30.12.1987
Efri deild: 45. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3399 í B-deild Alþingistíðinda. (2376)

54. mál, útflutningsleyfi

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Hæstv. forseti. Það er sannarlega ánægjulegt að nota tímann til að ræða um störf Alþingis og samskipti þess við önnur stjórnvöld og þá sérstaklega ríkisvaldið og ekkert nema gott um það að segja að menn leggi vinnu í að afla heimilda og umsagna um stjórnarráðslögin þegar þau voru sett. Það gerði hv. þm. Svavar Gestsson með prýði að rifja upp fyrir okkur í hv. deild hvað þá gerðist og hvernig ummæli margra okkar bestu foringja féllu þá. Það er líka ánægjulegt að hæstv. utanrrh. var rétt í þessu að lýsa því yfir að við gætum haft allan þann tíma sem okkur sýndist til að ræða þessi mál, sem eru hreint ekki lítilvæg heldur mjög mikilvæg, og þar á meðal lögfræðilegan ágreining sem kann að vera og er uppi um hvort nákvæmlega þessi aðferð, að nota reglugerðarsetningu til að gera breytingu á Stjórnarráðinu, sé hin rétta eða ekki. Ég held það væri ágætt fyrir okkur að taka svolítið hlé og ræða kannski málið betur á eftir, en mér finnst alveg ástæðulaust annað, ef við eigum að vera hér áfram, en nota tímann til að ræða um þessi miklu mál.

Ég hef vakið á því athygli hér áður, fyrir hálfum mánuði, að við gæfum okkur allt of lítinn tíma til að tala um störf Alþingis og þá að sjálfsögðu um samskipti við framkvæmdarvaldið. Ég held að við þurfum að huga að því og nota einhvern tíma, kannski ekki að kvöldlagi eða næturlagi heldur hinn reglulega tíma á Alþingi þegar lítið er að gera, t.d. snemma þings eða eftir þinghlé, til að ræða rækilega þessi mál. Einmitt sá upplestur sem hv. þm. Svavar Gestsson var með áðan bendir manni á að hinn almenni þm. hér áður fyrr lagði á sig mikla vinnu til þess einmitt að huga að stjórnskipuninni sjálfri og samskiptum við embættismenn og stjórnvöld.

Þetta held ég að við eigum að gera, en ég vil ekki eyða miklum tíma í það núna. Það gæti, eins og ég sagði, verið heppilegt að taka eitthvert hlé, ef fleiri væru ekki á mælendaskrá, og hittast þá kannski þegar við værum búnir að snæða af því að mér skilst að þingfundum muni haldið áfram, a.m.k. í Nd. Þá er það að venju svo þegar þingi er að ljúka að báðar deildir eru reiðubúnar að taka við frv. hvor frá annarri ef til þess þarf að koma að einhverjar breytingar séu gerðar í annarri deildinni sem þurfi síðan að fara til hinnar. Þess vegna ítreka ég að það væri kannski hægt að fá matarhlé á meðan beðið væri eftir því að sjá hvort við fengjum fleiri mál eða nota tímann til málefnalegrar umræðu um þetta mál. Ég tek það alvarlega þegar a.m.k. einn lögfræðingur hér ræðir málið út frá þeim forsendum að hæpið sé að þetta standist stjórnskipulega og þegar maður hlustar á ummæli Bjarna Benediktssonar, Péturs Benediktssonar, Eysteins Jónssonar, Hannibals Valdimarssonar o.s.frv. sem ég var búinn að einhverju leyti að gleyma.

En mér leist satt að segja aldrei á að gera þetta með reglugerð og líst ekki á það enn þá. Þegar þess vegna er boðið upp á að þetta mál sé ekki í forgangsröð og utanrrh., sem þessi mál eiga að heyra undir, segir að það liggi ekkert á að afgreiða þessi lög, það séu ný stjórnskipunarlög í undirbúningi, þá tel ég mjög heilbrigt af hans hálfu að benda á að það liggi ekki á að afgreiða málið.