10.12.1987
Efri deild: 19. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1775 í B-deild Alþingistíðinda. (1325)

196. mál, söluskattur

Júlíus Sólnes:

Herra forseti. Við þm. stjórnarandstöðunnar höfum komið saman til að ræða þá málsmeðferð sem blasir nú við, þ.e. að taka til umræðu þrjú mjög viðamikil og stór stjfrv. sem við höfum nánast engan tíma haft til að kynna okkur, en þau voru lögð fram hér á fundi síðdegis í gær. Það hafa engir formlegir þingflokksfundir verið haldnir síðan þessi frumvörp voru lögð fram.

Við fyrir okkar leyti erum reiðubúin að ræða þessi stjfrv., taka þátt í umræðum á malefnalegan hátt, en til þess verðum við að fá tækifæri til að kynna okkur þetta rækilega og haga umræðum þannig að þær séu skipulegar. Við getum því ekki fallist á að hæstv. fjmrh. tali fyrir öllum þessum málum í belg og biðu og síðan eigi umræðurnar að fara fram á sama hátt, í belg og biðu, þar sem þetta verði einn hrærigrautur, þessi þrjú stóru og viðamiklu frumvörp. Við munum því óska eftir því að það verði fylgt þeirri dagskrá sem hér liggur fyrir og talað fyrir hverju þingmáli fyrir sig og umræður um þau fari fram með sama hætti.