10.12.1987
Sameinað þing: 30. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1733 í B-deild Alþingistíðinda. (1261)

105. mál, snjómokstur á fjallvegum á Austurlandi

Forsætisráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Í fjarveru samgrh. vil ég leitast við að svara þeim fsp. sem hér eru bornar fram.

Í fyrsta lagi er spurt um kostnað við snjómokstur fjögurra fjallvega sl. þrjá vetur. Sundurliðun kostnaðar hjá Vegagerð ríkisins miðast við almanaksár, einnig í snjómokstri. Sýna tölur sem hér verða nefndar snjómoksturskostnað hvers árs á tilgreindum fjallvegum á verðlagi í október 1987.

Oddsskarð: 1984 4,8 millj. kr., 1985 3,4 millj. kr., 1986 5,4 millj. kr., 1987 til októberloka 2,5 millj. kr.

Fjarðarheiði: 1984 4,9 millj. kr., 1985 3,6 millj. kr., 1986 5 millj. kr., 1987 til októberloka 1,8 millj. kr.

Breiðdalsheiði: 1984 500 þús. kr., 1985 400 þús. kr., 1986 900 þús. kr., 1987 til októberloka 300 þús. kr.

Vatnsskarð: 1984 1 millj. kr., 1985 1 millj. kr., 1986 1,8 millj. kr., 1987 til októberloka 1,2 millj. kr.

Þess ber að geta að Breiðdalsheiði er ekki inni í snjómokstursreglum Vegagerðarinnar og þar fer því ekki fram reglubundinn snjómokstur.

Í öðru lagi er spurt um hve marga daga íbúar Borgarfjarðar eystri, Seyðisfjarðar og Norðfjarðar máttu sæta innilokun vegna snjóa á þessu tímabili. Tölur um það efni fylgja einnig almanaksári eins og kostnaðurinn í fyrra svari. Þar sem spurt er um innilokun verða hér nefndar tvær tölur fyrir hvert ár, þ.e. heildartala fyrir þá daga þegar vegur er lokaður samkvæmt skráningu Vegagerðarinnar og önnur tala sem sýnir hve marga daga af heildartölunni telst opið fyrir jeppa og stærri bíla.

Oddsskarð:

1984: Lokaður vegur í 18 daga, þar af jeppafær í 1 dag.

1985: Lokaður vegur í 19 daga, þar af jeppafært í 4 daga.

1986: Lokaður vegur í 31 dag, þar af jeppafært í 5 daga.

1987 til októberloka: Lokaður vegur í 10 daga. Fjarðarheiði:

1984: Lokaður vegur í 38 daga, þar af jeppafært í 3 daga.

1985: Lokaður vegur í 25 daga, þar af jeppafært í 17 daga.

1986: Lokaður vegur í 42 daga, þar af jeppafært í 18 daga.

1987 til októberloka: Lokaður vegur í 20 daga, þar af jeppafært í 5 daga.

Vatnsskarð:

1984: Lokaður vegur í 54 daga, þar af jeppafært í 10 daga.

1985: Lokaður vegur í 36 daga, þar af jeppafært í 13 daga.

1986: Lokaður vegur í 64 daga, þar af jeppafært í 22 daga.

1987 til októberloka: Lokaður-vegur í 29 daga, þar af jeppafært í 6 daga.

Í þriðja lagi er spurt hvort áform séu uppi um fjölgun snjómokstursdaga á fjölförnustu fjallvegum á Austurlandi á þessu hausti. Samkvæmt gildandi snjómokstursreglum, sem gefnar voru út í desember 1985, skal moka fjölförnustu fjallvegi á Austurlandi, þ.e. Oddsskarð og Fjarðarheiði, einu sinni í viku meðan fært þykir vegna veðráttu og snjóþyngsla. Opna skal tvisvar í viku meðan snjólétt er. Þessi ákvæði hafa í aðalatriðum verið óbreytt um nokkurra ára skeið. Í þeim eru hins vegar matsatriði um veðráttu og snjóþyngsli.

Með batnandi vegum og hagstæðu árferði eins og verið hefur undanfarið hefur í raun snjómokstursdögum fjölgað og lokuðum dögum fækkað. Ekki eru uppi áform um að breyta snjómokstursreglum í haust. Undanfarið hafa reglurnar verið endurskoðaðar á þriggja til fimm ára fresti. Margar óskir hafa þegar borist um aukna þjónustu í þessum efnum. Verða þær og reglurnar í heild teknar til skoðunar áður en langt um líður.