16.12.1987
Efri deild: 27. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2354 í B-deild Alþingistíðinda. (1712)

196. mál, söluskattur

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að halda hér langa ræðu heldur aðeins að gera grein fyrir brtt. sem ég flyt á þskj. 312. Að öðru leyti ætla ég að geyma mér ræðuhöld þangað til 3. umr. fer fram um þetta mál, matarskattinn, þetta frv. til laga um matarskatt og auðvitað rangnefni á þessu frv. eins og það er. Þetta ætti að heita matarskattur og er alveg rétt sem hv. 7. þm.: Reykn. sagði hér fyrr í nótt að þetta frv. er það sem halda mun stjórnarþátttöku Alþfl. á lofti lengi. Þetta er svona flaggskip Alþfl. í málatilbúnaði þessarar hæstv. ríkisstjórnar. (Gripið fram í: Hvar eru þá doríurnar?) Og doríurnar. Þær bera sig vel þó það sé orðið áliðið nætur.

Ég flyt hér brtt. í fyrsta lagi um það að matvörur verði undanþegnar söluskatti áfram, en til vara að fjmrh. eigi að endurgreiða innheimtan söluskatt af mjólk og mjólkurafurðum, kjötvörum og grænmeti sem framleitt er innan lands.

Í öðru lagi flyt ég brtt. við 4. gr. um það að undanþiggja fjárfestingarvörur til garðyrkjustarfa söluskatti og jafnframt að hætta við þessar hugmyndir um að innheimta söluskatt af gufubaðstofum, nuddstofum og ljósastofum, heilsuræktarstofum, útisamkomum og íslenskum kvikmyndum. Ég er satt að segja alveg sannfærður um það að af þessum heilsuræktarstofum fær fjmrh. ekki neitt. Það tekur því satt að segja ekki fyrir hann að vera að gera sig óvinsælan út á þetta því að það hefst ekkert upp úr því. Það verða stofnuð íþróttafélög um allar þessar heilsuræktarstöðvar til þess að fá undanþágu frá þessum söluskatti. Þetta er því óþarfa vesen sem ráðherrann er að taka á sig með því að leggja þetta til þannig að ég skora á hann að strika þetta bara út.

En til vara flyt ég í sambandi við kvikmyndirnar, ef þessar tillögur mínar verða felldar, tillögu um að söluskattur sem er tekinn af aðgangseyri að íslenskum kvikmyndum verði endurgreiddur í Kvikmyndasjóð. Þannig sýni ríkisstjórnin ræktarsemi við kvikmyndina og myndmálið, svo ég vitni nú í hæstv. forsrh. (Gripið fram í: Og tunguna.) að ekki sé minnst á tunguna, sem hæstv. forsrh. er svo vinsamlegur að ræða um svona af og til á hátíðarstundum.

Ég tel ekki ástæðu til þess á þessari nóttu að fjalla mikið ítarlegar um þetta mál. Ég ætla aðeins að segja það að sumt af brtt. meiri hl. eru heldur góðar tillögur, t.d. tillagan um fasteignasalana. Hún er hér enn. Það er skynsamlegt. Ég sé að vísu að í þessari brtt. meiri hl. er gert ráð fyrir því að fella út ljós- og nuddlækningar. En það er væntanlega sú starfsemi af þessu tagi sem stunduð er samkvæmt tilvísun lækna, þannig að þetta nær væntanlega ekki til almennrar þjónustu af þessu tagi sem talsvert er um í landinu og má margt um segja og þyrfti að passa mikið betur en gert er því að ég er ekki viss um að það séu mikil vísindi sem þar eru stunduð alltaf. En ég hygg að það mál leysist skammt með söluskatti.

Ég mun, herra forseti, fjalla ítarlega um þetta mál við 3. umr. málsins þegar hún fer fram, ætlaði hér aðeins að gera grein fyrir þeim brtt. sem ég flyt að sinni. Þó að það taki því nú varla að fara heim fyrir nefndarfundi, þá er það nú samt svo að menn geta náð sér í kríublund áður en þeir hefjast þannig að ég ætla ekki að tefja þingið lengur á ræðuhöldum í bili, en ætla að bæta nokkrum orðum við í 3. umr. málsins.