17.12.1987
Sameinað þing: 34. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2396 í B-deild Alþingistíðinda. (1781)

189. mál, ávana- og fíkniefnadeild lögreglunnar

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Hv. 6. þm. Reykv. og hv. 7. þm. Norðurl. e. bera fram á þskj. 215 nokkrar spurningar um ávana- og fíkniefnadeild lögreglunnar. Hér er um þess konar spurningar að ræða að mér hefði reyndar þótt eðlilegra að svara þeim skriflega, en ég mun þó reyna að gera þeim skil í stuttu máli.

Ég vil þó fyrst hafa þann inngang að fíkniefnadeild lögreglunnar hefur á síðustu mánuðum náð mjög góðum árangri í starfi sínu og er sérstök ástæða til að hrósa þeim mönnum sem þar starfa fyrir árvekni, færni og alveg sérstaka atorku í starfi.

Í fyrsta lagi er spurt hversu margir starfi við deildina og hvernig þeir skipti með sér verkum. Í deildinni eða henni tengdir eru nú 13 lögreglumenn í fullu starfi. Auk þess nýtur deildin aðstoðar tveggja starfsmanna tæknideildar lögreglustjóraembættisins í Reykjavík. Störfum í deildinni er skipt þannig að yfirmaðurinn, stjórnandi deildarinnar, er lögfræðingur. Með honum starfar lögreglufulltrúi sem fer með stjórn verkefna, auk þess sem hann vinnur að rannsóknum. Þá eru níu rannsóknarlögreglumenn sem starfa að rannsókn mála, þar af eru sex skipaðir en þrír settir, tímabundið. Þá eru tveir lögreglumenn sem annast vörslu og umsjón með leitarhundum. Loks eru tveir tæknideildarmenn sem aðstoða ávana- og fíkniefnadeild við húsleitir og vettvangsrannsóknir, skráningu efna, sem hald er lagt á, og sakargagna, auk fleiri verkefna sem tengjast þessum málum.

Í öðru lagi er spurt hversu mörg mál hafi borist deildinni á sl. ári. Á því ári var málafjöldinn 179, en til samanburðar má geta þess að það sem af er þessu ári, þ.e. fram í byrjun desember, hefur deildin fjallað um 224 mál.

Í þriðja lagi er spurt hvort starfsmenn hafi getað annað öllum málum sem deildinni hafa borist. Því er til að svara að verkefni berast að deildinni í formi upplýsinga og ábendinga sem berast bæði innan lands og frá útlöndum. Úr þeim er unnið. Svo koma auðvitað vísbendingar í ljós við eftirgrennslan. Fíkniefnarannsóknirnar eru tímafrekar og unnar undir miklu vinnuálagi, eins og kom fram hjá hv. fyrsta fyrirspyrjanda. Allt frá upphafi rannsókna á þessum málum hafa stjórnendurnir því jafnan þurft að velja og hafna, og meta hvaða verkefnum skuli sinna, og er þessi málaflokkur að því leyti alls ekki frábrugðinn rannsóknum á öðrum brotamálum. En ég held þó að í meginatriðum megi svara því játandi að starfsmennirnir hafi getað annað þeim verkefnum sem að þeim hafi borist.

Í fjórða lagi er spurt hvort talin sé þörf á fjölgun starfsmanna. Svarið er já. Það er þörf fyrir fleiri starfsmenn. Hins vegar hefur ekki verið vinnuaðstaða fyrir fleiri menn þar sem deildin er nú til húsa vegna þrengsla. Nú er verið að bæta úr því og mun deildin fá betra og rýmra húsnæði í húsnæði lögreglustöðvarinnar snemma á næsta ári. Um leið verður starfsemi hennar endurskipulögð og ég vil geta þess að í fjárlagatillögunum sem nú eru til umfjöllunar hér á þinginu er gert ráð fyrir fjórum nýjum stöðum við deildina á næsta ári.

Í fimmta lagi er spurt um vinnutíma starfsmanna á árinu 1987 að yfirvinnu meðtalinni. Þeir starfsmenn sem nú vinna hjá deildinni hafa skilað fullum dagvinnutíma auk rúmlega 100 stunda yfirvinnu á mánuði hverjum að meðaltali og er þá miðað við unninn tíma. Slíkt yfirvinnuálag getur auðvitað ekki staðið til lengdar og m.a. þess vegna er nú áformað að fjölga í þessari deild.

Í sjötta lagi er spurt um tækjakost deildarinnar og hvernig hans hafi verið aflað. Ég tel ekki rétt af augljósum ástæðum að lýsa hér nákvæmlega þeim tækjakosti sem deildin hefur yfir að ráða. En ég er fús til að útvega hv. fyrirspyrjendum nánari upplýsingar um þessi tæki ef þeir óska þess. Á sl. tveimur árum hefur deildin eignast nokkuð af nýjum tækjum sem eru notuð við rannsóknir og leit að fíkniefnum. Hluta af þessum tækjum hefur deildin reyndar þegið að gjöf frá tveimur lionessu-klúbbum og e.t.v. öðrum.

Í sjöunda og síðasta lagi er beðið um yfirlit yfir fíkniefni sem hald hefur verið lagt á það sem af er árinu. Ég vil þá taka fram að fram til 5. des. hefur verið lagt hald á 14 kg 565 grömm af hassi, 950 grömm af hassolíu, 1405 grömm af marijúana, 238 grömm af amfetamíni og 535 grömm af kókaíni.