21.12.1987
Efri deild: 35. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2930 í B-deild Alþingistíðinda. (2138)

181. mál, stjórn fiskveiða

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég byrja á að taka fram að þó við hefðum gjarnan viljað afgreiða þetta staðgreiðslumál, eins og ég gat um í umræðum um þingsköp fyrir stundu, tel ég að umræður um þessi fiskveiðimál hafi verið góðar og gagnlegar og ég leyfi mér, þó það sé ekki beint í mínum verkahring kannski, að þakka þeim þm. fyrir sem hafa lagt orð í belg því þar hefur margt verið skynsamlega sagt. Og þó ég hafi ekki verið sammála hv. 14. þm. Reykv. var hann með prýðilega rökstudda ræðu og setti sín sjónarmið fram með nokkuð skilmerkilegum hætti. Það er alltaf ánægjulegt, jafnvel þó maður sé ekki sammála öllu því sem fram kemur í ræðum.

Ég ætla hér, herra forseti, að víkja að nokkrum atriðum sem hafa komið fram í umræðunum, en hafa þó í raun og veru verið rædd of lítið. Það er galli við þessa kvótaumræðu alltaf að það er eins og það séu engin önnur sjávarútvegsmál til. Þetta er eina málið af vettvangi sjávarútvegsins sem er almennilega rætt á hv. Alþingi. En auðvitað er það fjöldamargt sem ætti að ræða frekar og ekki síður a.m.k. Í því sambandi nefni ég stöðu fiskvinnslufólks og kjör þess, ég nefni kjör sjómanna og ég nefni afkomu fiskvinnslunnar. Það er merkilega lítið sem þau mál hafa verið rædd hér. Kvótamálið hefur yfirskyggt allt mörg undanfarin ár eins og kannski eðlilegt er. En það er vissulega óheppilegt ef menn halda að það séu einu sjávarútvegsmálin sem þm. fást við. Það er fjöldamargt annað sem ástæða er til að hugleiða. Eitt af því sem ég staldraði aðeins við fyrr í umræðunum í gær var afkoman miðað við fastgengisstefnuna.

Í síðasta mánuði birtist áætlun frá SÍF um afkomu fiskvinnslunnar miðað við fastgengi í 17–29% verðbólgu milli ára. Niðurstaðan varð sú að miðað við þær forsendur blasti við tap á fiskvinnslunni upp á 14–24% árið 1988. Ég held að það væri innlegg í þessa umræðu á þessari nóttu að fá um það hugmyndir hvað ríkisstjórnin ætlast fyrir varðandi afkomu fiskvinnslunnar á næsta ári. Nauðsynlegt er að veiða fisk, nauðsynlegt er að hafa skýra fiskveiðistjórn og fiskveiðistefnu, en hvort tveggja það, þó mikilvægt sé, dugir ekki til ef afkoma fiskvinnslunnar er í hættu, ef fyrirtækin eru rekin með halla og kannski stórkostlegu tapi sem jafngildir eignaupptöku hjá þeim sem bera ábyrgð á rekstri fiskvinnslunnar eða eiga fiskvinnslufyrirtæki.

Í frétt í dagblaðinu Tímanum, sem birtist miðvikudaginn 18. nóv., er um þetta fjallað og þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Miðað við þær forsendur sem nú blasa við, þ.e. fastgengisstefnu og almennt litlar verðbreytingar á sjávarafurðum erlendis, er áætlað að tap á botnfiskvinnslu árið 1988 geti orðið allt frá rúmlega 5% og upp í tæplega 16% fyrir fjármagnskostnað og frá tæplega 14% upp í rúmlega 24% að honum meðtöldum.

Þetta kom fram í ræðu Magnúsar Gunnarssonar, forstjóra SÍF, á aðalfundi LÍÚ snemma í nóvembermánuði. Lægri tölurnar, þ.e. 14% tapið, miðast við forsendur fjárlaga, þ.e. mjög lækkandi verðbólgu milli ára og enga magnbreytingu. En hærri tölurnar aftur á móti, 24% tap á fiskvinnslunni á næsta ári, miðast við aðrar forsendur, sem eru kallaðar í Tímanum forsendur verslunarráðsins en ég hygg að séu sömu forsendur og Þjóðhagsstofnun nú miðar við um 2% verðbólgu milli ára. Í báðum þessum dæmum hér er miðað við að gengi dollarans sé 39 kr. sem er ívið hærra en það gengi sem við búum nú við þar sem gengi dollarans er milli 36 og 37 kr. ef ég man rétt.

„Á fundi SÍF kom það fram að á þessu ári sé um að ræða að mati þeirra 6% hagnað fyrir fjármagnskostnað á frystingunni en 3,1% hagnað að meðtöldum fjármagnskostnaði. Á saltfiskvinnslunni er áætlaður 14,1% hagnaður fyrir fjármagnskostnað á þessu ári sem lækkar niður í 6,6% að meðtöldum fjármagnskostnaði. Afkoma botnfiskvinnslunnar í heild eftir fjármagnskostnað er áætlað að verði aðeins 0,4% yfir núllinu á yfirstandandi ári. Af áætlunum SÍF um þróun helstu tekju- og gjaldaliða frá niðurstöðum Þjóðhagsstofnunar fyrir 1986 má nefna að reiknað er með að útflutningur á frystum fiski minnki um 5% en aukist um 10% á saltfiski. Markaðsverð freðfisksins er áætlað að hækki um 22% en saltfisksins um 28% milli ára.“

Hér er sem sagt augljóslega um að ræða mjög alvarlegan vanda. Það þýðir auðvitað ekkert að ætla sér að horfa fram hjá því, herra forseti, að þessi atvinnuvegur verður ekki rekinn með þessum halla á næsta ári. Jafnframt er ljóst að frá samtökum fiskvinnslufólks liggja fyrir eðlilegar og verulegar kaupkröfur til samræmis við verðhækkanir a.m.k. sem hafa gengið yfir að undanförnu þannig að það er ekki nokkur vafi á því að strax núna í janúarmánuði stendur ríkisstjórnin og forráðamenn fiskvinnslunnar frammi fyrir því að þó það takist að gefa út öll leyfin um það sem má fiska á næsta ári er alls ekki víst að fyrirtækin hafi afkomu til að vinna þann afla sem þarf til að skila aftur á okkar markaði erlendis.

Þetta er ákaflega alvarlegt. Það þýðir að ef ekkert verður að gert mun fiskvinnslan á næsta ári éta upp allan ávinninginn frá árunum 1986 og 1987 sem hafa verið mikil veltiár í sjávarútveginum vegna hækkandi verðs á afurðum okkar erlendis. Allur þessi hagnaður, sem þá er um að ræða og var kannski fyrst og fremst það að fiskvinnslan fékk nokkuð upp í tap næstu ára þar á undan, ef við horfum bara yfir tímabilið 1986–1988, hverfur ef svo heldur fram sem horfir. Auðvitað er það þannig að ríkisstjórnin hlýtur að gera sér þetta ljóst. Og auðvitað er það þannig að hv. Alþingi verður að gera sér ljóst að þó að menn núna telji að það sé afskaplega mikilvægt að afgreiða kvótafrv. breytir það ekki nokkrum sköpuðum hlut ef fiskvinnslan er á hausnum sem á að vinna fiskinn úr skipunum. Mér finnst stundum að þessi umræða um afkomu fiskvinnslunnar og sjávarútvegsins í heild hafi ekki verið nægilega ítarleg í tengslum við þessi kvótamál og menn hafi verið of uppteknir af þeim.

Hér hefur, herra forseti, nokkuð á þessari nóttu verið fjallað um kvótann og hugmyndafræði Sjálfstfl. og það sem kallað er haftabúskapur yfirleitt af þeim sjálfstæðismönnum, sérstaklega rétt fyrir kosningar. En svo samþykkja þeir það venjulega þegar þeirra menn eru komnir í stjórnarstóla. Hér hefur hv. 4. þm. Vesturl. á þessari nóttu vitnað í Morgunblaðið þannig að ég leyfi mér að gera það líka eins og félagi minn gerði hér á undan. I forustugrein Morgunblaðsins nýlega var fjallað um það sem kallað er „fylgikvillar í haftabúskap“. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Nýlega urðu umræður utan dagskrár á Alþingi vegna þess að Útgerðarfélag Akureyringa hefur keypt togarann Dagstjörnuna frá Suðurnesjum. Hefði þar með sjöundi togarinn verið seldur af þessu svæði“, sem hæstv. forseti þekkir ákaflega vel, Suðurnes.

„Í umræðum um málið kom fram að útgerð á Suðurnesjum ætti ekki síst undir högg að sækja vegna kvótareglnanna svonefndu, þ.e. þeirra reglna sem gilda um skiptingu afla á milli einstakra fiskiskipa og þar með landshluta. Á þingi Verkamannasambandsins í síðustu viku vakti Þröstur Ólafsson, fulltrúi sambandsins í ráðgjafarnefnd um stjórnun fiskveiða, máls á sölu þessa sama togara og sagði m.a.:

„Ég hef heyrt að kaupverð á togaranum Dagstjörnunni hafi verið um 180 millj. kr. Glöggir menn telja að gangverð á svona skipi án kvóta sé um 50 millj. kr. Vátryggingarverð er um 80 millj. og það er venjulega allt of hátt. Kvóti skipsins, 2700 tonn, er því seldur á um 130 millj. kr., 50 þús. kr. tonnið og 50 kr. kílóið. Kvótinn verður reyndar notaður áfram til fjögurra ára verði það samþykkt á Alþingi og þá kostar hvert kg af fiski a.m.k. 12,50 kr.“"

Þetta var orðrétt tilvitnun í Þröst Ólafsson. Síðan heldur áfram: „Þessar umræður um sölu á Dagstjörnunni eru rifjaðar hér upp til að varpa ljósi á eina hlið fiskveiðistefnunnar. Mótun þessarar stefnu fyrir næstu ár er nú í deiglunni. Fjölmenn ráðgjafarnefnd hefur haldið fundi undanfarnar vikur og á döfinni er þing Landssambands ísl. útvegsmanna og Farmanna- og fiskimannasambandsins og formannaráðstefna Sjómannasambands Íslands, auk fiskiþings. Þarna koma saman fulltrúar þeirra sem standa fiskveiðistefnunni næst, ef þannig má orða það, auk fiskvinnslunnar. Undirbúningur stefnumótunarinnar er að verulegu leyti í höndum þessara aðila en að lokum er það Alþingi sem tekur af skarið.“

Þetta er nokkuð fróðlegt að sjá, að það skuli vera Alþingi sem tekur af skarið. Ætli það hefði ekki verið nær að segja: að lokum er það Halldór Ásgrímsson sem tekur af skarið.

Jæja, síðan segir Morgunblaðið, blað allra landsmanna: „Er mikið í húfi því hér er ekki verið að fjalla um neina einkaeign þeirra sem sækja sjóinn eða vinna verðmæti úr aflanum heldur sameign þjóðarinnar allrar, sjálfa undirstöðu þjóðarbúskaparins.

Ef þær tölur, sem fram koma í ræðu Þrastar Ólafssonar og vitnað var til hér að ofan, eru réttar hafa fiskveiðistefnan og kvótareglurnar haft svipuð áhrif og innflutningshöftin fyrir fjórum áratugum eða svo.“

Nú vildi ég gjarnan að yrði ræstur hv. 14. þm. Reykv. þannig að það væri hægt að tala við hann smástund um höftin. (Forseti: Það skal gert.) Hann er sérfræðingur í höftunum og frelsinu. Mætti ræsa hann einhvers staðar? Það verður gaman að sjá þegar hann gengur gugginn í salinn. (Forseti: Hann er vel vakandi.) Hann er vel vakandi, segir hæstv. forseti. Ég trúi því. — Já, hv. 14. þm. Reykv. er genginn í salinn og er boðinn hjartanlega velkominn. (GHG: Kærar þakkir.) Og hefur tekið með sér svein nokkurn úr Norðurlandi. Hann er gríðarlega vel menntur á þessari stundu.

Þannig er að okkur hefur orðið tíðrætt á þessari nóttu um frelsi og höft. Eins og ég sagði áðan fannst mér ræða hv. 14. þm. Reykv. góð. Ég var ekki sammála öllu því sem hann sagði, en mér fannst hann gera góða grein fyrir máli sínu og ég vona að það komi honum ekki í koll í næsta prófkjöri Sjálfstfl. þó að ég hæli honum á einum næturfundi. (GHG: Við höfum engin prófkjör.) Það er búið að leggja þau niður þannig að þetta er allt í lagi.

Í forustugrein Morgunblaðsins fyrir nokkru var rætt um það sem kallað er fylgikvillar í haftabúskap. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta, eftir að rakið hefur verið verðið á Dagstjörnunni og salan á henni sem menn kannast við:

„Ef þær tölur, sem fram koma í ræðu Þrastar Ólafssonar um verðið á Dagstjörnunni og vitnað var til hér að ofan, eru réttar hafa fiskveiðistefnan og kvótareglurnar haft svipuð áhrif og innflutningshöftin fyrir fjórum áratugum eða svo. Þá þurftu menn að leita til viðskiptanefndar og fjárhagsráðs ef þeir vildu fá erlendan gjaldeyri eða flytja inn varning frá útlöndum. Þá var svartur markaður með gjaldeyri hluti af hinu daglega lífi í landinu og vörur sem leyfi fékkst fyrir voru seldar á uppsprengdu verði af því að menn borguðu svo og svo mikið fyrir leyfið. Sagt var að jeppar sem kostuðu 20 000 kr. væru seldir á 70 000 kr. vegna þess hve leyfið sjálft var verðmætt í augum þeirra er vildu eignast jeppa.“

Ég veit að í eyrum hv. 14. þm. Reykv. hljómar þetta eins og grýlusögur í eyrum barna forðum. Þetta er svo hroðalegur tími. Síðan segir Morgunblaðið:

„Efnahagssaga áranna frá 1930 til 1960 ætti að vera mörgum þeirra, sem vinna að því að móta fiskveiðistefnuna, í minni. Af eigin raun kynntust útgerðarmenn, sjómenn og fiskverkendur því hve fylgikvillar haftakerfisins voru alvarlegir. Ekki nóg með það. Reynslan sýndi einnig að höftin höfðu alls ekki þau áhrif sem að var stefnt með þeim. Atvinnulífið var drepið í dróma, opinber ofstjórn var óskilvirk og menn beittu öllum ráðum til að fara í kringum kerfið. Ættu því þingmenn að huga að þessum kafla í sögu Alþingis og líta á tíðar umræður innan veggja þess um höftin og hindranirnar þegar þeir huga að opinberum afskiptum af fiskveiðum.

Sagan sýnir að þeir sem voru andvígir höftunum létu sig hafa að kyngja þeim í þeirri trú að þeir væru að fórna minni hagsmunum fyrir meiri. Enginn stjórnmálaflokkur var sannfærðari um gildi opinberrar íhlutunar í málefni atvinnu og verslunar en Framsfl. þótt ekki vildi hann þjóðnýtingu eins og Alþfl. og kommúnistar. Í skjóli þessa kerfis náði SÍS öruggri fótfestu. Allir eru á einu máli um“ — og líka ég — „nauðsyn þess að hafa stjórn á sókninni í takmörkuð auðæfi sjávar. Í þeirri viðleitni mega menn ekki horfa fram hjá fylgikvillunum. Þeir geta ekki síður orðið hættulegir en sá sjúkdómur sem ætlunin er að uppræta.“

Svo mörg voru þau orð, herra forseti. (GHG: Hvaða dag er þetta skrifað?) Þetta var rétt í kringum byltingarafmælið góða.

Ég hygg að þetta megi vera mönnum nokkurt umhugsunarefni, einmitt sagan um jeppana. Hún rifjar upp að það er að verða nokkuð svipað ástand með fiskiskipin. Fiskiskip sem ætti að kosta án kvóta 50 millj. fer á 180 millj. Jeppi sem hefði átt að fara á 20 þús. fer á 70 þús. Þannig er þetta kerfi að breytast í skrímsli. Og það er verst af öllu ef skrímslin éta jafngóða menn og hv. 14. þm. Reykv.

Á þessum haftaárum gerðist margt sem væri ástæða til að rifja upp. Nú skal sögð af því lítil saga. Maður nokkur bjó á eyju úti í Kúðafljóti. Þurfti þegar hann fór í land gjarnan að vaða því fljótið er ekki bátgengt, jafnvel á flatbytnum, nema stundum. Þess vegna þurfti sá ágæti maður sem þarna bjó að fá sér stígvél og helst klofstígvél og hefðu dugað svokölluð ofanálímd klofstígvél sem við munum sum sem eldri erum hvernig voru. Nú voru góð ráð dýr. Nú þurfti þessi bóndi að leita skriflega til viðskiptanefndar og fjárhagsráðs ríkisins um þetta mal, skrifaði bréf. Sagði að til þess að geta stundað sinn búskap á eyju þessari yrði hann að eignast klofstígvél. Honum hefði borist það til eyrna að úthlutun á klofstígvélum stæði fyrir dyrum og hvort nefndin mundi ekki allra náðarsamlegast fallast á að hann fengi líka klofstígvél. Honum berst síðan svar frá nefndinni sem er eitthvað á þessa leið:

„Herra bóndi“ — sem ég nefni ekki nánar.

„Okkur hefur borist beiðni yðar“, dagsett á tilteknum degi. „En þar sem klofstígvél eru eingöngu ætluð sjómönnum og ekki er lagaheimild fyrir því að veita þau bændum er yður hér með synjað um klofstígvélaleyfið.“

Bóndinn gaf sig ekki, þrjóskur eins og Skaftfellingar, enda hafa þeir þurft á því að halda í gegnum aldirnar að láta ekki beygja sig af einu bréfi, því það er margt bréfið, eins og maðurinn í Bláskógaheiðinni sagði við kóngsböðulinn á Þingvöllum forðum. Hann skrifar annað bréf til fjmrn. og segir sínar farir ekki sléttar, viðskiptanefndin hafi hafnað klofstígvélabeiðninni. Og fjmrn. svarar um hæl, á þessa leið:

„Herra bóndi ...

Vér höfum yfirfarið niðurstöðu viðskiptanefndar vegna beiðni yðar um klofstígvél. Vér höfum komist að sömu niðurstöðu og viðskiptanefndin um það að þar sem takmarkaðar birgðir séu til af klofstígvélum í landinu sé ekki eðlilegt að menn sem hafa landbúnað að aðalatvinnu fái af þeim birgðum.

Virðingarfyllst, f.h. ráðherra,

Sigtryggur Klemensson.“

Þessi saga er hér sögð vegna þess að mér finnst að við séum að sumu leyti að leggja inn á þessa vafasömu braut, menn verði allra náðarsamlegast að sækja um leyfi til að fá að fiska jafnvel á trilluhorni og ef þeir ekki gera það samkvæmt reglum eru varðskipin ræst út og látin sækja þá sem annars, eins og kunnugt er, hvíla rólega oft við bryggjur í Reykjavík. Ég held að þetta mætti vera hv. 14. þm. Reykv. nokkurt umhugsunarefni. Vissulega verður að hafa reglur sem takmarka, um það eru ekki deilur, en það er jafnframt væntanlega ljóst að þessu kerfi sem einhverjir mundu einhvern tímann hafa kallað haftakerfi, fylgja margir fylgikvillar. Hættan er sú, ef við erum ekki vel á verði, að við verðum fylgikvillunum að bráð og þeir ráði. Gallinn hins vegar við þetta kerfi miðað við klofstígvélakerfið, sem áður var vitnað til, er sá, eins og hv. 11. þm. Reykv. benti á áðan: Þegar þetta kvótakerfi pr. skip hefur verið til í mörg ár komumst við ekki út úr því þó við fegin vildum. Fengjum við ekki þá, þegar kvótakerfið hefði kannski verið búið að vera í gangi í tíu ár og við vildum breyta því, taka þennan einkarétt af útgerðarmönnunum, yfir okkur yfirlýsingar frá útgerðarmönnunum um að þeir hefðu átt þennan rétt í tíu ár, það hefði myndast heilagur eignarréttur samkvæmt stjórnarskránni og hann mætti ekki skerða nema fullar bætur komi fyrir og almannaheill krefjist. Gerum við okkur grein fyrir því að hér er verið að mynda hóp í landinu sem kemur til með að hafa lykilvald um þróun íslenska þjóðfélagsins á grundvelli þessara forréttinda langt umfram alla aðra? Og gerum okkur líka grein fyrir því að þegar svona er komið og þegar þessi verðmæti verða dýrari og dýrari og torfengnari og torfinnari, hverjir verða það þá sem geta keypt þau og eignast þau? Ætli það sé einhver áhugasamur ungur maður sem vill allt í einu fara að brjótast til fiskjar? Ætli það séu ekki stórfyrirtækin? Ætli það séu ekki auðmennirnir? Ætli það sé ekki stórkapítalið sem þá leggur þennan atvinnuveg undir sig? Ætli það væri t.d. ekki auðveldara fyrir SÍS, sem er alls góðs maklegt, að ná undir sig verulegum hluta veiðileyfa en t.d. dreifða hópa smáútvegsmanna allt í kringum landið? Ætli það yrði ekki þröngt fyrir dyrum hjá mörgum kotkarlinum, eins og sagt var forðum, þegar þeir ættu, þessir smáútgerðarmenn, að fara að keppa við þessa stórlaxa sem allt í einu snara úr vasa sínum stórsummum til að kaupa banka á miðju sumri, snemma á hundadögum og kom þeim öllum á óvart hjá íhaldinu, vissu ekki hvaðan á sig stóð veðrið og voru teknir í bælinu? Átta menn sig ekki á því sem hér er að gerast? Átta menn sig ekki á því að hér er í raun og veru verið að búa til fyrstu verulega öflugu kapítalistana í þessu landi? Kapítalistarnir á Íslandi hafa sem betur fer svo að segja alltaf verið hálfgerðir ræflar. Þeir hafa ekki átt svo mikið af peningum. Þeir hafa verið á opinberu framfæri út og suður og alltaf hlaupið grenjandi til ríkisins, stóru mömmu, þegar þeir hafa farið að tapa, en svo vilja þeir ekkert af ríkinu vita þegar þeir eru farnir að græða eins og Flugleiðir. En þeir voru fljótir að stökkva hingað inn í þingsalinn og liggja hérna fyrir þm. og ráðherrum þegar þeir töpuðu og biðja um pening og pening og pening.

Nei, kapítalið hefur alltaf verið heldur aumt á Íslandi sem betur fer og það er einn meginkosturinn við Ísland. Hins vegar er verið að búa til stóreignaauðvald í landinu með þeim till. sem hv. 14. þm. Reykv. og félagar hans eru að setja í gegnum þingið. Það er verið að búa til stóreignaauðvald, mikið sterkara en við höfum áður séð í þessu landi. Þetta vildi ég segja við þann góða mann, Guðmund H. Garðarsson hv. þm., í allri vinsemd. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar í sambandi við sjávarútveginn að það væri heldur betra fyrir þróun sjávarútvegsins að eignarhald báta og vinnslufyrirtækja væri á höndum margra aðila. Ég vil hafa það þannig. Svoleiðis þjóðfélagi vil ég búa í. Og mér gest ekki að því þegar menn ganga fram í nafni félagshyggju og samvinnuhugsjóna, eins og maður heyrir stundum, og eru að sölsa undir sig hagsmuni, tiltölulega purkunarlaust. Ljótasta dæmið sem ég man eftir nýlega var þegar Sambandið var látið kaupa lóðirnar m.a.s. undan hreppnum á Svalbarðseyri. Ég kann ekki við þegar slíkt er gert með því að signa sig með félagshyggju í bak og samvinnuhugsjón fyrir. Ég kann ekki að meta það. (VS: Það var ekki Sambandið.) Var það ekki Samvinnubankinn? (VS: Jú, það er ekki það sama.) Nei, en það er nokkuð skylt skeggið hökunni eins og sést á mér.

Þetta vildi ég nefna, hv. þm., og vona að mér verði fyrirgefið þó mér sé dálítið niðri fyrir vegna þess að mér finnst þetta skipta máli um gerð íslenska þjóðfélagsins. Það er kostur við þetta þjóðfélag að valdið er dreift og það eru margir að glíma við verkefnin.

Þessu næst ætla ég, herra forseti, að víkja að öðru máli sem mér finnst nokkuð athyglisvert, en það er smákafli um Framsfl. í sambandi við útgerð smábáta. Blaðið Dagur er sennilega tryggara Framsfl. en flest annað. Það er alveg tilviljun að ég nefni þetta næst. Það er ekki vegna þess að ég sé sérstaklega að svara hv. ritara deildarinnar.

Hæstv. sjútvrh. flutti ræðu í lok október um smábátaútgerðina í landinu og komst þannig að orði að þetta yrði allt saman að takmarka og það væri erfitt ástand í Grímsey og Borgarfirði eystri, en samt yrði að takmarka þetta. Svo segir Dagur, með leyfi forseta: „Til smábátaútgerðar á slíkum stöðum þarf að taka sérstakt tillit og leysa vanda þeirra á viðunandi hátt.“ Svo kemur þessi flokkstrygga setning sem ég held að ætti að vera yfirskrift á öllu þessu máli. Eftir að búið er að tala um hvað það er nauðsynlegt að taka tillit til smábátaeigendanna og hagsmuna þeirra segir Dagur: „Ljóst er að fullur skilningur er á því innan sjútvrn." — Ja, þetta er að kalla ekki allt ömmu sína. Það er búið að sýna fram á það með tilvitnunum í hæstv. ráðherra að hann er með þessar ströngu veiðitakmarkanir og allt það, búið að sýna fram á að það er samt nauðsynlegt að þessi útgerð sé til, en þegar hagsmunirnir rekast hvor á annan alveg gjörsamlega, er sagt í stað þess að benda á það: Fullur skilningur er á þessu máli innan sjútvrn. — Ja, þvílíkt!

Ég tel, virðulegi forseti, að það séu fjöldamörg önnur mál í tengslum við sjávarútveginn sem ekki hafi fengið nægilega umræðu á hv. Alþingi, ekki heldur á þeim allítarlega fundi sem nú stendur yfir og a eftir að standa yfir í nokkra klukkutíma enn, fjöldamörg mál sem þyrfti að ræða ítarlega og hafa skoðanaskipti um. Og ég hef tekið eftir því, af því að ég hef langa reynslu á næturfundum hér á þinginu, að menn eru oft þeim mun frjórri í umræðum sem lengra líður á nóttina, tala um þetta opnum huga og óbundið og glaðvakandi oft á tíðum. Glaðvakandi! Og ég hef tekið eftir því að upp úr slíkum fundum hafa oft komið hin þörfustu mál þannig að ekki er ég að kvarta undan því að menn haldi áfram og ræði málin aðeins.

Eitt af því sem mér finnst ekki hafa verið rætt nægilega ítarlega í kvöld og nótt og í gær — já, í gær, það er ekki komið „í fyrradag“ enn þá — það er varðandi þessar merkilegu niðurstöður með tillögur Hafrannsóknastofnunar og tillögur sjútvrh. og svo veiddan afla. Hv. þm. Karvel Pálmason hefur að vísu gert þessu máli ágæt skil, sömuleiðis hv. 4. þm. Vesturl. En mér finnst rétt að vekja sérstaka athygli á því að frá því að kvótakerfið blessað var tekið upp eru liðin fjögur ár, það er 1984, 1985, 1986 og 1987. Fyrsta árið fór veiddur afli 81 000 tonn fram úr tillögum Hafrannsóknastofnunar, annað árið 122 000 tonn, þriðja árið 66 000 tonn og fjórða árið virðist ætla að vera 80–90 000 tonn. Á þessum árum fjórum hefur aflinn farið alls 360 000 tonn fram úr tillögum Hafrannsóknastofnunar þannig að fiskimenn í kringum landið hafa í raun og veru nælt sér í eitt aukaár á þessum tíma. Það er stundum verið að halda fyrir okkur erindi um það og sýna okkur um það súlur og töflur og ég veit ekki hvað, að þessi stefna við að takmarka sóknina í fiskinn hafi lánast alveg sérstaklega vel. En niðurstaðan eftir þessi fjögur ár er samt sú að á þessum fjórum árum hafa menn bætt við sig fimmta árinu extra án þess í rauninni að nokkur maður fengi rönd við reist. Þetta er býsna athyglisvert, verð ég að segja, og nokkurt umhugsunarefni fyrir leikmenn sem horfa á þessar tölur í þeirri umræðu sem hér fer fram nú.

Ég ætla þessu næst, herra forseti, að víkja aðeins að 10. gr. frv., sem snertir sérstaklega smábátaeigendur, og fara lítillega yfir grg. frá Landssambandi smábátaeigenda um 10. gr. frv. og þær breytingar sem komu frá meiri hl. sjútvn. Ed. og hv. 14. þm. Reykv. gerði grein fyrir í dag. Í þessari grg. segir:

„Með framsetningu 10. gr. á nú í þriðja sinn á fjórum árum að skipta nær algjörlega um veiðifyrirkomulag smábáta, raunar í fjórða skiptið vegna þess að fyrir daga kvótans voru þessir menn látnir afskiptalausir. Það hlýtur að vera hverjum manni ljóst að það er ekki heiglum hent að skipuleggja sinn rekstur fram í tímann undir slíkum kringumstæðum. Engum hópi útgerðarmanna hefur verið boðið upp á aðrar eins uppákomur og með öllu óskiljanlegt hvers vegna smábátaeigendum er ætlað slíkt.“

Þetta er athyglisverður punktur, verð ég að segja, og umhugsunarverður. Hvað eru ekki oft haldnar ræður í þinginu og úti um allt þjóðfélagið um nauðsyn þess að stuðla að stöðugleika í efnahagslífinu, að fyrirtækin geti gert áætlanir þannig að menn viti hvað gerist þá og þá. Það er allt rétt. En þegar kemur að þessum blessuðum mönnum, á þriðja þúsund manns sem tengjast þessum útvegi, má allt vera í uppnámi árum saman og það er skipt um kerfi svo að segja árlega. Það er nokkuð athyglisvert, það er nokkurt umhugsunarefni hvaða kjörum þessir menn mega sæta miðað t.d. við forustuna í LÍÚ sem er alltaf kölluð hagsmunaaðilar þó hún sé í raun og veru bara ein persóna og rétt rúmlega það.

Þá segir í þessu plaggi, í greinargerð Landssambands smábátaeigenda, um 10. gr.: „Þá er einnig núna gjörbreytt því fyrirkomulagi að þessar veiðar skuli alfarið bundnar með lögum, en fyrir árið 1986 lagði ráðherra mikla áherslu á að veiðarnar skyldu vera með þeim hætti. 1984 og 1985 var fyrirkomulagið svo til alfarið í höndum ráðherrans og sjálfur lýsti hann því margsinnis yfir að það væri ekki það form sem hann óskaði eftir. Þessu voru smábátaeigendur algjörlega sammála og eru af eðlilegum ástæðum enn þá. Þar sem 10. gr. fjallar að stofni til um heimildir til handa ráðherra er nauðsynlegt að hafa til hliðsjónar þær hugmyndir sem ráðuneytið hefur gefið frá sér um útfærslu 10. gr. Þrátt fyrir að meiri hl. sjútvn. Ed. hafi fengið sjútvrn. til að gera smávægilegar breytingar á umræddri grein frv. hefur nú þegar verið gefin út reglugerð sem sýnir glögglega hvaða hugmyndir ráðuneytið hefur varðandi útfærslu 10. gr. og ekkert sem bendir til þess að þar verði veruleg breyting á.

Í a-, b- og c-lið brtt. meirihlutaálits sjútvn. Ed. er fjallað um báta milli 6 og 10 tonn. Þar er gert ráð fyrir því að skipta hópnum í tvennt og gefa þeim er netaveiðar hyggjast stunda kost á meðalaflamarki sem fengið er með þeirri aðferð að þeir aðilar sem hafa undanfarin ár gert það mjög gott eru látnir mynda meðalkvóta handa þeim er lakar hafa staðið sig og þeim sem hafa nýbyrjað útgerð.

Samkvæmt þeirri reglugerð sem þegar hefur verið smíðuð [það eru nú væntanlega drög að reglugerð því að þó að þetta sé nú fullkomið í sjútvrn. gefa þeir ekki út reglugerð áður en lögin eru sett] er þessum mönnum í sárabætur gefinn kostur á því að taka mið af eigin reynslu, fá 90% af henni, en þó aldrei meira en 135 tonn, 108 tonn af slægðum fiski með haus. Þá er einnig heimilt að hafa helming línuafla utan kvóta í nóvember, desember, janúar og febrúar.

Það er mjög ámælisvert“, segir hér í grg., „að hvetja smábátasjómenn beinlínis til að róa á þeim árstíma þegar vályndust eru veður og birta af skornum skammti. Þetta þýðir ekkert annað en að þeir aðilar sem best hafa staðið sig eru verst settir eftir á. Á það skal bent að flestir þessara aðila eru í byggðarlögum sem mikið eða alfarið byggja á þessari útgerð. Þá er sú úthlutun sem talað er um mjög hvetjandi til að menn fari að róa einir á báti þar sem áður voru tveir og jafnvel þrír í áhöfn.“

Þá er athyglisvert, herra forseti, að þær tölur sem nefndar eru til úthlutunar í reglugerðardrögunum eru 50 tonn til báta 6–8 brl. og 70 tonn til báta 8–10 brl. Það er svo síðar tekið fram að hér sé um óslægðan fisk að ræða sem þýðir í raun 40 tonn til báta 6–8 brl. og 56 tonn til báta 8–10 brl. Þetta eru undarlegar tölur í ljósi þess að skerða eigi þorskafla um 10% og netabátar undir 10 brl. hafa fengið 80 tonn af slægðum þorski til úthlutunar fyrir þrjá mánuði á vetrarvertíð árin 1986 og 1987.

B- og D-liðir brtt. meiri hl. sjútvn. Ed. fjalla um báta undir 6 tonnum og þá báta yfir 6 tonnum sem eingöngu stunda krókaveiðar. Þar er einnig gert ráð fyrir því að skipta hópnum í tvennt. Annars vegar þeir sem geta fengið netaveiðileyfi og hins vegar þeir sem ekki geta fengið þau. Þeir síðarnefndu eru settir í banndagakerfi með svipuðu sniði og verið hefur sl. tvö ár. Þó er talað um að fjölga banndögum um 30% á sama tíma og talað er um að draga 10% úr þorskafla. Hvaða rök eru fyrir þessari talnaspeki? Ég hef ekki heyrt þau. Kannski þarf ekkert að svara þessum mönnum. Ég hef ekki heyrt nein rök frá ráðuneytinu í þessu efni.

Þá er segir hér í grg. að þeir sem stunduðu netaveiðar á árunum 1986 og 1987 geti fengið netaveiðileyfi. Hér er um stórkostlega eignaupptöku að ræða hjá fjölda manna sem annaðhvort hafa ekki stundað þennan veiðiskap þessi ár eða á þeim tíma er leyfi þurfti, en eiga öll tæki til þess og þeim sem hafa fjárfest í útbúnaði til slíkra veiða en ekki hafið þær. Á það skal bent að grásleppuvertíð hefst undir vertíðarlok á vetrarvertíð við Vesturland en grásleppuvertíð á Norður- og Austurlandi er samtímis vorvertíðinni. Flestir ef ekki allir þeir aðilar á Norður- og Austurlandi eiga úthald á hvort tveggja en úthald þeirra til þorskfisknetaveiða yrði með þessu gert verðlaust og ónýtt. Þessir menn hljóta að spyrja: Hversu langt geta stjórnvöld gengið í því að gera eigur þeirra verðlausar? Netaveiðibann á minnstu bátana hefur verið rökstutt með því að af þeim stafi mikil slysahætta og þeir skili lélegu hráefni. Engar skýrslur hafa verið lagðar fram þessu til stuðnings.

Í þessu sambandi er vitnað til Grímseyjar og áður en ég held lengra með þetta plagg frá Landssambandi smábátaeigenda ætla ég aðeins að fara hér yfir plagg sem mér hefur borist sem ber yfirskriftina „Fiskveiðistjórnunin og Grímsey“. Grímsey er eins og kunnugt er merkilegt pláss, m.a. í Íslandssögunni, því að einu sinni gerðu menn tilraun til þess að reyna að véla hana af Íslendingum en það var sem betur fer stöðvað, þannig að hún tilheyrir nú enn þá Íslandi.

Í þessu plaggi um Grímsey segir:

„Grímsey er 23 sjómílur norðaustur frá Gjögurtá austan Eyjafjarðar. Hluti hennar nær norður í Íshaf. Veðurfar þar er eitt hið versta við Ísland og lífsbarátta íbúanna er hörð. Afkoma fólksins byggist á sjósókn og fiskvinnslu. Vegna hafnleysu eru Grímseyingar dæmdir til þess að hafa minnstu gerð báta og það er misskilningur að það sé að ósk þeirra sjálfra.

Í frv. til laga um stjórn fiskveiða fyrir árið 1988–1991 er gert ráð fyrir svo miklum samdrætti í afla smábáta undir 10 tonnum að furðu sætir. Vitanlega kemur þetta harðast niður þar sem undirstaða atvinnulífs er afli af bátum þessarar stærðar. Verði þetta frv. óbreytt að lögum, eða eins og það lítur út núna, kann þetta að koma svo hart niður á Grímsey á næstu fjórum árum að staðurinn standi það naumast af sér.

Fyrir nokkrum árum var tekið af Grímseyingum það samgöngutæki á sjó er þjónað hafði staðnum best, þ.e. flóabáturinn Drangur. Ríkisskip áttu að leysa flóabátinn af en hin stóru skip Ríkisútgerðarinnar geta ekki þjónað Grímsey hvað sem áhafnir þeirra leggja sig fram. Vegna veðra og sjógangs komast skipin ekki að bryggju jafnvel vikum saman.

Gegnum aldirnar hefur handfærið verið aðalveiðarfæri Grímseyinga og var það til skamms tíma. Handfæraveiðar voru svo háðar veðráttu að sjóferðir bátanna urðu vart fleiri en 80–90 á ári eða varla fjórða hvern dag ársins og mun færri en annarra staða á Norðurlandi. Segja má að bylting hafi orðið í atvinnulífi eyjabúa þegar bátar tóku upp veiðar með þorskanetum. Það árabil sem þessar veiðar hafa verið stundaðar hefur vetrarvertíð aldrei brugðist og nú er svo komið að nær allir opnir bátar, niður í 31/2 tonn, stunda þorskanetaveiðar seinni part vetrar og vor. Fáránlegt væri að svipta þessa menn leyfum til netaveiða því sú veiði ber nú uppi ársaflann og allir hafa þeir keypt fyrir háar fjárhæðir veiðarfæri, spil og önnur tæki á bátana. Þess má og geta að svo stutt er frá Grímsey á fengsæl fiskimið að olíukostnaður er þar í algjöru lágmarki.

Eftir lestur frv. um stjórn fiskveiða og þá yfirlýsingu fiskifræðinga að ástand þorskstofnsins sé nokkuð gott þótt nú sé búið að veiða ársafla fram úr þeirra tillögum á fjórum árum, þá spyrja menn: Hvað hefur staður eins og Grímsey og aðrir álíka staðir til saka unnið? Fyrir hvað er verið að refsa þeim? Hafa þeir ekki skilað sínum hluta til þjóðarbúsins á sínum litlu bátum eða hvað? Er þetta kannski byggðastefna nýrrar ríkisstjórnar?" — er hér spurt. Og það er von að spurt sé.

Þetta getur kannski orðið okkur tilefni til dálítilla hugleiðinga um ýmsa staði af þessu tagi allt í kringum landið, eins og Grímsey. (VS: Hvenær er þetta bréf dagsett, hv. þm.?) Ég hef nú ekki dagsetninguna á því, hv. þm. En ég hygg að ég gæti aflað hennar fyrir 3. umr. hér á eftir. Þessir litlu staðir allt í kringum landið eru býsna fjarri því lífi sem við lifum hér í höfuðstaðnum og okkur verður sumum sjálfsagt ekki oft hugsað til þessara staða og þeirra lífskjara sem fólk þar býr við, lífskjara sem eru allt, allt önnur en þau sem við þekkjum frá degi til dags. Og við hljótum líka að velta því fyrir okkur hvaða Ísland það yrði ef þessir staðir allt í kringum landið, mjög litlir staðir, fámennir staðir, ef þeir færu úr byggð. A.m.k. er það öruggt að þeir staðir sem hafa farið úr byggð af þessum toga, sú staðreynd hefur gert Ísland miklu fátækara land en það þyrfti að vera. Dæmi: Suðurhluti Vestfjarða og fleiri svæði mætti nefna.

Ég hygg að í þessum efnum sé það nauðsynlegt fyrir okkur, sem hér erum og róum á þessu skipi sem heitir ræðustóll á Alþingi, að gera okkur ljóst að við verðum að meðhöndla hagsmunamál þessa fólks af fyllstu tillitssemi og þegar verið er að setja hér lög þar sem stendur bara 10. gr., þá þurfum við að gera okkur grein fyrir því að hér er um afi ræða afkomu á þriðja þúsund fjölskyldna allt í kringum landið og það er einnig ljóst af þeim upplýsingum sem liggja fyrir að það er veruleg hætta á efnahagslegu, fjárhagslegu hruni á stórum hluta þessara heimila sem hér er um að ræða. Og ég vil spyrja hv. þm.: Hvaða rétt höfum við til að leggja fjárhag þessa fólks í rúst? Það að greiða atkvæði hér á hv. Alþingi í Ed., jafnvel þó komið sé undir morgun, það er ekki bara það að lyfta hér upp hægri hendinni. Það hefur áhrif á líf fólks. Við erum ekki bara að taka ákvörðun um okkur sjálf og okkar nánasta umhverfi. Við erum að taka ákvörðun sem snertir verulegan hluta landsmanna. Þess vegna er ábyrgðin hjá okkur og við megum aldrei spyrja hvernig þetta kemur út fyrir mig eða þig hér í þessum sal. Við hljótum að spyrja: Hvernig kemur þetta út fyrir þann fjölda sem ákvörðunin snertir? Og það er það sem skiptir máli. Ég hef stundum, herra forseti, í þessu sambandi tekið dæmi af svokölluðu bjórmáli þar sem þm. jafnvel leyfa sér að segja úr ræðustól: Ég vil leyfa bjór af því að ég treysti mér alveg til að drekka hann. Málið snýst ekki um það. Málið snýst um það hvort sú ákvörðun að leyfa bjór hefur jákvæð áhrif fyrir þjóðina í heild eða ekki. Ég er ekki þeirrar skoðunar að hún hafi það. Málið í þessu efni snýr ekki bara að spurningunni um það að verja fiskistofnana, að vernda fiskistofnana og rækta þá. Spurningin snýst líka um fólk, lifandi fólk, og þetta er nákvæmlega sama sagan og í umræðunum um vaxtamálin. Var það ekki á laugardaginn hér í þessari deild þegar hæstv. viðskrh. flytur þessa líka litlu messu um vextina? Það jafni sig nú smátt og smátt og allt það. En ég sagði þá við hann: Vaxtastefnan er á enda gengin. Þegar búið er að bjóða upp á nauðungaruppboði 80 íbúðir verður gerð uppreisn gegn þessari stefnu. Og þessir reglustikumenn mega ekki gleyma mannlega þættinum, það er fólk, það er lifandi fólk, og ekki bara þeir sem vinna við þetta þá og þá heldur líka börn, fjölskyldur og byggðarlög. Það er svo sérkennilegt stundum að sitja hér í þessari stofnun og upplifa það að það er eins og menn geri sér enga grein fyrir því að á milli ákvörðunarinnar hér og lífsins úti í landinu séu tengsl. Það er eins og menn geti slæmt hér hendinni upp í loftið án þess að það þýði nokkurn skapaðan hlut. Auðvitað er málið ekki þannig.

Í grg. Landssambands smábátaeigenda er fjallað nánar um 10. gr. frv. og þar segir, með leyfi forseta: „Um E-lið er fátt að segja annað en þetta. Það ætti að vera búið að halda fleiri lofræður um þann nauðsynlega og hagkvæma þátt í kvótakerfinu að hafa framsal aflamarks sem rúmast. F-liður hefur ekki enn verið útskýrður af ráðuneytinu þannig að ekki er unnt að fjalla um hann. Er hér gott dæmi um að ráð þessara manna skuli alfarið liggja í höndum ráðherra.

Um F-lið er það að segja að öðru leyti að hann er til kominn út af því að ráðuneytið hefur talið fjölgun smábáta keyra úr hófi fram. Þó er aðeins gert ráð fyrir því að færa úreldingarregluna niður að 6 tonnum. Það er þó vitað mál að langmesta fjölgunin hefur átt sér stað fyrir neðan 6 tonn. Sé þessi fjölgun svo mikið vandamál þá er það síður en svo leyst með þessum hætti og í raun bein hvatning til manna að hefjast handa við smíði minnstu bátanna. Er það í hrópandi ósamræmi við allar umræður um öryggismál sjómanna. Nú þegar eru bátahönnuðir farnir að velta vöngum yfir 5,9 tonna bátum. Engar mælingarreglur virðast vera til sem snjallir bátahönnuðir geta ekki farið í kringum.

Í öllum stafliðum 10. gr. er vísað til ákvörðunar ráðherra og er greinin ein samfelld heimild honum til handa. Veiðum smábáta gæti hann stjórnað að vild og er það í rauninni það sem farið er fram á með 10. gr. Af ráðherraheimildum hafa trillukarlar afar slæma reynslu undanfarin ár og engin ástæða er til að ætla að það mundi taka stakkaskiptum.

10. gr. í þeirri mynd sem hún er flækir veiðifyrirkomulag smábáta til mikilla muna.“ — Það er nú ekki einföldunin eins og í skattafrv. Alþfl. eða skilvirknin. Nei, nei, það er ekki. — „Í núverandi fyrirkomulagi er hópnum skipt í tvennt:

1. Handfæra- og línuveiðar í banndagakerfi.

2. Netabátar í sóknarmarki yfir hávertíðina. Nú er boðið upp á:

1. Handfæra- og línubátar undir 6 brl. sem eru í banndagakerfi.

2. Aðilar undir 6 brl. sem geta fengið netaveiðileyfi eftir ákveðinni uppskrift.

3. Veiðileyfi handa bátum yfir 6 brl. sem eingöngu stunda handfæra- og línuveiðar.

4. Veiðileyfi með aflahámarki handa bátum yfir 6 brl. sem netaveiðar stunda, og þeim svo aftur skipt í 6–8 brl. og 8–10.

5. Sérstök reglugerð fyrir botnfiskveiðar báta sem stunda skel- og rækjuveiðar.“

Hér er ekki verið að einfalda hlutina. Hér er nú allt gert sem hægt er til að flækja þá enda verða menn náttúrlega að hafa eitthvað að gera á vissum stöðum í landinu.

Því hefur verið borið við og kom hér fram í ræðu hæstv. sjútvrh. að í raun og veru væri hér verið að fara meira og minna að samþykktum fiskiþings. Af þessu tilefni benda smábátamenn á:

„1. Í tillögum 46. fiskiþings er orðið „aflamark“ notað en ekki aflahámark.

2. Í þeim tillögum er hvergi getið um skiptingu hópsins í allt það sem á undan hefur verið talið heldur þvert á móti tekin sama skiptingin og verið hefur þó lagt sé þar til að netabátar fari í aflamark í stað sóknarmarks.

3. Þar er hvergi minnst á bann við netaveiðum á einhvern hluta hópsins, hvað þá að aðilar á ákveðinni stærð báta þurfi að hafa haft leyfi til netaveiða undanfarin tvö ár.

4. Ekki er fjallað um að taki menn mið af fyrri veiðireynslu í aflamarki skuli vera ákveðið þak á þeirra reynslu.

5. Þá er ekki talað um að aflamark þeirra er stundi netaveiðar skuli vera óframseljanlegt.

Í starfsáætlun núverandi ríkisstjórnar er tekið fram um sjávarútvegsmál að sérstakt tillit skuli tekið til byggðasjónarmiða og athafnafrelsis manna í sjávarútvegi. 10. gr., sú sem hér er fjallað um gengur í þveröfuga átt. Þegar athafnafrelsi manna er skert með jafnveigamiklum hætti og hér um ræðir hljóta að þurfa liggja fyrir því ærnar ástæður.

Í upphafi kvótakerfisins var þorskstofninn talinn í mikilli hættu og því nauðsyn á harkalegum aðgerðum. Í skriflegum svörum frá Hafrannsóknastofnun við nokkrum spurningum sem Landssamband smábátaeigenda lagði fyrir stofnunina er það staðfest að þorskstofninn sé ekki talinn í hættu. Í ljósi þess er það undarlegt að vega eigi að þeim þætti útgerðarinnar sem viðurkennd er hagkvæmust. Hagkvæmni hennar sést best á því að 15% íslenskra sjómanna komast bærilega af með sig og sína útgerð með 56% heildarafla flat- og botnfisks.

Vonandi taka alþingismenn á þessum málum af þeim skilningi að trillukarlar þurfi ekki nær árvisst að berjast fyrir tilverurétti sínum. Öllum ætti að vera ljóst að því minni höft sem lögð eru á smábátana því hagstæðara verður það fyrir atvinnu og lífsafkomu smæstu sjávarplássanna.“

Ég hef síðan, herra forseti, aflað mér ítarlegri upplýsinga um þessi mál. M.a. að því er varðar afstöðu einstakra hópa smábátaeigenda. Hv. 14. þm. Reykv. var svo vinsamlegur að taka með sér í salinn hér mikinn snilling, hv. 2. þm. Norðurl. e. (Gripið fram í: Hann er farinn aftur.) Og hann er nú farinn aftur. En sama er það. Mér kemur hann jafnan í hug þegar ég heyri góðs manns getið. Hér er ég með fundarsamþykkt frá fjölmennum fundi Félags smábátaeigenda á Norðurlandi sem var haldinn á Akureyri 15. nóv. 1987 en Akureyri er einmitt í kjördæmi hv. þm. (VS: Og mínu líka.) Já, og reyndar fleiri þm., hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar og margra ágætra manna. Í þessari samþykkt segir:

„Þessi fjölmenni fundur mótmælir harðlega þeirri háskalegu aðför að lífskjörum smábátaeigenda og atvinnulífi víða á landsbyggðinni sem felst : 9. gr., nú 10., frv. til laga um fiskveiðistefnu. Þessi aðför kemur skýrt fram í hugmyndum sjútvrn. um skipulag veiða báta undir 10 tonnum, dagsett 23. okt. 1987.

Fundurinn heitir því á þingmenn þjóðarinnar, sveitarstjórnarmenn, félagasamtök og almenning að taka höndum saman og verja landsbyggðina þeim alvarlegu áföllum af atvinnuleysi og byggðaröskun sem augljóslega dynja yfir ef 9. gr. frv. verður að lögum.“ — Og þetta var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum á fundi á Hótel KEA sem sóttu á annað hundrað manns.

Ég er einnig hér, herra forseti, með ítarlega ... (Gripið fram í: Eitthvað hefur þetta nú breyst í meðferðinni.) Frumvarpið? Já. Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. og ég var einmitt að fara yfir það áðan hvernig breytingin kæmi út alveg lið fyrir lið. Mér þykir leitt ef hv. þm. hefur misst af ræðu minni þannig að það er kannski rétt að ég byrji á henni aftur. (Gripið fram í: Nei, ég heyrði ágætlega.) Það er svo guðvelkomið. (Gripið fram í.) Já, ég efa það nú ekki að þú þolir það vel, hv. þm. Ég var nú að bjóða upp á þetta af greiðasemi. (Gripið fram í: Nei, ég þekki þetta allt saman.) Hv. þm. þekkir þetta allt saman þannig að ég er ekkert að þreyta aðra þm. sem hafa hlustað grannt á því að lesa sérstaklega fyrir hann. Ég fer með hann hérna út í horn á eftir og les þetta fyrir hann.

Ég hef einnig aflað mér ítarlegra upplýsinga um hlutdeild smábáta í heildarafla á undanförnum árum og sömuleiðis um fróðleg orðaskipti Landssambands smábátaeigenda og sjútvrn. Þá hef ég aflað mér plaggs sem ég hygg að sé nauðsynlegt að hv. þingheimur geri sér ljóst hvað er, en það eru nöfn þeirra 1400 manna sem starfa við þessa grein og eru skrifaðir fyrir bátum. Þessir menn hafa nú sent Alþingi bænarskrá um að fá að stunda sinn atvinnuveg í sæmilegum friði. Nú vill svo vel til, herra forseti, (Forseti: Herra, ekki lengur.) hæstv. forseti, ég biðst enn afsökunar. Þetta er alveg hroðalegt. Þetta er að verða alveg afleitt mál. Ég held að við verðum bara að fara að gera eitthvað í þessu máli. (KP: Þetta hendir alltaf sama hv. þm.) Alltaf sama hæstv. forseta. Ég tala nú ekki um. Þannig að það er eitthvað sérkennilegt með mig og núverandi hæstv. forseta greinilega. (Forseti: Tengslin eitthvað að rofna.) Ég biðst innilega afsökunar og er tilbúinn að gera opinbera iðran í þessu efni, aftur og aftur svo lengi sem þetta hendir mig. En vandinn er sá að maður sér ekki þegar skipt er um sæti.

Nei, það væri ástæða til að fara yfir þessi mál ítarlegar, hæstv. forseti. En svo vel vill til að ríkisstjórnin mun vera svo hugulsöm að hún ætli að hafa 3. umr. líka í dag. Þá mun ég fara yfir félagatal Landssambands smábátaeigenda ásamt upplýsingum um heimilisföng og bátsnöfn og skráningarnúmer þannig að það fari ekkert á milli mála að hér er á ferðinni fólk, fjölmennur hópur, sem á sinn rétt, sem okkur ber að taka tillit til í þessari virðulegu stofnun, jafnvel þó nú renni senn nýr dagur.

Ég tel ekki ástæðu til þess, virðulegi forseti, að tefja lengur hér að sinni. Það verður fróðlegt að sjá hver verður niðurstaðan við 2. umr. málsins þegar henni lýkur og atkvæðagreiðsla fer fram í morgunsárið. Það verður einnig fróðlegt að fylgjast með 3. umr., að ég tali nú ekki um hvað verður ánægjulegt að taka á móti þm. Nd. þegar þeir koma hér um tíuleytið a eftir. Allt er þetta til marks um að við erum með alveg sérstaka snillinga að stjórna landinu. Verkstjórnin í þinginu er með þvílíkum fádæmum. Ég vona satt að segja að það sé ljóst að formenn þingflokka stjórnarliðsins fái að minnsta kosti orðu á nýársdag fyrir einstaka frammistöðu við að klúðra málum. Það er Íslandsmet, alveg örugglega Íslandsmet. Þeir klúðra málum þannig að það er ekki hægt að afgreiða fyrir jól eitt einasta mál. Það var af því að hofmóðurinn rann á þá í gær, á sunnudeginum, og þeir uppgötvuðu að 2/3 þingsins hljóta að ráða yfir 1/3. Þeir þurftu að fá útrás fyrir þessa valdagleði og láta þennan þriðjung finna til tevatnsins. „Kýla á'ann“, eins og krakkarnir segja, og vera ekkert að hlífa þeim. Þetta valdakast, sem meiri hl. fékk í gær, hefur orðið til þess að það er ekki hægt að afgreiða eitt einasta mál fyrir jól og mikið vafamál að það sé hægt að afgreiða öll þau mál sem þeir lögðu þó fram pantanir á fyrir áramót.

Og að lokum, hæstv. forseti, tel ég sérstaka ástæðu til að vekja athygli á því að hv. 2. þm. Norðurl. e. er kominn í salinn. Kemur mér hann jafnan í hug þegar ég heyri góðs manns getið og þykir vænt um að sjá hann hér og einkum og sér í lagi ef hann vildi vera svo vinsamlegur að kynna sér hvernig hans handaverk, sem hann ætlar að fara að framkvæma núna með annarri hendinni, koma niður á fólki í Grímsey sem er eitt pláss í hans kjördæmi.