10.12.1987
Sameinað þing: 30. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1753 í B-deild Alþingistíðinda. (1284)

164. mál, Löggildingarstofa ríkisins

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Ég hef ekki miklu við það að bæta sem ég sagði áðan. Ég vildi ítreka að vegna fsp. hv. 3. þm. Austurl. mun ég kanna betur hvernig ferðakostnaði og öðrum kostnaði en löggildingarkostnaðinum sjálfum er jafnað niður á verkin og mun senda honum greinargerð um það og öðrum sem áhuga kynnu að hafa.

Út af orðum hv. 4. þm. Vesturl. um að á næsta ári verði löggildingarstofan að fullu rekin fyrir þær tekjur sem hún aflar sér sjálf með eftirlits- og löggildingargjöldum, auk þess sem hún endurheimtir útlagðan kostnað, vildi ég benda á það ósköp einfaldlega að það eitt að breyta formi á rekstri í þetta lag hækkar ekki þennan kostnað í heild, eins og hv. 4. þm. Vesturl. hélt fram. Kostnaðurinn verður hinn sami, eða líklega minni, vegna þess að það verður þá frekar að þessu haldið því að þá þarf löggildingarstofan sjálf að standa undir þessu að fullu. Það sem breytist er hver borgar kostnaðinn. Þetta er venjulegur kostnaður við atvinnurekstur sem eðlilegt er að menn borgi hver um sig nákvæmlega eins og fyrir bílaviðgerðir.