18.12.1987
Efri deild: 28. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2480 í B-deild Alþingistíðinda. (1823)

196. mál, söluskattur

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég vil vegna ummæla hv. 7. þm. Reykv. taka undir það, sem hann segir, að niðurgreiðslur á landbúnaðarvörum hafa verið með ýmsum hætti, stundum gengið upp og stundum niður, bæði þegar hann var ráðherra og ýmsir aðrir. Þessi forsaga málsins gefur vissulega tilefni til þess fyrir stuðningsmenn hæstv. ríkisstjórnar í þinginu að standa fast á bak við þá ákvörðun að niðurgreiðslunum verði haldið og hvergi gefið eftir í þeim efnum og að við það verði staðið að vísitala framfærslukostnaðar hækki ekki vegna þessara breytinga á tekjuöflunarkerfinu og til þess að staðið verði á bak við það að þær matvörur sem við erum hér að tala um hækki ekki frá því sem við höfum nú ákveðið.

Það er hins vegar ánægjulegt að heyra að hv. þm. skuli vera mér sammála um að það sé nauðsynlegt að hafa aðhald á fjmrh. og passa upp á að hann sé ekki að greiða úr ríkissjóði meira en hann hefur heimildir deildarinnar til að gera.