19.12.1987
Neðri deild: 33. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2721 í B-deild Alþingistíðinda. (2081)

47. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Við alþýðubandalagsmenn höfum leitast við að greiða götu þessa máls í gegnum þingið eftir að mikil átök höfðu orðið um það á stjórnarheimilinu. Við gerum það þótt okkur sé ljóst að frv. þetta leysir aðeins að óverulegu leyti þann mikla vanda sem við er að fást og við blasir í húsnæðislánakerfinu þar sem um 10 þús. manns bíða úrlausnar og fyrir liggur að þeir sem sækja um lán þessa dagana til húsnæðismálastjórnar geta ekki vænst úrlausnar eða greiðslu þaðan fyrr en undir árslok 1990 að sagt er, þannig að biðtíminn er langur.

Frv., sem hér verður væntanlega að lögum, sníður vissa agnúa af gildandi lögum og með tilliti til þess að þarna er um vissa leiðréttingu að ræða og í von um betri tíð í þessum málum segi ég já.