18.12.1987
Efri deild: 29. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2512 í B-deild Alþingistíðinda. (1858)

125. mál, staðgreiðsla opinberra gjalda

Frsm. fjh.- og viðskn. (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Ég gleymdi að geta þess að auðvitað er enginn ágreiningur um það í nefndinni að nauðsynlegt er að kynna þetta sem best, en það er ekki þess vegna sem ég kvaddi mér hljóðs heldur af þeirri ástæðu að ég vil að það komi skýrt fram að meiri hl. nefndarinnar hefur enga ástæðu til að ætla að vasapeningar öryrkja og aldraðra á dvalarheimilum séu skertir. En við munum að sjálfsögðu athuga það. Skattleysismörkin munu hækka samkvæmt staðgreiðslunni þannig að það á ekki að geta gerst og við vonum að það hafi ekki komið til skv. núgildandi skattalögum eins og framkvæmdin hefur verið á þessu ári að þessir vasapeningar hafi verið skertir, en það er sjálfsagt að athuga hvort einhver vitleysa af því tagi leynist í skattkerfinu og þá ætti hún ekki síður að vera á þessu ári og því næsta og verður að sjálfsögðu gerður reki að því að ganga úr skugga um að ekki sé gengið á rétt þessa fólks.