10.12.1987
Neðri deild: 22. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1891 í B-deild Alþingistíðinda. (1393)

203. mál, heilbrigðisþjónusta

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Ég get nú ekki orða bundist. Hér tala hv. þm. eins og þeir sjái ekki lengur neinn mun á mesta þéttbýli landsins og mesta strjálbýli landsins. Annað heyrist mér stundum í umfjöllun um mál hér á hv. Alþingi.

Og hví skyldu menn vera svo sannfærðir um að það sé sáluhjálparatriði að fyrirkomulagið sé nákvæmlega sams konar og henti jafnvel í jafnmiklu þéttbýli og hér er í Reykjavík eins og t.d. víða í kjördæmi hv. síðasta ræðumanns? Auðvitað gegnir allt öðru máli í héruðum þar sem áður á tíð var mjög erfitt að fá lækna til starfa og þeir voru mjög tregir til þess að starfa þar sem þeir voru einir á báti. Þetta gjörbreyttist eftir að heilsugæslustöðvafyrirkomulagið var tekið upp þannig að menn gátu leyst hver annan af hólmi og haft ýmiss konar aðstoðarfólk úr heilbrigðisþjónustunni.

Það vill svo til að hér í Reykjavík er fjöldi manna sem telur henta að reka gamla heimilislæknakerfið við hlið heilsugæslustöðvanna og það vill svo til að þetta getur ágætlega farið saman þegar svo háttar um byggðina eins og gerir í borginni. Það þarf auðvitað ekki að fara um þetta mörgum orðum, en ég tel að það sé ómögulegt að láta jafnaugljósan hlut ósagðan þegar menn láta eins og þeir sjái hann ekki. Og vitanlega á mismunandi kerfi að geta starfað hlið við hlið eftir því sem fólkið í borginni óskar eftir því. Heimilislæknakerfið er ekki dýrara en heilsugæslustöðvakerfið nema síður sé, að sjálfsögðu ekki. Og hvernig má það vera ef menn líta svo á að það eigi að skipta borginni upp í algjörlega afmarkaða kjarna þar sem heilsugæslan er rekin eins og í strjálbýlli byggð? Það eru engin rök sem mæla fyrir því nema ofskipulagning.

Nú er vel hægt að hugsa sér það ef menn eru sannfærðir um að þetta þjóni fólkinu betur. En við erum bara afskaplega mörg þeirrar skoðunar að það þjóni fólkinu betur að geta valið sér fyrirkomulag þjónustunnar og það er viss kostur sem þéttbýlið býr yfir að þessu leyti til að það er auðveldara að koma því við. Og það er rétt. Þéttbýlið hefur vissa kosti. Það hefur marga ókosti, en þar sem það hefur kosti, hví skyldum við þá endilega reyna að koma í veg fyrir þá?

Það hefur ekkert gerst sem hefur sannfært nægilega marga um það að það sé nauðsynlegt eða skynsamlegt að taka upp nákvæmlega skipulagt opinbert heilsugæslustöðvakerfi hér í Reykjavík eins og víða er heppilegt út um landið. Þetta vildi ég láfa koma fram til þess að það væri ljóst að hér er ekki um það að ræða að menn þverskallist við að fara að lögum. Það er einmitt farið að lögum. Þetta frv. er hér borið fram til þess að farið sé að lögum. Ef lögin eru allt öðruvísi en Alþingi telur að henti á viðkomandi stað breytir Alþingi þessum lögum og það er það sem stendur fyrir dyrum núna.