15.12.1987
Efri deild: 23. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2224 í B-deild Alþingistíðinda. (1602)

47. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Ég held að við séum flest sammála um að frv. sem hér er til umræðu beri að hraða í gegnum þingið þannig að það geti orðið að lögum fyrir jól því að í því eru a.m.k. skref í réttlætisátt þó að margt mætti betur gera í húsnæðismálakerfinu. Ég held að það sem hér hefur orðið á fundi hafi ekki fyrst og fremst verið brot á neinum gerðum samningum í sjálfu sér heldur sé þetta afleiðing af þeim vinnubrögðum sem höfð hafa verið í þinginu á undanförnum dögum og vikum og hefðu mátt vera miklu betri. Ég held að þetta ætti að verða til að hvetja okkur til þess að setjast nú niður og skipuleggja þann tíma sem eftir er af þingi fyrir jólaleyfi og ekki þá bara að ákveða þau mál sem þurfa að fara í gegn heldur nákvæmlega frá morgni til kvölds því að okkur veitir ekki af að halda á spöðunum. Það er heldur ekki hægt að ætlast til þess að þm. séu hér hálfruglaðir og langþreyttir eftir miklar vökur að fjalla um mikilsverð mál. Þess vegna held ég að við verðum að setjast niður og skipuleggja hvern einasta dag frá morgni til kvölds það sem eftir er af þessu þingi fram að jólaleyfi. En ég ítreka að ég held að enginn hafi neinn hug á að tefja þetta mál. Það þarf að komast sem fyrst í gegnum þessa deild. Sjálf mun ég einungis tala stuttlega í málinu. En ég tel mikilsvert þó að tala í málinu vegna þess að það varðar afskaplega veigamikinn málaflokk. En ég mun alls ekki verða langorð þegar að mér kemur á mælendaskránni.