18.12.1987
Efri deild: 30. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2533 í B-deild Alþingistíðinda. (1916)

206. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ýmsar af þeim tillögum, sem eru í þessu frv. hæstv. ríkisstjórnar varðandi skatta á fyrirtæki, hafa verið fluttar áður í þessari deild á þessu hausti. Það eru tillögur um breytingu á frádrætti vegna vörubirgða í árslok og tillögur um að draga úr framlögum í fjárfestingarsjóði og varasjóði. Ég fagna því að ríkisstjórnin skuli hafa tekið þannig upp hluta af þeim tillögum sem Alþb. lagði fram í þingmáli nr. 8 og 9 trúi ég snemma í haust um frádráttarheimildir fyrirtækja fyrir álagningu tekjuskatts.

Ég hef að sjálfsögðu eitt og annað við þetta frv. að athuga, þó fyrst og fremst að það hefði verið hægt að láta það gefa nokkru meira af sér en gert er ráð fyrir í uppsetningu frv. Það eru litlar 150 millj. sem hæstv. ráðherra telur sig ná út úr fyrirtækjunum í viðbót með frv. Ég tel reyndar líklegt að hæstv. ráðherra reyni að hafa nokkurt hóf á útreikningi og áætlunum um það efni af ýmsum ástæðum. Í fyrsta lagi vegna þess að óvissan er nokkur og í öðru lagi vegna þess að hann vill kannski ógjarnan sýna þm. Sjálfstfl. þær tekjur sem þetta gæti hugsanlega gefið í besta falli vegna þess að ég hef grun um það, miðað við þau orð sem af þeirra hálfu hafa fallið á fyrri árum, að þeim líki misvel að þetta frv. verði að lögum.

Ég vil í annan stað lýsa því yfir að ég mun flytja brtt. varðandi fleiri þætti í frádráttum fyrirtækja. Sérstaklega er það varðandi útistandandi viðskiptaskuldir í árslok, sem ég tel að þurfi að taka með öðrum hætti, og einnig varðandi risnu fyrirtækja og í þriðja lagi tel ég að sú skattaprósenta fyrirtækja, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., sé í raun og veru lægri en skattaprósenta einstaklinganna miðað við að fyrirtækin eru að borga eftiráskatt en einstaklingarnir staðgreiðsluskatt. Ég miða þá að sjálfsögðu ekki við hina björtu spá Seðlabankans um verðbólgu á árinu 1988, ég dreg satt að segja mjög í efa að hún standist, heldur miða ég við þær forsendur sem hver sæmilega reikningsglöggur maður getur séð að líklegastar eru varðandi verðlagsþróun á árinu 1988. Því tel ég að eðlilegt væri að hafa skattaprósentu fyrirtækjanna nokkru hærri en þarna er gert ráð fyrir og með þessum þremur breytingum, sem ég mun gera tillögur um á frv. þessu, sýnist mér líklegt að það gæti gefið talsvert meira en þær 150 millj. sem fjmrh. telur í hógværum útreikningum sínum að sé gert ráð fyrir að út úr þessu komi. Ég sem sagt tel að þetta sé lítið skref í rétta átt og stóð upp til að lýsa því yfir og jafnframt þeim hugmyndum sem ég hef um að gera brtt. við frv. þetta.