17.12.1987
Sameinað þing: 35. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2432 í B-deild Alþingistíðinda. (1796)

Greinargerð utanrrh. um byggingu flugstöðvar

Þórhildur Þorleifsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir ræðu síðasta ræðumanns, hv. 16. þm. Reykv., og lýsa þeirri skoðun minni að ég uni því illa að hér skuli ráðherrar ganga úr sal líklega um leið og þeir hafa mælt sem þeim þykir þess virði að hlusta á. Ég vil eindregið fara fram á að það sé athugað hvort utanrrh., núv. og fyrrv. fjmrh. eru staddir í húsinu og að það sé kallað á þá. (Forseti: Ég hef þegar gert ráðstafanir til þess að það verði athugað. ) Það vekur einnig athygli að fjölmiðlamenn ganga í burtu þegar þeim þykir þeir hafa mælt sem verðugt sé að hlusta á.

Nú ætla ég að hinkra aðeins við. Er svara að vænta innan tíðar, virðulegi forseti? (Forseti: Forseti vill upplýsa að það er verið að sækja bæði hæstv. forsrh. og utanrrh.) Ég hef nógan tíma. (Gripið fram í: Það eru nú tveir fyrrv. fjmrh. í salnum.) Það eru ekki endilega þeir sem maður hefur áhuga á að tala við núna. Nú segi ég eins og börnin, ég tel upp að tíu. (Gripið fram í: Þeir hljóta að fara að koma.) (GA: Við höfum nógan tíma, þangað til langt fram yfir jól þess vegna. Kjörtímabilið er fjögur ár svo þetta er allt í lagi.) (Forseti: ég held að það geti ekki dregist lengi að þeir gangi í salinn, hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh.) Þá mun ég hefja mál mitt. Nú hef ég gert þetta svo mikilvægt allt saman að það verður erfitt að standa undir þessu.

Síðasti ræðumaður lauk máli sínu og reyndar markaðist allt hennar mál af nokkru tali um ábyrgð og þá sérstaklega ábyrgð kvenna. Að axla ábyrgð, þetta er sú setning sem glymur í eyrum okkar kvenna öðrum fremur, ekki síst ef við leyfum okkur að vekja athygli á bágri stöðu okkar. Skiptir þá litlu hvort talið berst að félagslegri stöðu, áhrifaleysi, óhóflegri vinnu, tvöföldu vinnuálagi, ósæmilegum launum eða vanmati á störfum okkar heima og heiman. Upptalningin gæti verið miklu lengri. Svörin eru á eina lund: Þið verðið að axla ábyrgð, les: eins og við karlmennirnir, og þá reddast allt eins og segir í ágætum brag. Að maður tali nú ekki um þegar konurnar vilja svo ekki fara í ríkisstjórn þó þeim standi það til boða. Þá fyrst keyrir nú ábyrgðarleysið um þverbak að dómi karlmannanna, enda var ekki hægt að hafa þær með að dómi allra tilkvaddra manna. Þær vildu fara að bruðla með almannafé, eyða því í öryrkja, aldraða og láglaunafólk. Það sáu allir ábyrgðarfullir menn að gat ekki gengið. Moralen er: Gangið með gát og virðingu um almannafé, fé skattborgaranna. Þetta skildu konurnar auðvitað og öxluðu þá ábyrgð að axla ekki þá ábyrgð að standa að ríkisstjórn sem vildi ekki sóa fé skattborgaranna í að rétta örlítið við hag þeirra bágstöddustu í þjóðfélaginu, kusu fremur að sitja áfram úti í kuldanum í hinu svokallaða ábyrgðarleysi en voru þó að eigin sögn og að margra dómi ágætar í öxlunum.

Því geri ég þetta að umræðuefni hér að allt tal um ábyrgð getur verið svo afstætt. Konur upp til hópa eru alls ekki sammála því að þær axli ekki ábyrgð, telja sig reyndar oft axla meiri ábyrgð en sanngjarnt geti talist, gerast meira að segja stundum svo ósvífnar að segja að karlmenn geri ekki slíkt hið sama og finnast þeir ábyrgðarlausir. Líklega stafar þessi mismunandi skilningur á ábyrgð og ábyrgðarleysi af því að ekki er gengið út frá sömu forsendum þegar hugtökin eru skilgreind. En hvað segir Orðabók Menningarsjóðs um ábyrgð? Fyrst er nú til að taka að orðið er kvenkyns. Útskýringin á merkingu orðsins hljómar svo: ábyrgð það að vera ábyrgur. Dæmi um notkun orðsins: á mína ábyrgð, ég ábyrgist það, bera ábyrgð á einhverju, sæta ábyrgð fyrir eitthvað, ábyrgð á húsi, ábyrgð á skipi. Ef við hyggjum nánar að fyrstu skýringunni, það að vera ábyrgur, og flettum upp orðinu ábyrgur hljóðar skýringin svo: ábyrgur sem ber ábyrgð á einhverju. Dæmi: ábyrgur forstjóri, ábyrgur stjórnmálaflokkur.

Jafnvel Menningarsjóður leggst þarna á sveif með karlmönnum, tekur dæmi sem þeim þykja góð um ábyrgð. Eða getur verið að einhver hafi verið svo forsjáll að sjá fyrir að þetta væru kannski þau dæmi sem best væri að hafa svart á hvítu, að eftir því sem ofar drægi í þjóðfélagsstiganum ykist þörfin á því að kveða afdráttarlaust á um ábyrgð? Ekki ætla ég að fara að gera sómamanninn Árna Böðvarsson ábyrgan fyrir útleggingum mínum á Orðabók Menningarsjóðs, en óneitanlega hafa verið valin þarna þörf dæmi hvað sem svo lá að baki valinu. Og mikið má maður vera feginn að ekki stóð hlið við hlið sem dæmi: ábyrgð á húsi, ábyrgð á heimili, ábyrgur forstjóri, ábyrg móðir.

Það er nefnilega ekki aðkallandi þörf á skilgreiningu þeirrar ábyrgðar sem hversdagsmaðurinn ber, hinn svokallaði almenni skattgreiðandi þessa lands. Hins vegar virðist þörfin vera knýjandi þegar menn eru komnir í svokallaðar ábyrgðarstöður. Þegar þeir eru komnir í þá stöðu að geta ráðskast með líf og fjármuni annarra. Þá fyrst reynir verulega á hvort menn reynist þess megnugir að axla ábyrgð og bera hana án þess að kikna í herðum.

Því verður mér svo tíðrætt hér um ábyrgð að það dylst væntanlega engum að það mál sem hér er til umræðu snýst um ábyrgð og hvort einhver verður kallaður til ábyrgðar. Það snýst ekki lengur um hvort hefði átt að byggja þetta umrædda hús, ekki um hvar þörfin var brýnust, ekki um hvort það er betra eða verra en efni stóðu til, ekki um hvort það er fallegt eða ljótt heldur um það að bera ábyrgð á því að svo fór sem fór. Þjóðin á að sönnu að borga reikninginn, tæpan milljarð, og ekki öll kurl komin til grafar, en að öðru leyti verður hún ekki kölluð til ábyrgðar. Hvar liggur ábyrgðin þá?

Í rauninni liggur það nokkuð ljóst fyrir strax á fyrstu síðum skýrslunnar umræddu. Á bls. 3–4 segir svo, eftir að útskýrt hefur verið hvernig kostnaðaráætlunin frá 11. nóv. 1980 að upphæð 57 millj. bandaríkjadala var endurskoðuð og niðurstaðan var kostnaðaráætlun að upphæð 42 millj. bandaríkjadala, með leyfi forseta:

„Byggingarnefnd taldi þessa áætlun í upphafi vera mjög rúma og meðal annars vegna þess samþykkti hún smátt og smátt að bæta við nánast öllu því sem fellt hafði verið niður í niðurskurðinum um áramótin 1980–1981, enda væri flugstöðin á mörkum þess að vera starfhæf ef það væri ekki gert og auk þess kom til ýmislegur óvæntur viðbótarkostnaður og magnaukningar.“

Ef þetta er ekki ein furðulegasta röksemdafærsla sem sett hefur verið fram er ég illa svikin. Það er einkennilegt að þegar maður fær minna af einhverju en maður telur sig þurfa finnist manni það svo mikið að maður kunni sér ekki hóf. Skilji nú hver eins og hann hefur gáfurnar til. Auk þess bendir orðalagið til þess að bæði Íslendingar og Bandaríkjamenn hafi samþykkt flugstöð sem væri á mörkum þess að vera starfhæf og ber sjálfsagt að þakka að menn skyldu koma auga á það áður en það var um seinan. Svo gerðist líka ýmislegt óvænt. Samtals hljóðaði þetta allt upp á 871 millj. kr.

Á bls. 5 er svo haft eftir byggingarnefnd að útgjöld þessi hafi verið samþykkt af réttum stjórnvöldum, en magnaukningar hafi verið ófyrirséðar. Ríkisendurskoðun hefur kannað hvort heimildar hafi verið aflað hjá þáv. utanrrh. og kom fram að byggingarnefnd hafi haft heimild til að stofna til þessara útgjalda. Ráðherrar hafa kannski verið svo skelfingu lostnir að sitja uppi með óstarfhæfa flugstöð að þeir hafa séð sitt óvænna og samþykkt.

Að vísu segir Helgi Ágústsson, formaður byggingarnefndar á árunum 1979–1983, á bls. 36, með leyfi forseta, „að niðurskurðurinn hafi verið gerður í fullri alvöru í þeim tilgangi að lækka kostnað. Ásetningur ráðherra hafi á þeim tíma verið að haga framkvæmdinni á þann hatt.“

Og „Guðmundur Eiríksson telur að í áætluninni hafi falist starfhæf flugstöð. Hann bendir einnig á að Bandaríkjamenn hefðu væntanlega ekki fallist á að taka þátt í kostnaði við flugstöð nema þeir hafi talið hana starfhæfa.“

Þó við treystum Bandaríkjamönnum til að verja líf okkar og limi á hverju sem gengur er þeim greinilega ekki treystandi til að hanna starfhæfa flugstöð, enda fóru Íslendingar að taka málin í sínar hendur og kappkostuðu að leita hagkvæmustu leiða og úrlausna miðað við „hérlenda byggingarhefð“, eins og segir á bls. 14 í skýrslunni. Hin erlenda byggingarhefð birtist í áætlun um óstarfhæfa flugstöð sem skyldi standast og samningum í samræmi við það, þ.e. þeir skyldu greiða 20 millj. bandaríkjadala sem þeir og gerðu. En hin hérlenda byggingarhefð hljóðaði upp á hið óvænta. Munurinn fólst auðvitað í starfhæfni og nokkrum krónum að auki: viðbætur 654 millj., magnaukningar 135 millj. og óskiptur kostnaður 83 millj.

Skoðum nú nokkur dæmi um hérlenda byggingarhefð sem ráðamenn, sem eru svo þjóðlegir eins og hátíðarræðurnar sanna, lögðu blessun sína yfir. Á bls. 24 segir svo, með leyfi forseta:

„Verkefnisstjóri, Stanley Pálsson, telur að eftir á að hyggja sé það augljóst mál að allri hönnun hússins hafi verið ábótavant við útboð FK5, en segir jafnframt að það sé alls ekki víst að það hafi verið nokkur leið að gera sér grein fyrir því þegar verkið var boðið út í ágúst 1985. Það er rétt að það komi skýrt fram að verkefnisstjóri telur að hönnun sé ábótavant ef það þarf að breyta henni eða betrumbæta á einhvern hátt. Til þess að hönnun teljist í lagi þurfa teikningar, verklýsingar og tilboðsskrár að vera í fullkomnu lagi og í fullu samræmi innbyrðis. Mikið var um villur í útboðsgögnum og sífelldar breytingar og viðbætur voru að berast á byggingartímanum. Verkefnisstjóri vill taka það fram að hann hefur komið nálægt miklum fjölda bygginga og villur og breytingar á teikningum eru regla en ekki undantekning. Verkefnisstjóri segir einnig að taka verði tillit til þess hversu stórt og flókið verkið er og því hlaut að verða mikið um villur og breytingar.“

Mér finnast þessi síðustu orð verkefnisstjórans heldur þunnur þrettándi. Það hlýtur að liggja í hlutarins eðli að því stærra og flóknara sem verkefnið er þeim mun meiri ástæða er til að vanda undirbúning og áætlanir, sjá hluti fyrir, hafa yfirsýn yfir verkið til enda. Uppákomur eru þeim mun dýrari sem viðfangsefnið er stærra. En með leyfi forseta les ég örlítið áfram á bls. 24:

„Ekki er víst að hönnunarbreytingar og villur hefðu orðið neitt áberandi ef hönnun loftræsikerfisins hefði ekki hrunið algerlega. Samþykktir arkitekta á efni og útfærslum voru einnig seint á ferðinni sökum mikils vinnuálags á húsameistara og olli þetta töfum og vandræðum.“ — Örlítið neðar: „Til viðbótar kom upp það vandamál á verktímanum að berggrunnur sá sem byggt var á reyndist lakari en búist hafði verið við. Leiddi það ásamt auknum kröfum vegna jarðskjálfta til að setja þurfti sérstakar bergfestur.“

Og á bls. 30 segir um sama mál: „Almenna verkfræðistofan vildi fá Orkustofnun til að bora áður en framkvæmdir hófust til að kanna jarðveginn betur en það fékk ekki jákvæðar undirtektir vegna þess hversu dýrt það var talið vera.“

Þarna er gott dæmi um séríslenska hefð, miklu víðtækari en hérlenda byggingarhefð. Ekki að kanna, ekki að rannsaka eða undirbúa, bara rjúka af stað. Hvað skyldi hafa kostað að framkvæma þær rannsóknir sem þarna var beðið um? Við því er ekki svar í þessari skýrslu, en ljóst er að umframkostnaður þarna varð 30 millj. kr.

Fleiri dæmi. Bls. 27: „Rafhönnuðir gengu einnig í fyrstu út frá upphaflegri hönnun. Út frá þeim forsendum ákváðu þeir m.a. að byggja á hulinni pípulögn í steypu. Þegar loft höfðu verið steypt var sú breyting gerð að hreinlætiskjarnar voru færðir til og var þá nauðsynlegt að bora göt í plötu vegna þeirrar tilfærslu. Við þetta ónýttust að þeirra mati um 70% af lögnum í steypu. Þetta leiddi til nýrrar hönnunar byggðri á bakkalögnum sem hafði í för með sér brunatæknileg vandamál vegna hinna ströngu staðla sem notaðir voru, auk þess sem víða var erfitt að koma bakkalögnum fyrir vegna annarra lagna.“ Hvað skyldi nú hafa orðið um þau 30% af lögnunum sem eftir voru heilar í steypunni? Liggja þær þar enn og bíða betri tíma?

Á bls. 31 segir, með leyfi forseta: „Í desember 1985 kom endanlega í ljós að endurhanna þyrfti loftræsikerfið og ýmis önnur vandamál í hönnun voru fyrirsjáanleg, bæði hjá Fjarhitun hf. og öðrum hönnuðum.“

Ótal svona dæmi er hægt að taka. Það úir og grúir af þeim. En fljótlegast og fróðlegast er að skoða teikningar af flugstöðinni, sem fylgja skýrslunni, þar sem skástrikuð eru þau svæði sem breytt var á byggingartíma, þéttstrikuð þar sem miklar breytingar voru gerðar, önnur gisnari þar sem minna var breytt. Í raun er skýrslan dapurlegur vitnisburður um óhæf vinnubrögð. Fyrst er öllum áætlunum breytt, eins og sést á listum a bls. 36 og bls. 4–5, í trausti þess að einhver borgi, sem og verður, þjóðin bregst ekki því trausti, en svo geta þeir sem öllu breyttu ekki einu sinni reiknað eigin breytingar til enda. Þar rekur hvað annað.

Freistandi væri að fara út í talnaleik og talnasamanburð, spyrja t.d. hvað hefði verið hægt að gera fyrir margumræddan milljarð, að ég tali ekki um alla milljarðana þrjá, en ég hætti mér ekki út í slíkan leik, spyr einungis hvort krafa þjóðarinnar um flugstöð hafi verið svo hávær að ekki yrði lengur á móti staðið. Voru þær raddir sem vildu flugstöð sterkari en þær sem vildu barnaheimili, skóla, betri heilbrigðisþjónustu, betri laun, fæðingarorlof, lífeyri, öflugri menningu svo dæmi séu tekin?

Í þessari ljótu skýrslu koma margir við sögu sem ekki geta vikist undan ábyrgð, en endanlega er hún hjá raðherrunum sem hlut eiga að máli. Og þó ábyrgð geti verið afstæð hjá svokölluðum yfirmönnum geta þeir ekki vikist undan því að bera persónulega ábyrgð á því að verkinu er hraðað meira en góðu hófu gegnir á lokasprettinum. Það lágu fyrir yfirlýsingar um að flugstöðinni yrði ekki lokið á tilsettum tíma, þ.e. 1. mars 1987, eins og til stóð. Það sést greinilega á línuritunum, sem er að finna í skýrslunni yfir mannafla í stjórnun og í verkframkvæmd, að allt ofurkapp var samt lagt á að verkinu skyldi lokið og ekkert til sparað, ef ekki 1. mars 1987 þá a.m.k. fyrir 25. apríl 1987. Þessi seinni dagsetning er að vísu hvergi nefnd, en það er svo augljóst að það sér hvert mannsbarn.

Á bls. 36 segir í skýrslunni, með leyfi forseta: „Óbeinn kostnaður við að opna í apríl hefur ekki verið metinn, en ljóst er að hann nemur tugum milljóna kr.“

Flugstöðin var opnuð 14. apríl 1987, að vísu ekki fullbúin, en nóg til þess. Nær kosningum hefði líka verið ósmekklegt að fara. Flugstöðin var sem sagt opnuð fyrir kosningar, en reikningarnir ekki fyrr en eftir kosningar. Nálgast þetta ekki barnaskap eða er þetta bara einkennileg tilviljun?

Og enn leyfi ég mér að lesa úr skýrslunni, virðulegi forseti, á bls. 8, sem fjallar um fjármál:

„Með bréfi dags. 29. apríl 1987 barst sú vitneskja til fjmrn. frá byggingarnefnd flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli að verulegt fé vantaði til byggingar stöðvarinnar umfram það sem ætlað hafði verið. Fjárþörf vegna gildandi verksamninga út árið 1987 var þar talin vera 450–480 millj. kr. umfram fjárheimild ársins sem var 520 millj. kr. Ráðuneytið heimilaði með bréfi dags. 11. maí 1987 bráðabirgðalántöku að fjárhæð 480 millj. kr. Í júlímánuði 1987 barst ráðuneytinu áætlun frá byggingarnefnd um fjárþörf til verkloka sem nú voru áætluð árið 1988, en í febrúar 1987 hafði framkvæmdastjóri ætlað verklok í júní 1987. Í júlíáætluninni kom í ljós að fjárþörfin umfram þær 520 millj. kr. sem veittar voru á lánsfjáráætlun árið 1987 var 890 millj. kr. Fjárvöntun í þessum mæli kom svo á óvart í ráðuneytinu að þess var farið á leit við Ríkisendurskoðun að hún gerði úttekt á byggingarkostnaði flugstöðvarinnar frá upphafi ásamt mati á tæknilegum þáttum og framkvæmdum tengdum byggingunni. Hófst sú úttekt um miðjan ágúst 1987.“ — Hér er svo árangurinn, þessi skýrsla.

Er von að spurt sé um ábyrgð? Hvernig getur þetta gerst? Enginn veit neitt. Allir halda eitthvað annað. Það er vanáætlað og það er ofáætlað og svo verða allir voðalega hissa. Fjárvöntunin kom svo á óvart. — Ja, það hefði stundum þótt ástæða til að fylgjast með af minna tilefni. Hvort sem menn vissu eða vissu ekki er ábyrgðin söm. Hvernig ætla menn að standa veggbrattir frammi fyrir þegnum sínum og krefjast ábyrgðar og heiðarleika af þeim, leggja á þá skatta af brýnustu nauðsynjum, ætlast til þess að þeir vinni myrkranna á milli, svíki ekki undan skatti, vinni ekki „svarta“ vinnu, beri ábyrgð á lífi sínu og hegðun, börnum sínum og heimilum, svíkist ekki í neinu undan ábyrgð með slíkar fyrirmyndir?

Er von þó virðing alþm. og hins háa Alþingis fari þverrandi, því þetta er ekki í fyrsta skipti sem þjóðin verður vitni að misbeitingu valds? Menn deila og drottna í skjóli valds sem þeir hafa þegið af þjóðinni og slá um sig skjaldborg samtryggingar, hygla hver öðrum, útdeila bankastjórastöðum og sýslumannsembættum eins og vinningum í valdabingói, útiloka óæskilega menn, hleypa æskilegum inn, halda verndarhendi yfir hverju fjármálahneykslinu af öðru sem kostar almenning stórfé. Milljónum er hent út um gluggann með annarri hendinni, með hinni strikaðar út fjarveitingar til alls konar velferðarmála. Menn hafa ekki efni á að sjá börnum, gamalmennum og fötluðum fyrir almennilegri umsjá, ekki efni á að reka góða skóla, ekki efni á menningu, ekki efni á að borga konum skikkanleg laun svo að eitthvað sé talið.

Ég held ekki að Kristur hafi átt við þetta þegar hann sagði að hægri höndin ætti ekki að vita hvað sú vinstri gerði. Er það furða þó hrikti í valdastoðunum? Þær skyldu þó ekki vera mölétnar að innan?