18.12.1987
Efri deild: 28. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2483 í B-deild Alþingistíðinda. (1834)

203. mál, heilbrigðisþjónusta

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það var verið að skýra frá því hér úr forsetastóli áðan að það stæði til að halda fundi til kl. hálf eitt og síðan ætti að byrja aftur kl. 2. M.ö.o.: Það er verið að taka um það ákvarðanir að halda ekki nefndafundi í dag þannig að það sé skýrt, a.m.k. af hálfu okkar þm. Alþb. Ég segi þetta að gefnu tilefni vegna þess að það er verið að reyna að kalla saman nefndafundi hér í deildinni í ýmsum nefndum núna meðan fundir standa í deildum og alla vega ég mæti ekki á slíkum fundum. Ég tel að þm. sé skylt að mæta á fundum í deildum þegar þeir eru boðaðir og nefndafundir verði ekki haldnir undir deildafundum nema um það sé algjört samkomulag í viðkomandi nefnd.

Herra forseti. Varðandi það frv. sem hér liggur fyrir þá er það náttúrlega ekki þannig að hægt sé að afgreiða þetta frv. í einhverjum hvelli fyrir jól. Ég vil segja við hæstv. heilbr.- og trmrh. að það væri best fyrir hann að málið yrði ekki afgreitt og þá tæki nýja heilbrigðiskerfið gildi í Reykjavík og Garðakaupstað frá og með áramótum. Og nú skal nokkur saga rakin.

Lög um heilbrigðisþjónustu, sem tóku við af hinum gömlu lögum um læknisumdæmi, voru sett árið 1973 eftir mjög víðtækar umræður sem fram fóru hér á hv. Alþingi þar sem hin gömlu læknisumdæmi voru lögð niður, en í staðinn tóku við heilsugæsluumdæmi samkvæmt nýjum lögum. Það var mjög erfitt verk að afnema gömlu læknisumdæmin. Menn höfðu eins og venja er í mannlegu félagi tekið tryggð við þau og sums staðar var það mjög sársaukafullt að gera þessar breytingar. Ég man t.d. eftir mjög miklum umræðum og erfiðum um breytingar á þessum málum á Suðurlandi sérstaklega, einkum að því er varðar Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellssýslu. Niðurstaðan varð engu að síður sú að það voru sett ný lög um heilbrigðisþjónustu, heilsugæsluumdæmin voru ákveðin með lögum og jafnframt var ákveðið í lögum um heilbrigðisþjónustu frá 1973 að landsbyggðin skyldi hafa forgang við uppbyggingu heilsugæslustöðva. Ástæðan var auðvitað fyrst og fremst sú að landsbyggðin sat við mikið lakari hlut í heilbrigðis- og heilsugæslumálum en þéttbýlið. Það var farið í það að byggja upp heilsugæslustöðvar allt í kringum landið og niðurstaðan liggur nú fyrir eftir 14 ár, að skv. lögum um heilbrigðisþjónustu 1983 og 1973 hafa risið heilsugæslustöðvar eða keypt hafa verið hús fyrir heilsugæslustöðvar á flestum þéttbýlisstöðum á landinu.

Þannig háttar t.d. til í Borgarnesi. Þannig háttar til í Ólafsvík og á Akranesi. Í Stykkishólmi hefur þessi starfsemi verið rekin í tengslum við sjúkrahús. Ný heilsugæslustöð hefur verið byggð samkvæmt þessum lögum og starfrækt lengi vel, svokölluð H-1 stöð í Búðardal. Keypt hefur verið hús fyrir stöð á Reykhólum. Heilsugæslustöð er starfrækt í tengslum við sjúkrahúsið á Patreksfirði. Heilsugæslustarfsemi er unnin, í gömlu húsnæði að vísu, á Bíldudal, Þingeyri og Flateyri. Heilsugæslustöð hefur tekið til starfa í nýja sjúkrahúsinu á Ísafirði. Á Suðureyri í Súgandafirði er enn þá notast við gamla læknisbústaðinn. Í Bolungarvík hefur verið reist ný heilsugæslustöð eftir þessum lögum. Á Hólmavík hefur verið unnið að sama verkefni. Á Hvammstanga hefur verið reist ný heilsugæslustöð eftir þessum lögum. Á Skagaströnd og Blönduósi hefur einnig verið bætt verulega það húsnæði sem heilbrigðisþjónustan hafði. Á Siglufirði er heilsugæslan rekin í tengslum við sjúkrahúsið. Á Sauðárkróki hefur þessi starfsemi verið byggð upp myndarlega.

Í Norðurlandskjördæmi eystra er sömu sögu að segja. Þar er risin myndarleg heilsugæslustöð á Ólafsfirði og Dalvík, svo ég nefni dæmi. Það gekk seint að koma þessu nýja kerfi á á Akureyri en það tókst að lokum fyrir fáum árum og það var staðið myndarlega að því. Á smærri stöðum eins og Hrísey, Grenivík og Svalbarðseyri er þessi þjónusta í sæmilegu lagi þó kannski einna síst á Grenivík. Á Húsavík er heilsugæslan rekin í tengslum við sjúkrahúsið. Á Þórshöfn er byggð upp ný heilsugæslustöð. Heilsugæsluumdæmið á Kópaskeri hefur verið í sæmilegu lagi, var áður rekið undir heilsugæslustöðinni á Húsavík.

Á Austurlandi er sama sagan. Þar hafa verið byggðar upp nýjar heilsugæslustöðvar á mörgum stöðum eins og Fáskrúðsfirði, Egilsstöðum og Eskifirði. Á Norðfirði er heilsugæslan rekin í tengslum við sjúkrahúsið. Á Djúpavogi hafa þessi mál verið tekin til sérstakrar athugunar. Á Seyðisfirði er núna rekin heilsugæsla í nýrri byggingu sem starfrækt er í tengslum við gamla sjúkrahúsið á Seyðisfirði — og mætti kannski spyrja hæstv. ráðherra í leiðinni hvernig það stendur. Á ekki að fara að flytja úr gamla sjúkrahúsinu á Seyðisfirði, sérstaklega efri hæðinni? Ef hv. þm. hafa áhuga á að kynna sér það þá hygg ég að það væri fróðlegt að fara í skoðunarferð á efri hæðina í gamla spítalanum á Seyðisfirði. Það held ég að sé satt að segja með því lakara sem gerist í aðbúnaði að starfsliði heilbrigðisþjónustunnar hér í okkar landi. Á Hornafirði hefur verið reist heilsugæslustöð eftir þessum nýjum lögum.

Á Suðurlandi hefur einnig verið tekið allmyndarlega á þessum málum. Það hefur risið H-1 stöð á Kirkjubæjarklaustri, H-1 stöð í Vík í Mýrdal, H-1 stöð á Hvolsvelli, sömuleiðis á Hellu. Í Laugarási er H-2 stöð. Á Selfossi er um að ræða allmyndarlega heilsugæslustarfsemi. Og þessir þættir hafa verið að lagast á stöðum eins og Stokkseyri, Eyrarbakka, Þorlákshöfn og í Hveragerði.

Í Reykjaneskjördæmi hefur jafnvel verið tekið allmyndarlega til hendinni, t. d. í Keflavík og sama er að segja um Seltjarnarnes og Mosfellssveit, þar sem heilsugæslan er starfrækt með vissum tengslum við sjúkrahúsin. Grindavík hefur verið opnuð fyrir nýtt H-1 svæði, en hún var áður undir Keflavík.

Og þannig er það allt í kringum landið, herra forseti, að það hefur verið tekið myndarlega á þessum málum og þm. Reykjavíkurkjördæmis hafa auðvitað eins og aðrir stutt þessa þróun. Ég bendi á að þm. Reykjavíkurkjördæmis gegndi starfi heilbr.og trmrh. 1973 þegar lögin voru sett fyrst og sömuleiðis þegar lögin voru endurskoðuð 1981–1982.

Í lögunum frá 1983 var hins vegar tekin um það ákvörðun að fella út þennan forgang landsbyggðarinnar með tilliti til þess að þá var talið óhjákvæmilegt að leggja á það áherslu að þéttbýlið, þ.e. Reykjavíkursvæðið, yrði líka dregið inn í þessa nýju heilsugæslustefnu. Þetta var ekki gert að óathuguðu máli. Undirbúningur að þessu hafði staðið yfir mjög lengi og m.a. beitti ég mér fyrir því þegar ég gegndi starfi heilbrrh. að það náðust samningar milli Læknafélags Reykjavíkur, Sjúkrasamlags Reykjavíkur, fjmrn., Reykjavíkurborgar og heilbrrn. um fyrirkomulag heilbrigðisþjónustu í Reykjavík á þeim tíma þegar hún væri að þróast frá hinu gamla heimilislæknakerfi yfir til nýja heilsugæslukerfisins. Frá þessum samningi var gengið snemma á árinu 1983 og þess vegna var meiningin að þetta nýja kerfi tæki gildi frá og með áramótum 1984.

Matthías Bjarnason, hæstv. heilbr.- og trmrh., kaus hins vegar að koma hingað til þingsins haustið 1983 og óska eftir framlengingu á gamla kerfinu í Reykjavík í eitt ár í viðbót. Og ég man eftir að þegar ég sá þetta frv. hér fyrst, þá hugsaði ég með mér: Ja, það er sjálfsagt að styðja þetta. Ráðherrann er nýkominn til starfa og vill setja sig betur inn í málin og ég man ekki hvort ég lét mig hafa það m.a.s. að sitja hjá við meðferð málsins haustið 1983.

Hæstv. þáv, heilbrrh. kaus hins vegar að setja nefnd í málið og þá var farið að þvæla inn í nefndina þessu venjulega einkahyggjurausi íhaldsins að það þyrfti nú að opna fyrir blessað frjálsa framtakið í þessu líka þannig að það væri hægt að stofna svona eins konar einkaheilsugæslustöðvar. Þetta var á þessum árum þegar þessi hugmyndafræði einka, einka tröllreið hér öllu. Og þegar nefnd hæstv. heilbrrh. skilaði áliti, þá hafði auðvitað verið opnað fyrir það að það væri hægt að opna einhver tengsl yfir á einkapraxís í þessum efnum.

Þessi einkapraxís í heilbrigðisþjónustunni er náttúrlega bara vitleysa, þó að það væri nú ekki nema frá efnahagslegu sjónarmiði, vegna þess að ríkið borgar þetta allt. Allt saman. Hvern einasta reikning sem þarna er um að ræða jafnvel þó að menn séu að opna einhverjar prívatstofur. Reyndar er það þannig að hér í miðborg Reykjavíkur og um allan Laugaveginn eru svo að segja opnir kranar út úr ríkissjóði þar sem sérfræðingar af margvíslegum toga skrifa út reikninga á Tryggingastofnun ríkisins og hún borgar svo að ríkið hefur ekkert eftirlit með. Þetta heitir einka og þetta er gott. En hitt, það sem er á félagslegum grunni þykir vont, af því að það er ekki hægt að bæta einka þar fyrir framan. Og þetta einkakast var hæstv. þáv. heilbrrh., Matthíasi Bjarnasyni, fjötur um fót. Hann kom ekki á heilsugæslukerfinu í Reykjavík. Svo lentu Reykvíkingar í þessum efnum eins og aðrir landsmenn í því — var það ekki haustið 1985? — að allt í einu þurfti að hrókfæra til í stólum hjá íhaldinu. Það þurfti að koma Þorsteini inn í stjórn og færa Albert til. Niðurstaðan varð sú að heilbrrn. varð hálfpartinn munaðarlaust á ný, endaði með því að hæstv. fyrrv. menntmrh. tók að sér heilbrrn. og enn var kominn nýr maður í heilbrrn. Og enn kemur hún hér haustið 1985 með frv. inn í þingið, í desember það ár rétt fyrir jól: Við framlengjum þetta í Reykjavík einu sinni enn og ég set nefnd í málið.

Þá tók ég þá afstöðu að vera andvígur þessu frv. vegna þess að ég taldi að þetta væri bara leikur til að seinka því að heilsugæslukerfið nýja kæmist á í Reykjavík og væri þess vegna best að stilla ráðherranum upp við þann vegg að hann yrði að framkvæma hið nýja kerfi frá og með áramótunum 1986 og hann hefði alla stöðu til þess að gera það. Þess vegna væri það honum fyrir bestu eða stefnunni í heilbrigðismálum og heilbrrn. að þessi lög, þessi undanþáguákvæði yrðu ekki framlengd. Ofan á varð það nú samt að framlengja þetta haustið 1985, en ráðherrann ætlaði að koma haustið 1986 og vera búinn að kippa þessu í liðinn þegar hún var búin að sitja í u.þ.b. eitt ár. En viti menn. Þegar hæstv. þáv. ráðherra kemur hér inn í þingið í desember, að ég held 1986, og ég fyrir mitt leyti var alveg búinn að gera það upp við mig að ráðherrann væri hættur við að framlengja þetta, nei, nei, kemur hér á harðahlaupum einhvern tíma um miðjan desember, á aðventunni og enn þá einu sinni á ... (SkA: Hvernig var þetta með jólaföstuna hérna í gamla daga? ...) Já, eigum við ekki bara að ákveða það í þingsköpum, á jólaföstunni. (EG: Er ekki rétt þið gerið þetta upp í þingflokknum bara?) Þetta er flókið mál, hv. þm., og ástæða til að ræða það ítarlega. En hvort heldur sem við notum — en skulum segja á jólaföstunni vegna þess að ég tek tillit til Skúla og mér eldri og reyndari manna á þessu sviði eins og öðrum — þá gerist það á jólaföstu miðri að hæstv. heilbrrh. kemur hér inn og enn þá einu sinni með framlengingu á þessu. Ég lagðist þá gegn því að þetta yrði framlengt af sömu ástæðum og haustið 1985 vegna þess að ég taldi að þetta ætti ekki að gera, þetta væri óþarfi og það væri langbest fyrir heilbrrn. að hafa málið áfram þannig að engin undanþágulög væru samþykkt.

Ég get ekki neitað því að afstaða mín í þessu máli haustin 1985 og 1986 og á þessum árum var á þessum árum pínulítið blendin. Hún var pínulítið blendin vegna þess að ég treysti þeim mjög illa, ráðherrum íhaldsins í heilbrrn. til að leiða þetta mál farsællega til lykta. Ég hugsaði sem svo: Úr því að þeir ekki ganga í þetta eftir samningnum sem gerður var 1982–1983, þá er kannski allt í lagi að láta þá um það að hafa bara gamla kerfið frekar en fela þeim, miðað við þá hugmyndafræði sem þeir byggja á, að fara yfir í nýja kerfið.

Síðan gerist það að það eru kosningar og stjórnarskipti og ágætur maður sest á stól heilbr.- og trmrh. A.m.k. hefði verið völ á mikið verri mönnum í stjórnarliðinu en hæstv. núv. heilbr.- og trmrh., mikið verri mönnum. Satt að segja er það þannig að þegar maður er búinn að vinna dálítinn tíma í ráðuneyti, þrjú til fjögur ár eins og ég gerði, þá þykir manni dálítið vænt um málaflokkinn og er ekki alveg sama um hverjir eru settir þarna inn. Ég hefði haft miklar áhyggjur af því ef eitthvað af þessum frjálshyggjugaurum í Sjálfstfl. hefði farið þarna inn. en svona félagslega sinnaðir, hæfilega íhaldssamir menn eins og ég vilja gjarnan að þarna séu menn með nokkra víðsýni sem taki tillit til allra átta. Og það hefði verið ofboðslegt ef það hefði verið farið að einkavæða heilbrigðisþjónustuna. Það hefði verið alveg rosalegt. En sem betur fer erum við núna með heilbrrh. sem er ekki með neinar slíkar hugmyndir, hefur ekki einu sinni samið frv. um sjúklingaskatt eins og forverar hans gerðu, þ.e. hæstv. fyrrv. heilbrrh. Matthías Bjarnason. Þannig að ég verð að hryggja ráðherrann með því að mér líkaði það sæmilega miðað við allar aðstæður að hann skyldi lenda þarna, en auðvitað er honum frjálst hér í umræðum að bera af sér hól ef honum líkar það illa að sitja undir svona lestri af minni hálfu.

Ég var satt að segja þá að gera mér vissar vonir um það að hann mundi láta þar við sitja í þessum málum sem varða Reykjavík og mundi reyna að hjálpa okkur við það að koma á þessu heilsugæslukerfi hér í borginni. Nú getur hann auðvitað komið hér á eftir og sagt: Ég hef setið stutt. Ég þekki málið lítið. Ég segi við hann: Hann þekkir málið alveg nógu vel. Ég veit það. Hann þekkir málið alveg nógu vel. Embættisliðið í ráðuneytinu þekkir málið alveg nógu vel. Það er auðvitað ekki viðkunnanlegt að vera að blaðra um viðhorf embættismanna í ráðuneytum, en ég get fullvissað ráðherrann um það að embættismenn í heilbr.- og trmrn. mundu styðja það með mikilli gleði að nýja heilsugæslukerfið yrði tekið upp í Reykjavík. Með mikilli gleði.

Þess vegna held ég að það væri ráðherranum fyrir bestu að geta sagt núna undir hátíðarnar: Ég reyndi. Ég fékk ekki frv. í gegn. Það var stoppað. Ég reyndi og það verður bara að koma á þessu nýja kerfi.

Þetta er ég ekki að segja af neinum flokkspólitískum ástæðum, herra forseti. Mér liggur við að segja að það komi mér ekki við í þessu efni. Ég er að segja þetta vegna þess að ég held að það sé heilbrigðisþjónustunni fyrir bestu að heilbrigðiskerfið eða heilsugæslukerfið sé eins eða svipað um allt land að því er varðar rekstrarforsendur, launagreiðslur og aðrar slíkar aðstæður.

Staðreyndin er sú að eftir þá miklu uppbyggingu sem átt hefur sér stað í heilsugæslukerfinu á undanförnum árum þá er það orðið þannig að það er óvíða lakari heilsugæsla en í Reykjavík. Hún er satt að segja alveg hörmung. Hún er algjör hörmung. Það eru þúsundir manna hér í Reykjavík sem eru heimilislæknislausir, vita ekkert hvert þeir eiga að leita ef veikindi ber að garði. Ég er t.d. einn þeirra Reykvíkinga sem hef ekki haft heimilislækni um langt árabil, nýt þess eins og margir menn af mínum toga að ég á fullt af vinum og kunningjum í þessari þjónustu sem hjálpa til ef eitthvað kemur upp á. En það eru þúsundir Reykvíkinga sem stendur illa á fyrir í þessu efni og vita ekkert hvert þeir eiga að leita ef einhver vandamál koma upp á heimilum þeirra, hafa ekki hugmynd um það vegna þess að þeir hafa engan heimilislækni og þar fram eftir götunum.

Borgarstjórnaríhaldið hefur auðvitað engan áhuga haft á þessu máli, ekki nokkurn áhuga og hefur verið guðsfegið að losna við þessar heilsugæslustöðvar í raun og veru þó að þeir láti annað í veðri vaka. Borgarstjórnaríhaldið hér hefur þó verið pínt til þess að fara nokkuð inn á þessa braut. Það eru komnar upp nokkrar heilsugæslustöðvar í Reykjavík. Ein var t.d. byggð í samvinnu við Seltirninga. Síðan er um að ræða heilsugæslustöð í Breiðholti og sömuleiðis í Árbæjarhverfi og sömuleiðis er um að ræða undirbúning að heilsugæslustöð hér á Vesturgötunni og það hefur verið opnuð heilsugæslustöð í Borgarspítalanum. Það hefur verið opnuð heilsugæslustöð með einum lækni í gömlu heilsuverndarstöðinni. (EgJ: Er þetta málþóf eða hvað?) Hvað sagði hv. þm.? (EgJ: Ég sagði hvort þetta væri málþóf. Ég var að tala við þennan mann.) Já, það er akkúrat það.

Það er nefnilega svo sérkennilegt, hv. þm. Egill Jónsson, með þessar umræður hér síðustu dagana að ef það væri mælt t.d. úr umræðum um vörugjald og söluskatt, sem við skulum bregða okkur inn í augnablik, herra forseti, án þess að það taki nú of langan tíma, því að það er auðvitað heilbrigðismál í raun og veru. (Heilbr.- og trmrh.: Ég á ekki að fara í mat á meðan, hv. þm.?) Ja, það er kannski eins gott fyrir þig að éta núna mikið fyrir áramótin, því að matarskatturinn sem þú ert að leggja á, kemur á eftir áramótin. En það er þannig, (Forseti: Ég vil biðja menn að vera ekki með samtöl hér inni.) Ég skal ekki vera með samtöl, hæstv. forseti, vandinn er með hæstv. ráðherra, þeir eru alltaf að grípa fram í. En ég er ekki að kvarta undan því, hæstv. forseti. Ég hef gaman af því að eiga svona frjálslegar orðræður við menn hér í salnum og alveg ástæðulaust að vera að halda sig við mjög stíf fundarsköp hér í þessari huggulegu deild.

Þannig er, hv. þm. Egill Jónsson, að ef það væri mælt hvað menn hafa talað mikið og lítið hér í þessari deild þá hygg ég að það sé alveg ótvírætt að stjórnarliðið eigi þar algjöran vinning. Málþófið sem Alþfl. hélt uppi í umræðum um skattana hér eitt kvöldið á dögunum var alveg með ólíkindum. Alveg með ólíkindum.

Ég var að ræða hér um heilbrigðisþjónustuna í Reykjavík og nefndi að það er búið að stofna hér nokkrar heilsugæslustöðvar. Ég held ég hafi ekki náð að telja þær allar upp. Ég hygg að ég hafi átt eftir að nefna heilsugæslustöðina við Drápuhlíð. En að öðru leyti er það alveg ljóst að enn þá vantar verulega á það að tekist hafi að byggja þetta upp hér í Reykjavík.

Borgarstjórnaríhaldið kennir ríkisstjórninni um og segir: Við fáum enga peninga úr ríkissjóði. Það er alveg rétt. Það hafa fengist mjög litlir peningar úr ríkissjóði í þetta. Framlögin á þessu ári, 1988 — það voru ævintýralegar tölur sem við sáum um það efni. (Gripið fram í.) Það voru 9 millj. kr., ef ég man rétt, sem átti að verja til heilsugæslunnar í Reykjavík samtals á árinu 1988. Síðan fór hæstv. iðnrh. í það sem 1. þm. Reykv. að reyna að ná samkomulagi við fjmrh. um það að laga þetta og það hefur tekist, er mér sagt, og við getum athugað það betur við 3. umr. um fjárlög. En allt um það, þá er það ljóst að uppbygging heilbrigðisþjónustunnar hér í Reykjavík hefur dregist og þar hefur staðið á tvennu. Í fyrsta lagi þessum hugmyndafræðilegu stíflum sem eru í Sjálfstfl. Þær hafa verið meginhindrunin og það hefur birst bæði ríkismegin og borgarmegin. Af þeim ástæðum hefur borgarstjórn Reykjavíkur ekki haft eins mikinn áhuga á því að byggja þetta upp eins og vera þyrfti og ríkið hefur svo notað sér þetta og sagt: Borgarstjórnin er ekki tilbúin. Þannig hefur í raun og veru hver aðilinn brugðið fæti fyrir annan í þessu og niðurstaðan er sú að heilbrigðisþjónustan í Reykjavík er sennilega lakari en víða annars staðar á landinu og er ég þá ekki að fara í neinn héraðajöfnuð í þessu efni. Við eigum að hafa góða heilbrigðisþjónustu í landinu öllu. Því að góð heilbrigðisþjónusta er byggðamál. Góð heilbrigðisþjónusta er reyndar að mínu mati líka talsvert sjálfstæðismál, að við eigum hér sæmilega heilbrigðisþjónustu þannig að fólkið hér búi við tiltölulega gott öryggi í heilbrigðismálum í þessu landi.

Ekki hefur það hvarflað að mér, herra forseti, að setja á einhverja almenna umræðu um heilbrigðismál hér. Það hefur mér ekki dottið í hug. Mig langaði aðeins að ræða lítillega þennan mjög takmarkaða þátt heilbrigðisþjónustunnar sem lýtur að uppbyggingu heilsugæslunnar hér í þéttbýlinu. Það væri auðvitað full ástæða til að fara mikið víðar út í heilbrigðismálin, stefnuna í heilbrigðismálum. Ég heyri það sagt að hæstv. heilbrrh. sé að fara að halda heilbrigðisþing. Það var ákveðið með lögum sem ég beitti mér fyrir 1982 og beitti mér reyndar fyrir því að fyrsta og eina heilbrigðisþingið var haldið sem haldið hefur verið á Íslandi. Ég fagna því að hæstv. ráðherra er að halda þessa samkomu. Ég vil spyrja hann að því í fullri vinsemd hvort það er ekki hugsanlegt að þm. sem hafa áhuga á heilbrigðismálum fái að vera þar því að þessi áhugi sem maður fékk á þessum tíma yfirgefur mann satt að segja ekki svo glatt. Ég vil þess vegna ráðleggja ráðherranum það hér og nú að hætta við að reyna að afgreiða þetta mál og segja síðan við borgarstjórnaríhaldið í Reykjavík núna bak jólum: Ég fékk þetta ekki í gegn. Þetta er allt ómögulegt og við verðum bara að koma á nýja heilsugæslukerfinu í Reykjavík. Það er ekkert annað að gera. Og ég er sannfærður um það að í núv. ríkisstjórn hefur hæstv. heilbrrh. ágætan stuðning í þessu efni, þ.e. frá þm. Alþfl.

Ég veit það að Alþfl. hefur í borgarstjórn Reykjavíkur haft þá stefnu að það ætti að knýja á um nýja heilsugæslukerfið. Og ég veit það að 1. þm. Alþfl. í Reykjavíkurkjördæmi, þó að hann búi að vísu á Seltjarnarnesi að ég best veit — (Gripið fram í.) Já, það er sama heilsugæsluumdæmið, akkúrat, þannig að þetta er auðvitað sama málið, hæstv. ráðherra, það er rétt. Ég veit það að þessir þm. Alþfl. í Reykjavík hljóta að hafa gefið þessu máli auga og ég vil skora á þá að veita hæstv. heilbrrh. allan hugsanlegan stuðning í glímunni við íhaldið í þessu efni til að tryggja það að Reykvíkingar fái heilsugæslukerfi eins og aðrir landsmenn eða a.m.k. ekki mikið lakara. Og ég hygg að það væri ekki óviðeigandi að spyrja hæstv. viðskrh. sem er 1. þm. Alþfl. í Reykjavík um skoðanir hans á þessum heilsugæslumálum hér í Reykjavík, hvort hann vill framlengja gamla kerfið eins og íhaldið gerði allt síðasta kjörtímabil eða hvort menn vilja taka á þessum málum með nýjum hætti. Ég tel að það skipti mjög verulegu máli að fá það upp. Ég trúi því ekki að Alþfl. hafi skipt um skoðun í þessu frá því sem verið hefur um 10–15 ára skeið.

Ég gæti flett upp miklum umræðum um þessi mál í borgarstjórn Reykjavíkur sem t.d. menn eins og Óskar Hallgrímsson, Björgvin Guðmundsson, Sigurður Guðmundsson, Sjöfn Sigurbjörnsdóttir og fleiri alþýðuflokksmenn hafa haft forustu um á undanförnum árum. Ég held því að óhjákvæmilegt sé að vita hvort þetta er í raun og veru stjfrv., hvort þetta er kannski eins og hin stjfrv. mörg sem hafa komið fram að menn hafi fyrirvara um þessa grein og fyrirvara um hina þannig að þetta sé ekki neitt alvörustjórnarfrv.

Ég legg þess vegna til, herra forseti, í fyrsta lagi að hæstv. heilbrrh. dragi málið til baka og í öðru lagi legg ég til að málið verði fellt og þannig verði heilbrrn. knúið til þess að fara í viðræður við borgarstjórn Reykjavíkur um þessi mál núna strax bak jólum svo að ekki verði nokkur vafi á því að Reykvíkingar geti eignast heilsugæslukerfi ekki lakara en það sem gerist hér í kringum okkur.

Herra forseti. Ég vildi segja hér um þetta mál fáein orð, gæti sagt ýmislegt fleira. Ég bíð spenntur eftir svörum hæstv. heilbrrh. og hæstv. viðskrh. við þeim spurningum sem ég hef borið fram. Það er auðvitað tími til að ræða þetta mál ítarlega við 2. umr. málsins ef þetta kemur þá einhvern tíma úr nefnd, en ég læt máli mínu lokið. Ég vildi tjá deildinni áhyggjur mínar af þessu máli og óska eftir því við hæstv. ráðherra að hann dragi það til baka. Það er Reykvíkingum fyrir bestu og það er heilbrrh. líka fyrir bestu, herra forseti.