17.12.1987
Sameinað þing: 35. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2468 í B-deild Alþingistíðinda. (1807)

Greinargerð utanrrh. um byggingu flugstöðvar

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er af minni hálfu ekki þörf á að lengja þessa umræðu mikið. Ég þakka fyrir að hún var sett hér á dagskrá og fór fram fyrir jólaleyfi þrátt fyrir umtalsverðar annir. Ég tel að það hafi verið nauðsynlegt að Alþingi ræddi þetta mál eina stund a.m.k. áður en jólaleyfi er gefið þó að það sé alveg ljóst að málið verður áfram til umfjöllunar hér, m.a. vegna þess að tillöguflutningur er uppi um það og eins vegna hins að það er langt í frá að öll kurl séu komin til grafar og enn þá lengra frá því að þeir lærdómar og þær aðgerðir sem hljóta að leiða af upplýsingum málsins hafi gengið fram. Það er alveg augljóst mál.

Ég ítreka ósk mína til hæstv. forseta Alþingis um að komið verði á fundi forseta þingsins og formanna þingflokka með ríkisendurskoðanda. Ég tel að bæði þau skriflegu gögn sem hér liggja fyrir svo og ýmislegt sem fallið hefur í umræðunum gefi ærin tilefni til að þessir ráðamenn í þinginu ræði við sinn starfsmann, ríkisendurskoðanda. Ég vil þar bæði nefna skýrslu þá sem hæstv. utanrrh. hefur lagt fyrir þingið og ummæli t.a.m. hæstv. núv. samgrh. sem féllu efnislega eitthvað á þá leið að ekki gætti nægjanlegrar sanngirni í umfjöllun Ríkisendurskoðunar að öllu leyti.

Við skulum fá útskrift af þeim ræðum sem hér voru fluttar, en ég taldi mig taka rétt eftir því að hæstv. samgrh. léti orð falla eitthvað í þá áttina. Sé svo ekki kemur það í ljós og þá dreg ég það til baka, en útskrift á ræðunum munu væntanlega sýna hvaða ummæli féllu um þetta efni.

Vegna þess að hæstv. utanrrh. hefur ekki talað síðan ég flutti mína ræðu fyrr á fundinum, en gerir það e.t.v. hér á eftir, vil ég ítreka spurningu mína til hans: Mun hæstv. ráðherra draga skýrslu sína til baka og láta prenta nýja þar sem augljósar rangfærslur hafa þá verið leiðréttar og mun orðalagi í niðurlagi skýrslunnar verða breytt eða bætt þá inn í hið prentaða þskj. þeim fyrirvara sem hæstv. ráðherra flutti munnlega um að ákveðinn dómur, sem felldur er í lok skýrslunnar, taki ekki til Ríkisendurskoðunar, eigi ekki við vinnu og ályktanir Ríkisendurskoðunar? Þetta er að mínu áliti mjög mikilvægt atriði að fá alveg á hreint.

Herra forseti. Ég verð að segja alveg eins og er að ég finn sárt til með hæstv. forsrh. þegar það gerist aftur og aftur á fundum á hinu háa Alþingi að hæstv. ráðherra ég vil segja niðurlægir sjálfan sig og embætti sitt sem forsrh. landsins með því að grípa til svo strákslegra útúrsnúninga að annað eins er fáheyrt í þingsölum og ég hygg næstum að segja einsdæmi af manni sem gegnir þeirri stöðu að vera forsrh. þingbundinnar ríkisstjórnar. Ég hygg að svo sé. Og hæstv. forsrh. gerir tilraunir til að leggja talsmönnum Alþb. í munn orð eða gera þeim upp þá sérstöku ósk og þann sérstaka vilja að flugstöð á Keflavíkurflugvelli yrði byggð án reykskynjara, rétt eins og það væri eitthvert sérstakt keppikefli Alþb., næstum að segja komið inn í stefnuskrá flokksins að það mættu alls ekki vera reykskynjarar í flugstöð á Keflavíkurflugvelli. Þegar slíkt er á borð borið eða mælt af munni fram úr ræðustóli á hinu háa Alþingi af hæstv. forsrh. er nú skörin farin að færast upp í bekkinn. Það verð ég að segja alveg eins og er. Ég hefði unað því mjög vel ef hæstv. forsrh. hefði tínt til dæmi úr minni ræðu þar sem hann taldi að ég hefði farið með rangfærslur eða ekki fært rök fyrir hlutum. Því hefði ég unað. En svona leikfimi, svona stráksháttur, slíkt dæmir sig auðvitað best sjálft, virðulegur forseti.

Um það hvort hér hafi átt sér stað eyðsla un,fram heimildir, um það hvort fullyrðing mín um að svo hafi verið og að það sé alvarlegt tel ég að þurfi ekki að þrátta. Það komu fram í umræðunni mjög mikilsverðar upplýsingar þegar hv. 1. þm. Norðurl. v., formaður þingflokks Framsfl., formaður fjh.- og viðskn. Nd. allt sl. kjörtímabil, kom upp og gaf yfirlýsingu um að fjh.- og viðskn. Nd. Alþingis hefði allt sl. kjörtímabil aldrei verið greint frá eyðslu umfram heimildir. Sömuleiðis hefði honum sem formanni þingflokksins og sem varamanni í utanrmn. aldrei verið gerð grein fyrir slíkum hlutum. Þetta var, virðulegur forseti, að mínu mati mjög mikilsverð yfirlýsing fyrir hönd þingsins og stöðu fjárveitingavaldsins gagnvart málinu. Síðan eru menn að lesa upp úr skýrslu Ríkisendurskoðunar, að vísu bara vel valda kafla, eins og hæstv. forsrh. gerði og fylgdi þar í kjölfar hæstv. utanrrh. sem tókst með endemum óheppilega að velja sér kafla til upplestrar á fundinum eins og ég sýndi fram á í ræðu minni. Það þarf ekki að lesa lengi úr niðurstöðum Ríkisendurskoðunar til þess að komast að kjarna málsins.

Það er dregið saman á kjarngóðu íslensku máli, sem enn þá er greinilega hægt að skrifa þó í skýrslum sé, hvað í raun og veru gerðist. Það er á bls. 5, bls. 8 og bls. 9, með þínu leyfi, herra forseti, ein málsgrein á hverri síðu.

Þá er það fyrsta málsgr. sem hæstv. forsrh. valdi til upplestrar áðan: „Ríkisendurskoðun hefur kannað hvort heimildar hafi verið aflað hjá þáv. utanrrh. og kom fram að byggingarnefnd hafi haft heimild til að stofna til þessara útgjalda.“ Gott og vel. Þá er það ljóst. Byggingarnefndin hafði heimild utanrrh. á hverjum tíma.

Þá er það næst bls. 8. Þar segir: „Í júlíáætluninni kom í ljós að fjárþörfin umfram þær 520 millj. kr. sem veittar voru á lánsfjáráætlun 1987 var 890 millj. kr.“ Þörfin umfram heimildirnar var þá orðin þessi, samansöfnuð frá árunum 1985, 1986 og fyrstu mánuðum ársins 1987. Þetta kemur fram í skýrslunni.

Og á bls. 9, herra forseti, er svo síðasta tilvitnunin sem skiptir miklu máli í þessu sambandi. Þar segir Ríkisendurskoðun: „Ríkisendurskoðun bendir á að ekki var sótt um aukafjárheimild og ekki vakin athygli fjárveitingavaldsins á vandanum fyrr en með bréfi dagsettu 29. apríl 1987. Ríkisendurskoðun hefur ekki fengið viðhlítandi skýringu á þessu.“

Þar með er málið alveg ljóst að mínu mati. Það eru hæstv. utanrrh. sem hafa samkvæmt óskum frá byggingarnefnd tekið sér fjárveitingarvald í hendur sem þeir ekki hafa. Og það er til annar ofurlítið eldri texti sem er líka mjög skýr. Það er í stjórnarskrá íslenska lýðveldisins sem menn eru stundum að nöldra yfir að sé orðin gömul og úrelt. Mér dettur stundum í hug að það væri líklega gáfulegast að hafa hana eins og hún er um aldur og ævi því að menn gátu þó a.m.k. tekið skýrt til orða á þeim tímum.

41. gr. stjórnarskrár lýðveldisins hljóðar einfaldlega þannig eins og reyndar hefur verið fyrr vakin athygli á hér á fundinum: „Ekkert gjald má greiða af hendi nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum.“ Þetta er stutt og skýr og alveg morgunljós grein. Með öðrum orðum: Það er ekki hægt, jafnvel þó lög væru sett, einföld lög, að veita einstökum ráðherrum fjárveitingarvald. Stjórnarskráin meira að segja bannar það. Þetta mál liggur svo ljóst fyrir sem nokkuð getur verið. Það þarf ekki að þrasa meir um það.

Ég held að það væri öllum til bóta að sá angi málsins sem út af stendur í raun og veru, hafandi í höndum hið ágæta plagg Ríkisendurskoðunar, spurningin um hver á að axla ábyrgðina af því sem gerst hefur, verði sett í sérstaka rannsókn. Ég álít það mikilvægt fyrir þingræðið í landinu og til þess að menn geti borið eitthvert traust til íslenska stjórnkerfisins að úr þessu fáist skorið og ekki bara látið sitja við orðin tóm heldur verði þeir menn sem fundnir verða ábyrgir í þessum efnum látnir sæta sinni ábyrgð. Ríkisendurskoðun eðli málsins samkvæmt fer ekki inn á þennan hluta málsins, dregur ekki niðurstöður hvað þetta varðar, enda ekki til þess ætlast væntanlega, ekki hlutverk þeirrar stofnunar í raun og veru og væntanlega ekki um það beðið af hæstv. fjmrh. sem fór fram á að skýrslan yrði unnin. En þá stendur eftir að mínu mati fyrst og fremst hlutur Alþingis. Alþingi er eini aðilinn sem getur dregið jafnháttsetta mann í stjórnkerfinu og ráðherrar eru til ábyrgðar með einum eða öðrum hætti. Því verður ekki unað og það er ekki hægt að láta íslensku þjóðina horfa upp á það, eins og hv. 16. þm. Reykv. sagði fyrr á fundinum, hv. þm. Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir, í ágætri ræðu að enginn beri ábyrgð. Það getur einfaldlega ekki gerst. Það má ekki vera þannig að enginn beri ábyrgð þegar slík stórfelld mistök eiga sér stað. Það er ekki hægt að einn og einn ráðherra geti rekið undirmenn sína fyrirvaralaust fyrir meint smávægileg brot í eyðslu opinbers fjár en að þeir hinir sömu ráðamenn sem taka sér vald í hendur til að reka opinbera starfsmenn fyrirvaralaust úr störfum geti sjálfir setið ef þeir eru sekir um sams konar afbrot og þar voru meint, bara 10, 20, 100 sinnum eða 500 sinnum eða 1000 sinnum stærri.