18.12.1987
Neðri deild: 30. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2573 í B-deild Alþingistíðinda. (1978)

137. mál, launaskattur

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Ég vil hefja mál mitt með því að þakka hæstv. forseta fyrir sanngjarna niðurstöðu í mati á þessu máli í framhaldi af umræðu um þingsköp sem hófust undir lok 2. umr. að mati hæstv. forseta. Ég tel að hæstv. forseti hafi komist að skynsamlegri og sanngjarnri niðurstöðu eftir að hafa hlýtt á það af upptöku sem gerðist hér um það leyti sem hann hugðist slíta þessari umræðu. Ég tel að það skipti miklu að milli virðulegs forseta þessarar deildar og okkar þingmanna sé sem best samstarf og ég veit að áhugi virðulegs forseta er á því, enda hef ég ekki reynt hann að öðru en sanngirni í samskiptum þangað til svolítið sló í brýnu okkar á milli áðan að því ég taldi af gefnu tilefni og það sýnir sig að það var ekki ástæðulaust. Það er mjög þýðingarmikið fyrir okkur þm. að halda á okkar rétti annars vegar jafnframt því sem hæstv. forseti tryggir eðlilega stjórnun þinghaldsins hér í hv. deild og að þingsköp séu haldin. Fyrir niðurstöðuna þakka ég virðulegum forseta og mun nú hefja mitt mál um frv. sem er til umræðu, frv. um launaskatt, og nota minn rétt til þátttöku í þeirri umræðu. Síðan reynir auðvitað á það hvort áhugi er á því af hálfu annarra hv. þm. að halda henni áfram.

En ég vil hér byrja á því að skýra frekar hvers vegna við þm. Alþb. og fleiri, sem höfum tekið þátt í þessari umræðu, höfum séð ástæðu til að inna hæstv. ráðherra eftir þeirra viðhorfum, bæði og alveg sérstaklega hæstv. fjmrh. sem er flm. þessa máls af hálfu ríkisstjórnarinnar, svo og ráðherra atvinnumála og hæstv. forsrh. vegna þess breytta ástands sem við blasir og hæstv. ríkisstjórn ekki vefengir í orði, enda studd gildum rökum. Við höfum viljað fá svör frá hæstv. ráðherrum um það í hvaða samhengi þeir sjá flutning þessara þingmála um aukna skattheimtu og auknar álögur á undirstöðuatvinnuvegi landsmanna á sama tíma og ljóst er að þeir eru að sigla í strand vegna hallareksturs, vegna þess hvernig ytri aðstæður hafa þróast og vegna þess hvernig að þeim er búið af hálfu ríkisstjórnarinnar og væri það eitt út af fyrir sig mál til umræðu að fjalla um hvernig hæstv. ríkisstjórn fyrir sitt leyti mismunar atvinnugreinum í landinu. Ég nefni það hér vegna þess að hér hefur í umræðu um þetta mál verið sérstaklega rætt um jöfnun starfsskilyrða atvinnuveganna. Ég tel að því markmiði sé engan veginn náð með þeim álögum sem hér er stefnt að með álagningu launaskatts á samkeppnisiðnað og fiskvinnslu sem tengist útflutningi sjávarafurða og ég vek athygli á þeim sérstæða skilningi sem kom fram í máli hæstv. iðnrh. fyrr við umræður á því hvernig slíkri jöfnun starfsskilyrða atvinnuveganna verði helst náð.

Hæstv. iðnrh. tók þátt í umræðum og er raunar eini ráðherrann sem hefur kvatt sér hljóðs í 2. umr. og raunar var það enginn annar en hann og hæstv. fjmrh., sem mælti fyrir málinu við 1. umr., sem hafa gefið sig fram til að ræða þetta stóra og alvarlega mái, sem hér er á dagskrá, en í máli hæstv. iðnrh. kom fram það viðhorf að til að jafna starfsskilyrði atvinnugreina yrði að leggja á þær álögur, nýjar álögur. Ég vek athygli hæstv. ráðherra á því að það er hægt að ná þessu markmiði eftir þeirri leið að minnka álögur ef ástæða er talin til, enda sé það gert að yfirveguðum hætti og út frá því sjónarmiði að jafna starfsskilyrðin. En hæstv. ráðherra taldi að einmitt þessi álagning á nýjum sköttum á samkeppnisiðnað og sjávarútveg væri leiðin og nánast eina leiðin mátti skilja til þess að jafna starfsskilyrðin. Ég andmæli þessum skilningi og ég vil jafnframt rifja það upp, vegna þess að hæstv. iðnrh. var með vissar athugasemdir að ég segi nú ekki dylgjur í garð Alþb. í sambandi við viðhorf talsmanna þess til undirstöðuatvinnuvega í landinu, að Alþb. beitti sér fyrir því sem aðili að ríkisstjórn 1980–1983 að tekið var sérstaklega á þessu máli, enda um það samið í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar dr. Gunnars Thoroddsens að farið yrði yfir þessi efni, jöfnun starfsskilyrða atvinnuveganna. Og ég taldi þörf á því sem iðnrh. á þeim tíma að ýta á eftir þeirri vinnu og gerði það eftir því sem ég gat, m.a. út frá hagsmunum iðnaðarins sem þarna áttu ekki síst hagsmuna að gæta og talsvert undir að vel tækist til.

Á þessum tíma var starfandi og skipuð að frumkvæði þáv. ríkisstjórnar sérstök nefnd, sem kölluð var starfsskilyrðanefnd, og hún skilaði tveimur gildum álitum sem hæstv. iðnrh. hefur vafalítið kynnt sér og ég tel raunar að hann hafi haft áhuga á þessu máli sem þm. á þessum tíma. Ég minnist þess að þeir sjálfstæðismenn sem þá voru í stjórnarandstöðu gengu ítrekað eftir því hér á hv. Alþingi við þáv. ríkisstjórn og hæstv. forsrh. sérstaklega hvað liði störfum þessarar nefndar, starfsskilyrðanefndar, fóru hér upp utan dagskrár jafnvel eða a.m.k. notuðu tilefnið svo sem þeirra fullur réttur stóð til til að ganga eftir svörum.

Það var lögð fram, virðulegur forseti, þess vegna hef ég tekið þessar bækur með mér, áfangaskýrsla starfsskilyrðanefndar í september 1981, áfangaskýrsla, gilt plagg með miklum upplýsingum um stöðu þessara mála þar sem reynt var að leggja mat á stöðu atvinnuveganna með tilliti til skattlagningar af opinberri hálfu á einstakar atvinnugreinar og ytri skilyrði viðkomandi greina. Síðan skilaði þessi nefnd af sér áliti í skýrslu sem bar heitið „Starfsskilyrði atvinnuveganna“ og gefin var út í janúar 1982 og var lokaálit varðandi það verk sem nefndin hafði þá ætlað sér, en raunar var þessu verki þá ekki að fullu lokið. Það var hins vegar búið að fara yfir starfsskilyrði útflutningsgreinanna sérstaklega og samkeppnisiðnaðarins sem mestu skipti í þessu samhengi. Ég vil benda hv. þm. á það, þegar verið er að ræða þessi mál, að hér er að finna mjög þýðingarmiklar upplýsingar sem snerta þá álagningu sem núv. ríkisstjórn stendur fyrir í sambandi við atvinnuvegi í landinu. Það væri talsvert verk, virðulegur forseti, ef ég ætlaði mér að kynna þingheimi innihaldið í þessum álitsgerðum sem snerta þetta mál, það tæki nokkurn tíma, en þar sem ég veit að langminnugir þm., sem enn sitja hér, eru kunnugir þessu og geta kynnt það og rifjað upp í sínum þingflokkum fyrir hlutaðeigandi, sem síðan hafa komið nýir inn á Alþingi, ætla ég að spara mér það undir þessari umræðu um þetta mál að fara að rifja þetta upp. En auðvitað eru það fjölmörg mál önnur á dagskrá þingsins sem gætu gefið tilefni til þess að við færum aðeins yfir þessa stöðu, litið til baka. Hér er t.d. á dagskrá þessa fundar álagning á skrifstofu- og verslunarhúsnæði sem mér sýnist ekki stefna í þá átt að jafna starfsskilyrði atvinnuveganna með tilliti til rekstrarstöðu og ytri aðbúnaðar. Það er það sem við erum kannski hvað óánægðastir með, þm. í stjórnarandstöðu sem höfum tekið þátt í þessari umræðu og við alþýðubandalagsmenn, en ég þekki auðvitað best til viðhorfa í þeim þingflokki, að það skuli lagt á undirstöðugreinarnar í landinu, sem eru nú að komast í þrot hvað rekstrarstöðu snertir, að það skuli verið að íþyngja þeim með álagningu af þessu tagi á meðan t.d. ekki er aukin álagning á þær greinar sem hafa fríspil í efnahagskerfinu, verslunina í landinu, þjónustugreinar í landinu. Þær skulu áfram fá að búa við sömu álagningu hlutfallslega í sköttum af opinberri hálfu og þær greinar sem nú er þjarmað að vegna breyttra skilyrða og skattastefnu hæstv. ríkisstjórnar.

Hæstv. fjmrh. er nú í símasambandi svona öðrum þræði, en ég ætla að mæla við hann fáein orð og treysti því að hann láti til sín heyra fyrir lok þessarar umræðu. Hann er ekki bara að leggja á launaskatt sem nýjar álögur á sjávarútveginn. Hann er að draga úr, hann er að lækka um helming endurgreiðslu á uppsöfnuðum söluskatti til sjávarútvegsins og auka í rauninni álögurnar á sjávarútveginn svo nemur hundruðum milljóna, líklega á bilinu 500–1000 millj. sem er bein skattheimta eða minnkuð endurgreiðsla af hálfu ríkisins skv. fjárlagafrv. því sem nú liggur fyrir Alþingi. Svo koma hæstv. ráðherrar hér, þá sjaldan þeir taka til máls í umræðum á þingi síðustu daga, og yppa bara öxlum og neita að svara efnislegum spurningum okkar þm. stjórnarandstöðunnar um hvernig ætlað er að bregðast við þessum aðstæðum. Hvernig ætlið þið að bregðast við þessum breyttu aðstæðum hvað snertir útflutningsatvinnuvegi landsmanna og samkeppnisiðnað? Það fást engin svör.

Ég vil vegna samhengis og gangs þessarar umræðu, virðulegi forseti, rifja upp að hæstv. fjmrh. viðstöddum hvernig hlutur hans hefur verið í þessari umræðu. Hann mælir hér í hv. þingdeild í fáeinum orðum sl. miðvikudag fyrir frv. um launaskatt, en hann ætlar að fá litlar 400 millj. kr. inn í ríkissjóð að því samþykktu. Síðan tökum við þátt í þeirri umræðu á rúmum fundatíma virðulegrar deildar sl. miðvikudag, spyrjum viðstadda ráðherra, sem voru nokkrir hér, þar a meðal hæstv. fjmrh., og það fæst ekkert svar. Enginn ráðherra tók þátt í þeirri umræðu frekar. Það var spurt um samhengið í efnahagsráðstöfunum ríkisstjórnarinnar með tilliti til þeirrar skattlagningar sem hér er til umræðu og hæstv. fjmrh. vék úr þingsal fyrir lok umræðunnar og vék sér undan að svara efnislegum fsp.

Nú er málið til 2. umr. Það hefur verið mælt fyrir nál. og hæstv. fjmrh. hefur verið með annan fótinn í þingsal og fleiri ráðherrar komið hér inn fyrir þröskuld, en enginn þeirra að hæstv. iðnrh. frátöldum hefur séð ástæðu til að taka þátt í umræðunum. Sá sem flytur málið inn í þingið, hæstv. fjmrh., hefur engan áhuga á að ræða þetta mál við þm. Hann er bara steinrunninn. Það mætti halda að hann hefði orðið að steini síðustu nætur. Kannski hefur verið þannig að honum þjarmað í hv. Ed.hæstv. ráðherra sé orðinn að gjalti. A.m.k. er hann gersamlega orðlaus og fyrirmunað að biðja um orðið og svara margítrekuðum fsp. þm. úr stjórnarandstöðunni sem hér hafa verið bornar fram. Þetta ber ekki vott um góða samvisku. Og ég lái hæstv. ráðherra út af fyrir sig ekki að hann sé feiminn við að eiga mikinn orðastað við okkur stjórnarandstæðinga.

Það gæti t.d. verið svolítið erfitt fyrir hæstv. fjmrh. að rökstyðja skattaálögurnar sem hér eru á ferðinni í ljósi innihaldsins í þessari gráu bók hérna, sem er stefnuyfirlýsing og starfsáætlun ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar. Það gæti vafist fyrir hæstv. ráðherra, jafnvel þó hann fengi málið, að rökstyðja það, t.d. að heimfæra þetta undir helstu markmið efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar. En svo að ég aðeins leyfi mér að grípa í það efni sem ég hef með í ræðustól og í þessa gráu bók, þessa samstarfsskrá þeirra alþýðuflokksmanna, sjálfstæðismanna og framsóknarmanna sem settust í ráðherrastóla 8. júlí á þessu ári en hafa tollað afskaplega lítið í stólunum í þingsölum a.m.k. það sem af er þingi, segir um helstu markmið efnahagsstefnunnar í upphafi þessarar starfsyfirlýsingar:

„Markmið efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar eru að örva hagvöxt og framfarir í atvinnulífinu á grundvelli aukinnar framleiðni og nýsköpunar, að bæta lífskjör, tryggja jafnvægi í viðskiptum við útlönd, sem stöðugast verðlag og fulla atvinnu.

Þessum markmiðum hyggst ríkisstjórnin ná með því að móta meginreglur um efnahagsleg samskipti og umgjörð atvinnu- og efnahagslífs“ — og hlusti menn nú — „sem tryggi eðlilega samkeppni og samkeppnishæfni íslenskra atvinnuvega. Afskipti ríkisins af einstökum atvinnugreinum og fyrirtækjum verði sem minnst.“ — Hvað er verið að gera hér? — „Með almennum aðgerðum verði skapaðar aðstæður fyrir tækniþróun, aukinn útflutning og fjölbreytni í atvinnulífinu.“

Svo segir síðar í I. kafla um efnahagsstefnu: „Gengisákvarðanir munu miðast við að veita aðhald að verðlagsþróun innanlands og tryggja jafnvægi í utanríkisviðskiptum“.

Og einnig segir: „Ríkisstjórnin stefnir að uppbyggingu öflugs atvinnulífs og menntakerfis sem tryggir hagvöxt til frambúðar.“

Í II. kafla varðandi atvinnuvegina segir m.a., með leyfi forseta:

„Samkeppnisstaða þeirra greina, sem eiga við óeðlilega erlenda samkeppni að etja, verði treyst.“ Og víðar í þessari samstarfsyfirlýsingu eru þættir sem snerta það mál sem hér er til umræðu, rekstrarstöðu atvinnuveganna. Þar segir m.a. að skattlagning skuli ekki mismuna fyrirtækjum eftir rekstrarformum, en það segir ekkert um að það skuli auka skattlagningu á atvinnugreinar í landinu í því samhengi. Ég tel að hæstv. fjmrh. sæki ekki röksemdir fyrir þessu frv. og þessum nýju álögum í þessa gráu bók, síst af öllu ef litið er til þeirra breyttu aðstæðna og þeirra umskipta sem orðið hafa í undirstöðuatvinnuvegum landsmanna.

Það var verið að tortryggja Alþb. í þessu sambandi og málflutning þess. Ég vil í því samhengi nefna það, virðulegur forseti, að þegar Alþb. stóð að efnahagsráðstöfunum við samdráttarskilyrði sumarið 1982, þegar hagur þjóðarbúsins fór hríðversnandi og vegna samdráttar í sjávarútvegi alveg sérstaklega, var það einn þáttur í tillögum Alþb. í ágústmánuði 1982, með leyfi forseta, þannig orðað af okkar hálfu:

„Felldur verði niður launaskattur af iðnaði og fiskvinnslu og með því jafnframt bætt samkeppnisstaða í þessum greinum. Til mótvægis verði lagt á 3% vörugjald á innfluttar og innlendar samkeppnisvörur og renni það til þróunarstarfsemi og skipulagsbreytinga í atvinnuvegunum.“

Þetta voru okkar tillögur þá. Það var ekki undir það tekið, ekki þennan þátt, af hálfu samstarfsaðila í ríkisstjórn þannig að þetta gekk ekki eftir í þeim brbl. sem sett voru snemma ágústmánaðar 1982, en það var lagt á sérstakt vörugjald í staðinn til tekjuöflunar af hálfu ríkisins og til að jafna metin á þeim tíma. En þarna lágu tillögur okkar fyrir að því er varðaði launaskattinn sem hér er nú verið að leggja á eftir að hann hafði verið loks felldur niður fyrir tveimur árum eða svo af stjórnvöldum, þáv. hæstv. ríkisstjórn.

Ég tel, virðulegur forseti, að hæstv. ráðherrum beri skylda til þess hér og nú að greina okkur frá því með hvaða hætti þeir ætla að tryggja markmið sinnar efnahagsstefnu, áframhaldandi fastgengisstefnu, en tryggja væntanlega jafnframt að undirstöðuatvinnuvegir í landinu geti starfað með eðlilegum hætti, það þarf talsvert til, og síðast en ekki síst að það fólk sem býr nú við síversnandi hag vegna verðlagsþróunar m.a. fái bættan hlut sinn, ekki síst það fólk sem starfar við undirstöðuatvinnuvegina í fiskvinnslu og í iðnaði, sem hefur verið lágtekjugrein í þessu landi, kvennastörf að meiri hluta, unnin fyrir hraksmánarlegt endurgjald, með tilliti til þess sem fólki hefur staðið til boða í öðrum greinum vegna efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar, vegna þess hvernig haldið hefur verið á málum í efnahagsmálum af núverandi ríkisstjórn og hinni fyrrverandi.

Og vegna þess að ég nefni það hér að launakjörin t.d. í framleiðsluiðnaði í þessu landi séu lág og með því lægsta sem gerist hlýt ég að undrast að heyra hér hjá hæstv. ráðherrum, eins og hæstv. iðnrh. áðan, að það hafi orðið gífurleg launasprenging. Hann orðaði það með þeim hætti í ræðustól áðan að það hefði orðið gífurleg launasprenging í framleiðsluiðnaði, t.d. í ullarvöruiðnaðinum, sem eigi drjúgan þátt í þeirri versnandi afkomu sem fyrirtæki í þeirri grein nú búa við. Ég vildi gjarnan heyra tölur frá hæstv. ráðherra í þessu sambandi, heyra hann segja okkur frá þessum stóraukna hlut sem konurnar í sauma- og prjónastofum hafa fengið á undanförnum mánuðum og missirum með tilliti til þess sem gerst hefur í öðrum atvinnugreinum. Ég hygg að menn finni þessa yfirlýsingu hæstv. ráðherra ef þeir líta yfir ræðu hans, en hann er nú vikinn af fundi og hæstv. fjmrh. enn og aftur í símanum.

En hvernig væri, virðulegur forseti, af því að við höfum reynt hv. þm. að það er stífla nokkur í símakerfi Alþingis, að við beittum okkur fyrir því a.m.k. að komast í símasamband við hæstv. ráðherra, (HBI: Er ekki hægt að setja síma í ræðustólinn?) að við fengjum síma hérna í ræðustól Alþingis þannig að það yrði kannski hægt að flýta fyrir störfum þingsins á þann hátt að komið yrði fyrir sem bestu símakerfi í ræðustól Alþingis því að þá kannski getum við náð sambandi við hæstv. ráðherra sem eru í símtölum í hliðarherbergjum þegar óskað er eftir viðveru þeirra í þingsal og þátttöku hér í umræðum og miðlað síðan öðrum í hv. Nd. einhverju af þeirri uppskeru sem menn hefðu upp úr samtölum við ráðherrana í síma. Í stólunum hér tolla þeir ekki. Það þekkjum við af eigin raun og sjáum.

En hæstv. fjmrh. Ég vil undir lok míns máls inna þig eftir hvort þér finnst við hæfi, hvort ráðherranum finnst við hæfi að eiga þannig samstarf við hv. þingdeild að neita að taka þátt hér í umræðum um mál sem ráðherrann ber hér fram og ætlar að fá hér lögfest, stórmál, láta við það eitt sitja að slengja því hér inn við 1. umr. og hafna því síðan að eiga orðastað við þm. um efnisatriði málsins og það sem því tengist, efnahagsstöðu atvinnugreinanna sem á að fara að leggja á launaskatt og þær ráðstafanir sem ríkisstjórnin hlýtur að vera farin að móta og þarf að grípa til í einhverju formi til að tryggja hag þeirra atvinnugreina sem hér á að fara að auka á álögurnar? Það verður áreiðanlega eftir því tekið, hæstv. fjmrh., ef þessari umræðu á að ljúka þannig að ekki heyrist orð frá hæstv. ríkisstjórn um með hvaða hætti hún hyggst taka á rekstrarvanda og afkomuskilyrðum atvinnuveganna á einhvern annan hátt en þann að auka álögurnar eins og stefnt er að með þessu frv. sem ríkisstjórnin ber hér fram og kappkostar að knýja fram sem lög fyrir jólahlé þingsins eða skulum við segja áður en árinu lýkur.