18.12.1987
Efri deild: 30. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2528 í B-deild Alþingistíðinda. (1903)

197. mál, vörugjald

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Áður en lokaatkvgr. fer fram tel ég rétt að vekja athygli á tæknilegu atriði, þ.e. á 12. gr. frv. þar sem gert er ráð fyrir að afnema ýmiss konar smágjöld og reyndar stór líka eins og sérstaka tímabundna vörugjaldið. Það er alveg ljóst að þeir hv. þm. sem kunna að greiða atkvæði gegn þessu frv. gera það þá vegna þess að þeir telja of í lagt með skattlagningum þeim öllum saman sem hér eru til umræðu og telja þess vegna að þetta frv. eigi ekki að afgreiða með samþykkt. Þar af leiðir auðvitað að þingmeirihluti er þá fyrir því að breyta eða afnema þessi lög sem getur í 12. gr. og er mjög einfalt mál að gera það. Þar að auki er það yfirlýst stefna ríkisstjórnarinnar að einfalda málin. Þannig segir t.d. fyrsta setningin í athugasemdum við lagafrv. þetta, með leyfi forseta:

„Endurskoðun á tekjuöflunarkerfi ríkissjóðs er lykilatriði í stefnu ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum.“

Það er því auðvelt mál að afnema þessar slitrur úr gömlum lögum ef frv. þetta yrði fellt. Ég taldi ekki ástæðu til að fara út í þessa sálma við efnislega umræðu um málið, tel það miklu eðlilegra að það komi fram hér við umræðuna áður en atkvæði eru greidd.