30.12.1987
Neðri deild: 40. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3426 í B-deild Alþingistíðinda. (2411)

197. mál, vörugjald

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er ekki ýkjamargt út af fyrir sig sem ég þarf að bæta við hér. Ég stend að nál. minni hl. Þar eru okkar helstu röksemdir tíundaðar fyrir því að vísa þessu máli frá og vísa því aftur til ríkisstjórnarinnar. Ég held að það liggi nokkuð ljóst fyrir, þrátt fyrir tilraunir virðulegs formanns fjh.- og viðskn. og annarra hér til að reyna að breiða yfir hversu snöggsoðin þessi mál eru, að hér hefur verið unnið allt of hratt að málunum. Það er ekki nokkur leið að halda því fram að það sé eðlileg skoðun og eðlileg stefnumörkun að baki þessarar miklu frumvarpssmíðar, tollalaganna, vörugjaldsins og söluskattsbreytinganna. Ég ætla að benda mönnum á að fjöldi brtt. liggur nú fyrir eða er á döfinni við öll þrjú frv. í seinni deild. Þeim var öllum breytt í fyrri deild og þeim verður væntanlega öllum breytt aftur í seinni deild vegna þess að það hafa komið upp á hverjum einasta fundi fjh.- og viðskn., sem eru reyndar ekkert óskaplega margir en þó nógu margir til þess, sem þessi mál hafa verið til meðferðar, fyrst og fremst vörugjaldið, sem kom fyrst inn í nefndina, síðan tollarnir og svo náttúrlega söluskattsfrv. með þeim endemum sem hér hefur nú verið rætt um, á hverjum einasta fundi hafa komið fram, annaðhvort í viðtölum við menn sem hafa verið hjá nefndinni eða í formi bréfa og erinda til nefndarinnar, ábendingar um hluti sem betur mættu fara og margar hverjar verið teknar til greina. (Dómsmrh.: Er það ekki hlutverk þingnefnda?) Það er vissulega hlutverk þingnefnda, hæstv. viðskrh., en bendir það nú ekki til þess að þessi mál hafi ekki verið alfullkomin þegar þau birtust hér á Alþingi? Þrátt fyrir mjög takmarkaða skoðun og nauman tíma sem þingnefndirnar, sérstaklega auðvitað í seinni deildinni, hafa haft til að kynna sér þau og skoða, koma menn með hendurnar fullar, bara við fljótan yfirlestur, fljóta skoðun, stutt viðtöl við gesti nefndarinnar, af atriðum sem nauðsynlegt reynist að breyta eða þyrfti að breyta. Mjög mörg álitamál, sem komu upp í starfi nefndarinnar og snerta bæði vörugjaldsfrv., tollana og söluskattinn, voru einfaldlega lögð til hliðar. Þau voru lítillega rædd og lögð til hliðar. Brtt. meiri hl. snerta einungis örfá af þessum álitamálum.

Ég tek undir það sem frsm. minni hl., hv. 10. þm. Reykn., sagði áðan um það dæmi sem kom upp við fyrstu yfirferð fjh.- og viðskn. á vörugjaldsfrv. þegar farið var að ræða um hvernig stæði eiginlega á því að þessi mikla vöruverðslækkun væri lögð til á ýmsum snyrtivörum, hlutum sem ekki teljast til lífsnauðsynja og er að mínu mati fyllilega eðlilegt að séu tollaðir og verðlagðir hátt. Svörin voru auðvitað engin. Það var engin sérstök ástæða til þess. Það var engin sérstök stefnumörkun að baki, ekki nokkur. Það er það heldur ekki með þessa vöruflokka yfirleitt. Það hef ég komist að raun um. Um allar þær spurningar sem ég hef lagt fyrir hvort sem heldur er fulltrúa fjmrn. eða aðra aðila og snerta það hvers vegna tiltekinn vöruflokkur er með eða án vörugjalds, hvers vegna 10% tollur er á þessu en 30% tollur á hinu, hefur borið að sama brunni. Niðurstaðan er ævinlega ein og hin sama. Það liggur í raun engin sérstök stefnumörkun, engin pólitísk meðvitund að baki því að vörur eða þjónusta eru meðhöndluð með tilteknum hætti.

Ég ætla að nefna eitt alveg sérstakt dæmi í þessu sambandi. Það snertir eðlismuninn sem er á vörugjöldum og tollum. Ég er ekki viss um að allir hv. þm., a.m.k. hv. stjórnarliðar, hafi gert sér grein fyrir því að sá er munur á að tollar eru lagðir á innflutning til landsins. Þeir hafa því mjög afgerandi áhrif á samkeppnisstöðu, ef um er að ræða annars vegar framleiðslu innan lands og hins vegar innflutning. Vegna aðildar okkar að EFTA og Evrópubandalaginu höfum við ekki heimildir til að leggja tolla á samkeppnisvörur, samkeppnisiðnað. En vörugjaldið leggst bæði á innflutning og framleiðslu innan lands og það er í okkar valdi að setja vegna þess að það hefur ekki áhrif. Og nú tek ég dæmin.

Með því að leggja vörugjald á tiltekna vörutegund, sem við skulum segja að að 5% til sé framleidd í landinu en 95% innflutt, er verið að gera þá vörutegund að tekjustofni fyrir ríkið og það er heimilt. Það er okkar mál að ráða því. En ef 5% eru framleidd af hljóðkútum í landinu en 95% flutt inn megum við ekki leggja þar á toll. Þetta gerir að verkum að það er mjög nauðsynlegt að lesa og skoða vörugjaldafrv. með hliðsjón af tollskránni og þeim takmörkunum sem aðild okkar að fríverslunarsamtökum og rammasamningar okkar við Efnahagsbandalagið setja okkur í þessum efnum. Þetta tel ég að hafi ekki verið gert. Og hvers vegna nefni ég dæmi? Ég nefni dæmið um það hlálega mál sem kom upp hjá fjh.- og viðskn. í gær þegar fulltrúar utanrrn. mættu á fundi nefndarinnar og bentu nefndinni, fulltrúum fjmrn. og öðrum á að í gleði sinni höfðu fulltrúar fjmrn. gert ráð fyrir að taka af tolla á innflutningi sjávarvara til landsins, m.a. frá Evrópubandalaginu. Hvað er það? Það er makríll, sardínur og ýmislegt slíkt dót sem flutt er inn í landið, fiskitegundir og matvara úr sjó sem ekki er framleidd hér eða veiðist hér. Hver er ástæða þess að það hefur verið skynsamlegt að halda tollum á þessum vörum? Hún er sú að það hefur verið vopn í samningum okkar við Evrópubandalagið um tollfrelsi og tollamál, t.d. á útflutningi saltfisks. Og hvað gerist svo? Það gerist að hægri hönd stjórnvalda, fjmrn. og snillingarnir þar, strikar þetta út í gleði sinni. Við viljum endilega losna við alla tolla af þessu. En utanríkis- og viðskiptaráðuneytið, hæstv. viðskrh., missa þar með úr höndum sér eitt skársta vopnið í samningaviðræðum okkar við Evrópubandalagið um tollamál. (Dómsmrh.: Það eru stór orð um lítið mál.) Já, þetta er kannski lítið mál, hæstv. viðskrh. Það getur vel verið að hæstv. viðskrh. hafi engar áhyggjur af þessu. Þá er best að hæstv. viðskrh. komi hér upp og segi okkur að það sé allt í fína lagi með samninga okkar við Evrópubandalagið. Það þurfi engar áhyggjur að hafa af því þó við fellum niður sjálfviljugir alla tolla sem við getum notað í samningaviðræðum okkar við það. Þetta er auðvitað lítið mál hvað varðar það að ekki er um mikið magn að ræða. Það er ljóst. En ég trúi fulltrúum utanrrn. þegar þeir segja að þetta hafi verið notadrjúgt tæki í samningum við þessa aðila og mættu þeir gerst vita sem hafa yfir að segja þeim starfsmönnum, eins og t.d. sendiráði okkar á meginlandi Evrópu, í Brussel, sem sérstaklega hefur mætt á að semja við Evrópubandalagið um okkar tollfríðindi á hverju einasta ári og eytt í það drjúgum hluta af sínum tíma að ég tel.

Þetta er þannig, herra forseti, að það er alveg ljóst að þessi frv. hafa ekki verið lesin saman eða verið byggð upp í því samhengi við alla þessa hluti sem nauðsynlegt er. Ég tel að það hafi komið rækilega fram bæði í umræðum, með þeim brtt. sem lagðar hafa verið fram í báðum deildum og með þeim öðrum dæmum sem ég hef hér rakið. Hvers vegna er t.d. ekki farið yfir vörugjaldsfrv. með það sérstaklega í huga að nota vörugjöldin sem tekjustofna fyrir ríkið á þeim vöruflokkum sem menn eru sammála um að betur séu til þess fallnir að vera skattstofnar en t.d. matvaran og ýmis slík nauðsynjavara og þær tekjur sem ríkissjóður fær með þeim hætti notaðar til þess að lækka þá vöruverð á nauðsynjum?

Þetta dæmi, sem hér var rakið, um snyrtivörurnar er svo sláandi þegar spurt er: Hvers vegna er heill vöruflokkur skv. tollskrárnúmerum, varalitur, ilmvötn, rakspíri, hárlökk o.s.frv., algerlega án vörugjalda á sama tíma og hér á að leggja miklar álögur t.d. á matvörur? Hver er ástæðan? Svarið er: Æ jæja, þetta bara var nú svona. Það er alveg sjálfsagt að leggja á þetta vörugjald. Það er ágætis hugmynd. Eigum við ekki bara að gera það? Jú, jú, við skulum bara gera það. Svona gerðist þetta, herra forseti. (HG: Hvar eru ráðherrarnir?) Eru þetta markviss vinnubrögð? Bendir þetta til þess að sú hugsun og sú stefnumörkun liggi að baki þessu vörugjaldafrv. sem nauðsynlegt er? Nei, auðvitað ekki. Þetta er yfirgengilegt að upplifa.

Halda menn að það sé ekki ýmislegt fleira sem mætti fella undir þennan flokk? Hafa menn áttað sig á því hvernig það er fyrir óbreytta þm. að ætla sér að lesa þetta saman? Vita menn hvernig þetta er upp byggt? Þetta er þannig að hér er frv. til l. um vörugjald. Vörugjöldin leggjast á vörur eftir því hvernig þær flokkast í tollskrárnúmer. Það er sem sagt stuðst við þá flokkun sem notuð er í tollskrá þegar vörur eru flokkaðar með tilliti til vörugjalda. Það þýðir að ef hv. þm. ætla t.d. að vita hvaða vöruflokk er verið að leggja á vörugjald upp á 14% eða 17,5, ef um innflutning er að ræða í raun og veru, þegar tollskrárnr. 3920.1000 er allt í einu sett í vörugjöld, byrjum við á því að lesa það í vörugjaldafrv. Svo förum við í tollskrána. Þar flettum við upp á númerinu 39 og nú er ég að reyna að gera það, herra forseti, 3922.1000. Það eru baðker, sturtubaðker, handlaugar, skolskálar, salernisskálar, setur, lok og vatnsgeymar til að skola niður og áþekk hreinlætistæki úr plasti. Í dálki A er 10%, í dálki E er 0%. Það þýðir að ytri tollur á vöruna er 10%, innri tollur enginn. Ef við ætlum að vita hvaða breyting á sér hér stað frá fyrri frv. þurfum við að hafa gömlu tollskrána. Við þurfum líka að fletta upp í henni því að í nýja frv. kemur ekki fram hvernig tollarnir breytast, eingöngu hvernig þeir eiga að verða. Og við verðum að hafa ýmis aukagögn vegna þess að gamla tollskráin dugði ekki ein sér eftir því sem ágætur starfsmaður einnar heildsölu í bænum, sem setið hefur fundi fjh.- og viðskn., hefur tjáð mér. Það þarf að hafa ein fjögur, fimm slík gögn í höndunum ef maður ætlar í fyrsta lagi að vita um hvaða vörur er að ræða, í öðru lagi hvaða tolla ber hún, í þriðja lagi hvaða tolla bar hún o.s.frv. Þetta eru fínu vinnuskilyrðin sem þm. hafa ef þeir ætla að komast til botns í frv. sem samanlagt eru eitthvað á fimmta hundrað bls. Það er eitthvað á fimmta hundrað bls. með smáu letri sem hér er verið að afgreiða á örfáum sólarhringum.

Herra forseti. Ég ætla að láta þessu lokið. Ég ætla ekki að fara dýpra út í efnisumræður um þetta frv. Ég tek fram og undirstrika að hvað varðar afgreiðslu þessa máls frá fjh.- og viðskn. var út af fyrir sig samkomulag, enda þetta það mál sem kom fyrst inn í nefndina og hefur mesta skoðun hlotið þrátt fyrir þann feril sem ég hef nú hér gert nokkra grein fyrir og þá stöðu málsins.