30.12.1987
Neðri deild: 40. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3425 í B-deild Alþingistíðinda. (2410)

197. mál, vörugjald

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Við þessa umræðu ætla ég fyrst og fremst að beina einni spurningu til formanns fjh.- og viðskn. sem talaði fyrir nál. meiri hl. Í 5. gr. frv. er sagt: „auk 25% áætlaðrar heildsöluálagningar“. Nú er að vísu komin brtt. fram frá hv. þm. Borgarafl., en þó hlýtur nefndin að hafa skoðað það mál. Er þetta eðlileg tala? Er þetta tala sem hv. 1. þm. Norðurl. v. telur vera hæfilega, sama tala sem ríkið ætlar að leggja á sem matarskatt, 25%?

Ég átti einu sinni hlut í heildverslunarfyrirtæki, fyrir tugum ára, og þá var talið að 5–7% væri alveg nægilegt fyrir slíkan innflutning. Nú hef ég ekki fylgst með þessu, en þessi tala stingur mjög í augu. Ég ætla ekkert að fullyrða hvort hún er allt of há. Mér finnst hún alveg ótrúlega há og með því að setja þetta inn í lög er verið að tryggja að hún verði a.m.k. ekkert lægri.

Nú þarf hv. 1. þm. Norðurl. v. að tala við fjmrh. til að vita hvað hann á að segja. Það þykir mér líka líklegt. En nú er þetta það frv. sem mest hefur verið fjallað um af þessum frv. Það hefur verið upplýst. Og ég kem bara með eitt af mörgu sem ég ætla að tala um í 3. umr. þegar ég er búinn að fá svar við þessu.

Það hefur ekki verið kastað til höndunum held ég í sambandi við afgreiðslu þessara mala. Það má nú segja. Og ég er ekkert hissa á því þó hv. 1. þm. Norðurl. v. sé hreykinn af þessum vinnubrögðum, að brjóta í blað í þingsögunni, ég fullyrði það, í sambandi við þessi veigamiklu mál, hvernig hefur verið unnið að þeim. Það er til þess líka að hreykja sér af því.