30.12.1987
Neðri deild: 41. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3430 í B-deild Alþingistíðinda. (2414)

197. mál, vörugjald

Óli Þ. Guðbjartsson:

Hæstv. forseti. Það mál sem hér er á dagskrá, 1. dagskrármálið, vörugjald, stjfrv., þskj. 366 ásamt framlögðum brtt., er hið þýðingarmesta mál og snertir í rauninni mörg önnur sem eru til umfjöllunar þessa dagana og hafa verið frá því um miðjan desember. Þetta mál kom á dagskrá þessarar hv. deildar kl. 11 í morgun og þeir hv. þingdeildarmenn sem hér voru þann tíma urðu vitni að dálítið sérstæðri umræðu sem varð um þingsköp í hartnær tvo tíma. Það var út af fyrir sig lærdómsrík umræða vegna þess að hún sýndi í sjálfu sér hvernig þessi mál hafa verið hér undirbúin eða réttara sagt hversu lítið þau eru undirbúin. Mín ætlun er að fjalla um eitt efnisatriði þess máls sem er á dagskrá, en vil þó áður en ég geri það vekja athygli á því kannski enn betur eða enn frekar en hér var gert í morgun hversu undirbúningslítil þessi miklu mál, sem hér er verið að fjalla um, í rauninni eru.

Það kemur fram þegar þetta mál er á dagskrá í hv. Ed., a.m.k. kemur það fram í nál. sem þar var lagt fram á þskj. 311, að hagsmunaaðilar í þessu efni höfðu ekki fengið tækifæri til að fjalla um málið. Ekki nema annan kantinn ef svo má segja, þ.e. einungis Félag ísl. stórkaupmanna, Kaupmannasamtökin, Verslunarráð Íslands og Félag ísl. iðnrekenda, en þeir aðilar höfðu fengið málið til umfjöllunar alllöngu áður en hv. Alþingi var gefinn tími til að ræða þessi atriði. Síðan hefur það gerst fyrir tilstilli stjórnarandstöðu fyrst og fremst að aðrir hagsmunaaðilar hafa fengið að leggja að nokkru orð í belg. T.d. aðilar eins og fulltrúar frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, fulltrúar frá Stéttarsambandi bænda, fulltrúar frá Sambandi ísl. samvinnufélaga, náttúrlega allt aðilar sem skipta máli í þessu efni eða réttara sagt sú löggjöf sem verið er að undirbúa hér skiptir þessa aðila máli. Við fengum í þessari hv. deild í morgun, þ.e. þeir stjórnarandstæðingar sem hér voru mættir og örfáu stjórnarsinnar, lýsingu á því hvernig hv. fjh.- og viðskn. þessarar deildar hefur fjallað um þetta mál á tveimur, þremur fundum, en raunverulega, að því er fram kom í þessum umræðum, voru u.þ.b. tvær mínútur til raunverulegrar umræðu um malið.

Nú er það rétt og eðlilegt að þetta mál, um vörugjald, sé skoðað í tengslum við aðra stóraukna skattheimtu sem hér er uppi höfð þessa dagana í löggjöf frá hv. Alþingi. Í nál. minni hl. fjh.- og viðskn. í Ed. er á það lögð þung áhersla að á þetta mál sé litið í heild í tengslum við önnur skattheimtufrv. sem hér er um að ræða. Það munu vera nær 9 milljarðar kr. í nýrri skattheimtu sem hér er á ferðinni og vörugjaldið er aðeins lítill hluti af því máli öllu saman.

Mín ætlun var hins vegar að ræða sérstaklega einn þátt frv. um vörugjald. Frv. er, eins og hér getur að líta, í 12 greinum og með tveimur ákvæðum til bráðabirgða eins og gjarnan er um hin merkustu lög frá hv. Alþingi, en það er 5. gr. þessa lagafrv. sem ég vildi sértaklega gera að umtalsefni og beina í því sambandi spurningu til t.d. formanns hv. fjh.- og viðskn. þessarar deildar eða hæstv. fjmrh. ellegar hæstv. viðskrh. En eins og nú standa sakir í þessari hv. deild er enginn þessara aðila viðlátinn til að hlýða á mál mitt og raunar ekki einn einasti stjórnarsinni. Að vísu gengur einn þeirra í salinn í þessum töluðum orðum og annar situr hér fyrir auk forseta. En enginn þeirra aðila sem raunverulega kemur þetta mál við formlega og efnislega í meðförum þingsins hefur talið ástæðu til að vera viðstaddur þessa umræðu. Ég vildi fara þess á leit við hæstv. forseta að gerðar yrðu ráðstafanir til þess, ef þessir menn á annað borð mega vera að því að koma hingað í salinn, að þeir yrðu látnir um það vita að þetta mál sé á dagskrá þó ekki væri nú meira. (Forseti: Ég hef gert ráðstafanir til þess að það verði sent eftir hæstv. ráðherrum.) Ég læt þá fyrir berast hér í stólnum á meðan og hef hægt um mig. Það er ekki að sjá að séu miklar annir á Alþingi þessa dagana.

Ég sé að hæstv. viðskrh. gengur í salinn og ég fagna því. — Ég gerði, hæstv. ráðherra, hlé á máli mínu vegna þess að mig langaði til að leggja fram tvær, þrjár spurningar til aðila um það mál sem hér er á dagskrá. Að vísu hafði ég ætlað sérstaklega að beina spurningum mínum til formanns fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar, sem hefur fjallað þegar um það mál sem er á dagskrá, en ég býst við að hæstv. ráðherra hafi vafalaust hugmynd um hvað fram fór í viðkomandi nefnd og geti efnislega svarað því sem mér liggur á hjarta.

Í 5. gr. þessa frv. til laga er fjallað um gjaldstofn. Ég ætla mér að lesa þá grein, með leyfi hæstv. forseta, en hún hljóðar svo:

„Gjaldstofn vörugjalds af innfluttum vörum er tollverð þeirra eins og það er ákveðið samkvæmt 8.10. gr. tollalaga að viðbættum tollum eins og þeir eru ákveðnir samkvæmt þeim lögum auk 25% áætlaðrar heildsöluálagningar.“

Það sem mér skilst að hér sé kjarni máls, þó að það komi ekki beint fram í þessari grein, er annars vegar að verið er að leggja hér vörugjald á vöru við innflutning til landsins, svo sem verið hefur, en hins vegar er það nýtt ákvæði að nú er verið að leggja vörugjald á vöru sem framleidd er í landinu að einhverju eða öllu leyti. Það sem er nýtt í þessu efni er það að nú er gert ráð fyrir 25% áætlaðri heildsöluálagningu sem kemur inn í gjaldstofninn áður en viðkomandi vörugjald er lagt á og þess vegna er fyrsta spurning mín þessi:

Hver er ástæða þess að reiknað er með 25% áætlaðri heildsöluálagningu? Hver er ástæða þess að það er akkúrat þessi prósenta sem verður fyrir valinu? Er einhver sérstök ástæða til þess? Er það vegna þess að mönnum eru 25% svo ríkulega í huga vegna söluskattsins, sem á nú að vera 25% svo að segja gegnumsneitt, eða er þetta svo yfirleitt í heildsöluversluninni? Ég þekki það ekki svo. Eða eru einhverjar aðrar ástæður fyrir því að það er akkúrat þessi prósenta, 25%? Fjórðungur er ekkert lítið mál. Er ástæðan e.t.v. sú að þarna er verið að ná upp muninum frá 14–17% í endanlegri útkomu? Þetta er mér hulin ráðgáta, ég vildi gjarnan fá að vita um þetta.

Ég vildi enn fremur fá að vita um það hvort fjh.og viðskn. þessarar hv. deildar hefur sérstaklega fjallað um þetta atriði á sínum fundum sem hér voru sérstaklega til umræðu í morgun.

Þá er annað atriði sem ég vildi gjarnan spyrjast fyrir um í þessu efni og er af nokkuð öðrum toga og má kannski segja að í rauninni snerti allt eins frv. um tollalög, sem hér eru raunar til umræðu þessa daga og mun vera annað mál á dagskrá þessa fundar hér í dag. En engu að síður held ég að það sé í lagi að ég spyrjist fyrir um það einmitt núna í leiðinni. Hér segir, eins og ég las áðan í 5. gr.: „Gjaldstofn vörugjalds af innfluttum vörum er tollverð þeirra eins og það er ákveðið skv. 8.–10. gr. tollalaga.“ Fyrirspurn mín er um tollverðið.

Nú er það svo að þegar tollverð er reiknað út, eins og menn vita, þá er það gert á þann hátt að til grundvallar liggur fob-verð vörunnar, þ.e. raunverulegt verðgildi vörunnar við innflutning í landið, fob-verð. Þegar tollverðið er reiknað út er síðan bætt við flutningskostnaði til landsins. Nú er það öllum mönnum ljóst að Ísland hefur þá sérstöðu að vera úti í miðju Atlantshafi og af þeirri ástæðu er flutningskostnaður til landsins töluvert meiri en annars staðar yfirleitt gerist. Af þeirri ástæðu hefur mér alla tíð þótt það ákaflega hæpið réttlæti, svo ekki sé meira sagt, sérstaklega þegar tollar voru hér háir, meðan þeir voru yfir 50% af tekjum ríkisins, að þá skyldi þessi hái flutningskostnaður til landsins vera notaður til þess að hækka gjaldstofninn annars vegar á tollum og hins vegar líka vörugjöldum, og nú auðvitað líka til viðbótar söluskattinn. Þess vegna langar mig líka til að spyrjast fyrir um það: Hefur það ekki komið til álita, hvorki í hv. fjh.- og viðskn., í meðförum málsins hjá ríkisstjórn þegar málið var undirbúið né á öðrum stigum þessa máls, hefur það ekki komið til álita að breyta þessari aðferð um myndun gjaldstofns fyrir vörugjald, nú ellegar tolla ellegar söluskatts að þessu leyti, að hætta því að hafa flutningskostnaðinn sem grundvöll að tollverði eins og hér er áfram lagt til? Að auki má bæta því við að það er ekki bara flutningskostnaðurinn sem leggst við fob-verðið þegar tollverðið er reiknað út, það er líka vátryggingarkostnaður. Hann er að jafnaði 1% nema á innflutningi á bifreiðum þá er hann um 2%. Þegar þetta leggst svo allt saman þá myndar þetta tollverðið og það er ekkert lítill kostnaður sem leggst við vöruverð þegar verið er að mynda þennan gjaldstofn hér á landi þegar þessum mikla flutningskostnaði til landsins er bætt við fob-verðið og tollverðið myndað.

Nú gerist það hins vegar að auki að ofan á þetta allt saman á að bæta 25% áætlaðri heildsöluálagningu áður en gjaldstofninn fyrir hið nýja vörugjald er fundinn út. Þannig að margföldunin í sköttum í þessu efni er gífurleg. Fyrir mér er aðalatriði þessi sérstaða landsins hér úti í miðju Atlantshafi, þessi langa vegalengd og eðlilega mikli kostnaður. Hvers vegna í ósköpunum þurfum við endilega að nota hann til þess að hækka þennan gjaldstofn sem hér er um að ræða?

Ég held, hæstv. forseti, að ég hafi þessi orð mín ekki öllu fleiri að sinni. Spurningar mínar eru sem sagt í meginatriðum tvær: Hver er ástæðan fyrir 25%? Og: Hefur það komið til orðs á fyrri stigum þessa máls hér í undirbúningi fyrir þessa umræðu í þinginu að breyta grundvelli að útreikningi á tollverði?

Mér hefur hins vegar, hæstv. forseti, ekki auðnast að teygja svo lopann hér í ræðustól að þessu sinni að dygði til þess að formaður hv. fjh.- og viðskn. léti svo lítið að ganga hér í sal og vera viðstaddur þessa umræðu. Það hefur ekki tekist.