21.12.1987
Efri deild: 35. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2926 í B-deild Alþingistíðinda. (2137)

181. mál, stjórn fiskveiða

Guðmundur Ágústsson:

Hæstv. forseti. Hæstv. sjútvrh. svaraði áðan þeim fsp. sem ég lagði fyrir hann varðandi smábáta og ég þakka honum fyrir þau svör sem hann gaf. Hins vegar er ýmislegt sem ég hef við svör hans að athuga og þá í fyrsta lagi varðandi reglugerðina, hvernig hann hyggst breyta reglugerðinni miðað við þær breytingar sem fyrirhugað er að gera á lögunum sem ég á frekar von á að verði samþykktar, þær tillögur sem hafa verið settar fram af meiri hl.

Í öðru lagi lagði ég fyrir hann þá spurningu hvort ekki er hægt að skylda aðila, sem fá úthlutað veiðileyfi, til að koma með allan afla að landi sem veiðist. Í framhaldi af því sagði hann að að sjálfsögðu væri það framtíðin ef markaður fengist fyrir þau verðmæti sem þarna er um að ræða.

Það vildi svo til að ég rakst í reglugerðinni, sem lögð var fram í sjútvn., á 9. gr., en þar segir: „Skylt er að hirða og koma með að landi allan fisk af eftirtöldum tegundum sem fæst í veiðarfæri fiskiskipa: þorskur, ýsa, ufsi, karfi, skarkoli, grálúða og steinbítur.“

Sem sagt, miðað við þetta og er þá óhætt að henda t.d. löngu og blálöngu, hrognum, lifur o.fl. Ég mundi, a.m.k. á þessu stigi, krefjast þess að það verði bætt við a.m.k. löngunni og blálöngunni. Þetta eru mikil verðmæti og ég þykist vita af minni reynslu að hátt verð fáist fyrir þessar afurðir erlendis.

En ég vil samt þakka honum fyrir þau svör sem hann gaf. Þau voru skilmerkileg í flesta staði. En ég harma samt að hann er ekki tilbúinn varðandi smábátana að stíga skrefið til fulls og hafa lögin um þá í líkingu við það sem er í núgildandi lögum, en vonast eftir því að aðrir þm., sem hér eru inni og koma til með að greiða atkvæði, greiði atkvæði með þeirri brtt. sem við þm. Borgarafl. leggjum fram.

En það er annað í þessu sem hefur valdið smáruglingi meðal þm. sem talað hafa um okkar tillögur. Það er varðandi úreldingu á smábátum. Í þeim brtt. sem við höfum lagt fram er í raun réttri ekki gert ráð fyrir úreldingu, en við erum tilbúnir að fallast á að úrelding verði tekin upp á þeim skipum sem skylt er að skrá hjá Siglingamálastofnun ríkisins, en það eru skip sem eru yfir 6 m. En hvað snertir skip sem eru undir 6 m, tveggja og hálfs til þriggja tonna bátar, sem yfirleitt eru notaðir til grásleppuveiða, verði frjálst að kaupa og selja þær skektur.

Ég get farið löngu máli um fiskveiðistefnuna sem slíka, en það sem ég ætlaði aðallega að tala um eru þau svör sem hv. 14. þm. Reykv. Guðmundur H. Garðarsson gaf mér við þeim fsp. sem ég lagði fyrir hann. (Gripið fram í: Hann er í glugganum.) Nú, er hann í glugganum? (GHG: Ég heyri þetta allt saman. Hv. þm. getur haldið áfram þess vegna.) Þá vil ég í fyrstu endurtaka það sem ég sagði í upphafi ræðu minnar um stefnu Borgarafl. í sjávarútvegsmálum. Hann hélt langa tölu um að enginn stjórnarandstöðuflokkur hefði lagt neitt fram. (GHG: Það er ekki rétt.) Þú sagðir víst að allir væru tilbúnir að samþykkja kvótann, bara með mismunandi útfærslu. (GHG: Allir koma með brtt.) Það mátti skilja á orðum þínum. En það er alveg ljóst að við höfum skýra stefnu í sjávarútvegsmálum og bæði ég og hv. 7. þm. Reykn. Júlíus Sólnes höfum lýst henni hér. Við leggjum áherslu á heildarkvótann sem við viljum skýra út. Ég get lesið fyrir hv. þm. þá stefnu eins og hún birtist í kosningastefnuskránni. Þar kemur fram að „sjávarútvegur er og verður undirstöðuatvinnuvegur Íslendinga. Því verður að búa þannig að honum að hann eflist og styrkist þjóðarbúinu til heilla. Borgarafl. leggur áherslu á að núverandi kvótakerfi var sett á sem neyðarlausn þegar ekki var samstaða um aðra tilhögun. Nú hafa þegar komið í ljós miklir vankantar á kerfinu sem skekkja heilbrigðan rekstur í útgerð og beinlínis hamla gegn eðlilegri endurnýjun í atvinnugreininni. Því vill Borgarafl. leggja niður kvótakerfið í núverandi mynd. Borgarafl. vill taka upp heildarkvóta sem endurskoðaður verði árlega með tilliti til stærðar fiskistofna hverju sinni. Heildarkvótanum verði skipt í ákveðin tímabil. Friðun á uppeldis- og hrygningarsvæðum verði aukin frá því sem nú er. Unnið verði í nánu samstarfi við Hafrannsóknastofnunina, sjómenn og útgerðarmenn til að ná þessum markmiðum. Gætt verði ákveðins sveigjanleika í framkvæmdinni og möguleiki verði til þess að færa heildarkvóta á milli tímabila.“

Þetta er í aðalatriðum okkar stefna. Eins og ég sagði í fyrri ræðu minni: Þar sem annað virðist ekki vera til umræðu hér en það frv. sem hæstv. sjútvrh. hefur lagt fram lögðum við fram þessar brtt. til að bjarga því sem bjargað verði, en þær teljum við að séu til mikilla bóta bæði fyrir sjómenn og þjóðina alla. Þá vona ég að ég hafi skýrt nægilega fyrir hv. 14. þm. Reykv. hver stefna Borgarafl. er.

Svo var það annað sem vafðist fyrir hv. þm. Það er miðstýring. Hann bað mig um að skýra það út. Í þeirri blaðagrein sem ég las upp í fyrri ræðu minni talar hann einmitt um miðstýringu. Það er kannski ágætt að ég endurtaki hvað haft er eftir honum. Þessi grein er viðtal við hv. þm. sem birtist í Morgunblaðinu árið 1985 í desember þegar gengið var frá framlengingu á kvótakerfinu. Þar kemur fram:

„Guðmundur H. Garðarsson lýsti yfir andstöðu við frv. ríkisstjórnarinnar um stjórnun fiskveiða við 2. umr. í Nd. Alþingis á fimmtudag: „Ég er einn þeirra sjálfstæðismanna sem eru þeirrar skoðunar að stjórnun fiskveiða á Íslandi sé best ef hún er í höndum útgerðarmanna og sjómanna og þeir njóti ráðgjafar fiskifræðinga“, sagði Guðmundur. „En við viljum ekki að þessu sé miðstýrt með þeim hætti sem frv. gerir ráð fyrir, af innisetumönnum eða stjórnmálamönnum.“"

Síðan heldur áfram: „Guðmundur minnti á að þegar kvótafyrirkomulag var tekið upp fyrir tveimur árum hefði hann lýst því yfir í mörgum ræðum að hann væri ósammála þeirri heildarstefnu sem í því fælist, þ.e. miðstýringunni. Hann hefði greitt atkvæði gegn kvótakerfinu og hefði ekki breytt afstöðu sinni.“

Það sem felst í miðstýringu — svo ég reyni að skýra það út frá lögfræðilegu sjónarmiði eins og hann bað um — er í einfaldleika sínum að ríkið hugsi fyrir borgarana og ríkið stjórni því hvaða þarfir borgararnir hafa. Það er píramídakerfi, að sá sem stendur efst hugsar fyrir hina. Það má vitna aftur í stefnuskrá Borgarafl., með leyfi hæstv. forseta. Þetta eru bara tvær greinar þar sem við tölum um stjórnsýslumál og ágætt að kynna fyrir hv. þm. hvað stendur í þessu merka plaggi sem hann hefði eflaust viljað taka undir og tekur eflaust undir í mörgum atriðum, en þar segir:

„Borgarafl. leggur á það megináherslu að hið opinbera vald skuli þjóna borgurunum en ekki þeim sem fara með þetta vald. Samþjöppun valds á einum stað og þar af leiðandi miðstýring veikir undirstöðu lýðræðisins og vekur ótrú almennings á gerðum og athöfnum valdhafa.“

Þetta skýrir kannski betur en margt annað hvað felst í miðstýringu. Það er að eins og það er í framkvæmdinni í dag er allt vald að færast hingað yfir á Reykjavíkursvæðið og hvað varðar fiskveiðar er það að færast í sjútvrn. en þaðan er stýrt hvað hver bátur og hvað hvert skip og hvað hver skekta mega veiða mikið. Þetta kallast miðstýring. Það er hugsað fyrir borgarana og það er hugsað fyrir því hvað eigi að gera og hvað eigi ekki að gera. Þetta mætti kallast að öðru leyti einræði, en hann bað mig um að skýra hver væri munurinn á einræði og lýðræði hérna niðri áðan, og öðru nafni heilaþvottur. Miðstýring leiðir þegar til lengri tíma er litið til eins konar heilaþvottar. Þá hefur ríkið forsjá allra, sér um hvaða þarfir borgararnir hafa. Hann ætti að vera kunnugri þessu. Það sem er kannski mest búið að gagnrýna er ástandið í Sovétríkjunum. Þar er miðstýring í mestum hávegum höfð. Og það er það sem núverandi ríkisstjórn vill lögleiða hér í sjávarútvegi, landbúnaði o.fl.

Ég gagnrýndi í fyrri ræðu minni Sjálfstfl. fyrir að elta framsókn í öllu því sem hún leggur til málanna. Mér finnst, eins og ég sagði í fyrri ræðunni, illa komið fyrir Sjálfstfl., enda heyrði maður í ræðu hv. þm. að hann var búinn að gangast undir allt sem hæstv. sjútvrh. er búinn að leggja fram um stjórn fiskveiða. Það fer ekki hnífurinn þarna á milli. Ja, að eltast við framsóknarmaddömuna kallast þetta.

Ég vil ekki hafa þessa ræðu mína mjög langa. En það var annað sem hv. 14. þm. Reykv. Guðmundur H. Garðarsson var að væna okkur borgaraflokksmenn um. Það væri anarkismi að við vildum ekki stjórna fiskveiðum. (GHG: Þetta er stjórnleysi.) Ég veit að þetta er stjórnleysi. (EgJ: Hv. þm. notaði orðið anarkismi.) (GHG: Já, ég notaði það. Það er rétt.) Ég þykist vita hvað anarkismi þýðir. (Gripið fram í.) Auðvitað gera borgaraflokksmenn og allir landsmenn sér grein fyrir því að það verði að vernda fiskistofna, en hins vegar erum við í Borgarafl. ekki sammála því að stjórna eigi þessum málum á þann hátt sem fram kemur í frv. Það er það sem við erum að gagnrýna. Við erum að gagnrýna kerfið í heild sinni. Við gerum okkur fulla grein fyrir því að það þarf að hafa stjórn á þessum veiðum. Það er verið að tala um anarkisma eða stjórnleysi, en það er alger fásinna.

Ég vil líka að það komi skýrt fram þó ég sé búinn að minnast á það áður að í brtt. sem við leggjum fram, þm. Borgarafl., felst að sjálfsögðu ekki nein viðurkenning á kvótakerfinu. Það er verið að reyna að lappa upp á, fá einhverja heila brú í þetta kvótakerfi.

Ég vona að ég hafi svarað því sem að mér hefur verið beint frá hv. þm. og vonast svo sannarlega eftir því að hann hafi gert sér grein fyrir því að það kvótakerfi sem hér er til umræðu eigi ekki hljómgrunn innan raða manna í Borgarafl.

En ég vil að síðustu út af þeim ummælum sem komu fram um sjútvn. segja að ég fyrir mitt leyti vonaðist eftir því að þær till. sem formenn nefndanna, hv. þm. Karvel Pálmason og Matthías Bjarnason, lögðu fram fengju hljómgrunn. Við vorum búnir að athuga innan okkar flokks að það var umræðugrundvöllur undir að ná samstöðu um stjórnun fiskveiða. Ég tek undir með Karvel Pálmasyni að allir stjórnarandstöðuflokkarnir voru tilbúnir að leggja það til grundvallar, en því miður gerðist eitthvað í Framsfl. og Sjálfstfl. sem leiddi til þess að þeir breyttu sinni afstöðu, breyttu henni þannig að þeir voru ekki á seinni fundum tilbúnir að breyta þessari stefnu neitt, alla vega ekki að verulegu leyti. Það eru minni háttar breytingar. Það er að hafa gildistímann í þrjú ár í staðinn fyrir fjögur. Ég held að það í sjálfu sér skipti það ekki máli, þrjú ár geri það sama og fjögur að því leytinu til að eftir þrjú ár sé þetta kerfi búið að festast svo í sessi að það verði erfitt að rífa sig upp úr því aftur og koma á einhverju nýju kerfi.

En varðandi hinar breytingarnar vil ég segja að að vísu er þetta til batnaðar varðandi smábátana, en ég mundi helst vilja að það væri gengið lengra og sömuleiðis varðandi þann toll sem ísfiskskip þurfa að greiða. Við getum kallað það toll sem þau þurfa að greiða með því að selja beint á erlendan markað. Ég held að það sé til bóta að breyta þar úr 25% í 15% og hafa það sama yfir gámafisk og ísfisk.

Ég skal ekki hafa þessa ræðu mína lengri, en áskil mér rétt til, ef hv. 14. þm. Reykv. fer eitthvað að mótmæla því sem ég hef sagt hér eða ef hann vill fá nánari skýringar á því sem ég hef sagt, að gera örstutta athugasemd.