30.12.1987
Neðri deild: 40. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3409 í B-deild Alþingistíðinda. (2396)

197. mál, vörugjald

Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Ég vil taka undir gagnrýni hv. 4. þm. Norðurl. e. og hafði raunar ætlað að gera mjög alvarlegar athugasemdir við umræðu þess máls sem hér er á dagskrá því að okkur fulltrúum minni hl. hafa gjörsamlega blöskrað þessi vinnubrögð í öllum þeim málum sem hv. fjh.- og viðskn. Nd. hefur haft til meðferðar á mjög skömmum tíma og meiningin er að ræða í dag með afbrigðum samkvæmt dagskrá og samkvæmt áætlun um síðari fundi í dag.

Það mál sem er á dagskrá og er til umræðu, fyrsta málið á dagskrá, er að mínum dómi alveg á mörkunum hvað afgreiðslu snertir. Það hefur engan veginn fengið þá umfjöllun sem þyrfti og mun ég koma að því betur hér á eftir. Það er hins vegar skásta dæmið um vinnubrögðin og ég staðfesti það, sem kom fram áðan, að það var samkomulag um að afgreiða það með þessum hætti út úr nefndinni og minni hl. hefur lagt á sig þá vinnu sem þarf til að taka þetta fyrir núna með þeim skamma tíma sem við höfum haft til að semja nál. og undirbúa okkur undir þá umræðu. En hér á eftir er ætlunin að taka með afbrigðum, eins og meiri hl. var að samþykkja áðan á fundinum, frv. um tollamál sem minni hl. getur í rauninni alls ekki fallist á að hafi verið afgreitt með eðlilegum hætti út úr nefndinni. Eins og hv. 4. þm. Norðurl. e. lýsti áðan fórum við af löngum nefndarfundi í gærkvöldi í þeirri trú að þetta mál væri ekki afgreitt af nefndarinnar hálfu og yrði gert á fundi í dag. Við fréttum það fyrst þegar við komum til fundar í morgun að meiri hl. hefði afgreitt það af sinni hálfu og væri búinn að skila sinni vinnu í sambandi við þá afgreiðslu.

Við höfum að sjálfsögðu afskaplega lítinn tíma til að skila nál. og höfum ekki getað gert það hér og nú. Við höfum verið á fundi í allan morgun í fjh.- og viðskn. og sumir nefndarmanna hafa alls ekki getað setið þann fund að fullu. Þeir hafa verið uppteknir á fundum annars staðar. Þetta eru vitanlega forkastanleg vinnubrögð.

Frestunin í gærkvöldi var til komin vegna ágreinings á milli stjórnarliða um hvernig afgreiða skyldi þetta tollamál og það lá hreint ekki ljóst fyrir þegar fundi lauk að þeim mundi takast að jafna sinn ágreining og var aldeilis fráleitt að við gætum litið á það sem frágang málsins.

Söluskattsfrv., sem hv. formaður nefndarinnar lýsti áðan að hefði verið rætt töluvert í samhengi við önnur mál sem hafa verið til umfjöllunar í nefndinni, þetta stóra og veigamikla mál, hefur í raun og veru aðeins verið til formlegrar umfjöllunar í nefndinni á þessum tveimur fundum sem ég var að lýsa, í gærkvöldi og í morgun. Og hvað sem segja má um að fjölmargir aðilar hafi verið kallaðir til, vissulega að beiðni stjórnarandstöðunnar, sjá menn hvílíkan tíma nefndarmenn hafa haft til að bera fram spurningar undir stöðugri tímapressu og þrýstingi um að afgreiða málið sem allra fyrst. Ég tek því alveg eindregið undir þá gagnrýni sem komið hefur fram á störf nefndarinnar og gagnrýni á meiri hl. fyrir að ætla sér að afgreiða þetta mál fyrir sitt leyti út úr nefndinni í hádegishléi. Eins og kom fram áðan hafa fulltrúar stjórnarandstöðunnar, minni hl., þegar látið bóka mótmæli gegn þessum vinnubrögðum, sem eru ólíðandi með öllu, og hefur að sjálfsögðu ekki sagt sitt síðasta í því máli.

Herra forseti. Ég tel alveg nauðsynlegt að þetta komi hér fram og tel í rauninni nauðsynlegt að stjórn þingsins taki til alvarlegrar athugunar hvaða vinnubrögð hv. þm. eru farnir að sætta sig við og sem nefndir þingsins láta sér sæma eða öllu heldur meiri hl. sumra nefndanna. Ég held að það væri ekki vanþörf á að stjórn þingsins athugaði þessi mál og veitti þeim tiltal sem bera ábyrgð á þessum vinnubrögðum.