16.12.1987
Efri deild: 25. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2276 í B-deild Alþingistíðinda. (1669)

125. mál, staðgreiðsla opinberra gjalda

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Það hefur gefist lítill tími til að gaumgæfa þetta frv., enda er það á hraðferð og má teljast heppilegt ef maður nær í endann á því áður en það fer út úr deildinni. En það fékk nokkra umfjöllun í Nd. og þar voru gerðar á því breytingar sem eru til bóta að mínu mati þó að hefði mátt gera í raun fleiri breytingar á þessu og þá sérstaklega t.d. við 7. gr., sem ég ætla ekki að gera að umræðuefni nú en mun ræða nánar í nefndinni þegar þetta frv. kemur til hennar.

En ég vil taka undir það sem hér var áður sagt að í lögunum sem verið er að breyta, þ.e. lögum nr. 45 1987, þar er skilgreining á launum sem er nauðsynlegt að endurskoða með tilliti til ellilífeyrisþeganna. Þetta var mjög réttmæt ábending. Vasapeningar ellilífeyrisþega eða það fé sem þeir hafa milli handa sem dveljast á elliheimilum er þegar það lítið að ef þeir eiga síðan að greiða skatta bæði af því sem þeir fá sjálfir og því sem rennur til elliheimilisins, þá held ég að það verði nú lítið eftir fyrir þá til þess að gefa barnabörnunum jólagjafir og almennt til að hafa á milli handanna þannig að þetta er í raun og veru afskaplega óréttlátt. Og ég er viss um að jafnaðarmaðurinn, hæstv. fjmrh. getur ekki annað en tekið tillit til þess arna.

Varðandi það sem kom fram í sambandi við kynningu á þessum frv. og þá sérstaklega á frv. um staðgreiðslu, þá hef ég orðið vör við það að mikill ruglingur ríkir meðal fólks almennt, og þá ekki endilega ellilífeyrisþega heldur fólks á öllum aldri, um það hvernig það eigi að bera sig að við að fylla út þau eyðublöð sem því ber að fylla út, hvernig þetta nýja kerfi muni verka. Ef ég má taka dæmi af því sem ég hef séð til erlendis þegar miklar kerfisbreytingar verða þá minnist ég þess frá Englandi þar sem ég bjó um 13 ára skeið að þegar einhverjar kerfisbreytingar voru gerðar þar þá voru þær ítarlega kynntar í fjölmiðlum með mörgum dæmum.

Það voru sérstakir þættir í sjónvarpi, þar sem var mjög ítarlega og endurtekið farið yfir á einfaldan hátt fyrir allan þorra fólks. Ég veit að það hafa komið nokkur dæmi í dagblöðunum undanfarið, en svona kynningar eða skýringar skila sér betur ef þær eru gerðar í myndrænum fjölmiðli. Ég mundi því ráðleggja hæstv. ráðherra að beita sér fyrir því að það yrði verulega ítarleg kynning í sjónvarpi á þessu nýja kerfi þannig að fólk geti áttað sig á því og þetta yrði endurtekið nokkrum sinnum. Það er ekki nema sjálfsögð þjónusta miðað við það sem fjmrn. og ríkissjóður ætlar sér að bera úr býtum frá launþegum þessa lands með því að koma þessari kerfisbreytingu á.