22.12.1987
Efri deild: 37. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3021 í B-deild Alþingistíðinda. (2170)

179. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjármálaráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Til mín var beint tveimur spurningum, fyrst að því er varðar hugsanlega nýtingu á afgreiðslu vaxtafrádráttar ef það mætti byggja á framtölum fram komnum í janúar til febrúar á næsta ári þegar úrvinnslu þeirra er lokið. Þessari hugmynd hefur áður verið hreyft. Hún hefur verið rædd í nefnd. Á henni eru þeir einir annmarkar að framkvæmdaaðilar skattkerfisins efast um að þeir geti við þessu orðið, en það verður kannað.

Að því er varðar fsp. hv. 7. þm. Reykv. um vasapeninga aldraðra, þá er það rétt sem hann sagði. Þær upplýsingar sem hann hafði eru réttar og ég staðfesti það hér með.

Að lokum, herra forseti. Að því er varðar þau orð sem féllu um tilhögun þinghalds vil ég aðeins taka fram að ég var að sjálfsögðu reiðubúinn til þess hvenær sem var í nótt að mæla fyrir þessu frv. ef þess hefði verið óskað. Það er hins vegar forseta og oddvita þingflokkanna að ná samkomulagi um þinghaldið og það var einfaldlega ekki á mínu valdi.