21.12.1987
Efri deild: 35. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2924 í B-deild Alþingistíðinda. (2136)

181. mál, stjórn fiskveiða

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. 3. þm. Vesturl., sem hann benti á, að ég gegndi ráðherrastörfum í tæplega hálfan áratug. Ég minnist þess ekki að það hafi gerst að það hafi þurft að vekja mig á nóttunni til að taka þátt í störfum þingsins. Ég man ekki betur en ég hafi yfirleitt verið hér á vettvangi þegar mín mál voru til meðferðar.

Ég geri enga kröfu um að hæstv. fjmrh. verði á þessari stundu ræstur út. Ég tek orð hv. 3. þm. Vesturl. gild um þá ákvörðun sem hér er orðin til um það m.a. að láta kvótamálið hafa forgang fram yfir staðgreiðslukerfið. Ég tek orð hans gild um það efni eins og þau hefði mælt hæstv. fjmrh.

Varðandi það hins vegar að stjórnarandstaðan hafi verið að tefja málin, þá er það alger fjarstæða eða að hún hafi stöðvað mörg mál. Hvað er það sem hefur stöðvað hér mörg mál annað en fyrst og fremst að það hefur verið haldið illa á verkstjórn af hálfu hæstv. ríkisstjórnar undanfarna sólarhringa? Það er kjarni málsins. Stjórnarliðar hafa teflt málum fram hver gegn öðrum, kvótanum gegn skattinum og skattinum gegn kvótanum, til að skapa sér samningsstöðu í pólitísku þrátefli milli þessara svokölluðu stjórnarflokka. Það eru þessar ástæður sem valda því að við stöndum hér nú klukkan að ganga fjögur og erum að ræða um mál. Ábyrgðin er öll á hendi stjórnarflokkanna og verkstjórnarinnar á Alþingi. Það hlýtur að vera mikið umhugsunarefni fyrir stjórn þingsins hvort þinginu, þm. og starfsmönnum þessarar stofnunar er ekki beinlínis þegar ofboðið með því vinnuálagi sem hér hefur verið og hvort það kann góðri lukku að stýra til að efla virðingu Alþingis að þannig sé að hlutum staðið.

Svo vill til að ég leit við í hv. Nd. áðan. Ég tók eftir því að hvað eftir annað þurfti að taka þar upp atkvæðagreiðslu vegna þess að menn voru vansvefta og þreyttir og vissu ekki hvað var að gerast. Ég hygg að þeim sem er annt um virðingu Alþingis hljóti einnig að verða hugsað til þess að þau vinnubrögð sem nú eru tíðkuð hér undir forustu þessarar ríkisstjórnar eru ekki til að efla þá virðingu og styrkja.

Til að leggja áherslu á samkomulagsvilja stjórnarandstöðuflokkanna í þessum málum á þessari nóttu hefur það gerst í hv. Nd. að frv. um tekju- og eignarskatt var tekið í gegnum tvær umræður í Nd. og í þær umræður fór ekki mjög mikill tími. Tilgangurinn var sá að reyna að greiða fyrir því að þessi mikilvæga kerfisbreyting, staðgreiðslukerfi skatta, gæti gengið þannig fyrir sig að það yrði ekki þinginu, okkur öllum til skammar. Hvernig halda menn að það líti út gagnvart þjóðinni næstu daga þegar á að fara að ganga frá hlutum sem snerta staðgreiðslukerfi skatta og það er allt í uppnámi vegna þess að menn hafa verið að tefla þrátefli hver á annan milli þessara svokölluðu stjórnarflokka? Hér er fullkomlega ljóst að gagnrýnin á þetta lendir ekki aðeins á stjórnarflokkum eða hæstv. fjmrh. Hún lendir á þinginu öllu. Það hlýtur að verða okkur öllum áhyggjuefni.

Síðan er algerlega óþarfi að vera að taka það fram að minni hluti þings stöðvar ekki mál. Þriðjungur þings stöðvar ekki mál. Það er alveg ljóst. En jafnvel þó það væri aðeins 1/10 þm. í stjórnarandstöðu, sex eða sjö þm., ættu þeir sinn rétt. Þess vegna eru þingsköp Alþingis í lögum, til að verja þennan rétt. Í grannlöndum okkar er það víða þannig að þingsköp eru ákveðin með þingsályktunum en ekki með beinum lagafyrirmælum eins og hér er. Af hverju höfum við kosið að ákveða þingsköpin með lögum? Til að verja þennan rétt minni hlutans eins tryggilega og mögulegt er. Þannig skulu fara fram þrjár umræður í báðum deildum þingsins um lagafrv.

Auðvitað dettur okkur í stjórnarandstöðunni ekki í hug að við stöðvum eitt eða neitt, enda veit ég ekki til þess að það hafi verið reynt af stjórnarandstöðunni. Ég þekki það ekki að stjórnarandstaðan hafi verið að stöðva þau mál sem hv. 3. þm. Vesturl. var að tala um. Stjórnarandstaðan hefur ekki stöðvað hér mál. Hún hefur lýst því yfir að hún sé tilbúin að taka þátt í eðlilegri afgreiðslu allra mála. En þingræðinu er ofboðið þegar það er ætlast til þess að það séu ellefu mál, skattamál, afgreidd á örfáum dögum.

Það er ekki hægt. Þetta er ekki offors fyrst og fremst gagnvart stjórnarandstöðunni. Látum það vera. Þetta er offors gagnvart þingræðinu og Alþingi Íslendinga.

Auðvitað verður hæstv. forseti að ákveða hvað sæmir honum sem forseta í þessum efnum. Auðvitað verður hann að taka afstöðu til hvernig hann best gætir sóma síns embættis. En ég skora á hann að íhuga hvort það er endilega víst að hann geri það best með því að halda málum áfram með þeim hætti sem hér hefur verið gert.

Ef hins vegar meiri hlutinn og forsetinn kjósa að gera svo hlýðum við í minni hlutanum og höldum áfram umræðum um málin. Við eigum engan annan kost. Á okkur er ekki hlustað af þessum meiri hluta.

Ég hef setið á Alþingi síðan 1978. Ég man aldrei eftir því að það hafi áður gerst að ábendingum og ráðum stjórnarandstöðunnar hafi verið hafnað eins gersamlega og núna. Ég man aldrei eftir því að það hafi áður gerst að menn hafi ekki náð samkomulagi um hvernig ætti að ljúka þinginu fyrir hátíðar eða að vori. Þannig er þessi stjórn einstök, örugglega um margra ára ef ekki áratuga skeið. Og ef núv. stjórn þingsins telur að hún gæti best sóma síns með því að halda áfram þessum vinnubrögðum, þá hún um það. En það er þá hennar ákvörðun en ekki minni hlutans.