18.12.1987
Neðri deild: 30. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2584 í B-deild Alþingistíðinda. (1988)

195. mál, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

Frsm. fjh.- og viðskn. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Það er skemmst frá því að segja að fjh.- og viðskn. mælir með samþykkt þessa frv. þó að einstakir nefndarmenn áskilji sér rétt til að fylgja eða flytja brtt. Undir það rita Páll Pétursson, Geir H. Haarde, Matthías Bjarnason, Kjartan Jóhannsson og Guðmundur G. Þórarinsson og með fyrirvara Kristín Halldórsdóttir og Steingrímur J. Sigfússon.

Þetta frv. er framlenging á gildandi lögum, lögum sem hafa verið framlengd árlega nú um nokkurt skeið. Í tekjuáætlun fjárlagafrv. fyrir árið 1988 er gert ráð fyrir að álagning skattsins nemi 210 millj., en innheimta um 190 millj. að meðtalinni innheimtu á eftirstöðvum fyrri ára.