16.12.1987
Efri deild: 25. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2253 í B-deild Alþingistíðinda. (1652)

47. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Guðmundur H. Garðarsson:

Herra forseti. Í sambandi við afgreiðslu þessa frv. vil ég segja eftirfarandi:

Í fyrsta lagi vil ég leggja áherslu á að Sjálfstfl. mun vinna að jákvæðri lausn húsnæðismála í framtíðinni sem hingað til, en fyrst og fremst á grundvelli sjálfseignarstefnu jafnframt því sem við munum stuðla að því að byggðar verði íbúðir á félagslegum grundvelli þar sem það er nauðsynlegt.

Ég vil jafnframt undirstrika að Sjálfstfl. hefur m.a. í gegnum sveitarstjórnir, þar á meðal í Reykjavík, haft mikil áhrif á þróun íbúðamála á Íslandi með þeim hætti að til fyrirmyndar er hvert sem litið er í þeim efnum. Í íbúðabyggingum og íbúðamálum hafa orðið gífurlegar framfarir á Íslandi á liðnum áratugum og má segja að það sé til fyrirmyndar ef maður ber það saman við það sem tíðkast í öðrum löndum. Ég held að enginn andmæli því ef menn hafa í huga að við erum þjóðfélag aðeins 240 þús. manna og íbúðaeign landsmanna er þannig að þótt víða væri leitað. Ég held að jöfnuður í þeim efnum sé hvergi sambærilegur við það sem tíðkast á Íslandi. Að fullyrða annað er rangt og alls ekki við hæfi.

Hins vegar þýðir það ekki að það þurfi ekki og eigi ekki að gera betur. Nýir árgangar, ungt fólk kemur til skjalanna. Það gerir sínar kröfur, það er rétt. En þrátt fyrir það, ef skoðað er hvernig byggt er á Íslandi, held ég að fáar þjóðir hafi varið meira af sínum þjóðartekjum til þessara mála en Íslendingar.

Vegna þess frv. sem hér er á ferðinni viljum við undirstrika að í frv. felst engin grundvallarbreyting frá þeim lögum sem nú eru í gildi, en í þessu frv. eru samt ákveðnar breytingar sem æskilegt er að fái að koma til framkvæmda hið fyrsta. En um grundvallarbreytingu er því miður ekki að ræða frá þeirri löggjöf sem nú gildir. Þegar þessi lög voru sett á sínum tíma, lög um Húsnæðisstofnun ríkisins nr. 54 1986 og nr. 27/1987, gerðu ýmsir mjög alvarlegar athugasemdir við frv. eins og það var lagt fram, þar á meðal núv. hæstv. félmrh. Af þessu leiðir að þar sem frv. sem hér liggur fyrir felur ekki í sér neinar meginbreytingar frá gildandi lögum liggur ljóst fyrir að þróa verður þessi mál áfram með þeim hætti að viðunandi löggjöf fáist í þessum efnum.

Við erum þeirrar skoðunar, sjálfstæðismenn, að þær breytingar sem þetta frv. felur í sér séu ekki fullnægjandi. Við lítum samt þannig á að miðað við aðstæður sé stigið ákveðið spor í rétta átt og munum þess vegna styðja að framgangi frv. með sérstakri vísan til þess að hæstv. félmrh. hefur lofað að taka húsnæðismálin til gagngerðrar athugunar á næsta ári, m.a. með eftirfarandi meginatriði í huga:

1. Það ber og verður að tryggja fjárhagsstöðu húsnæðislánakerfisins til frambúðar þar sem nú er sýnt að vaxtamunur er orðinn meiri en talið hefur verið að kerfið þyldi. Er þar átt við þann vaxtamun sem felst annars vegar í því að húsnæðismálakerfið selur skuldabréf á mun hærri vöxtum en lán fara síðan út á frá húsnæðismálastjórn. Það liggur í augum uppi að það verður að lækka þennan mismun og húsnæðislánakerfið getur ekki staðið undir þeim mismun í greiðslum sem þarna er um að ræða til frambúðar í þeim mæli sem þessi framkvæmd krefst.

2. Þá þarf að kanna hvort grundvöllur geti verið fyrir því að flytja hluta af verkefnum Húsnæðisstofnunar yfir í bankakerfið með samningum við lífeyrissjóði og aðrar stofnanir sem fjármuni vilja leggja til þessara þarfa. Í því sambandi kemur til athugunar með hvaða hætti húsnæðisbætur í skattakerfi geti komið í stað niðurgreiðslu vaxta. Þá leggjum við sérstaka áherslu á að það verði athugað.

Þá finnst okkur einnig rétt að það séu kannaðar nýjar hugmyndir um að binda lán Húsnæðisstofnunar við einstaklinga í stað íbúða og hvort komið geti til greina að skipta heildarlánsfé milli kjördæma í samræmi við lánveitingar lífeyrissjóða í einstökum kjördæmum. Einnig væri þarft að kanna möguleika á sérstökum lánaflokkum til styttri tíma en almennt gerist og með breytilegum kjörum til að koma til móts við þarfir einstakra hópa sem ekki þurfa á stórum lánum til mjög langs tíma að halda.

Við leggjum áherslu á að í þeirri endurskoðun sem fram fer í þessum málum á næsta ári verði unnið með þeim hætti að þessari heildarendurskoðun ljúki fyrir upphaf næsta þings þannig að hér geti legið fyrir þegar þing hefst nýtt frv. til l. um skipan þessara mála og þá með þeim hætti að um frambúðarlausn verði að ræða. Það liggur í augum uppi að gildandi lög eru ófullnægjandi. Þau eru mjög gölluð og í þeim felast ákveðin framkvæmdaatriði, sérstaklega hvað varðar fjárhagslegar skuldbindingar ríkisins vegna þessa lánaflokks, sem ekki fá staðist. Við munum leggja áherslu á að þetta frv. nái fram að ganga og það sem fyrst.