20.10.1987
Sameinað þing: 5. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 175 í B-deild Alþingistíðinda. (120)

12. mál, umhverfismál

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Ég vil einungis láta koma fram þann skilning á þessu atriði í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að hér sé fyrst og fremst miðað við að þær stjórnunaraðgerðir, sem nú eru þegar fyrir hendi í ýmsum ráðuneytum og stofnunum þjóðfélagsins, verði samræmdar. Ég hygg að sá vandi, sem við er að etja í umhverfismálum hér á landi, verði ekki leystur með því að búa til eitt ráðuneyti enn og bæta einni silkihúfunni ofan á allt það skriffinnskukerfi sem í þessum málum er, heldur þvert á móti með því að sjá til þess að raunverulegar aðgerðir verði auknar og skilningur almennings efldur. Ég held að það sé það sem máli skiptir. Við höfum í raun og veru náð miklu meiri árangri á þessu sviði en ætla mætti af ýmsum ummælum manna með því einmitt að þessi mál eru komin inn í stofnanir víða í ráðuneytum. Sum þeirra eru hrein heilbrigðismál, sum eru iðnaðarmál eða tilheyra iðnrn., önnur eru sveitarstjórnarmál o.s.frv.

Ég vildi einungis láta það koma fram, herra forseti, að ég er andvíg því að búið verði til sérstakt ráðuneyti í þessu skyni. Heldur þarf að efla skilning og auka aðgerðir.