09.12.1987
Efri deild: 18. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1661 í B-deild Alþingistíðinda. (1203)

54. mál, útflutningsleyfi

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það er í sjálfu sér rétt sem hæstv. sjútvrh. sagði hér áðan að þetta er ekki flókið mál og ekki mikið að vöxtum. Þetta er einfalt frv. sem hér liggur fyrir til umræðu en það snertir engu að síður ákaflega mikilvæga þætti í verkaskiptingu ráðherra og verkaskiptingu innan Stjórnarráðs Íslands og snertir vissulega ákveðin grundvallaratriði sem nauðsynlegt er að glöggva sig á. Ég held að það sé í sjálfu sér hægt að flytja viss rök með því að þessi flutningur eigi sér stað en þau þurfa að vera býsna gild til þess að það sé rétt og skynsamlegt að gera það einhliða eða taka þetta mál eitt út úr stjórnarráðslögunum eins og hér er verið að gera.

Þetta var ákvörðun sem var tekin eftir þrengingar stjórnarflokkanna þegar þeir voru að koma saman ríkisstjórninni í sumar. Það var erfitt fyrir Framsfl. að sleppa forsrn. af því að Steingrímur var svo vinsæll samkvæmt ítrekuðum skoðanakönnunum, vinsælasti stjórnmálamaður í heimi og sennilega þó að víðar væri leitað, hæstv. núv. utanrrh. Og til þess að hann fengist til að sleppa forsrn. þá þurfti auðvitað að smyrja eitthvað aðeins á utanrrn. Það var ekki nóg að láta hann hafa það eitt og bert. Það þurfti að setja á það smáviðbit og það urðu utanríkisviðskiptin sem voru tekin úr viðskrn. Það lá svo mikið á þessu að stjórnarráðsreglugerðinni var breytt með reglugerð strax 8. júlí. Í raun og veru með ákvörðun þáv. forsrh. Steingríms Hermannssonar, það er svo sérkennilegt að það er forsrh. sem breytir reglugerðinni 8. júlí, daginn sem stjórnin er mynduð eða þó öllu heldur nokkrum klukkutímum áður en stjórnin er mynduð. Vegna þess að hann treysti ekki eftirmanni sínum, Þorsteini Pálssyni, hæstv. forsrh., til þess að framkvæma þessa breytingu í tæka tíð, þá ákveður fráfarandi forsrh. að gefa út breytingu á reglugerð um Stjórnarráð Íslands nokkrum klukkustundum áður en hann gengur úr Hvíta húsinu við Lækjartorg, hinu gamla tugthúsi. Og þar er það því tilkynnt að utanrrh. fari með útflutningsverslun, undirbúning og framkvæmd viðskiptasamninga, skipti Íslands við alþjóðleg viðskiptasamtök, vörusýningar erlendis og þessir þættir eru teknir út úr verkefnum viðskrh. sem áður hafði haft þau samkvæmt reglugerð um Stjórnarráð Íslands, nr. 96 frá 31. des. 1969, en þá var sett sú grunnreglugerð sem Stjórnarráð Íslands hefur síðan starfað eftir. Jafnframt var gefin út reglugerð um að fækka verkefnum viðskrn. eins og við var að búast með breytingu á 14. gr. reglugerðar um Stjórnarráð Íslands. Það er sem sagt Steingrímur Hermannsson, fráfarandi hæstv. forsrh., sem til öryggis breytir eigin hendi reglugerðinni þannig að það sé engin hætta á því að það verði maðkur í mysunni eftir að hann yfirgefur forsrn. Hygg ég að það sé einsdæmi að fráfarandi forsrh. gefi út reglugerð um þau verk sem hann kemur til með að vinna í því ráðuneyti sem á að mynda aðeins nokkrum klukkutímum síðar. Það hefur vafalaust einhvern tímann verið sagt í lofgjörðarleiðurum Tímans um hæstv. utanrrh.. Steingrím Hermannsson, að hann væri forsjáll maður. Ég hygg að þetta sé tvímælalaust staðfesting þess þegar hann breytti reglugerðinni um sjálfan sig fáeinum klukkustundum áður en hann fór úr forsrn. sumardaginn sæla 8. júlí 1987.

Þessi breyting hefur reyndar verið rædd oft áður. Í skýrslu hæstv. fyrrv. utanrrh., Ólafs Jóhannessonar, til Alþingis árið 1983 eða 1984 var þessari hugmynd hreyft og þá kom fram talsverð andstaða við hana í þinginu, m.a. svo mikil að sá sem síðar gegndi starfi utanrrh., hæstv. núv. samgrh. Matthías Á. Mathiesen, felldi niður þessar hugmyndir um breytingar á starfsemi utanrrn., enda hafði hann kynnst viðskrn. og var þeirrar skoðunar að utanríkisviðskiptin ættu þar best heima.

Viðskrn. hefur núna starfað í rúmlega 45 ár. Það er eitt elsta ráðuneytið. Það var stofnað um leið og þjóðstjórnin var mynduð 17. apríl 1939 og bættist þá í hóp þriggja gömlu ráðuneytanna, dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, atvinnu- og samgöngumálaráðuneytisins og fjmrn. Starfssvið viðskrn. var þá ákveðið eins og verið hefur alla tíð síðan viðskiptamál og gjaldeyris- og bankamál. Það var talin sérstök ástæða til þess að stofna þetta ráðuneyti og efla starfsemi þess vegna yfirvofandi heimsstyrjaldar. Störf ráðuneytisins hafa verið verulegum breytingum háða þessum áratugum vegna breytilegs efnahagsástands og viðskiptastefnu og á stríðsárunum 1939–1945 snerist vinnan að mestu um innflutnings- og gjaldeyrismál, bæði útvegun nauðsynjavara og skömmtun á gjaldeyri og svo enn fremur verðlags- og skömmtunarmál.

Með ráðstöfunum svokallaðrar viðreisnarstjórnar 1960, þegar innflutningshöft voru að miklu,leyti afnumin, breyttist starfsemi viðskrn. verulega. Í stað þeirra verkefna sem ráðuneytið hafði sinnt áður kom eftirlit með erlendum lántökum. Um þetta leyti tók viðskrn. einnig að sér útgáfu útflutningsleyfa samkvæmt lögum um gjaldeyris- og viðskiptamál sem upphaflega voru sett á árinu 1961, ef ég man rétt. Jafnframt var ákveðið að ráðuneytið annaðist viðskipti við Austur-Evrópuríki og árið 1964 færði ráðuneytið enn út starfssvið sitt með því að taka að sér að sinna samskiptum Íslands við alþjóðasamtökin um tolla- og viðskiptamál, GATT, og gerðist Ísland eða viðskrn. fyrir Íslands hönd fullgildur aðili að þeim viðræðum og samningum um tollamál, Kennedy-viðræðunum, árið 1967. Viðskrn. fór síðan með undirbúning að aðild Íslands að EFTA, Fríverslunarbandalagi Evrópu, og annaðist og hefur annast síðan samskipti Íslands við Fríverslunarbandalagið. Sömuleiðis hafði viðskrn. með að gera, að vísu í umboði utanrrn., samningaviðræður um fríverslunarsamning við Efnahagsbandalagið sem lauk með undirskrift samnings 22. júlí 1972. Þátttaka Íslands í öllu þessu starfi hefur alfarið verið á vegum viðskrn. en í mjög góðu samstarfi, segi ég því að ég þekki þar dálítið til, við sendiráðin í Brussel, Genf og í París.

Spurningin er sú þegar menn nú standa frammi fyrir tillögu um að leggja viðskrn. að verulegu leyti niður vegna þess að það er mjög lítið eftir í viðskrn. þegar utanríkisviðskiptin eru farin þaðan, þegar GATT, EFTA, Efnahagsbandalagið og útflutningsleyfin og Útflutningsráð er farið úr viðskrn., þá er í raun og veru sáralítið eftir í því ráðuneyti. Ráðuneytið hefur að vísu, eins og menn vita, húsbóndavald yfir niðurgreiðslum á landbúnaðarafurðum, en það er auðvitað aðeins að nafninu til vegna þess að það eru fyrst og fremst pólitískar almennar ákvarðanir sem liggja á bak við niðurgreiðslur á landbúnaðarafurðum. Þá hefur ráðuneytið húsbóndavald yfir lögunum um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti og þar af leiðandi hefur ráðuneytið að gera með Verðlagsstofnun. Síðan hefur ráðuneytið allt frá 1969 þegar lögin um Stjórnarráð Íslands voru sett, og reyndar áður líka, haft með að gera bankamál. En það hefur því miður aðeins verið að nafninu til. Það var niðurstaða Gylfa Þ. Gíslasonar, hæstv. fyrrv. viðskrh., sem fór með þessi mál um langt skeið og beitti sér fyrir þeim breytingum sem urðu hér á efnahagsmálum í kringum 1960, að það væri eðlilegt að Seðlabankinn annaðist viðskiptamálin fyrir hönd ríkisstjórnarinnar að talsverðu leyti, þó auðvitað undir húsbóndavaldi viðskrh., en málin þróuðust þannig að í viðskrn. hefur aldrei nema mjög skamma stund í einu verið starfsmaður við að sinna bankamálum. Þegar upp er staðið er því ákaflega fátt eftir af þeim verkefnum sem viðskrn. hefur sinnt sem meginverkefni á undanförnum árum. Ég gleymi einum málaflokki sem er að vísu mjög lítill í viðskrn. en skiptir þó máli þar.

Það eru lögin um hlutafélög og samvinnufélög og önnur félög um verslun eða annan atvinnurekstur og svo lögin um verslunarskrár og firmu, en að öðru leyti hefur viðskrn. þróast þannig á undanförnum áratugum að það hefur fyrst og fremst verið utanríkisviðskiptaráðuneyti.

Áður en ákvörðun er tekin hér á hv. Alþingi um það hvort flytja eigi útflutningsleyfin til utanrrn., þá er nauðsynlegt að svör liggi fyrir við tilteknum grundvallarspurningum.

Fyrsta spurningin er þá þessi: Hefur viðskrn. sinnt störfum sínum illa? Er það skoðun þeirra hæstv. ráðherra sem með þessi mál hafa farið á undanförnum árum og þekkja til, eins og hæstv. sjútvrh. gerir auðvitað og hæstv. viðskrh. þekkir vafalaust líka, ekki sem ráðherra heldur kannski frekar sem embættismaður um langt skeið, er það skoðun þeirra að viðskrn. hafi sinnt störfum sínum illa? Er það skoðun þeirra að Íslendingar hefðu getað náð betri viðskiptasamningum við önnur ríki ef þessi mál hefðu verið annars staðar? Eða er það skoðun þeirra að utanríkisviðskiptum almennt hefði verið betur sinnt ef þessi mal hefðu verið annars staðar en í viðskrn.? Mælikvarðinn á það hlýtur að vera sá hvort Ísland standi verr að vígi í samkeppni á alþjóðamörkuðum við sölu á útflutningsafurðum heldur en keppinautar Íslendinga. Ég hygg að það geti enginn maður af sanngirni haldið því fram að Ísland standi verr að vígi í samkeppni á alþjóðamörkuðum við sölu á útflutningsafurðum heldur en keppinautar okkar. Ég held að það geti enginn með sanngirni haldið því fram. A.m.k. held ég að það sé útilokað fyrir nokkurn mann að festa hönd á röksemd sem segir: Það er viðskrn. sem um er að kenna hafi einhvers staðar hallað á Íslendinga.

Næsta spurning er þessi: Hvað segja þeir sem hafa haft með þessi mál að gera á undanförnum árum, þ.e. útflytjendur? Eru þeir þeirrar skoðunar að samskiptin við viðskrn. hafi verið slæm? Það sé slæm reynsla af samskiptunum við viðskrn.? Og er ekki nauðsynlegt að taka tillit til álits útflytjenda og samtaka þeirra á þessu máli? En fyrir þá skiptir það mestu máli hvernig unnið er að útflutningsmálum af hálfu hins opinbera og þeir eru einnig einna mest dómbærir á það hvernig staðið hefur verið að þeim málum hingað til. Staðreyndin er sú að útflytjendur — það er alveg sama hvort talað er við útflytjendur t.d. á vegum Sölumiðstöðvarinnar eða Sambands ísl. samvinnufélaga eða SÍF eða hvaða samtök sem við nefnum sem hafa staðið í útflutningi — hafa verið þeirrar skoðunar að viðskrn. hafi sinnt þessum málum mjög vel og hafa jafnframt verið þeirrar skoðunar að þeim yrði lakar sinnt í utanrrn. Að þessum útflutningsmálum yrði verr sinnt í utanrrn. vegna þess að viðskrn. hefur yfir að ráða starfsliði með þekkingu á utanríkisviðskiptamálum og viðskiptamálum almennt meðan að utanrrn. fæst við fjöldamörg önnur mál sem veruleg hætta er á að beri utanríkisviðskiptin, og þau sjónarmið sem þau eiga að byggja á, ofurliði á hverjum tíma.

Ég held þess vegna að ef menn eru á annað borð að velta þessu máli fyrir sér- og ég vona að hv. þm. geri það þó að þetta sé samningur stjórnarflokkanna frá í sumar, þetta er auðvitað fyrst og fremst pólitískur samningur sem er angi af stjórnarsáttmálanum sem verið er að bera hér inn — en ég held að menn hljóti opnum huga að skoða þetta mál og velta því fyrir sér hver sé skoðun útflytjenda. Hafa þeir slæma reynslu af viðskrn.? Hefur það staðið sig illa við að tryggja svo sem best má verða hagsmuni íslenskra útflytjenda og þar með Íslendinga á hverjum tíma?

Í þriðja lagi hljóta menn þá að spyrja næst, eins og algengt er þegar svona stjórnarráðstillögur eru til meðferðar, hvort sem það er á Alþingi eða bara í almennri umræðu úti í þjóðfélaginu, menn hljóta að spyrja: Hefur þessi ráðstöfun í för með sér sparnað fyrir ríkissjóð? Hefur viðskrn. bruðlað með almannafé? Hefur viðskrn. farið illa með sín verkefni á undanförnum árum og eytt og sólundað á undanförnum árum og áratugum og þess vegna sé ástæða til þess að taka málið undan viðskrn.?

Ég held að það væri kannski hollt að hafa það í huga að viðskrn. hefur haft þá sérstöðu meðal ráðuneyta Íslands að það hefur ekki fjölgað í starfsliði sínu trúi ég að neinu marki og sennilega ekki neitt né heldur aukið við sig húsnæði í 20 ár. Ég held satt að segja að þetta beri að vísu vitni um óþarflega mikla hógværð Þórhalls Ásgeirssonar ráðuneytisstjóra sem er alls góðs maklegur að öllu leyti fyrir hönd þessa ráðuneytis, en það er a.m.k. ekki hægt að segja að það sé verið að taka utanríkisviðskiptin út úr viðskrn. vegna þess að illa hafi verið farið með almannafé þar. Það væri afar ósanngjarn dómur yfir ráðuneytisstjóra viðskrn. og þeim ráðherrum sem þar hafa setið, sem mér hefur reyndar fundist að væru fullhógværir í þessu efni, einkum að því er varðar það að fylgjast með bankamálum.

Það eru þrjár grundvallarspurningar sem ég spurði, þ.e.:

1. Hefur viðskrn. ekki sinnt störfum sínum sem skyldi?

2. Ber ekki að taka tillit til sjónarmiða útflytjenda?

3. Er gert ráð fyrir að þessi ráðstöfun hafi í för með sér sparnað fyrir ríkissjóð?

Ég held að það sé grundvallaratriði áður en þessi umræða fer mikið lengra hér í þessari virðulegu deild, að þessum spurningum sé svarað.

Það hefur verið orðað sem skýring á þessu máli að starfsmenn utanrrn. óski eftir því að þeir fái utanríkisviðskiptin. Það séu rök í málinu vegna þess að þeir telji að þá geti þeir gegnt sínu starfi betur. Þetta er ekkert óeðlilegt sjónarmið frá þeirra sjónarhóli séð. Ég hygg þó að þessir starfsmenn hafi ekki haldið því fram af öðru tilefni að þeir hefðu of lítið að gera. Ég man t.d. ekki eftir því þau ár sem ég var ráðherra í ríkisstjórn að starfsmenn utanrrn. hafi kvartað yfir því að hafa of lítið að gera. Þvert á móti varð ég var við það á hverju ári að það voru uppi tillögur um það að auka við starfslið sendiráðanna, og má auðvitað færa fyrir því margvísleg rök, en ég hygg að það sé ekki hægt að benda á nein dæmi þess að starfsmenn sendiráðanna hafi talið að kraftar þeirra væru vannýttir á undanförnum árum og áratugum. Reyndar leyfi ég mér að draga það í efa í þessari ræðu að þeir kunni neitt sérstaklega til meðferðar utanríkisviðskipta. Ég hef ekki frétt af því að þeir hafi farið neitt sérstaklega yfir mál af því tagi né heldur að þeir hafi verið ráðnir inn í utanríkisráðuneytið með tilliti til þess að þeir kynnu sérstaklega að fara með utanríkisviðskipti. Hygg ég reyndar að mörgum þeirra sé ýmislegt betur gefið en það að selja vörur jafnvel fyrir hönd þjóðar sinnar.

Það er fært sem rök í þessu máli að í mörgum löndum séu utanríkisviðskiptin undir utanrrn. Þarna sé verið að samræma. Vissulega má benda á fordæmi fyrir slíku eins og t.d. í Danmörku þar sem utanrrn. hefur veigamiklu hlutverki að gegna að hafa yfirumsjón með aðild Danmerkur að Efnahagsbandalaginu, en hún var einmitt tilefni þess að lagt var niður utanríkisefnahagsráðuneytið í Danmörku sem áður hafði annast utanríkisviðskipti Danmerkur og efnahagssamstarf þess. Það liggur því miklu nær fyrir okkur að líta til samstarfslanda okkar í EFTA og síður í Efnahagsbandalaginu. Í EFTA eru sjö lönd og þar eru alls staðar viðskiptaráðherrar eða utanríkisviðskiptaráðherrar sem eru fulltrúar í EFTA-ráðinu. Í öllum tilvikum eru sérstakir utanríkisviðskiptaráðherrar í EFTA-löndunum. Með þessu værum við í raun og veru að taka okkur út úr hópi EFTA-ríkja að því er þetta mál varðar. Í ráðherranefnd EFTA, Fríverslunarbandalags Evrópu, situr enginn utanríkisráðherra. Að vísu er afgreiðslu þessara mála ekki komið eins fyrir í öllum löndunum. Í Noregi, Austurríki, Sviss, Portúgal og á Íslandi hefur afgreiðsla þessara mála verið í höndum viðskiptaráðuneytanna en í Svíþjóð og Finnlandi hafa málin verið afgreidd af sérstökum viðskiptadeildum í utanríkisráðuneytunum sem heyra hins vegar beint undir utanríkisviðskiptaráðherra. Þetta fyrirkomulag er talið sjálfsagt í þessum samstarfslöndum okkar í Fríverslunarbandalaginu. Byggist það líklega fyrst og fremst á þeim staðreyndum að það fari ekki vel saman að sá ráðherra sem fer með utanríkismál eigi einnig að sinna utanríkisviðskiptamálum, og svo hinu, að utanrrh. komast ekki yfir að annast það víðtæka alþjóðlega og bæði marghliða og tvíhliða samstarf sem á sér stað á sviði viðskipta- og efnahagsmála og sinna líka þeirri ferðaskyldu sem er því óhjákvæmilega samfara.

Önnur rök sem hafa svo heyrst í þessu máli eru þau að sendiráðin þurfi að nýta betur í þágu útflutningsmála. Þá halda menn að ekki sé hægt að hafa beint samband við sendiráðin nema í gegnum utanrrn. Þetta er algjör misskilningur. Enda hefur viðskrn. í áratugi haft beint samband við sendiráð Íslands erlendis. Í áratugi hefur viðskrn. unnið mjög náið með flestum sendiráðum. Þetta samstarf við sendiráðin hefur aðallega verið tvenns konar, annars vegar vegna þátttöku okkar í alþjóðasamtökum, svo sem OECD, EFTA, GATT og vegna fríverslunarsamningsins við EBE, en hins vegar vegna tvíhliða viðskipta við viðkomandi land, við framkvæmd samninga, þar sem leitað hefur verið fyrirgreiðslu stjórnvalda eða safnað upplýsingum um viðskiptamöguleika fyrir útflytjendur. Það er hins vegar ljóst að sendiráð Íslands erlendis hafa oft á tíðum, en ekki nærri alltaf, talið veruleg tormerki á því að sinna markaðsmálunum að neinu gagni vegna þess að þau hafa ekki talið sig hafa sérfræðiþekkingu eða reynsluþekkingu á sviði viðskiptamála og hafa almennt talið að sendiráðin væru of fáliðuð til að unnt væri að gegna þessum störfum sem skyldi. Á flestum stöðum í íslenskum sendiráðum erlendis eru mjög fáir starfsmenn sem að eigin sögn eru mjög önnum kafnir við venjuleg sendiráðsstörf. Og það ber að endurtaka og undirstrika það alveg sérstaklega að markaðsstarfsemin útheimtir sérþekkingu. Markaðirnir verða stöðugt flóknari, sérþekkingin þess vegna brýnni, og þeir eru mjög fáir að ekki sé meira sagt, starfsmenn utanríkisþjónustunnar, sem hafa þessa sérþekkingu.

Hins vegar er veigamesta ástæðan fyrir því að halda óbreyttu fyrirkomulagi í þessu efni að mínu mati sú að ég tel eðlilegt að öll viðskiptamál heyri undir sama ráðuneytið. Enda segir í athugasemdum um frv. til laga um Stjórnarráð Íslands frá 1969, með leyfi forseta, að skipan ráðuneytanna sé miðuð við að unnt sé í sem ríkustum mæli að skipa skyldum og samstæðum málum til eins og sama ráðuneytis. Utanríkisviðskiptin eru aðeins einn þáttur viðskiptamála. Innlendu viðskiptin, þar með talin málefni sem varða innflutning og yfirstjórn gjaldeyrismála, eru einnig mjög þýðingarmikill þáttur viðskiptamála. Þessi mál eru nátengd starfssviði Seðlabankans og viðskiptabankanna. Eftirlit með útflutningi er einnig þýðingarmikill liður í utanríkisviðskiptum. Þessir málaflokkar eru svo nátengdir og eiga þess vegna að mínu mati að vera undir sama ráðuneyti sem hefur yfirsýn til allra átta í viðskiptamálum, bæði að því er varðar útflutning og innflutning, bankaviðskipti, innlenda verslun og erlenda, gjaldeyrisnotkun og fleira, ráðuneyti sem hefur á að skipa sérfróðu liði til að gegna þessum störfum.

Í fyrrahaust starfaði sérstök nefnd að endurskoðun laganna um Stjórnarráð Íslands. Nefndin kallaði til sín fulltrúa helstu útflutningssamtaka og létu þeir allir, allir sem einn maður, í ljós þá skoðun að viðskrn. ætti að halda sjálfstæði sínu og vera óháð öðrum ráðuneytum í starfi sínu á sviði útflutningsmála. Yfirlýsing þessara fulltrúa hefur komið fram opinberlega, m.a. hygg ég að henni hafi verið dreift í þingskjali sem innihélt nál. hv. 1. þm. Vestf., ég man ekki betur, úr Nd., en þar er þessi skoðun þeirra samtaka, sem hafa unnið í útflutningsmálum, ítrekuð mjög ákveðið.

Við meðferð málsins í hv. neðri deild kom fram bréf um þetta mál frá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Herra Páll Pétursson, formaður fjh.- og viðskn. Nd. Alþingis.

Stjórn Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna hefur borist frv. til laga um útflutningsleyfi o.fl. til umsagnar. Frv. leggur til að veiting útflutningsleyfa flytjist úr viðskrn. í utanrrn. og byggir það á ákvæði þar um í málefnasamningi ríkisstjórnarinnar.

Á stjórnarfundi Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna í dag var fjallað um málið og eftirfarandi samþykkt gerð: Undanfarna áratugi hefur viðskrn. gegnt farsælu forustuhlutverki í ýmsum veigamiklum atriðum í útflutningi sjávarafurða. Vill stjórnin sérstaklega nefna samninga við Evrópubandalagið í bókun 6 og mikilvæga samninga við ríki Austur-Evrópu.“

Þetta er skoðun Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna á þessu máli sem að vísu bætir því við, þ.e. stjórn samtakanna, að auðvitað vonist þau til þess, ef þessi frv. verði að lögum, að þau muni hafa gott samband við þá embættismenn í utanrrn. sem með þessi mál kunna að fara.

Ég hygg að ég hafi, herra forseti, haldið til haga þeim meginrökum sem í þessu máli eru. Ég tel að það þurfi að stokka upp Stjórnarráð Íslands. Ég tel að verkaskipting á milli ráðuneyta sé úrelt orðin, sums staðar er hún beinlínis óskýr. Ég er þar að tala um t.d. ráðuneyti eins og félmrn., heilbrrn., dómsmrn., svo að ég nefni dæmi. Uppstokkun á milli þessara ráðuneyta þyrfti að eiga sér stað. Sömuleiðis er það mín skoðun að það kæmi til greina að hér yrði til eitt atvinnuvegaráðuneyti. Og það er mín skoðun að það kæmi til greina og gæti verið skynsamlegt að hér yrði til eitt efnahagsráðuneyti sem hefði viðskiptamálin á sinni könnu í heild, svo og almenna efnahagsþróun sem er núna mest undir forsrn. og ræðst af mönnum sem þar sitja á hverjum tíma, eins og gengur, hvernig því verkefni er sinnt.

Ég er þess vegna ekki að gagnrýna þetta vegna þess að ég telji ekki að það komi til greina að breyta Stjórnarráðinu og breyta verkaskiptingu á milli ráðherra. Ég sé hins vegar ekki þau knýjandi rök sem eru fyrir því að útflutningsleyfin verði flutt yfir til utanrrn. Ég hef engin slík rök heyrt sem eru sannfærandi. Gagnrökin eru hins vegar ærin og tæknileg rök, númer eitt, eru þau að það eigi ekki að taka þetta mál út úr heildarendurskoðun stjórnarráðslaganna. Um það má svo hins vegar segja að lokum að það er sennilega útilokað að ná nokkurn tímann nokkru vitlegu samkomulagi um heildarendurskoðun stjórnarráðslaga, nema það gerist í stjórnarmyndunarviðræðum. Eftir að búið er að setja menn í stóla og ákveða þeim verkefni með reglugerð og þeir farnir að gegna hver á sínum pósti er vafalaust mjög erfitt að breyta lögunum um Stjórnarráð Íslands. Þess vegna er eðlilegt að hlutir eins og þessir séu ákveðnir í tengslum við stjórnarmyndunarviðræður og það e,r sennilega eina leiðin. Ég tel að það sé hins vegar rangt að taka þetta mál út úr. Ég tel að í þessu frv. felist mjög harður dómur yfir viðskrn., dómur sem það á örugglega ekki skilið að fá umfram önnur ráðuneyti í Stjórnarráði Íslands.