10.12.1987
Neðri deild: 21. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1887 í B-deild Alþingistíðinda. (1383)

168. mál, réttur til fiskveiða í landhelgi Íslands

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Aðeins örstutt til þess að afstaða mín fari ekki á milli mála og vegna orða hv. 1. þm. Vestf. Ég var að sjálfsögðu ekki að mótmæla því að Grænlendingar og Færeyingar fengju undanþágur, heldur finnst mér ástæðulaust að þær komi til og verði til alveg sjálfkrafa. Ég sé ekkert á móti því að það sé samningsatriði eins og það hefur verið og ákvörðunaratriði hverju sinni. Ég vil að þetta komi alveg skýrt fram. Það kann að vera að ég hafi í ræðu minni verið neikvæðari en ætlunin var, en ég held að það sé fengur að frv., þó ekki væri til annars en að fá nokkrar umræður um samskipti þessara þjóða eins og hér hefur komið fram. Ég er í raun og veru sammála öllum þeim sem hafa tekið til máls um það að frv. þarfnist breytinga og þetta vildi ég bara að kæmi skýrt fram svo að enginn misskildi mig í þá veru að ég væri alfarið á móti öllum undanþágum Grænlendingum og Færeyingum til handa.