21.10.1987
Neðri deild: 5. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 276 í B-deild Alþingistíðinda. (209)

43. mál, leyfi til slátrunar

Guðmundur G. Þórarinsson:

Herra forseti. Ég harma þær umræður sem hér fóru fram í gær um þetta mál. Ekki það að menn skyldu hefja á Alþingi umræður um slátrun á Bíldudal heldur hitt með hverjum hætti menn fóru orðum um þetta mál. Ég held að landsmenn hljóti að hafa verið felmtri slegnir þegar þeir heyrðu ummæli sumra þm. í Ríkisútvarpinu í gær um þetta mál. Ummæli þm. um dýralæknamafíur og aðrar mafíur færa auðvitað þjóðinni heim sanninn um að sumir þm. láta hér í tilfinningahita falla orð sem þeir eru engan veginn menn til að standa við og vita tæpast hvað þeir eru að tala um. Ég held að það komi ósjálfrátt í hugann sú hugsun að þeir menn hljóti að hafa slæman málstað sem þannig haga málflutningi sínum. Það er enginn vafi á að í umræðunum í gær setti virðingu Alþingis niður.

Allar þær upplýsingar sem ég hef og hef getað aflað mér benda til þess að starfandi yfirdýralæknir, Sigurður Sigurðarson, sé mjög hæfur, öruggur og samviskusamur maður í sínu embætti. Hann hefur auðvitað ákveðnar reglur og ákveðin lög að starfa eftir og honum ber skylda til að fara eftir þeim. Það hefur hann verið að reyna að gera. Ég segi fyrir mig sem neytandi hér í Reykjavík að ég geri þær kröfur til yfirdýralæknis að hann fari eftir þeim reglum um heilbrigðiseftirlit varðandi slátrun og matvörur.

Ég held að menn ættu aðeins að leiða hugann að því að koma að þessu máli frá öðru sjónarhorni. Setjum nú svo að yfirdýralæknir hefði orðalaust heimilað slátrun á Bíldudal og setjum svo að eitthvað hefði nú komið upp, annaðhvort vegna vatnsins eða annarra aðstæðna sem yfirdýralæknir gerir grein fyrir á því blaði sem hv. þm. Páll Pétursson las upp að hluta, setjum svo að eitthvað hefði komið fyrir, einhverjir hefðu fengið magakveisu eða þaðan af verra. Mér kæmi ekki á óvart að jafnvel þeir sömu þm. sem veitast að yfirdýralækni í dag og í gær fyrir hans störf hefðu verið ansi fljótir upp og kennt honum um að sláturleyfi hefði verið veitt við slíkar aðstæður. Það er oft auðvelt að áfellast aðra.

En ég held að það hljóti að vera alveg ljóst að við hér á Alþingi getum ekki tekið að okkur heilbrigðiseftirlit á Bíldudal. Alþm. hafa skipað þessum málum á ákveðinn hátt með reglum og lögum, hversu fram skuli fara. Það hefur verið gert vegna þess að menn hafa talið þá skipan eðlilegasta. En að alþm. sitjandi inni í þessum sal, fjarri hinu líðandi og stríðandi lífi á Bíldudal, sumir kannski aldrei komið til Bíldudals hvað þá heldur að þeir séu kunnugir aðstæðum í sláturhúsinu á Bíldudal, eigi hér þvert ofan í álit sérfræðinga að fara að veita heimildir til slátrunar á staðnum! Ég verð að játa að allur þessi málflutningur kemur mér afar spánskt fyrir sjónir.

Við höfum stundum talað um það hér að Ísland ætti að verða matvælaframleiðsluland í framtíðinni. Auðvitað verður það aldrei nema við gerum harðar gæðakröfur, harðar kröfur um eftirlit, heilbrigðiseftirlit og annað sem þar að lýtur. Og kröfur sem hér hafa komið fram í málflutningi sumra manna sem að þessu máli standa um hraðan gang í gegnum þingið sýna sömu hugsunina og það offors sem komið hefur fram í málflutningi þessara manna. Í rauninni hefði verið réttast að vísa þessu máli frá Alþingi. Alþingi er ekki, þó virðulegt sé, í nokkurri stöðu til að taka að sér dómsvald í þessu máli. Menn vilja kannski ganga svo langt á Alþingi að fara að opna kjúklingasláturhús þó að þar hafi komið upp salmonella eða annað slíkt og leggja niður heilbrigðiseftirlit með þessum stöðum.

Ég er ekki sammála hv. þm. Sighvati Björgvinssyni að þetta mál sé einfalt og skýrt. Ég held að það geti ekki verið það fyrir alþm. sitjandi inni í þessum sal. Þetta er miklu flóknara hvort sem menn líta til frágangs húss, aðstæðna á staðnum, vatnsins eða annars slíks. Ég verð að játa að mér kemur spánskt fyrir sjónir að 1. flm. að þessu frv. skuli vera fyrrv. heilbrmrh. íslenska lýðveldisins. Það kemur mér spánskt fyrir sjónir og þó ekki síður sá málflutningur sem felst í þeirri samsæriskenningu, sem mér finnst hann vera að leggja áherslu á í sínum málflutningi, að hugmyndin að baki þessu sé e.t.v., hann orðaði það einhvern veginn þannig, að þetta hús eigi að drepa. — Þetta hús eigi að drepa! Hvað eru menn að fara með svona málflutningi inni á Alþingi? Hvað eiga menn við? Ja, margur hyggur mig sig. Hverjir hugsa þannig? Ég skil þetta ekki eða þá orð á borð við það að rannsókn þurfi að komast af stað á því hvernig að þessum málum sé staðið. Hvað eiga menn við? Við erum hér með upplýsingar frá starfandi yfirdýralækni um ýmis atriði þar sem tekið er fram að þau séu engan veginn í samræmi við lög eða reglur og það segir í þessari grg., með leyfi forseta:

„Það er ekki að ástæðulausu að héraðsdýralæknar, sem skoðað hafa þetta hús, hafa verið samdóma í áliti sínu og leggja gegn því allir sem einn að þessi vandræðaaðstaða verði notuð lengur til matvælaframleiðslu.“ — Allir sem einn!

Síðan koma menn með það fyrir Alþingi Íslendinga að þingið, statt í Reykjavík, vitandi ekkert um þessar aðstæður, fari að greiða atkvæði um hvort sláturleyfi eigi að veita á Bíldudal.

Ég tel alveg fráleitt að Alþingi Íslendinga taki í slíku máli sem þessu fram fyrir hendur a réttum heilbrigðisyfirvöldum, fjarlægt staðnum og án þess að þekkja aðstæður. Ég treysti því að þetta frv. verði fellt í þinginu.