21.12.1987
Neðri deild: 34. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3061 í B-deild Alþingistíðinda. (2175)

196. mál, söluskattur

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég sé reyndar ekki hæstv. fjmrh. í salnum, en ég veit að þeir eru nánir samstarfsmenn, hæstv. dóms- og viðskrh. og kirkjumálaráðherra og hann, og ég treysti því að þeir beri boð sín á milli.

Hæstv. fjmrh. mælti fyrir þessu afkvæmi sínu í fundarbyrjun og talaði hratt og lágt og ég lái honum það ekki. Ég hugsa að ég hefði gert það sama. Það er ekki von að hann vilji að menn heyri of grannt þegar hann mælir fyrir þessu.

En þá er hún loks komin hingað, sprengjan mikla sem maður í raun og veru trúði aldrei að yrði varpað á landsmenn. Og ég verð að segja það, herra forseti, þótt það kunni að hljóma barnalega og óraunsætt, að ég vonaði og trúði í lengstu lög að þessi ófögnuður yrði endursendur hæstv. ríkisstjórn til að gera sinn usla á stjórnarheimilinu en ekki á heimilum landsmanna. En ekki er öll nótt úti enn. Það hefur gerst fyrr í sögunni að viti bornir menn taki sönsum, átti sig á villu síns vegar og snúi af rangri leið.

Það er í rauninni aldeilis ótrúlegt hvað þetta mál er komið langt eins og andstaðan er hörð, ekki bara hjá stjórnarandstöðunni hér á þinginu og ekki bara úti í þjóðfélaginu hjá almennu launafólki heldur hjá fjölmörgum stjórnarsinnum hér á Alþingi, en þeir virðast ætla að kyngja hverju sem er undir yfirskini einföldunar og skilvirkni og virðast jafnvel halda að réttlætinu verði fullnægt í leiðinni.

Víst er, herra forseti, að mörgum þeirra líður ekkert allt of vel þessa dagana og ég held að þeir ættu að hugsa sitt ráð, gefa sér tóm til þess, þessar síðustu stundir áður en jólahelgin gengur í garð, að íhuga áhrif þessara aðgerða. Auðvitað er ég fyrst og fremst að fjalla um þann þátt þess frv. sem nú er hér á dagskrá sem snertir afkomu heimilanna langmest, þ.e. sú breikkun söluskattsstofnsins sem felur í sér sköttun matvæla.

Ég nefndi áðan nálægð jólanna sem virðist geta hrært einhverja strengi í brjóstum manna og komið fólki til að hugsa um réttlætið og finna til umhyggju í garð náungans þótt auðvitað eigi ekki að þurfa nálægð jólanna til. Þessar tilfinningar og kenndir eiga að geta bærst með okkur alla daga, ekki síst með okkur sem er trúað til þess að setja lög og annast framkvæmd ýmissa aðgerða sem snerta hag fólksins í landinu. Engu að síður hafa jólin oft mannbætandi áhrif á okkur og ég fann til þessarar umhyggju á þeirri ögurstund sem okkur hv. þm. gafst í gær til að átta okkur aðeins á milli strangra þingfunda og nefndarfunda. Umhyggja mín beindist satt að segja að þessu sinni alveg sérstaklega að þeim sem vilja með öllum ráðum koma í gegn nú fyrir jólin þessum skelfilega matarskatti. Ég reyndi af öllum mætti að setja mig í spor þessara manna og átta mig á hvað kæmi þeim til að vilja senda landsmönnum slíka og þvílíka jólagjöf. En herra forseti. Viðleitni mín bar ekki nokkurn einasta árangur. Ég get ekki sett mig í spor þeirra þótt ég ætti lífið að leysa.

Það rifjaðist enn einu sinni upp að hæstv. fjmrh. talaði stundum um nauðsyn þess að breikka söluskattsstofninn meðan hann var óbreyttur þm., bæði á þingfundum og vafalaust á landsreisufundum sínum þegar hann var að leita svara um það hverjir ættu þetta land og reyna að laða menn til fylgis við það sem hann kallar jafnaðarstefnu en er nú að mér sýnist allt annað en það sem ég hef a.m.k. hingað til haldið vera jafnaðarstefnu.

Hæstv. fjmrh. er afar röggsamur maður og það mátti búast við því að hann sæti ekki auðum höndum þegar hann settist í langþráðan ráðherrastól. Hann hafði vissulega sem óbreyttur þm. og ekki síst eftir að hann varð formaður Alþfl. oft og mörgum sinnum talað um nauðsyn þess að endurskoða og endurskipuleggja allt tekjuöflunarkerfi ríkisins sem hann sagði ekki einasta í molum heldur í fullkominni rúst. Eitt af því sem ég minnist að hafa heyrt hann prédika var að þetta söluskattskerfi væri handónýtt og yrði að gerbylta því, innheimtan væri í molum vegna þess að undanþágur væru legíó og skattprósentan allt of há. Forsenda þess að þetta kerfi gæti gengið væri að fækka undanþágum verulega og lækka skattprósentuna myndarlega. Ég trúi varla að mig misminni þetta, enda hefur þetta verið rifjað upp hér í umræðunum. Ég gaf mér reyndar ekki tíma til að leita að staðfestingum í Alþingistíðindum þó það hvarflaði sannarlega að mér því ekki er nóg að sjá staðfestingu þess að hæstv. ráðherra muni þessi orð sín. En það hefur nú verið rifjað upp að svona var þetta. Ég er a.m.k. 100% viss um að engum lifandi manni datt í hug að þegar formaður Alþfl. fengi tækifærið til að vinna úr stefnu flokks síns og koma hugsjónum alþýðuflokksmanna í framkvæmd mundi hann nota það á þann hátt sem við sjáum í því frv. sem er hér til umræðu. (HG: Er ekki rétt að ráðherrann heyri þetta?) Hann heyrir og hlustar af athygli. Um það get ég borið.

Jafnaðarmennska hæstv. ráðherra felst í því einu að tosa öllum brýnustu nauðsynjavörum upp í 25% skattinn sem hann var búinn að prédika að væri allt of, allt of hár. Hann og hans nánasti samstarfsmaður í framkvæmd hugsjónanna, hæstv. dóms- og viðskrh. og kirkjumálaráðherra, eru miklir talsmenn einföldunar og skilvirkni og þeir tala um nauðsyn hlutleysis af hálfu ríkisvaldsins. Í athugasemdum við þetta lagafrv. er sagt að þessar breytingar feli í sér lækkun tolla og afnám sex annarra gjalda, og allt er það vissulega satt og rétt, fækkun undanþága og samræmdan söluskatt. Já, vissulega fela þessar breytingar í sér fækkun undanþága, en samræmingin er langt frá því alger og erfitt að sjá hlutleysið í því samhengi öllu.

Þriðji punkturinn, sem er hér sérstaklega merktur, er að þessar breytingar feli í sér öruggari tekjuöflun ríkissjóðs. Að sjálfsögðu má alltaf búast við nokkru öryggi í því að skattleggja það sem enginn lifandi maður getur án verið. Það liggur í augum uppi. Og það er auðvitað alveg hárrétt hjá hæstv. ráðherra að þetta er mjög örugg tekjuöflun í sísoltinn ríkissjóð sem er farinn að minna óneitanlega á plöntuna merkilegu í „Litlu hryllingsbúðinni“.

Stórbætt skattskil er fjórði punkturinn sem nefndur er í athugasemdum við lagafrv. En hæstv. ráðherra: Er það alveg víst að þetta hafi í för með sér stórbætt skattskil? Og hvað er það í þessum breytingum sem tryggir stórbætt skattskil? Eftir sem áður er allnokkuð um undanþágur. Ég hef ekki talið þær saman, en þær eru mjög margar, skipta tugum, m.a. vegna afruglara svo að ein nauðþurftin sé nú nefnd. Og við eigum eftir að sjá að menn komi ekki auga á einhverjar glufur og smjúgi um þær.

Ég held að það sé alger óskhyggja hjá hæstv. ríkisstjórn að skattskilin verði eitthvað betri nema hæstv. ráðherra ætli að taka upp leikaðferðina maður á mann. Það kostar eitthvað. Þetta leiðir hugann að því sem áður hefur reyndar verið spurt um í umræðum hér á Alþingi og það alveg nýlega. Það var, held ég að ég muni rétt, hv. 5. þm. Reykv., áhugamaður um fjármál ríkisins, sem spurði hvernig hæstv. fjmrh. ætlaði að framkvæma þá stefnu sína, sem hann hefur boðað hátt og lengi, að það þurfi að uppræta skattsvik og koma í veg fyrir undandrátt. Mér fundust svör hæstv. ráðherra við spurningum hv. 5. þm. Reykv. nýlega ekki gefa til kynna að hann hefði neinar sérstakar aðgerðir á prjónunum umfram það svo sem að trúa í blindni á að þær kerfisbreytingar sem hér er verið að leggja til mundu vinna það verk fyrir hann. — Og var ánægjulegt að verða vitni að því að hv. alþýðuflokksmaður Karvel Pálmason gekk hér um salinn því hann er áhugamaður um það sama efni og við erum að ræða hér, þ.e. matarskatt eða ekki matarskatt, og veri hann velkominn sem oftast hingað í deildina.

Það kann vissulega svo að vera um sumt það sem hér er lagt til að það tryggi betri skil, svo að maður sýni svolitla sanngirni í umfjöllun, en ég held að það séu fáir sem trúa því að þessar aðgerðir dragi langt í þeim efnum. Það hlýtur að þurfa einhverjar sérstakar aðgerðir, eitthvað sem hefur ekki verið reynt áður.

Svo er reyndar hérna fimmti punkturinn sem hljóðar svo að þessar breytingar muni fela í sér lækkun verðbólgu. Og þá fer nú skörin að færast upp í bekkinn. Hvernig í ósköpunum dettur mönnum í hug að setja svona vitleysu inn í athugasemdir við frv.? Og hæstv. ríkisstjórn segir, og ber fyrir sig Þjóðhagsstofnun og hver veit hvað, að þessi þríhöfða þurs, sem við höfum verið að fjalla um þessa dagana, tollabreytingar, vörugjald og söluskattsbreytingar, muni ekki hækka framfærsluvísitölu og jafnvel lækka byggingarvísitölu. Þar með er gert ráð fyrir að þessar breytingar skili sér nákvæmlega si svona eftir þeim reiknireglum sem menn ástunda í þessum stofnunum. En er það nú fjarska líklegt? Mér finnst þessi fullyrðing standa býsna völtum fótum, en látum svo vera. Hagfræðingar mega sannarlega reikna út og suður mín vegna.

En það sem við erum að fjalla um er 25% álagning á brýnustu nauðsynjar, matinn sem allir verða að borða ef þeir eiga að lifa. Þessi óréttláta álagning á það sem enginn getur verið án vegur miklu þyngra hjá þeim lægst launuðu en öðrum. Það liggur í augum uppi og er viðurkennt af öllum, m.a. af hæstv. ríkisstjórn sem setur nú upp geislabaug, a.m.k. einn, og ætlar að hækka barnabætur og lífeyri. Hvað er nú orðið af kenningunni um hlutleysi? Auðvitað getur ríkisvaldið ekki verið hlutlaust og má ekki vera hlutlaust. En með þessari stefnu er verið að blekkja fólk.

Og hvað segja svo alþýðuflokksmenn almennt um þetta? Hefur formaðurinn flokksmenn sína almennt á bak við sig í þessum aðgerðum? Bágt er að trúa því ef maður t.d. les hið merka blað, Alþýðublaðið, sem stundum ber á góma í þingsölum, ekki síst eftir að formaður Alþfl. komst í ráðherraembætti. Sjálfsagt les hæstv. ráðherra þetta blað vel og vandlega þegar hann hefur tíma frá önnum sínum, en þar sem ég er ekki eins viss um aðra hv. þm. ætla ég, með leyfi hæstv. forseta, að vitna í viðtal sem birtist þar nýlega og ég held að það saki ekkert að það rifjist upp fyrir hæstv. ráðherra ef hann er búinn að gleyma því. Þetta er viðtal sem er haft við ritara verkalýðsmálanefndar Alþfl., sem heitir Þráinn Hallgrímsson, og yfirskrift viðtalsins er: „Við borðum ekki varalit.“

Í samtali við Alþýðublaðið segir Þráinn að hann hafi að vísu ekki séð heildarúttekt á þessu dæmi, og á við öll frumvörpin þrjú, né hvaða áhrif þessar hækkanir koma til með að hafa á hagsmuni hins almenna launþega, en sér sýnist þó að þetta stefni allt í öfuga átt miðað við það sem búast hefði mátt við af ríkisstjórn sem jafnaðarmenn eiga aðild að. „Ég er mjög ósáttur við þessa hækkun vöruverðs eins og hún kemur út í þessu“, segir Þráinn Hallgrímsson, ritari verkalýðsmálanefndar Alþfl. Og í greininni segir eftir honum:

„Nefna mætti t.d. svínakjöt, nautakjöt, nýtt grænmeti og sérstaklega fisk, sem hækkar um 25%, sem dæmi um hækkanir á nauðsynjavörum. Þessar vörur væru ákveðnar frumþarfir, uppistaðan í matvörukaupum margra fjölskyldna sem stórhækkuðu á meðan aðrir liðir, sem skipta miklu minna máli fyrir afkomu launafólks, lækkuðu, eins og t.d. myndbönd og hljómflutningstæki. Þetta væri grundvallarbreyting sem að sínu mati væri mjög neikvæð. „Ég skil í raun og veru ekki hvað liggur að baki hjá fjmrh. og hans fólki, hvað þeir eru eiginlega að hugsa. Þeir tala um það að þeir vilji koma á einföldun kerfisins, en er ekki nauðsynlegra að almenningur fái ódýran mat heldur en við séum með einfaldara söluskatts- og tollakerfi?""

Og áfram er vitnað til þess að hann segir að sér þætti að jafnaðarmenn ættu frekar að hugsa í þeim dúr að það sé meira áríðandi að fólki geti fengið ódýrari nauðsynjar en vera að gæla við kerfið á þennan hátt.

„Varðandi niðurgreiðslur og fjölskyldubætur sem talað væri um í þessum áætlunum“, og nú bið ég hæstv. ráðherra að hlusta vel, „sagði Þráinn að niðurgreiðslur kæmu úr okkar eigin vösum. Þar væri aðeins verið að taka úr hægri vasanum og setja í þann vinstri. Um fjölskyldubæturnar sagði hann að það væru fjölmargir hópar í þjóðfélaginu, láglauna- og meðaltekjufólk og t.d. fatlaðir, sem ekki fengju neinar slíkar bætur og mundu því beinlínis taka þetta út af sínum launum. Sagði hann að þessi kerfisbreyting hafi alltaf verið varin með því að hægt yrði að lækka hina almennu söluskattsprósentu, en nú væri ekkert talað um það lengur. „Til hvers er þá verið að þessu?" Sér þætti að með þessari breytingu, þ.e. að stórhækka nauðsynjavörur en lækka um leið vörur sem hægt væri að kalla munaðarvörur, sem almenningur gæti að þarflausu sleppt, væri verið að breyta yfir í eins konar ölmusukerfi þar sem ríkisvaldið getur ef það þarf að fara að skammta fólki auknar bætur svo að það geti lifað af laununum sínum. Þetta væri ekki bein stefnumörkun sem jafnaðarmenn ættu að setja á oddinn í ríkisstjórn. „Við eru að færast í þá átt að gera fólki á lágum og meðallaunum erfiðara að lifa af þessum launum, það þurfi að fá sérstaka fyrirgreiðslu ríkisvaldsins til að geta það.“

Auðvitað væru þarna líka ákveðnir punktar, eins og t.d. lækkun á búsáhöldum, heimilistækjum og byggingarvörum, en yfirþyrmandi væri hækkun á nauðsynjum. Að sínu mati væri ekki hægt að sjá neitt sem réttlætti þessa breytingu.

Varðandi lækkunina á byggingarvörum sé umdeilanlegt hvort nú sé rétti tíminn til að lækka þessar vörur. Þenslan á byggingarmarkaðnum sé alveg gífurleg, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, hvort ekki hefði verið betra að framkvæma lækkunina þegar tiltölulega lítil þensla væri á markaðnum þannig að það hefði virkað hvetjandi á hann. Sagði Þráinn að fjmrh. hefði átt að átta sig út frá allri umræðunni um matarskattinn að þetta er pólitískt mjög vont mál og jafnaðarmenn hefðu ekki átt að hafa forgöngu um að hækka verð á nauðsynjavörum til almennings. „Fólk á eftir að finna verulega fyrir þessu þegar það þarf að fara að borga. Þá áttar það sig á að fiskur hefur hækkað um 25% o.s.frv.“ Þá komi fram megn óánægja meðal fólks, enda sést það vel á því hverjir taka breytingunum vel, í hverra þágu þær eru. Það er ekki launafólk heldur iðnrekendur, verslunareigendur og atvinnurekendur. Þessar breytingar leiða til enn frekari ójafnaðar í þjóðfélaginu. „Við borðum ekki varalit eða tannkrem. Við lifum ekki á sápum, sjampói eða rakspíra, en við lifum á fiski og við lifum á mat. Mér finnst að Jón Baldvin og ráðgjafar hans ættu að setjast niður og athuga á hvaða leið þeir eru, hvort þeir eru á leið jafnaðarstefnunnar fyrir hinn almenna launþega eða hvort þeir eru að vinna fyrir einhverja aðra aðila.“

Ég get tekið undir öll þau orð sem ég hef lesið hér upp og þar sem vitnað er til Þráins Hallgrímssonar, ritara verkalýðsmálanefndar Alþfl. Þau falla mjög vel að þeirri stefnu sem við kvennalistakonur höfum túlkað hér.

En það er fleira. Þetta er ekki eina röddin sem hefur heyrst í þessa átt. Og hafi hæstv. fjmrh. lesið það sem ég var að vitna til núna í blaðinu, sem túlkar þá stefnu sem hann á að vera fulltrúi fyrir, er ekki að vita nema hafi farið fram hjá honum lesning í Morgunblaðinu nýlega þar sem er verið að kanna viðhorf manna gagnvart þessum breytingum á tekjuöflunarkerfi ríkisins. Þetta er ekki mjög löng frétt, en vitnað í allmarga aðila. Með leyfi hæstv. forseta segir hér:

„Fisksalar og viðskiptavinir þeirra, sem blaðamaður Morgunblaðsins ræddi við síðasta miðvikudag, voru almennt óánægðir með fyrirhugaðan söluskatt á fisk, en áformað er að hann verði 25%. Helgi Helgason hjá Fiskverslun Hafliða benti þó á að skattlagningin hefði ekki tekið gildi enn og söluskatturinn gæti verið pólitísk leikflétta til að ríkisstjórnin hefði eitthvað til að semja um í komandi samningum. Rafn Stefánsson sagði að skatturinn kæmi harðast niður á láglaunafólki og þá helst öldruðum. Elísa Tómasson, sem er ellilífeyrisþegi og er þýsk að uppruna, sagði að matvöruverð væri þegar of hátt og hún líkti kjörum aldraðra við ástandið í Þýskalandi í seinni heimsstyrjöldinni.“

Í fréttinni segir: „Rafn Stefánsson, verslunarmaður í fiskbúðinni Sæbjörgu í Dunhaga, sagðist ekki skilja í að nokkur kaupi fisk eftir áramót. Hann sagði að ýsuflök, sem nú væru um 240 kr., mundu hækka í 300 kr. og silungsflök í rúmar 600 kr. kg. Hann sagðist ekki skilja þá pólitísku hugsun sem lægi að baki söluskatti á fiski. Hann sagði að svo virtist sem aðgerðir ríkisstjórnarinnar beindust að því að auka sölu á fjallalambi. Læknar legðu þó áherslu á að breyta þurfi neysluvenjum fólks og hvetji það til að neyta hollustufæðis, þar á meðal fisks. Nú væri aftur á móti lagður hár söluskattur á þessa hollu fæðu og á sama tíma væri kjöt greitt niður.

Hann bætti því við að þessar aðgerðir kæmu helst niður á láglaunafólki og þá aðallega öldruðum sem hefðu margir hverjir ekki efni á að kaupa kjöt og margir þeirra væru þar að auki hættir að geta borðað það. Rafn sagði enn fremur að svo gæti farið að svindlað verði á söluskattinum.“ — Og taktu nú eftir, hæstv. ráðherra. „Til að mynda gætu mötuneyti tekið upp á því að kaupa fisk án þess að greiða söluskatt.

Helgi Helgason, verslunarmaður í Fiskverslun Hafliða Baldvinssonar, var hins vegar á þeirri skoðun að söluskatturinn mundi skila sér í ríkissjóð.

Hann sagði hins vegar að e.t.v. væri raunhæft að leggja 8% söluskatt á fisk, en 25% væri allt of há skattlagning. Hann benti á að á sama tíma og gert sé ráð fyrir að dilkakjöt hækki ekki og annað kjöt aðeins um 10–15% væri fiskur gerður að munaðarvöru. Hann taldi að sala á öllum fisktegundum mundi minnka, a.m.k. fyrst um sinn. Hann sagði þó að ekki væri víst að þessi skattlagning tæki gildi og hann taldi ekki útilokað að áformin um söluskatt á matvæli væru aðeins lögð fram til að ríkisstjórnin hefði eitthvað að semja um í komandi kjarasamningum.

Fisksalarnir voru sammála um að líklega hefði fólk almennt ekki enn gert sér grein fyrir hversu mikla hækkun væri hér um að ræða. Ingunn Jónsdóttir, viðskiptavinur í Fiskverslun Hafliða Baldvinssonar, var á sama máli og sagði í stuttu samtali við Morgunblaðið að vegna vinnu sinnar hefði hún ekki haft tíma til að fylgjast með umræðunni um söluskatt á matvæli, en þegar fisksalinn tjáði henni að ýsan mundi hækka upp í 300 kr. kg sagði hún að það væri allt of mikil hækkun. Hún sagðist þó ekki gera ráð fyrir að hætta að kaupa fisk eftir hækkunina.

Viðskiptavinur í fiskbúðinni Sæbjörgu sagði að fiskur væri það sem þjóðin lifði á og hækkunin bitni helst á fátæka fólkinu sem hefði ekki efni á að borða fisk og yrði að borða kjöt. Hann hefði oft séð ellilífeyrisþega tína til smápeninga upp á búðarborðið og biðja fisksalann um dálítið minna flak til að peningarnir dygðu.

Elísa Tómasson var sammála þessu og sagði að peningar ellilífeyrisþega dygðu varla þó þeir væru alltaf að reyna að kaupa það allra ódýrasta. Hún sagði að ekki mundi ástandið batna ef lagður yrði söluskattur á matvæli og hún lýsti ástandinu sem hörmung. Hún hefði aldrei upplifað annað eins og þó hefði hún búið í Þýskalandi á stríðsárunum. Þá hefði verið skortur á vörum en ekki hefði vantað peninga til að kaupa þær. Nú væru aftur á móti nægar vörur, en skortur á peningum.“

Þetta eru vissulega umhugsunarverð orð, herra forseti, og hrollvekjandi. Það var ekki að undra þó hæstv. ráðherra talaði bæði hratt og lágt og afskaplega óskýrt þegar hann mælti fyrir þessu máli áðan. Hann hlýtur þrátt fyrir mikið annríki að hafa heyrt andmælin og skynjað ótta manna við afleiðingar þessara lagabreytinga og hæstv. ráðherra má ekki láta slíkar raddir sem vind um eyrun þjóta.

Þetta leiðir hugann að því sem reyndar hefur komið upp aftur og aftur í sambandi við þessar víðtæku breytingar á tekjuöflunarkerfi ríkisins. Hverjir komu þar að verki? Hverjir voru spurðir ráða? Hvað með fjölskyldunefndina sem sett var á stofn? Var hún spurð ráða? Ég man ekki betur en hlutverk hennar væri að vera hæstv. ríkisstjórn til ráðgjafar um fjölskyldumál og hvernig styrkja mætti stöðu fjölskyldunnar á alla lund. Er það líklegt til að styrkja fjölskylduna að skattleggja brýnustu nauðsynjar hennar? Það hefði að sjálfsögðu átt að koma til kasta þessarar fjölskyldunefndar, nema hún hafi verið hugsuð sem alger sýndarnefnd, e.t.v. til að friða góðar og gegnar jafnaðarkonur í öllum stjórnarflokkum því vissulega er nefndin eingöngu skipuð konum.

Og hvað um manneldisráð? Var það spurt? Hæstv. ráðherra kannast við viðhorf okkar kvennalistakvenna til allra þessara lagabreytinga með tilliti til manneldisstefnunnar sem við styðjum einlæglega og teljum nauðsynlegt að fylgja, ekki aðeins vegna þess að hún sé nauðsynleg með tilliti til velferðar einstaklinganna og rétts hvers einstaklings til heilbrigðis og mannsæmandi lífs heldur einnig vegna þess að hér er um hagkvæmni og sparnað að ræða fyrir ríkið. Heilbrigður og ánægður einstaklingur er vissulega mikils virði fyrir þjóðfélagið og það er okkur öllum keppikefli að eiga sem flesta slíka þótt okkur sé vitanlega einnig skylt að aðstoða þá sem ekki fá að njóta sömu lífsgæða. Það er þeim mun auðveldara að tryggja þeim mannsæmandi líf sem fleiri eru heilbrigðir og færir um að styrkja þetta þjóðfélag.

Í skýrslu heilbr.- og trmrh. um íslenska heilbrigðisáætlun, sem var lögð fram á síðasta þingi, um tiltekin manneldismarkmið, og er ástæða til að vitna í þessa skýrslu í þessari umræðu þótt það hafi raunar verið gert áður, það er svo mikil hreyfing á hv. þm. að það er aldrei að vita hver heyrir hvað, en með leyfi forseta, þá stendur m.a. í þessari skýrslu:

„Næringarástand þjóðarinnar er talið gott. En það þarf að sjá um að allir fái nægan mat og í honum séu rétt hlutföll frá næringarfræðilegu sjónarmiði. Leggja skal áherslu á framleiðslu og neyslu kornmetis, fisks, kjöts sem er magurt, kartaflna og grænmetis.“

Og áfram segir: „Stuðla skal að neyslu mjólkurvara með lágu fituinnihaldi með fræðslu og verðstýringu. Neyslu matar, sem hefur mikið af sykri, og neyslu sætinda svo og saltaðs matar á að minnka með upplýsingastarfsemi og verðstýringu.“

Þessi stefna, sem þarna kemur fram, er mjög góð stefna og hún er það enn þá. Hæstv. núv. ríkisstjórn virtist sannarlega með á nótunum og virtist hafa kynnt sér þessa stefnu þegar hún samdi og birti stefnuyfirlýsingu sína og starfsáætlun því að þar segir einmitt í kaflanum um heilbrigðismál á bls. 24, með leyfi forseta:

„Samræmdar verði aðgerðir stjórnvalda til að framfylgja neyslu- og manneldisstefnu með heilbrigði landsmanna að leiðarljósi.“

Þetta var það sem hún ætlaði að gera, hæstv. forseti. Síðan tiltekur hún að landbúnaðarvörur sérstaklega séu mikilvægasti neysluhluti almennings, en hún tekur hvorki tillit til þeirra manneldissjónarmiða sem hafa komið fram í manneldismarkmiðum heilbrigðisáætlunarinnar né heldur í þeim markmiðum sem Manneldisfélag Íslands hefur sett sér.

Í grein í Morgunblaðinu frá 9. des. eftir Jón Gíslason, sem er næringarfræðingur og formaður Manneldisfélags Íslands, segir m.a., með leyfi forseta: „Þegar samkomulag ríkisstjórnarinnar er athugað nánar kemur hins vegar í ljós að manneldismarkmið, sem taka mið af því að efla heilbrigði þjóðarinnar, hafa ekki verið höfð til hliðsjónar um mótun þess“, þ.e. þessa frv.

Og hann segir enn fremur: „Manneldisráð Íslands, sem lögum samkvæmt skal vera heilbrigðisyfirvöldum til ráðuneytis um manneldismál, lauk á sl. ári við gerð manneldismarkmiða fyrir Íslendinga. Markmiðin eru sett fram í þeim tilgangi að efla heilbrigði þjóðarinnar með leiðbeiningum um fæðuval og eru byggð á þeim rannsóknum og þeirri þekkingu sem fyrir liggur um tengsl mataræðis og heilsu.“

Hann segir síðan frá því að þetta hafi verið kynnt hjá fyrrv. ríkisstjórn og hlotið góðar undirtektir. Síðan telur hann upp nákvæmlega þær fæðutegundir og fleiri, sem ég minntist á áðan, sem allar hljóta þau örlög í frv. sem hér er til umræðu að þær munu hækka.

Jón Gíslason segir enn fremur í þessari tilvitnuðu grein: „Ríkisstjórn Íslands hefur samþykkt aðild að áætlun 33 Evrópuþjóða um forvarnarverkefni sem nefnt er „Heilbrigði allra árið 2000“, en Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur unnið að undirbúningi þess verkefnis á síðustu árum. Eitt af meginmarkmiðum áætlunarinnar er að vinna að öflugum forvörnum þannig að koma megi í veg fyrir sjúkdóma. Mataræði getur haft áhrif á heilsufar á fleiri vegu og tengsl mataræðis og heilsu eru því einn þeirra þátta sem heilbrigðisyfirvöld verða að leggja áherslu á ef markmið áætlunarinnar eiga að nást.

Einn veigamesti þáttur forvarna vegna langvinnra sjúkdóma, svo sem hjarta- og æðasjúkdóma, krabbameins, sykursýki og tannsjúkdóma, er fræðsla um rétt fæðuval.“

Nú er það svo, herra forseti, að Manneldisfélag Íslands stóð fyrir ráðstefnu um manneldisstefnu á Íslandi 31. okt. og 1. nóv. sl. og þegar unnið var að undirbúningi þessarar ráðstefnu sendi félagið fjmrn. bréf þar sem óskað var eftir að fulltrúi ráðuneytisins flytti erindi á ráðstefnunni um verðlagningu matvæla með tilliti til manneldismarkmiða. Það kemur fram í grein Jóns Gíslasonar að ráðuneytið gat ekki orðið við þessari ósk og bar því við að einmitt um þessar mundir væri verið að vinna að veigamiklum breytingum á þessu sviði. Þegar niðurstöður ríkisstjórnarinnar af þessari miklu vinnu liggja nú á borðum hv. alþm. hljóta þeir að álykta sem svo að ráðuneytið hefði átt að leyfa sér þann munað að sækja þessa ráðstefnu því niðurstaðan hlýtur að vera sú að hæstv. ríkisstjórn hefur hreint ekkert spurt manneldisráð um hvað því fyndist um þessar ráðstafanir. — Ég bið um að hurðunum verði ekki lokað þarna þó að þeir skemmti sér vel. Ég treysti því að orð mín nái til hæstv. ráðherra sem er mikill áhugamaður um þau efni sem hér eru á dagskrá. — En ef þetta er ævinlega viðhorfið í ráðuneytinu þegar á að byrja fyrsta skrefið í þeirri löngu göngu að marka heilbrigðisstefnu og framfylgja hérlendis verður það aldrei gert vegna þess að það verður ekki ráðrúm til þess ef ráðamenn gefa sér ekki tíma til að kynna sér hvað kunnáttumenn hafa um þessi mál að segja. Það er ekki hægt að líta á svar ráðuneytisins við boði manneldisráðs öðruvísi en sem hroka og lítilsvirðingu. Og það er ekki úr vegi að spyrja hæstv. ráðherra að því hvers vegna enginn treystir sér til að fórna tíma sínum í að sækja þessa ráðstefnu og kynna sjónarmið ráðuneytisins í þessum málum, sérstaklega með tilliti til þess að verið var að móta þessa stefnu í ráðuneytinu einmitt þessa dagana. Þetta er útkoman úr dæminu, þ.e. stefnan, sem birtist í þessum ráðstöfunum, og stefnan, sem birt var í markmiðum ríkisstjórnarinnar þegar starfsáætlun hennar var birt, eru greinilega dæmi um hægri og vinstri höndina sem margsinnis er vitnað til.

En herra forseti. Eitthvað er þó farið að síast inn í hæstv. ráðherra um það sem sagt hefur verið bæði um hollustu og um afkomu heimilanna og neysluvenjur — eða skyldi eitthvað annað liggja að baki þess tilboðs hæstv. ríkisstjórnar, ef tilboð skyldi kalla, að greiða neyslufisk að hluta til niður? Það merkilega við þetta tilboð er hvernig það er til komið. Menn komust nefnilega að þeirri niðurstöðu í umfjöllun um þau frv., sem hér liggja fyrir þinginu um tollabreytingarnar og álagningu vörugjalds, að það gengi ekki, sem þeir höfðu ætlað, að lækka verð á ýmsum ilmvörum í fínum merkjum eins og Dior og — Ja, ég er nú heldur illa að mér í fínum merkjum og man ekkert fleira. Ég man ekkert annað en Dior gamla og hætti mér því ekki út í það frekar.

En við vorum sem sagt upplýst um það í hv. fjh.og viðskn. að ef verð slíkra vara lækkaði í verslunum hér, fríhafnarversluninni sem öðrum, mundi monsieur Dior og þeir félagar hans í sömu greinum bara ekki líða slíkt og þeirra ráð yrði að hækka vöruna frá sér því það væri bein lítilsvirðing við þeirra framleiðslu ef hún yrði seld á hálfgerðum launamannaprís, það væri ekki líðandi. Og nú voru góð ráð dýr, ef svo má að orði komast í þessu samhengi, því menn vildu ekki fyrir nokkurn mun láta Dior og co. hagnast á þessari kerfisbreytingu hér heima á Fróni. Það var snarlega ákveðið að leggja vörugjald á þessar vörur, þ.e. ilmvötn og ýmislegt fleira því skylt í leiðinni sem ég man ekki alveg upp að telja nú á stundinni. Svo hugkvæmdist mönnum það snjallræði, eða hafa þeir kannski alltaf haft það uppi í erminni, að nota þá upphæð sem þarna fengist til að greiða niður hluta af neyslufiski eins og við höfum fengið fréttir af. Og var nú látið heita sem svo að það væri tilboð til stjórnarandstöðunnar til að greiða fyrir þingstörfum svo að þeim mætti ljúka fyrir jól. Þetta eru þvílíkar hundakúnstir að maður stendur klumsa. Þessu fylgdu svo sem engar útlistanir á því hvernig þessu ætti að koma fyrir, en það mátti ekki heita undanþága frá söluskatti. Það má ekki minnast á undanþágur frá söluskatti í sambandi við matvæli.

Herra forseti. Síst af öllu færum við kvennalistakonur að berjast gegn því að fiskverði yrði haldið niðri. En þessi aðferð hugnast okkur ekki of vel. Ég hugsa að hún sé ótrygg og bjóði upp á vandamál í framkvæmd. Eina rétta leiðin, hæstv. ráðherra, er að undanþiggja alla matvöru söluskatti og þá til þrautavara þá matvöru sem alls ekkert heimili getur verið án. Hér er rétt að geta þess að kvennalistakonur í Ed., hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir og Danfríður Skarphéðinsdóttir, lögðu fram brtt. við frv. þegar það var til afgreiðslu í Ed. sem ég leyfi mér hér að kynna því að þær segja allt um stefnu Kvennalistans og vilja í þessum málum. Þær lögðu fram tillögu til breytinga við 1. mgr. 3. gr. frv., sem er í raun sambærileg við þá undanþágu sem nú er í reglugerð um söluskatt, þess efnis að undanþegnar yrðu vörur sem um ræðir í 1.— 4. flokki Viðauka I í tollalögum og ætlaðar eru til manneldis. Ég held að það sé rétt, herra forseti, með þínu leyfi, að ég lesi tillöguna:

„Undanþága skv. þessum tölul. tekur þó ekki til hreinna eða blandaðra grænmetis- og ávaxtasafa eða tilreiddra efna til slíkrar drykkjarvörugerðar, sælgætis, öls, gosdrykkja eða annarra vara sem gjaldskyldar eru skv. lögum um vörugjald, sbr. reglugerðir sem settar eru skv. þeim lögum. Undanþágan nær ekki heldur til tóbaks, drykkjarvara sem innihalda áfengi, tilbúinna efna til öl- eða víngerðar, poppkorns eða annars sælgætis þótt það sé ekki gjaldskylt skv. lögum um vörugjald. Undanþága þessi nær ekki til sölu veitingahúsa, greiðasölustaða eða annarra á tilbúnum mat.“

Þetta er, eins og ég sagði áðan, sambærilegt við þá undanþágu sem nú er í reglugerð um söluskatt. Þær voru enn fremur með brtt. um það að 14.

tölul. 2. mgr. 3. gr. frv. orðaðist svo: „Aðgangseyrir að íþróttasýningum, íþróttamótum, sundstöðum, heilsuræktarstöðvum og skíðalyftum“, sem sagt að þessi atriði væru undanþegin.

Hér er um að ræða að bæta inn í undanþágurnar heilsuræktarstöðvum. Þar kemur enn til sögunnar heilsuræktar- og forvarnarsjónarmiðið sem við teljum að verði að fást viðurkenning á og stuðningur við. Okkur hefur verið tjáð að sú leikfimi sem boðið er upp á í þessum heilsuræktarstöðvum sé í mörgum tilvikum eina líkamsræktin sem margir leyfa sér og njóta og menn óttast að úr því dragi stórlega ef það verðar mikið dýrara.

Herra forseti. Það er í rauninni alveg óþarft að spyrja hæstv. ráðherra hverjir hafi verið spurðir ráða þegar þetta frv. og fylgifrv. tvö um tolla og vörugjald voru samin. Það er deginum ljósara að þeir sem þessar breytingar bitna fyrst og fremst á voru ekki spurðir og þeir sem settir eru til að gæta hagsmuna þeirra voru ekki spurðir. Fjölskyldunefndin var ekki spurð ráða. Ég trúi því a.m.k. ekki að hún hafi verið spurð ráða. Manneldisráð var ekki spurt ráða. Neytendasamtökin voru ekki spurð ráða. Og launþegasamtökin voru ekki spurð ráða. Það er þó hreint ekki svo að þau hafi ekki komið ýmsum mótmælum á framfæri þegar vitnaðist um áform ríkisstjórnarinnar. Við höfum vafalaust öll fengið í hendurnar eða a.m.k. nefndarmenn í fjh.og viðskn. ýmis mótmæli frá t.d. Alþýðusambandi Íslands sem mótmælti þegar í júlí þessari skattheimtu á matvöru og ítrekaði mótmæli sín í október og enn komu fram mótmæli á sambandsstjórnarfundi ASÍ sem var haldinn dagana 30. nóv. og 1. des. 1987. Þar voru enn ítrekuð mótmæli miðstjórnar ASÍ vegna áforma stjórnvalda um skattlagningu matvara um næstu áramót. Í ályktuninni segir, með leyfi forseta:

„Skattlagning matvöru kemur óhjákvæmilega harðast niður á þeim sem tekjulágir eru og nota stóran hluta tekna sinna til matvörukaupa. Sambandsstjórn krefst þess að ríkisstjórnin hætti við öll áform um matarskatt og að felldar verði niður þær álögur sem þegar hafa tekið gildi. Nái áform ríkisstjórnarinnar fram að ganga munu þau spilla frekar en orðið er samkomulagsmöguleikum a vinnumarkaði.“

Þetta er vitaskuld mjög alvarlegt, hæstv. ráðherra, og mann undrar satt að segja staðfesta ríkisstjórnarinnar að halda sig við þessi áform þrátt fyrir öll þau rök sem færð hafa verið fram gegn þeim og mótmæli. En það er bersýnilegt að þeir aðilar, sem ég taldi hér upp áðan, voru svo sannarlega ekki spurðir þegar verið var að undirbúa þessar breytingar. Það höfum við allt fengið upplýst á nefndarfundum í hv. fjh.- og viðskn. Þessir aðilar voru að ósk fulltrúa stjórnarandstöðunnar í nefndinni kallaðir til umsagnar um tolla- og vörugjaldsfrv. Fulltrúi Neytendasamtakanna hafði aldrei verið spurður fyrr en þá, þ.e. í fyrradag á fundi fjh.- og viðskn., og það var mjög áberandi og mjög athyglisvert að þessum aðilum, þótt þeir væru kallaðir til umsagnar um tollafrv. og vörugjaldsálagninguna, sem eru þau mál sem við höfum nú til meðferðar í nefndinni, var söluskattsálagning þeim ríkust í huga. Þeir komu aftur og aftur að matarskattinum sem fjölmargir í þjóðfélaginu, ef hæstv. ráðherra skyldi ekki enn hafa áttað sig á því, líta nánast a sem náttúruhamfarir. Maður spyr sig auðvitað hvort þeir sem móta þessa stefnu og leggja til þessa kerfisbreytingu hafi ekki viljað leita ráða þess fólks eða bara ekki dottið það í hug, finnist það ekki skipta neinu máli hvað þessu fólki finnst um þessar breytingar og hverjar afleiðingar þær kunni að hafa. Það er satt að segja með ólíkindum ef menn trúa því að þessar breytingar verði til þess að lækka verðbólgu. Hvaða rök eru eiginlega fyrir slíkum fullyrðingum? Hundakúnstir með vísitölur duga ekki í þessu efni og það er svo sannarlega ekki skoðun þeirra aðila sem ég vitnaði í hér áðan. Fulltrúar ASÍ og BSRB voru ekki í vafa um það að þessar aðgerðir, sérstaklega í sambandi við matarskattinn, væru verðbólguhvetjandi og mjög afdrifarík aðgerð.

Herra forseti. Það þurfti ekki að koma neinum á óvart að við kvennalistakonur værum andvígar þessum matarskatti. Það höfum við alltaf verið og látið oft í ljós hvenær sem tækifæri hefur gefist og þar fylgir hugur máli. Mér er í fersku minni þegar mikið at var í kringum stjórnarmyndunarviðræður á sl. vori og einhver spekingurinn með hagfræðimenntun hugðist gefa okkur góð ráð, eins og svo margir aðrir sem töldu sig vita allt betur, hann kom með tölur til okkar um það hvernig við gætum náð í milljarðana sem við þyrftum til þess að gera allt sem við vildum gera til hagsbóta fyrir lágtekjufólk og barnafólk og aðra sem bera þungar byrðar. Þessi ágæti maður lagði einmitt til að lagður yrði söluskattur á matvæli og hvað fengist við það í beinhörðum peningum. Og mér er vissulega í minni hver viðbrögðin urðu í okkar hópi, enda margkomið fram hvernig við litum á slíkt. Satt að segja trúði ég því aldrei að til þessa mundi koma, svo óréttlátt sem það er.

Við kvennalistakonur brugðumst við þegar hæstv. ríkisstjórn á sínum fyrstu dögum á valdastólum steig fyrsta skrefið til þess að auka álögur á almenning í formi matarskatts. Við sendum ríkisstjórninni mótmæli í formi ályktunar og mæltumst til þess að hún endurskoðaði áform sín sem mundu ekki einasta raska stórlega afkomu heimilanna heldur einnig ganga í berhögg við markmið ríkisstjórnarinnar um lækkun verðbólgu. En hæstv. ráðherrar hlustuðu ekki á okkur og þeir halda áfram á þessari braut og líklega voru þeir klókir að stíga þetta fyrsta skref á þessum sumardögum, einhverju veðurblíðasta sumri sem við munum, og á þessum tíma þegar menn voru orðnir leiðir á að fylgjast með þrasinu í kringum stjórnarmyndunarviðræður, voru eiginlega fegnir því að það væri þó komin einhver stjórn. Það voru sem sagt hagstæðar aðstæður fyrir stjórnina að gera slíkar aðgerðir sem þessar án þess að fá á sig mjög mikil mótmæli.

En nú eru aðstæður aðrar og það er geysileg ólga og mótmælaalda í þjóðfélaginu. Í dag verður t.d. útifundur á Lækjartorgi kl. 17 og ég hefði nú haldið að hæstv. fjmrh. ætti að mæta þar og hlusta á fólkið sem þar ætlar að mótmæla — ef hann má vera að. Að fundinum standa Sóknarkonur, bókagerðarmenn, fóstrur, sjúkraliðar, kennarafélögin, Iðja, Samtök kvenna á vinnumarkaði og fleiri. Skyldi nú nokkurn undra þótt hér sé að meiri hluta til um að ræða félög sem konur eru fjölmennar í? Yfirskrift fundarins er: Til hvers að lækka verð á hnífapörum þegar fólk á ekki til hnífs og skeiðar?

Vel á minnst, herra forseti, bókagerðarmenn standa að þessum fundi. Þeir hafa sínar ástæður og það ekki bara hvað varðar munn og maga. Ég var að fletta í blaðabunkanum í því hléi sem okkur gafst hér í gær og rakst þá á eitt og annað sem birst hefur undanfarna daga, m.a. merkilega grein sem birtist nýlega í Morgunblaðinu. Ég sé ástæðu til þess, herra forseti, að vitna í þessa grein, ekki síst vegna þess að hæstv. ríkisstjórn eða einstakir ráðherrar hennar hafa látið svo sem þeir láti sig menninguna miklu varða. Greinin er eftir Ólaf Ragnarsson sem er útgefandi og formaður Bókasambands Íslands. Hann spyr í fyrirsögn: „Samþykkir Alþingi 25% lestrarskatt á bókaþjóðina?" Hann segir:

„Við Íslendingar eigum fáein heimsmet. Þeim er hampað mismikið enda sum þeirra okkur fremur til háðungar en hitt.

Hérlendis er t.d. lagður hærri söluskattur á bækur en í nokkru öðru landi. Það heimsmet heyrist ekki nefnt þegar ráðamenn þjóðarinnar flytja ræður um íslenska menningu á hátíðastundum og minna á nauðsyn þess að efla og auðga móðurmál okkar.

Þessi skattur ríkisins hækkar bókaverð til kaupenda um hvorki meira né minna en einn fjórða. Allt hugsandi fólk hlýtur að sjá hve fráleitt er að heimta skatt af tjáningu á íslenskri tungu, hugsmíðum og fræðslu, mennta- og menningarefni. Þetta er enn öfugsnúnara fyrir þá sök að bækur eru eini prentmiðillinn sem skattlagður er með þessum hætti.

Jón Baldvin Hannibalsson fjármálaráðherra lagði fram á Alþingi fyrir helgina frv. til laga um breyt. á lögum nr. 10/1960, um söluskatt, með síðari breytingum. Meðal nýmæla í þessu frv. er að almennar heimildir fjmrh. til að veita undanþágu frá söluskatti, sem hingað til hafa falist í útgáfu reglugerða, eru felldar úr gildi.

Í stað þess að löggjafinn framselji þannig vald sitt til að leggja á skatta eða aflétta þeim mun nú Alþingi sjálft ákvarða með lögum hvaða vörur, vinna og þjónusta verði undanþegin söluskatti.

Í frv. ríkisstjórnarinnar er listi yfir 22 vöruflokka og 22 þjónustuliði sem verða undanþegnir söluskatti eftir áramót verði frv. að lögum óbreytt. Sömuleiðis eru taldir upp í 20 liðum ákveðnir þættir sem fjmrh. er heimilt að fella niður eða endurgreiða söluskatt af. Bækur á íslensku eru ekki meðal liðanna 64 á þessum lista. Þær virðast enn ekki eiga upp á pallborðið hjá ríkisstjórn þjóðar sem löngum hefur verið kennd við bækur og bókmenningu. Bókmenntir verða því áfram skattlagðar af meiri þunga en dæmi eru um annars staðar í heiminum nema Alþingi grípi í taumana. Því verður tæplega trúað að kjörnir fulltrúar bókaþjóðarinnar samþykki þennan lista ríkisstjórnarinnar óbreyttan, en niðurstaða fæst væntanlega í málinu fyrir jólaleyfi þingmanna.

Ráðamenn hafa undanfarin missiri lýst alvarlegum áhyggjum sínum af flóðbylgju alþjóðlegrar fjölmiðlunar og óæskilegum áhrifum erlendra mála á íslenska tungu. Allir virðast þeir sammala, hvar í flokki sem þeir standa, um að nú megi ekki bíða lengur með áhrifamiklar aðgerðir til eflingar móðurmálinu.

Skemmst er að minnast ræðu Þorsteins Pálssonar forsrh. á hátíðarsamkomu stúdenta 1. des. sl. Hann sagði þar að mestu skipti um þessar mundir að varðveita það sem gerði okkur að sjálfstæðri þjóð — íslenska menningu og íslenska tungu.

Orðrétt sagði ráðherrann: „En á sama hátt og sagt var árið 1918 að það væri skylda allra að auka veg hins íslenska ríkis getum við sagt nú árið 1987 að það sé skylda okkar allra að auka veg íslenskrar tungu. Hér er í raun um sjálfstæði okkar að tefla.“

Ég vona svo sannarlega að forsrh. beiti áhrifum sínum til þess að auka veg íslenskrar tungu. Það er skylda okkar allra eins og hann sagði. En orð á hátíðarstundum duga skammt. Forustumenn þjóðarinnar verða að sýna í verki að þeim sé alvara og ræðurnar ekki orðagjálfur. Auðvitað er í mörg horn að líta í þessum efnum sem öðrum en menn verða samt að vera sjálfum sér samkvæmir.

Er furða þótt ýmsir efist um að hugur fylgi máli hjá ráðherrum þegar nýtt frv. frá ríkisstjórninni sýnir að áfram er ætlunin að leggja söluskatt af fullum þunga á helstu máttarstoðir tungunnar, íslenska bókiðju og bóklestur — en afruglarar, sem veita flóði efnis á erlendum tungum inn á heimili landsmanna, eru undanþegnir söluskatti?

Einhver kynni að spyrja: Er hægt að taka prentað mál í bókum fyrir sérstaklega og undanþiggja það söluskatti? Hvað um efni sem látið er á þrykk út ganga í blöðum og tímaritum?

Menn þurfa ekki að hafa áhyggjur af öðrum prentmiðlum hér á landi í þessu sambandi. Yfirvöld hafa leyft landsmönnum allra náðarsamlegast að njóta efnis þeirra án þess að þeir séu neyddir til að greiða af því sérstakan skatt til ríkisins og er það vel.

Margs kyns önnur menningarstarfsemi hefur verið án söluskatts og stjórnvöld þannig stuðlað að því að gróska gæti ríkt á sem flestum sviðum íslenskrar menningar. Meðal þess sem er undanþegið söluskatti auk blaða og tímarita má nefna málverkasýningar, tónleika, leiksýningar og sýningar íslenskra kvikmynda.

Á texta á bókum á okkar ástkæra ylhýra máli er aftur á móti lagður 25% lestrarskattur!

Þennan skatt er löngu kominn tími til að afnema. Það getur ekki samrýmst menningarstefnu bókaþjóðarinnar að skattleggja bókmenntir og bóklestur umfram aðra miðlun menningar í landinu.

Í Noregi var söluskattur á bókum felldur niður fyrir nokkrum árum. Höfuðrök stjórnvalda fyrir þeirri ákvörðun voru þau að landið væri svo lítið málsvæði og norsk tunga í svo mikilli hættu frá öðrum tungum að óhjákvæmilegt væri að grípa til aðgerða til að styrkja samkeppnisstöðu bóka á norsku gagnvart erlendu efni af ýmsum toga. Áhrifamesta aðgerðin í þá átt var talin vera niðurfelling söluskatts af bókum.

Í mörgum öðrum Evrópuríkjum eru bækur undanþegnar söluskatti, svo sem í Englandi, Írlandi, Grikklandi, Sviss, Portúgal og Júgóslavíu. Í þeim löndum þar sem söluskattur er lagður á bækur er hann yfirleitt verulega lægri en á vörur almennt.

Skyldu tungumál þessara milljónaþjóða eiga fremur í vök að verjast en íslenska? Ætli flóðbylgja fjölmiðlunar á útlendum málum muni t.d. fyrr drekkja norsku en íslenskri tungu? Ef niðurfelling söluskatts í því skyni að lækka bókaverð og stuðla að auknum bókakaupum og bóklestri hefur verið nauðsynleg aðgerð í Noregi ætti ekki að vera síður þörf á slíku hér á landi. Málfélagið norska er 17 sinnum stærra en sá hópur fólks sem talar íslensku hér norður á hjara.

Áskorun um afnám söluskatts af bókum á íslensku var á haustdögum afhent ríkisstjórn Íslands. Það gerðu stjórnarmenn Bókasambands Íslands, en innan vébanda þess eru á þriðja þúsund einstaklingar og fyrirtæki um land allt sem tengjast bókum með ýmsu móti.

Í áskoruninni var vakin sérstök athygli á því óréttlæti gagnvart bókafólki sem viðgengist hefur í söluskattsmálum. Eðlilegast væri að um bækur giltu sömu reglur og um aðra prentmiðla, svo sem dagblöð og tímarit, sem væru án söluskatts. Auðvitað ætti enginn texti á íslensku máli að vera skattaður.

Fjmrh. hlýddi á boðskap og óskir sendinefndar Bókasambandsins, hélt uppi dálitlum vörnum og sagði að um áramót yrðu allar undanþágur frá söluskatti felldar niður og þá gengi eitt yfir bækur og aðra miðlun prentaðs máls.

Undanþáguliðirnir 64 í söluskattsfrv. segja hins vegar aðra sögu. Þar eru síður en svo allar vörutegundir, þjónusta og menningarstarfsemi á sama báti. Enn eykur á þetta misræmi að lagaákvæði frá því í sumar um svonefndan „sérstakan söluskatt“ á ýmsa starfsemi og þjónustu verða áfram í gildi og í þeim tilvikum er skatturinn aðeins 10%.“ — Hér er rétt að skjóta inn í að hann mun eiga að verða 12%. En áfram vitna ég í þessa grein:

"Forsrh. var jákvæður þegar við hann var rætt um erindi Bókasambandsins í haust og menntmrh. var málinu mjög fylgjandi. Sá síðarnefndi lýsti því reyndar yfir opinberlega í útvarpi fyrir skemmstu að hann væri algerlega mótfallinn því að söluskattur væri lagður á bækur, en erfiðlega hefði gengið að fá fjmrh. til fylgis við þá skoðun. Vonandi beitir menntmrh. sér að nýju í þessu máli í þingsölum og nefndaherbergjum nú þegar söluskattsmálin eru til meðferðar á Alþingi.“

Hæstv. forseti. Ætli hæstv. menntmrh. sé í húsinu? Mér láðist eiginlega að biðja um að hann yrði kallaður hingað til þess að vera viðstaddur þessa umræðu í einlægum áhuga mínum til að tefja nú ekki þingstörfin. (Forseti: Það skal upplýst að hæstv. menntmrh. er ekki í húsinu sem stendur. En hann bað mig hér fyrr í dag að láta sig vita ef hans yrði óskað við umræðuna og skal það gert. Hins vegar vil ég upplýsa að það var ætlunin að gera hlé kl. 4 vegna þingflokksfunda, þannig að óvíst er að ég gæti náð í hann fyrir þann tíma, en ég skal gera ráðstafanir til þess að láta hann vita um þessa umræðu.)

Ég þakka hæstv. forseta. Ég sé að það eru þá aðeins fjórar mínútur eftir og ég á enn eftir nokkuð af mínu máli. Ég mun þó halda áfram nú og vona að hæstv. menntmrh. verði viðstaddur þegar umræðan hefst aftur og þá mun ég endurtaka það sem ég hef sagt hér um þetta mál. En ég ætla að halda áfram:

„Fráleitt ósamræmi hefur leitt af því fyrirkomulagi sem gilt hefur um skattlagningu prentaðs máls og mun gilda áfram samkvæmt söluskattsfrv. taki alþm. ekki á sig rögg og bæti íslenskum bókum á undanþágulistann. Þjóðinni er gert að greiða hæsta söluskatt af hugverkum sem miðlað er í bókaformi, en sama efni er án söluskattsef það er birt í öðrum prentmiðlum.

Hvers vegna eiga lesendur að greiða 25% aukaskatt til ríkisins ef þeir vilja kaupa ljóð í bók, en ljóðið fæst án söluskatts ef það birtist í helgarútgáfu dagblaðsins eða í tímariti?

Hvaða sanngirni er í því að 25% söluskattur er lagður á smásögu ef hún birtist í bók, en sagan er laus við þann skatt ef hún er prentuð í dagblaði eða tímariti?

Hvað veldur því að ráðamenn bókaþjóðarinnar leggja 25% skatt á skáldsögu sem komið er á framfæri við lesendur í bók, en telja eðlilegt að sama hugverk sé án söluskatts ef það er prentað sem framhaldssaga í blaði eða tímariti eða t.d. birt í formi kvikmyndar?

Hvernig stendur á því að efni um sögu þjóðarinnar, fræðilegar uppgötvanir eða nýjar kenningar sem fram koma í íslenskum bókum er allt háð 25% skattheimtu ríkisins, en fullkomlega eðlilegt þykir að sama efni sé selt landsmönnum á síðum dagblaða eða tímarita söluskattslaust?

Erfitt hefur reynst að finna rökrétt svör við spurningunum hér að framan, enda hæpið að þau séu til.

Tjáningarfrelsi Íslendinga hlýtur að vera hið sama hvort sem það er á síðum bóka eða í öðru prentformi og á sama hátt hlýtur þjóðin að eiga jafnmikinn rétt á að njóta þess efnis í hvaða prentmiðli sem er án þess að þurfa að greiða skatta af orðunum. Í þessu efni eru bækurnar sér á báti. Í þeim er textinn skattlagður.

Bækur hafa um aldir verið eins konar undirstaða íslenskrar menningar og sætir furðu að stjórnvöld skuli íþyngja þeim landsmönnum sem vilja njóta efnis þessa hljóða og hugþekka miðils með sérstakri skattlagningu.

Alþingi og ríkisstjórn ættu nú að sjá sóma sinn í að létta lestrarskattsbyrðinni af bókaþjóðinni um áramót með því að bætaíslenskum bökum á undanþágulistann í söluskattsfrv. Sú aðgerð gæti skipt sköpum fyrir tungu og menningu þjóðarinnar.

Vaxandi bókmenntasköpun hefði örvandi og auðgandi áhrif á tunguna og bækur yrðu landsmönnum í auknum mæli uppspretta menningar, þekkingar og þroska.

Ef milljónaþjóðir telja þörf á að vera á varðbergi og styrkja þjóðtungur sínar með áhrifamiklum aðgerðum megum við ekki sofna á verðinum. Við skulum ekki gleyma því að bækur á eigin tungu gegna því þýðingarmeira hlutverki sem þjóðirnar er að þeim standa eru stærri.

Niðurfelling söluskatts af bókum á íslensku tæki af öll tvímæli um að umhyggja þm. og ráðherra fyrir móðurmálinu væri meiri en orðin tóm. Með þeirri ákvörðun yrði stigið þýðingarmikið skref í þá átt að efla íslenska tungu og unninn raunverulegur áfangasigur í stríðinu við fjölmiðlun á framandi tungum.“

Þetta var nú um menninguna, herra forseti, og það atriði sem snertir okkur sérstaklega sem bókaþjóð sem við gjarnan viljum kalla okkur. Ég vona einlæglega að hæstv. forseti sjái til þess að hæstv. menntmrh. sé gert viðvart um að um þetta mál verði fjallað hér í umræðunni á eftir þegar fundur hefst aftur að loknu hléi. Þá mun ég endurtaka örlítið af því sem ég vitnaði til hér áðan. Ég skal ekki tefja tímann með því að lesa alla þessa grein aftur þó hún sé harla góð, en ég mun vitna til þeirra orða sem ég vil sérstaklega koma á framfæri við hæstv. menntmrh. og benda honum á það sem hér er sagt og geri það þá þegar fundur hefst aftur. — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Þegar ég lauk máli mínu fyrir þetta fundarhlé þá óskaði ég eftir því að hæstv. menntmrh. yrði gert viðvart. Ég hef veitt því athygli að hann er staddur í húsinu og mér þætti vænt um ef hann mætti heyra mál mitt. (Forseti: Ég hef gert ráðstafanir til þess að honum verði gert viðvart um að umræðan sé byrjuð aftur.) Er þá ekki í lagi að ég doki við? Mér sýnist hæstv. ráðherra vera á leiðinni.

Herra forseti. Ég býð hæstv. menntmrh. velkominn í salinn. Ég mun ekki tefja hann mjög lengi því að það er nú að verða áliðið dags og margir sem eiga eftir að tjá sig um þetta mál og ég vil ekki verða til þess að skerða fyrir þeim tímann.

Ég vitnaði hér áðan, hæstv. menntmrh., í blað sem ég vænti að sé hæstv. ráðherra þóknanlegt, þ.e. Morgunblaðið, sem er þekkt fyrir áhuga á varðveislu menningar, ekki síst íslenskrar tungu. Ég vitnaði í grein sem varðar skattlagningu á íslenskt mál eins og það hirtist í bókum meðan hins vegar texti í blöðum og tímaritum er skattfrjáls. Höfundur greinarinnar er Ólafur Ragnarsson útgefandi og formaður Bókasambands Íslands. Hann bendir á hvernig þessum málum er hagað í öðrum löndum, t.d. að söluskattur hafi verið felldur niður á bókum í Noregi fyrir nokkrum árum og höfuðrök stjórnvalda þar voru þau að landið væri svo lítið málsvæði og norsk tunga í svo mikilli hættu frá öðrum tungum að óhjákvæmilegt væri að grípa til aðgerða til að styrkja samkeppnisstöðu bóka á norsku gagnvart erlendu efni af ýmsum toga. Áhrifamesta aðgerð í þá átt hafi verið talin niðurfelling á söluskatti af bókum.

Hann bendir einnig á hvernig þessum málum er hagað í ýmsum öðrum Evrópuríkjum þar sem bækur eru undanþegnar söluskatti, svo sem í Englandi, Írlandi, Grikklandi, Sviss, Portúgal og Júgóslavíu og í þeim löndum þar sem söluskattur er lagður á bækur sé hann yfirleitt lægri en á vörur almennt. Greinarhöfundur spyr hvort tungumál þessara milljónaþjóða kunni að eiga fremur í vök að verjast en íslensk tunga og er nú von að spurt sé.

Greinarhöfundur minnir á það að á haustdögum hafi ríkisstjórn Íslands verið afhent áskorun um afnám söluskatts af bókum á íslensku. Þar hafi verið vakin sérstök athygli á því óréttlæti gagnvart bókafólki sem viðgengist í söluskattsmálunum og lét í ljós þá skoðun sína að um bækur ættu að gilda sömu reglur og um aðra prentmiðla, svo sem dagblöð og tímarit sem væru án söluskatts. Hann lýsir för þeirra til hæstv. fjmrh. sem hafði hlýtt á boðskap og óskir sendinefndar Bókasambandsins. Ráðherra hafði haldið uppi dálitlum vörnum og sagt að um áramót yrðu allar undanþágur frá söluskatti felldar niður og þá gengi eitt yfir bækur og aðra miðlun prentaðs máls. En eins og margir aðrir hefur greinarhöfundur veitt því athygli að undanþáguliðirnir 64 í söluskattsfrv. segja allt aðra sögu því að þar eru síður en svo allar vörutegundir, þjónusta og menningarstarfsemi á sama báti.

Hann minnist líka á það að forsrh. hafi verið jákvæður þegar við hann var rætt um erindi Bókasambandsins í haust, minnir á orð ráðherra á hátíðarsamkomu stúdenta 1. des. sl. og segir að menntmrh. hafi lýst sig mjög fylgjandi málinu. Svo að ég vitni hér beint í grein Ólafs Ragnarssonar — ég vil ekki tefja tímann með því að lesa hana alla hér aftur en ég saknaði hæstv. menntmrh. og geri fastlega ráð fyrir að hann hafi líka veitt þessari grein athygli og taki á henni mark — en svo að ég vitni örstutt beint í greinina þar sem fjallað er um viðtökur menntmrh., þá segir þar, með leyfi hæstv. forseta,:

„Sá síðarnefndi," þ.e. hæstv. menntmrh., „lýsti því reyndar yfir opinberlega í útvarpi fyrir skemmstu að hann væri algerlega mótfallinn því að söluskattur væri lagður á bækur, en erfiðlega hefði gengið að fá fjmrh. til fylgis við þá skoðun. Vonandi beitir menntmrh. sér að nýju í þessu máli í þingsölum og nefndaherbergjum nú þegar söluskattsmálin eru til meðferðar á Alþingi.

Fráleitt ósamræmi hefur leitt af því fyrirkomulagi sem gilt hefur um skattlagningu prentaðs máls og mun gilda áfram samkvæmt söluskattsfrv. taki alþm. ekki á sig rögg og bæti íslenskum bókum á undanþágulistann. Þjóðinni er gert að greiða hæsta söluskatt af hugverkum sem miðlað er í bókaformi, en sama efni er án söluskatts ef það er birt í öðrum prentmiðlum. Hvers vegna eiga lesendur að greiða 25% aukaskatt til ríkisins ef þeir vilja kaupa ljóð í bók, en ljóðið fæst án söluskatts ef það birtist í helgarútgáfu dagblaðsins eða í tímariti? Hvaða sanngirni er í því að 25% söluskattur er lagður á smásögu ef hún birtist í bók, en sagan er laus við þann skatt ef hún er prentuð í dagblaði eða tímariti? Hvað veldur því að ráðamenn bókaþjóðarinnar leggja 25% skatt á skáldsögu sem komið er á framfæri við lesendur í bók, en telja eðlilegt að sama hugverk sé án söluskatts ef það er prentað sem framhaldssaga í blaði eða tímariti eða t.d. birt í formi kvikmyndar? Hvernig stendur á því að efni um sögu þjóðarinnar, fræðilegar uppgötvanir eða nýjar kenningar sem fram koma í íslenskum bókum er allt háð 25% skattheimtu ríkisins, en fullkomlega eðlilegt þykir að sama efni sé selt landsmönnum á síðum dagblaða eða tímarita söluskattslaust? Erfitt hefur reynst að finna rökrétt svör við spurningunum hér að framan enda hæpið að þau séu til.“

Og örlitlu neðar segir svo, með leyfi forseta: „Alþingi og ríkisstjórn ættu nú að sjá sóma sinn í að létta lestrarskattsbyrðinni af bókaþjóðinni um áramót með því að bæta íslenskum bókum á undanþágulistann í söluskattsfrv. Sú aðgerð gæti skipt sköpum fyrir tungu og menningu þjóðarinnar. Vaxandi bókmenntasköpun hefði örvandi og auðgandi áhrif á tunguna og bækur yrðu landsmönnum í auknum mæli uppspretta menningar, þekkingar og þroska.

Ef milljónaþjóðir telja þörf á að vera á varðbergi og styrkja þjóðtungur sínar með áhrifamiklum aðgerðum megum við ekki sofna á verðinum. Við skulum ekki gleyma því að bækur á eigin tungu gegna því þýðingarmeira hlutverki sem þjóðirnar er að þeim standa eru stærri.

Niðurfelling söluskatts af bókum á íslensku tæki af öll tvímæli um að umhyggja þingmanna og ráðherra fyrir móðurmálinu væri meiri en orðin tóm. Með þeirri ákvörðun yrði stigið þýðingarmikið skref í þá átt að efla íslenska tungu og unninn raunverulegur áfangasigur í stríðinu við fjölmiðlun á framandi tungum.“

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að hlýða á þessi orð, ég veit að hann mun kynna sér þessa ágætu grein, og mér þætti vænt um það ef hæstv. ráðherra mundi tjá sig um þetta efni í þessari umræðu. En eins og hér hefur verið bent á kemur einmitt í ljós gífurlegt misræmi í skattlagningu, misræmi sem menn hamast nú gegn á ýmsum öðrum sviðum og segja ekki líðandi, t.d. í sambandi við matarskattinn. Og hvar er nú réttlætishugsjónin, hæstv. ráðherrar?

Þetta var nú um menninguna og það atriði sem snertir okkur sérstaklega sem bókaþjóð sem við gjarnan viljum kalla okkur.

Ég hef ekki miklu við það að bæta sem kom fram í þessari ágætu grein og verð reyndar að játa það á mig að þessi grein ýtti mjög óþyrmilega við mér. Ég var svo upptekin af því ranglæti sem mér finnst matarskatturinn vera að ég hafði ekki hugleitt þessa hlið málsins eins og vert væri, ekki í þetta skipti. Annars er í þessari ágætu grein aðaláherslan lögð á bækurnar sem vonlegt er og það er minnt á þá undarlegu ráðstöfun að undanþiggja afruglara söluskatti. Auðvitað veit ég hver röksemdin er. Þetta er arfur frá hæstv. fyrrv. fjmrh., núv. hæstv. forsrh. sem upp á sitt eindæmi felldi niður söluskatt af afruglurunum til þess að létta Stöð 2 fyrstu sporin á sinni braut. Og nú segja menn að ef þessu verði ekki viðhaldið þá sé það mismunun gagnvart landsbyggðinni sem sé smám saman að afruglast. Já, það skortir ekki rök ef viljinn er fyrir hendi. Ef menn vildu þá gætu þeir líka staðið sig gagnvart Ríkisútvarpinu og tryggt að það gæti staðið undir þeim skyldum sem því eru lagðar á herðar. En það er nú eitthvað annað. Það er svipt lögboðnum tekjum í formi aðflutningsgjalda án nokkurra eiginlegra röksemda og eigum við vafalaust eftir að ræða það betur þegar lánsfjárlögin koma til umræðu.

Herra forseti. Ég fer nú mjög að stytta mál mitt enda búin að koma mínum sjónarmiðum að um þessi tvö atriði sem fyrst og fremst ráða afstöðu okkar kvennalistakvenna gagnvart þessu frv. Ég vil aðeins vekja athygli á því sem stendur á bls. 6 í athugasemdum með frv. Það eru orð sem ég má til með að vitna aðeins til. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Á sínum tíma uppfyllti söluskatturinn að mörgu leyti ágætlega þær kröfur sem gerðar eru til neysluskatta almennt. Skattstofninn var stór, undanþágur fáar, skatthlutfallið lágt og framkvæmdin einföld og ódýr. Öll þessi atriði eru forsendur nauðsynlegs öryggis í framkvæmd skattheimtu af þessu tagi.“

Og neðar á sömu blaðsíðu er komið inn á það að smám saman hafi verið farið að undanþiggja neysluvörur söluskatti, m.a. í því skyni að halda vísitöluhækkunum í skefjum og segir svo: „Þannig hefur skattsviðið smám saman verið að þrengjast, en það hefur óhjákvæmilega leitt til hækkandi skatthlutfalls.

Með hækkandi skatthlutfalli hefur ásókn í undanþágur aukist til mikilla muna, enda er ljóst að skatturinn getur haft afgerandi áhrif á samkeppnisstöðu einstakra fyrirtækja og framleiðsluvara gagnvart keppinautum. Þessi þróun hefur torveldað eftirlit og alla framkvæmd og aukið mjög tilhneigingu til undandráttar.

Með frv. þessu er mörkuð ný stefna í þessum efnum í því skyni fyrst og fremst að efla öryggi söluskattsframkvæmdarinnar að svo miklu leyti sem slíkt er talið mögulegt án nýs neysluskattskerfis sem tekur meira mið af þörfum atvinnulífsins en söluskatturinn gerir. Jafnframt hefur ríkisstjórnin ákveðið markað þá stefnu að virðisaukaskattur verði upp tekinn í ársbyrjun 1989.“

Og enn segir, með leyfi forseta:

„Matvæli verða á ný að fullu söluskattsskyld. Það er staðreynd að engin aðgerð hefur grafið jafnmikið undan framkvæmd söluskatts og afnám söluskatts af matvælum gerði á sínum tíma. Ástæðan er sú að mjög erfitt er að halda söluskattsskyldum og söluskattsfrjálsum vörum aðgreindum á smásölustigi.“

Allar hníga röksemdirnar í sömu átt: að því hærri sem skattprósentan sé, þeim mun erfiðara sé að beita þessu kerfi og tryggja réttláta framkvæmd þess. Hvað gerist svo í þessu frv.? Jú, söluskattsstofninn er breikkaður heldur betur, um allnokkra milljarða og þá gefst nú hæstv. ráðherra gott tækifæri til þess að framkvæma þá stefnu sína, þá hugsjón að lækka prósentuna. En það er nú eitthvað annað. Hann kippir bara undanþágudótinu upp í 25% og rökstyður það m.a. með því að lækkun prósentunnar mundi ekki skila sér því að kaupmönnum sé ekki treystandi til að skila verðlækkun til viðskiptavina sinna. Hvað er hæstv. ráðherra að segja með þessu? Það verður þá m.ö.o. aldrei hægt að lækka þessa prósentu. Aldrei. Því að þeir einu sem hagnist á því verði kaupmenn. Svo boðar hæstv. ráðherra virðisaukaskatt, 22%. Ég ætla ekki að endurtaka allt sem hv. 4. þm. Norðurl. e. sagði um þetta mál hér fyrr í dag og um afstöðu hæstv. ráðherra þegar hann var óbreyttur þm. Það var mjög athyglisverð upprifjun og sjálfsagt á hæstv. ráðherra eftir að skýra fyrir okkur óbreyttum hvað veldur stefnubreytingu hans. Mér finnst hann skulda okkur þá skýringu, okkur sem var stuðningur að stefnu hans þá í umfjöllun um þetta mál.

Ég minni á að þegar þetta mál, þ.e. virðisaukaskattur, var til umræðu á síðasta þingi, þá lýsti Kvennalistinn sig mjög andvígan slíku frv. í þeirri mynd sem það þá var og sömuleiðis gerði hæstv. núv. fjmrh. Ekki síst vorum við kvennalistakonur mótfallnar því að virðisaukaskattur legðist á matvæli eins og þar var lagt til, þannig að þar gildir sama og um það frv. sem hér er til umræðu. Og þó að sá skattur sé ekki beint til umræðu nú — og þó, hans er svo sannarlega getið í aths. við frv. — þá er ekki úr vegi að minnast örlítið á reynslu annarra þjóða svo sem fram hefur komið, í fyrri ræðum að vísu. En í Noregi t.d. hefur virðisaukaskattskerfið ekki skilað þeim árangri sem af því var vænst, hvorki til einföldunar, réttlætis eða skilvirkni.

Árið 1972 ætluðu Norðmenn í Efnahagsbandalagið og til þess að undirbúa inngöngu sína þangað löguðu þeir skattakerfið sitt í þá átt að taka upp virðisaukaskatt. Síðan felldi reyndar þjóðin í atkvæðagreiðslu þessa tillögu um inngöngu í Efnahagsbandalagið þannig að Noregur sat uppi með virðisaukaskattskerfið. Reynsla þeirra er sú að menn hafa orðið að setja mismunandi skattþrep á vörur í þessu skattkerfi. Þeim hefur ekki reynst það jafneinfalt og skilvirkt og þeir vonuðu. Aðilum í því kerfi sem annast innheimtu fjölgar næstum því þrefalt og það kallar á eftirlitsaðila. Rökin um það að menn eigi að hafa eftirlit hver með öðrum falla um sjálf sig vegna þess að það hefur ekki síður sýnt sig að menn bindast samtökum í raun til þess að forðast þetta eftirlit.

Menn segja það brýnt að hafa aðeins eina prósentu, einföldun, skilvirkni. En það hefur ekki gengið í öðrum löndum. Þau hafa einmitt mismunandi þrep í virðisaukaskattskerfi sem ná til matvæla eða þá þar sem söluskattur ríkir eru þau lægri eða jafnvel enginn skattur á matvælum. M.a.s. í Englandi hjá ríkisstjórn Margrétar Thatcher hefur tekist að halda matvælum tiltölulega ódýrum miðað við margt annað í þjóðfélaginu.

Herra forseti. Ég fer alveg að ljúka máli mínu enda margir sem bíða eftir að tjá sig og ég vona að við fáum að heyra viðhorf allra þingflokka, m.a. hv. framsóknarmanna sem eru svo sinnaðir fyrir manneldismarkmið og hollustu. Í því sambandi verð ég að segja að mér þótti ekki mikið til koma þegar hæstv. heilbrrh., svo velviljaður sem hann nú er, kom hér upp í ræðustól um daginn í umræðum um tollafrv. og reyndi að verja stuðning framsóknarmanna, m.a. við þá manneldisstefnu sem fram kemur í þessum málum, með því að íþróttavörur mundu lækka. Ég verð nú að segja að það kemur að harla litlu haldi fyrir aldraða, sjúka, ófrískar konur, yngstu börnin, fatlaða o.s.frv. En kannski heyrum við eitthvað betri röksemdir frá einhverjum öðrum framsóknarmönnum.

Mér þótti heldur lakara, herra forseti, að ég varð fyrir því oftar en einu sinni í fundarhléi núna áðan að vera sökuð um það að halda uppi málþófi hér í hv. deild. Ég verð að nota tækifærið þessar allra síðustu sekúndur sem ég,stend hér til þess að frábiðja mér slíkar ásakanir. Ég veit að þeir sem hafa hlustað á ræðu mína geta borið um það að hún hefur eingöngu snúist um það mál sem hér er á dagskrá, sem er ekkert smámál sem verður afgreitt á einhverjum örfáum mínútum enda þótt hæstv. fjmrh. teldi sig hvorki þurfa langan tíma né að tryggja það að mál sitt heyrðist skýrt og greinilega.

En þessar ásakanir, sem ég fékk að heyra hér í fundarhléi, vöktu upp þær spurningar í huga mér hvað menn meintu eiginlega með málþófi, hvort það flokkaðist t.d. undir málþóf þegar hæstv. fjmrh. notaði tvær eða þrjár klukkustundir til að mæla fyrir fjárlagafrv. sínu eða hvort það flokkaðist undir málþóf þegar hv. formaður fjvn. taldi sig þurfa alllangan tíma til þess að mæla fyrir nál. fjvn. Það kalla ég ekki málþóf. Ég kalla það ekki málþóf ef fólk heldur sig við efnið og flytur mál sitt sæmilega skipulega. Þetta er mál sem okkur kvennalistakonum liggur mjög á hjarta og ég ítreka það og legg áherslu á það að það mál sem hér um ræðir þarfnast umræðu. Við verðum að koma sjónarmiðum okkar að. Þetta er mikilvægt mál og afdrifaríkt og það hlýtur að krefjast ítarlegrar umfjöllunar. En þetta mál á nú áreiðanlega eftir að fá mikla umræðu enn og umfjöllun í nefnd og ég mun að sjálfsögðu reyna að fá fram þær breytingar sem nauðsynlegar eru á þessu frv.

Ég hlýt, hæstv. forseti, að vara hæstv. ríkisstjórn við því að hundsa þau sjónarmið — ég get beðið á meðan ráðherrar eru uppteknir. (AG: Það er dónaskapur, herra forseti, að hafa tvo fundi í gangi hérna og láta ræðumann bíða í ræðustól.) Ég er alveg að ljúka máli mínu, hæstv. ráðherrar, ef ykkur vantar tíma til að ljúka fundi. En ég vildi bara segja þetta að lokum að ég hlýt að vara hæstv. ríkisstjórn við því að hundsa þau sjónarmið sem komið hafa fram í máli okkar sem hér höfum talað í dag. Mér er að vísu ekki sérstaklega annt um líf þessarar ríkisstjórnar en ég verð að gera ráð fyrir því að aðstandendur hennar vilji reyna að tryggja henni eitthvert framhaldslíf.

En ef þessi ríkisstjórn heldur fast við þennan óréttláta matarskatt sem hér er nú kominn með annan hramminn inn fyrir dyr íslenskra heimila, þá kann ég ekki að spá ef þessi ríkisstjórn verður ekki búin að grafa sér sína eigin gröf fyrir vorið.