10.12.1987
Efri deild: 19. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1838 í B-deild Alþingistíðinda. (1345)

196. mál, söluskattur

Guðmundur Ágústsson:

Hæstv. forseti. Hér hafa farið fram mjög fjörugar og skemmtilegar umræður. Satt best að segja átti ég ekki von á því að þessi næturfundur yrði svona skemmtilegur. En það er um alvarlegt mál að ræða, miklar skattaálögur sem hæstv. ríkisstjórn er að boða og sem til framkvæmda eiga að koma á næsta ári.

Það sem er mergur þessa máls er þetta: Hvað felst í þessari einföldun sem um er að ræða? Ég er að sjálfsögðu hlynntur því að einfalda flest kerfi þannig að undanskot geti ekki átt sér stað. En það er ekki það sem felst í þessu öllu saman, heldur sá mismunur sem í einfölduninni felst. Mismunur upp á tæpa 7 milljarða sem þetta einfalda kerfi skilar ríkissjóði.

Hér áður fyrr taldi ég að Jón Baldvin Hannibalsson, hæstv. núv. fjmrh., væri sá Hrói höttur sem hann talaði um, að hann ætlaði að taka frá þeim ríku og gefa þeim fátæku. En því miður boða þessi þrjú frv. sem hér hafa verið lögð fram annað. Nú á að ráðast á láglaunafólkið og skilja hina, fyrirtækin og stórefnamennina, eftir. Ég harma það mjög. Og ég sem hafði bundið mjög miklar vonir við þennan fjmrh.

Annars er annað atriði sem kemur upp í huga manns þegar þessar tölur eru athugaðar og þær fullyrðingar hæstv. fjmrh. að nú skuli setja söluskatt á nuddstofur og aðra þjónustu. Þetta eru auðvitað tekjur sem skila ríkissjóði umtalsverðum fjárhæðum. En það verður að athugast að þetta eru tekjur sem hvergi koma fram í vísitölugrunni. Og fleira sem söluskattur er lagður á nú kemur hvergi fram í þeim grunni sem lagður er til grundvallar. Ég held að það verði að athuga það að einhvers staðar frá koma peningarnir. Þó þetta komi ekki bara á matvöru og annað, þá er þarna um neysluskatt að ræða sem beinist augljóslega að almenningi.

Ég vil ekki að svo komnu tefja þessar umræður um þetta fyrsta frv., um söluskattinn. Ég vildi koma þessum athugasemdum að. Ég vonast eftir því að þessi fundur verði ekki mjög langur því mikið og erfitt starf bíður okkar þm. hér á morgun eða á eftir og ég vonast svo sannarlega eftir því að við getum tekið virkan þátt í þeim störfum.