10.12.1987
Neðri deild: 21. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1880 í B-deild Alþingistíðinda. (1378)

168. mál, réttur til fiskveiða í landhelgi Íslands

Flm. (Ólafur Þ. Þórðarson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt Kjartani Jóhannssyni að flytja frv. til l. um breytingu á lögum nr. 33 frá 1922, um rétt til fiskveiða í landhelgi Íslands.

1. gr. orðast svo:

„Við 3. gr. laganna bætist ný mgr. er orðist svo: Fiskiskip frá Færeyjum og Grænlandi eru undanþegin ákvæðum síðari mgr. málsl. 1. mgr. og ákvæðum 2. mgr. þessarar greinar.

2. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Eins og fram kemur í nafni laganna frá 1922 fjalla þau um fiskveiðar í landhelgi Íslands. Landhelgi Íslands var þá lítil og veiðar á Íslandsmiðum voru bein samkeppni við íslensk veiðiskip. Það var verið að veiða á sömu fiskislóð og við gjarnan með lítil skip og léleg í þeim veiðum við hliðina á fiskveiðiskipum erlendra þjóða sem beittu annarri og meiri tækni. Þessi lög voru því á sínum tíma sjálfsögð vörn okkar til að draga úr möguleikum þeirra til fiskveiði hér við land.

Nú hefur margt breyst á þessum tíma. Í dag erum við með 200 mílna landhelgi og einnig höfum við samið um veiðirétt þar fyrir utan á vissum svæðum.

Í baráttu okkar fyrir því að fá þessa landhelgi hygg ég að óhætt sé að fullyrða að engin þjóð hafi reynst okkur betur en Færeyingar. Á örlagatímum í þeim átökum veittu þeir okkur þann stuðning að loka sínum höfnum og fyrir þjónustu við skip þeirra þjóða sem reyndu þá að halda uppi fiskveiðum við landið í trássi við vilja Íslendinga. Það vinarbragð er eitt af því sem þessi þjóð má aldrei gleyma, að Færeyingar sýndu þá svo afdráttarlausan stuðning að slíkt hlýtur að lifa. Þeir spurðu þá ekki um hvort það kæmi illa við þá sjálfa gagnvart mörkuðum annarra ríkja.

Ég undirstrika að mér finnst í sjálfu sér að hér sé verið að gera svo sjálfsagða hluti að ekki þurfi að rökstyðja þá þó ég vilji reyna að gera það enn frekar en ég hef nú gert og vík þá að Grænlandi.

Við austurströnd Grænlands er innan þeirrar landhelgi verulega stórt hafsvæði sem þeim er ekki fært að nýta nema eiga aðgang að íslenskum höfnum. Ef þeir ættu sjálfir að nýta þetta hafsvæði þyrftu þeir að eiga móðurskip fyrir sinn flota, þá þyrftu þeir að hafa þar nokkurs konar úthafsflota, og sér hver maður að miðað við þann stutta tíma sem þeir gætu athafnað sig þar á veiðum væri það mjög óhagstætt þeim. Þeir hafa því gripið til þess ráðs að leigja veiðirétt á þessu hafsvæði. Ef þeir aftur á móti eiga það víst að hafa löndunarrétt í íslenskum höfnum gætu þeir byggt upp eigin flota til að stunda veiðar á þessu svæði án þess að þurfa að notast við móðurskip. Þá gætu þeir landað í íslenskum höfnum og það yrði tvímælalaust til að efla atvinnustarfsemi hér á landi.

Ég tel að þessi granni okkar eigi það miklu meira en skilið að við Íslendingar veitum honum stuðning í þeirri baráttu sem hann á í fyrir efnahagslegu sjálfstæði.

Það er þó rétt að undirstrika alveg sérstaklega að ég er sannfærður um það einnig að þessi breyting yrði til að auka svo viðskipti þessara þriggja þjóða að það yrði þeim öllum til ávinnings.

E.t.v. mun einhver segja að vegna þess að við höfum ekki að fullu náð samkomulagi við Grænlendinga varðandi loðnuveiðar sé sjálfsagt að hafa lögin óbreytt og hafa það vopn til að veifa að við getum lokað íslenskum höfnum fyrir grænlenskum skipum. Ég tel að þessi þjóð verði minni, smækki mjög ef hún telur að slíkur vopnaburður sé réttur.

Ég er þeirrar skoðunar að á Íslendingum hvíli mikil skylda í samskiptum við þessa þjóð. Óneitanlega erum við næsti granni hennar og hljótum af þeirri ástæðu einni að hafa við hana miklar skyldur. Einnig verður því ekki á móti mælt að lega Íslands gerir að verkum að við erum eina þjóðin sem raunverulega getur veitt þeim verulegt lið í efnahagslegri sjálfstæðisbaráttu þeirra á þann hátt að þeir geti nýtt sína landhelgi, landhelgi sem þeir eiga og engin deila er um, geti nýtt hana með sínum eigin veiðiskipum. Hitt geta menn svo hugleitt líka hvort sá kostur er góður fyrir Íslendinga í framtíðinni ef Grænlendingar bjóða þessar veiðar að staðaldri út til erlendra stórþjóða sem munu þá koma þar með úthafsflota og stunda þar veiðar. Ætli það verði auðvelt að átta sig á því hve mikinn afla slíkur floti veiðir á hverjum tíma?

Ég vænti þess, herra forseti, að þetta mál fái góða meðferð á Alþingi Íslendinga og tel mig ekki þurfa að hafa hér um fleiri orð, en legg til að frv. verði vísað til sjútvn.