10.12.1987
Sameinað þing: 30. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1732 í B-deild Alþingistíðinda. (1260)

105. mál, snjómokstur á fjallvegum á Austurlandi

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Á þskj. 109 flytja Jónas Hallgrímsson, sem sat á þingi sem varamaður þegar fsp. var borin fram, og Jón Kristjánsson eftirfarandi fsp. um kostnað við snjómokstur á fjallvegum á Austurlandi og reglur um opnunardaga. Fsp. er til samgrh. Hún hljóðar svo:

„1. Hver var kostnaður við snjómokstur eftirtalinna fjallvega á Austurlandi sl. þrjá vetur: a) Oddsskarðs? b) Fjarðarheiðar? c) Breiðdalsheiðar? d) Vatnsskarðs?

2. Hve marga daga máttu íbúar Borgarfjarðar eystri, Seyðisfjarðar og Norðfjarðar sæta innilokun vegna snjóa á þessu tímabili?

3. Eru uppi áform um að fjölga snjómokstursdögum á fjölförnustu fjallvegum á Austurlandi á þessu hausti?"

Núverandi reglur um snjómokstur voru samþykktar af samgrh. í desember 1985. Þær reglur kveða á um að það skuli mokað að jafnaði einu sinni í viku til Borgarfjarðar eystri, Norðfjarðar og Seyðisfjarðar á ríkisins kostnað. Þó er heimilt að moka tvisvar í viku til Norðfjarðar og Seyðisfjarðar ef snjólétt er. — Reglan um þessa staði hljóðar þannig, með leyfi forseta, um opnun: „Einu sinni í viku meðan fært þykir vegna veðráttu og snjóþyngsla. Opna skal tvisvar sinnum í viku meðan snjólétt er.“

Það ætti ekki að þurfa að lýsa því hve hér er um mikilvægt mál að ræða fyrir íbúa þeirra byggðarlaga sem búa við meiri og minni innilokun á vetrum vegna snjóa. Svo er um þau byggðarlög sem hér um ræðir. Þar við bætist að aðrir samgönguþættir eru mjög annmörkum háðir á þessum stöðum. Á Borgarfirði eystra er hafnleysa í vetrarveðrum, Seyðisfjörður nýtur engra flugsamgangna og flugsamgöngur á Neskaupstað eru annmörkum háðar vegna veðurskilyrða, einkum þegar verst lætur í vetrarveðrum. Landsamgöngurnar eru því lífæð þessara staða og forsenda fyrir því að öflugt atvinnulíf fái að þrífast þar. Hér er um mikla útgerðarstaði að ræða og öfluga atvinnustarfsemi sem rekin er í tengslum við útgerðina auk venjulegra samgangna sem eðlilegt mannlíf þarfnast.

Það eru ómældar truflanir sem samgönguörðugleikar hafa á atvinnulíf þeirra staða sem hér um ræðir og félagsleg áhrif eru eigi síður áhyggjuefni. Satt að segja geta samgöngumálin og beinlínis þessi þáttur þeirra haft áhrif á búsetu þessara staða.

Það er af þessum ástæðum sem við fyrirspyrjendur færum þetta mál hér inn í þingsali í fyrirspurnarformi til þess að um það fáist upplýsingar hver sé staða þessara mála.