16.12.1987
Neðri deild: 27. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2356 í B-deild Alþingistíðinda. (1717)

203. mál, heilbrigðisþjónusta

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég hef ritað undir nál., sem hv. 3. þm. Reykv. mælti fyrir, með fyrirvara, en hef ákveðið að greiða fyrir því að það nái fram að ganga vegna orða hæstv. heilbr.- og trmrh. við umræðu í deildinni fyrir skömmu, en þar staðfesti hann að samningar væru nú í gangi milli ráðuneytisins og Garðakaupstaðar og hann lofaði því að hann mundi gangast fyrir samningum við borgarstjórn Reykjavíkur um uppbyggingu heilsugæslustöðva og hét því beint eða óbeint að við sæjum ekki frv. af þessu tagi framar. Í trausti þess, og það mun verða hermt upp á hæstv. ráðherra, mun ég greiða þessu frv. atkvæði mitt svo það nái fram að ganga í þetta skipti og vonandi það síðasta.