29.12.1987
Efri deild: 41. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3321 í B-deild Alþingistíðinda. (2330)

206. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. fjh.- og viðskn. (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Ríkisskattstjóri og Indriði H. Þorláksson, skrifstofustjóri fjmrn., voru kallaðir fyrir fjh.- og viðskn. vegna þessa máls og var farið yfir einstök efnisatriði frv. Mælir nefndin með því að frv. verði samþykkt þó svo að einstakir nefndarmenn áskilji sér rétt til að flytja eða fylgja brtt. og er hv. 6. þm. Reykv., sem sat fundi nefndarinnar, samþykk þessu áliti.

Eins og fram kemur á þskj. 379 flytur hv. 7. þm. Reykv. brtt. við frv. sem hann mun gera grein fyrir á eftir og ég sé ekki ástæðu til að fara út í að öðru leyti en því að ég legg til að frv. verði samþykkt óbreytt.

Eins og það ber með sér er hér um að ræða nokkrar breytingar á lögum um tekju- og eignarskatt fyrirtækja eða einstaklinga sem standa fyrir atvinnurekstri jafnframt því sem skattprósentunni er breytt til samræmis við staðgreiðslukerfi skatta og er alls gert ráð fyrir því að þetta frv. feli í sér um 160 millj. kr. tekjuaukningu fyrir ríkissjóð. Þarf ekki að kynna fyrir hv. þingdeild að sú er stefna ríkisstjórnarinnar sem nú situr að reka ríkissjóð með greiðsluafgangi á næsta ári, m.a. til að draga úr þenslu, ef það mætti verða til þess að eftirspurn eftir fjármagni á innlendum markaði minnkaði nokkuð og raunvextir yrðu nokkru lægri en nú er.

Ég sé ekki ástæðu til að fara frekar út í þessa sálma, en mæli sem sagt með að frv. verði samþykkt.