29.12.1987
Neðri deild: 39. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3358 í B-deild Alþingistíðinda. (2361)

196. mál, söluskattur

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Þetta er til að nota þann tíma sem eftir er af samkomulaginu og ég vona að þm. almennt virði það samkomulag þrátt fyrir orð hv. 2. þm. Vestf.

Ég hefði gjarnan viljað nota þessar fáu mínútur, sem ég hef hugsað mér að vera í ræðustól, til að biðja um betri skýringar og fá svör frá hv. 10. þm. Reykv. og að sjálfsögðu frá hæstv. fjmrh., en báðir hafa þeir látið slík orð falla. Hv. 10. þm. Reykv. sagði „að allir væru sammála um að breytingin á flóknu kerfi, sem nú væri í bígerð, væri til bóta og kæmi í veg fyrir undanskot á söluskatti.“ Þetta hefur hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson endurtekið og hæstv. fjmrh. líka.

Nú vill svo til að enn þá einu sinni sér þm. í ræðustól ástæðu til að draga athygli forseta að því að stjórnarþm. hlaupa úr salnum, þegar til þeirra er talað, til að ansa í síma. Það eru ákveðnar reglur, sem voru settar um símaþjónustu við þm., sem virðast alls ekki vera í gildi lengur. En ég ætla að fá að bíða, virðulegur forseti, eftir því að hv. 10. þm. Reykv. komi til baka úr símanum. Það er ágætt að gera samkomulag og stjórnarliðið sjái sér svo ekki hag í því að það verði haldið.

Hæstv. forseti. Ég ætla þá að halda áfram og ég vona að ég geti haldið áfram ótruflaður af utanaðkomandi aðilum, en ég mun standa hér í ræðustól og bíða eftir þeim sem fara úr salnum ef ég þarf að tala til þeirra, en það eru aðallega hæstv. fjmrh. og hv. 10. þm. Reykv.

Þar var ég kominn í máli mínu þegar ég var truflaður að hv. þm. og hæstv. ráðherra hafa staðhæft að hér sé verið að einfalda og gera skilvirkara flókið innheimtukerfi á sköttum til ríkissjóðs, þar á ég að sjálfsögðu við söluskattskerfið, og að þetta nýja kerfi muni gera undanskot miklu erfiðara. Nú er það svo að til viðbótar við það innheimtustig sem upphaflega var lagt fram er komið nýtt kerfi innan kerfisins. Það er komið nýtt söluskattskerfi innan kerfisins fyrir eina vörutegund. Ég ætla að biðja um skýringu á því frá báðum þessum virðulegu kjörnu fulltrúum á Alþingi hvernig þetta er einföldun eða hvernig kerfið á að virka, kerfið innan kerfisins. Nú hefur það skeð að tillögu forsrh. að álagningarprósenta á eina vörutegund, sem er fiskur, hefur verið lækkuð en þó ekki lækkuð. Hún á að vera 10% þegar uppgjör hefur farið fram, en annars er hún 25% í viðskiptum manna á milli sem á að endurgreiða að hluta. Sem sagt: álagningarprósenta í söluskatti á fisk er 25%, en það á að endurgreiða 15% og það á ekki að gera það úr ríkissjóði eða af innheimtuupphæð söluskattsins heldur á að gera það með því að leggja nýjan hækkaðan söluskatt á vellyktandi og hreinlætisvörur sem þjónar þeim tilgangi til viðbótar við að endurgreiða hluta af álagningarprósentu á fiskinn að það gerir söluvarninginn á Keflavíkurflugvelli seljanlegri en ella hefði orðið hefði söluskattur ekki verið settur á þær vörutegundir.

Þetta kerfi innan kerfisins vildi ég gjarnan fá útskýrt, hvernig á það að virka? Hvernig á söluskattskerfið innan söluskattskerfisins að virka fyrir fiskinn? Hvernig eru þessi 15% endurgreidd af nýjum tekjustofni? (HG: Og svo er brauðið líka.) Brauðið kemur kannski. Það er góð spurning. Hvernig verður með brauðið?

Það verður ekki til að einfalda kerfið að koma með nýtt kerfi innan kerfisins. En þessu til viðbótar eru þrjú innheimtustig. Það er 0% t.d. á myndlykla, afruglara, sem í mínum huga eru orðnir ruglarar. Það eru 12% af nýjum aðilum sem kemur fram í III. kafla held ég að það hafi verið, 18. gr. Það er sérstakur söluskattur, sem er nýtt: „Greiða skal í ríkissjóð 12%, tólf af hundraði, sérstakan söluskatt af endurgjaldi fyrir eftirtalda þjónustustarfsemi eða verðmæti:" Og svo kemur talning hérna: lögfræðiþjónusta, verkfræðiþjónusta, tæknifræðiþjónusta, hagfræðiþjónusta, viðskiptafræðiþjónusta og svona er hægt að halda áfram í 1. liðnum. Í 2. lið byrjar bókhaldsþjónusta, framtalsaðstoð, tollskýrslur, álits- og matsgerðir, tölvuþjónusta, tölvuvinnsla og áfram langur listi. Í þriðja dálkinn kemur þjónusta, fasteignasala, seljendur notaðra bifreiða o.s.fv. o.s.frv. Haldið þið að þessi viðbót sé einhver einföldun á kerfinu? Við hvern heldur hæstv. fjmrh. að hann sé að tala þegar hann talar til íslensku þjóðarinnar? Ég get upplýst hann um að hann hafi talað við vel upplýst fólk þó það sé ekki allt hagfræðingar og sérmenntað til að verða forsætisráðherrar. Þetta er hv. 10. þm. Reykv. að verja og kalla einföldun á kerfi. Þetta er margföldun á flækjum í kerfinu. Og að það verði eitthvað einfaldara að innheimta undanskot í bílskúrum, eins og kom áðan fram, og annars staðar þar sem undanskot hafa átt sér stað, þau verði erfiðari fyrir þá sem ætla sér að skjóta undan söluskatti. Slíkt er rangt.

Ég er að biðja um skýringu á því hvernig stendur á því að viti bornir menn, langskólagengnir, verkfræðingar og sérmenntaðir forsætisráðherrar reyni að bera þetta á borð fyrir fólk. Þvílík vitleysa! Íslendingar eru miklu betur upplýstir en þessir hv. fulltrúar fólksins halda að fólkið sé.

Ég vildi gjarnan fá að vita, það hlýtur að liggja ljóst fyrir núna á lokastigi afgreiðslu á söluskatti, hvernig þetta einfalda kerfi er ódýrara og skilvirkara. Hvað er það miklu ódýrara fyrir ríkið sem þarf að kaupa mat fyrir alls konar stofnanir, fyrir skólafólk, að vísu í litlum mæli, en fyrir spítala og sjúkt fólk víða á stofnunum, fyrir utan mötuneytin sem ríkið er sjálft með hingað og þangað um landið? Hvað kostar þessi söluskattshækkun fyrir ríkið sjálft? Ég efast um að það sé til svar vegna þess að menn reikna aldrei hvað þeir hafa upp úr hlutunum og hvað það kostar þá þegar þeir eru að fara með annarra manna fé.

Svo segja þessir háu herrar um allar þessar hækkanir á matvælum sem þýða 25% hækkun eins og þeir séu að tala við einhverja kjána: Þessi breyting á kerfinu hækkar ekki framfærsluvísitöluna. Hver á að trúa þessu? Fólkið sem verður að borga meira og meira af sömu krónutölu í launum? Á það að trúa því? Á það bara að sitja eftir og spyrja: Hvernig stendur á því að ég er með færri krónur í dag eftir að hafa borðað fisk en ég átti síðast þegar ég keypti fisk? Hvernig stendur á því? Og þó segir fjmrh. að þrátt fyrir hækkunina á framfærslan að hafa staðið í stað. Hvað er að ske? Hvernig stendur á því að fólk er tekið eins og fífl með því að telja því trú um að svart sé hvítt þegar við vitum að hvítt er hvítt og svart er svart og verður það alltaf, hvað sem gert er í niðurröðun á fallegum orðum sem eru merkingarlaus slagorð. Einhvern tímann í góðu tómi skulum við taka okkur saman, þeir sem eiga að trúa því að hækkanirnar hafa ekki nokkra þýðingu fyrir framfærsluna, og segja þessum háu herrum hver á Ísland. Við skulum koma þeim í skilning um að þeir eigi ekki Ísland, þeir geti ekki farið svona með Ísland og þeir geti ekki eyðilagt það góða land sem guð almáttugur hefur gefið okkur.

Ég ætla ekki að fjölyrða miklu meira um þennan söluskatt. Það er ekki bara söluskatturinn, það er svo margt annað sem hefur verið að hækka. Það eru ekki bara tölvurnar sem eru ekkert öruggari í höndum verkfræðinganna en blað og blýantur í höndum húsmóðurinnar sem þarf að vita hvað brauðið kostar frá degi til dags, svo við gleymum soðningunni í bili. Blýanturinn og blaðið er ekki verra vopn í höndum þeirra sem ekki kunna að fara með tölvur en tölvan sem við skulum segja verkfræðingar eru orðnir svo háðir að þeir geta varla notað blað og blýant.

Það er ýmislegt annað. Unnar matvörur hafa hækkað, bifreiðaskattur, kjarnfóðurgjöld, ríkisábyrgðir. Skattur verður settur á erlent lánsfé. Svo er lengi hægt að halda áfram. Og nú er kominn launaskattur líka sem á að gefa ríkissjóði eins og inn um bakdyrnar litlar 400 millj., en ég held að það verði kannski 500–600 millj. þegar upp er staðið. Allar þessar hækkanir falla undir fullyrðingar ráðamanna um að það hafi engin áhrif á framfærsluvísitölu eða buddu heimilanna.

En ég vil gjarnan vita, þó ekki nema bara að það sé ekki hægt að fá svar við því, hvað kostar þessi 25% matarskattur ríkið sjálft. Tilvera okkar er orðin svo flókin að við höfum ekki efni á að reikna út hvað aðgerðir okkar kosta okkur sjálfa. Nú er verið að tala um gengislækkun. Hvað kostar það fólkið í landinu þegar heildar erlendar skuldir eru kannski komnar yfir 80 milljarða og helmingurinn af því eða rúmlega það er í dollurum? Hvað skuldum við minna í krónutölu vegna gengisfalls dollarans og hvað græðum við á því á sama tíma sem ríkisstjórnin er farin að tala í alvöru um gengislækkun til þess að þóknast nokkrum útgerðarmönnum svo þeir fái svolítið fleiri krónur en þó miklu færri en ríkið sjálft græðir á gengislækkun dollarans. Væri hægt að reikna það út? Væri hægt að fá það á blaði? Hvað kostar gengislækkun og hvað höfum við upp úr henni? Nógar stofnanir höfum við með tölvur til að reikna það út, en dæmið er svo einfalt að það er hægt að reikna það á reiknitæki húsmóðurinnar, með blaði og blýanti.

Hver er okkar heildarframleiðsla til útflutnings og hvað gefur það okkur í aukinni krónutölu? Hverjar eru okkar heildarskuldir og hvað töpum við á því að lækka gengið? Ég hugsa að það hafi ekkert verið gert, það hafi ekki verið reiknað út frekar en kostnaðurinn við allar þær hækkanir sem ríkisstjórnin hefur nú undanfarið skellt yfir þjóðina. Nei, það er ekki hægt að hrekja það með nokkrum rökum, vegna þess að rökin eru ekki til, að ríkissjóður og ríkisstjórnin er að færa vandamál sitt yfir á heimilin í landinu og það er hægt að reikna með blaði og blýanti. Það er jafnvel hægt að reikna það í huganum. Það er svo augljóst.

Virðulegur forseti. Ég stóð að samkomulagi hér í nótt. Ég ætla mér að standa við það. Ég hef margt um þessi mál að segja sem ég sleppi vegna þess að annar stjórnarandstæðingur er á mælendaskrá og var þar á undan mér. Ég ætla að skilja rúman tíma eftir handa honum. En ég hef takmarkað mitt mál við tvær spurningar, um kerfið sem á að vera skilvirkara, einfaldara þrátt fyrir þessar flækjur, um kerfið innan kerfisins sem er þetta sérstaka söluskattskerfi fyrir fisk, niðurgreiðslu á hluta af skatti sem átti að koma á fisk, niðurgreiðslu á 15% af 25% sem eru á fiski í söluskatt og hvernig það kerfi virkar með nýjum álögum á hreinlætisvörur til að greiða niður hluta af söluskatti á fiski, hvernig þetta kerfi innan kerfisins einfaldar það kerfi sem fyrir var, hvernig það á að skila betur söluskattinum hér eftir en hingað til og hvað hefur breyst í kerfinu sem er sjálft innheimtukerfið sem leyfir hæstv. fjmrh. að fullyrða að nú sé búið að komast fyrir allt sem heitir svik í söluskattsskilum. Hættið þið að raða saman fallegum orðum, hættið þið að nota slagorð til að blekkja.

Það var talað um Sjálfstfl. (Gripið fram í: Hvað er það?) Það var nefnilega það. Hvað er nú það? Hvar er hann? Hvar er hann þegar ég lít upp. Sumir segja að hann sé í taumi hjá Alþfl. eins og hundur. Ég er hérna með litla bók og þar er haft eftir merkum manni sem hét Franklin Delano Roosevelt. Hann segir hérna: „Íhaldsmaður, hvað er það? Íhaldsmaður er maður sem stendur föstum fótum í lausu lofti.“