18.12.1987
Neðri deild: 30. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2541 í B-deild Alþingistíðinda. (1942)

Uppprentun þingskjala

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég vil vekja athygli hæstv. forseta á því að síðdegis í gær var dreift í deildinni þskj. 254, prentuðu upp, þ.e. breyt. á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, og þetta mál fór hér út úr hv. Nd. fyrir stuttu og á þingskjalinu, sem prentað hefur verið upp, stendur að það sé eftir 2. umr. í Nd. 12. des. Ég var aðeins að bera saman þessi þingskjöl sem afgreidd voru út úr deildinni varðandi þetta mál og þetta uppprentaða þingskjal og þar kemur í ljós að bætt hefur verið inn orði og brotastriki í 3. gr. frv. þar sem segir:

„Úthlutun lána til þeirra sem eru að byggja eða kaupa íbúð í fyrsta sinn, svo og lána til meiri háttar viðbygginga, endurbóta eða orkusparnaðar, skal ganga fyrir úthlutun lána til þeirra sem eiga íbúð fyrir og skulu fyrrnefnd lán afgreidd í sömu röð og umsóknir berast og/eða íbúðir verða veðhæfar.“

Þarna er skotið inn „og/" á undan eða. Þetta var ekki í neinum af þeim þinggögnum sem lágu hér fyrir í hv. deild og ég vil biðja virðulegan forseta að láta kanna hvort um efnisbreytingu sé að ræða. Ég átta mig ekki á því í fljótu bragði en sýnist að þó kunni svo að vera og þá náttúrlega gengur ekki að afgreiða mál með því að prenta upp þingskjöl eftir að þau eru farin út úr deildinni til hv. Ed. og þarf að kanna málið nánar. Ég vil ekki staðhæfa að þetta sé efnisleg breyting, en mér finnst nauðsynlegt að gengið sé úr skugga um það og treysti því að hæstv. forseti kanni það mál efnislega.