að ég sé, eins og ég hef áður sagt, fylgjandi því að það þurfi að tengja þessi mál betur saman til þess að markvissari vinnubrögðum og árangri sé náð.

Við erum í sjálfu sér ekki mótfallnar endurskipulagningu á Stjórnarráðinu, kvennalistakonur, og höfum reyndar rætt þau mál á þinginu þegar tilefni gefast til. Hins vegar hefðum við viljað leggja allt aðra áherslu á í þessum efnum og eins og kom fram í máli Kristínar Halldórsdóttur í Nd., þegar hún talaði í þessu máli, og hefur reyndar komið fram í máli okkar áður. Finnst okkur brýnasta breytingin í endurskipulagningu Stjórnarráðsins vera sú að koma á umhverfismálaráðuneyti fremur en gera þá breytingu sem hér er til lögð og hefðum við mun frekar viljað standa hér og ræða frv. um slíkt mál en þetta. Ég efast um í raun að það liggi jafnmikið á að afgreiða þetta og mörg önnur mál fyrir jólin þegar við stöndum nú frammi fyrir lánsfjárlögum sem eru eins og grautur í skál bókstaflega. Þar eru svo margir lausir endar og óuppgerð mál, sem hafa komið inn á borð fjh.- og viðskn. Þá hefði í raun átt að gera upp fyrir löngu í liðum stjórnarinnar áður en málið kom hér í umræðu og í umfjöllun nefnda. Ég legg mikla áherslu á þetta vegna þess að ég hef mjög miklar áhyggjur af þessu og einnig af þeim stóru kerfisbreytingum sem verið er að gera.

Við erum búin að fá endalaus dæmi á þessu þingi um illa unnin mál. Það liggur á borðum okkar skýrsla um léleg vinnubrögð, afspyrnu léleg og óskaplega dýrkeypt vinnubrögð í hönnun flugstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli. Eg er ekki búin að lesa þessa skýrslu, en ég hygg að þar standi að þetta geti orðið lærdómur, ekki síst fyrir þá sem hér vinna, hvernig þeir standa að málum, og einnig fyrir ráðuneyti. Þess vegna legg ég eindregið til að nú verði vandað til vinnubragða og menn ætli sér ekki um of, nái þeim málum í gegn sem brýnust eru og reyni að vinna þau vel.