20.10.1987
Sameinað þing: 6. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 200 í B-deild Alþingistíðinda. (150)

Sláturleyfi sláturhússins á Bíldudal

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég held að öllum sé ljóst að hér hafa einkennilegir hlutir gerst. Ég held að enn einu sinni standi menn frammi fyrir því að einn einstaklingur úr kerfinu setur stólinn fyrir dyrnar. Það er ekki landbrh. sem þarna er um að ræða. Það er yfirdýralæknirinn, settur. Og það er ástæða til að spyrja hæstv. ráðherra hvort honum finnist það eðlilegt að enginn dýralæknir fæst til að fara vestur. Þeir hafa játað að þeir skyldu gera það, en svo snúist hugur á einum degi. Er ekki eitthvað að að því að þetta varðar? Getur einn embættismaður hagað sér með þeim hætti að setja í hættu atvinnugrein fleiri hundruð manns í þessu tilfelli, kannski miklu fleiri einhvers staðar annars staðar? Ég held að við hljótum að krefjast þess að tekið sé á slíkum málum og ég trúi því ekki að landbrn. geti ekki fengið dýralækni og sent hann vestur til að láta taka húsið út eða fylgjast með heilbrigðisþættinum í því. Hér eru menn vísvitandi, að ég tel, að koma í veg fyrir að þessi atvinnugrein geti haldið þarna áfram. Til þessa eru orsakir áður kunnar sem yfirdýralæknir þá vildi að yrðu teknar með í reikninginn. Það var þegar talið var að riðuveiki hefði komið upp í Arnarfirði. Þá vildu menn farga öllu fé. Eftir því var ekki farið og menn muna kannski það sem þá gekk á. Hér er að mínu viti nánast um hefndarráðstöfun að ræða gagnvart fólki á þessu svæði. Slíka ráðstöfun á landbrh. að stöðva. Það á ekki að líða einum eða neinum embættismanni að haga sér með þeim hætti, eins og hér er verið að gera, að koma í veg fyrir að fólk geti bjargað sér á skynsaman og eðlilegan hátt. Þetta byggðasvæði er í nauðvörn. Það hefur sótt á brattann. Það á ekki að líða einum eða neinum embættismanni að gera því erfiðara fyrir en þörf er á.