30.12.1987
Neðri deild: 41. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3434 í B-deild Alþingistíðinda. (2415)

197. mál, vörugjald

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Hér er komið til 2. umr. frv. til l. um vörugjald og samkvæmt upplýsingum sem fram komu í máli þeirra sem mæltu fyrir nál. meiri og minni hl. er þetta það mál sem er sagt að eitthvert ráðrúm hafi gefist til af hálfu hv. fjh.- og viðskn. til að fjalla um andstætt því sem verið hefur um frv. til breyttra tollalaga og frv. til l. um söluskatt sem einnig eru á dagskrá þessa fundar ef leyft verður.

Samt er það svo að í sambandi við þetta frv. eru uppi margar spurningar og upplýst hefur verið af talsmönnum minni hl. nefndarinnar að á hverjum fundi sem haldinn var hafi bæst við ný atriði, ekki bara eitt, ekki bara tvö, heldur mörg og ábendingar hafi komið fram af hálfu þeirra sem með litlum undirbúningi og fyrirvara komu til viðræðu við nefndina.

Hæstv. viðskrh., sem er einn ráðherra hér viðstaddur þessa umræðu, gat þess með frammíkalli að hann teldi það vera verkefni þingnefnda einmitt að fara ofan í mál og átta sig á veilum. Það er alveg rétt sem hæstv. ráðherra sagði um það efni. Það á að vera verkefni þingnefnda. Til þess þurfa þingnefndir hins vegar tíma og þeir starfshættir sem ríkisstjórnin tíðkar í sambandi við þessi mál bjóða einmitt ekki upp á þessi vinnubrögð sem hæstv. viðskrh. með réttu taldi að væri verkefni þingsins að fjalla um, finna veilur, breyta stefnu ef meiri hl. er fyrir því í frv. sem frá ríkisstjórn koma. Og eigi það við um þetta mál sem hér er til umræðu, hvað þá um hin stóru málin? Hvert ráðrúm hefur þingnefndum gefist til að gaumgæfa þau og leggja til breytingar að yfirveguðu ráði þeirra sem þar hafa lagt nótt við dag? Sá tími hefur enginn verið. Málunum hefur verið hent inn í þingið með sérstæðum hætti eins og hér hefur komið til umræðu. En ég ætla ekki að ræða það út af fyrir sig frekar hér, virðulegur forseti, í umræðu um þetta mál. Ég óska hins vegar eftir því að hér komi til fundarins hæstv. fjmrh., sem stendur að þessu máli, og hv. 1. þm. Norðurl. v., sem er frsm. meiri hl. Það verður auðvitað ekki hægt að halda hér áfram umræðu um málið að þeim fjarstöddum svo ég treysti því að þeir komi von bráðar í þingsal og geri hlé á máli mínu. (Forseti: Hæstv. fjmrh. er þegar genginn í salinn.) Hæstv. fjmrh. er genginn í sal. Vel er það, virðulegur forseti. Þá vantar okkur hv. þm. Pál Pétursson sem ég ætla að beina til fsp. hér á eftir, en ég skal halda áfram máli mínu og ræða við hæstv. viðstadda ráðherra um þessi efni en sjá til hvort hv. þm. Páll Pétursson ekki kemur í þingsal.

Það er sannarlega lærdómsríkt að heyra málflutning talsmanna minni hl. nefndarinnar um það hvernig staðið hefur verið að málum í sambandi við þetta frv. um vörugjald og hvernig þar tókst að finna matarholur, a.m.k. eina álitlega sem nokkru skiptir, og hv. 10. þm. Reykn. gat þess í sinni framsögu að þær væru áreiðanlega margar ef eftir væri leitað.

Það var einnig mjög fróðlegt að heyra hjá hv. 4. þm. Norðurl. e. hvernig þessi mál eru búin í hendur þm. og hvaða gögn menn þurfa að fara í gegnum til þess að átta sig á þeim frv. sem hér eru lögð fyrir og saman standa í aðalgreinum af tölustöfum einum saman. Þar þurfa menn að hafa ýmislegt við hendina og hafa aðstöðu til þess að taka sér tíma til að fletta upp í þeim gögnum, bæði tollskrám, fyrirhugaðri tollskrá með breytingum og eldri tollskrá til þess að átta sig á samhengi hlutanna.

Hæstv. viðskrh., ég hafði hug á að beina til þín einni fsp. og skal láta hana koma hér. (Dómsmrh.: Með leyfi forseta, ég þarf að vera við viðræðu í Ed.) Viðræðu í Ed., en væntanlega verður hæstv. ráðherra fljótlega í þingsal hér. (Dómsmrh.: Já, ég verð það.) Þá áskil ég mér rétt til þess að koma aftur inn í umræðuna og beina til hans fsp. um þetta efni.

Það er nánast útilokað fyrir okkar, sem ekki eigum sæti í þingnefnd til að vinna að þessum málum, að átta okkur á efnisatriðum sem hér er verið að leggja til varðandi breytingar á vörugjaldi á þeim tíma sem okkur er ætlaður til þess. Ég ætla ekki að gera það sérstaklega frekar að umræðuefni, vek hins vegar athygli á þessu. Það hefði auðvitað átt að fylgja með frv. yfirlit sem opnaði fyrir okkur þá dularfullu tölustafi sem þarna eru fram bornir, yfirlit um það hvaða vöruflokkar eru hér á ferðinni. Þetta er, hæstv. fjmrh., auðvitað ekki frambærilegt að leggja fyrir þm. frv. af því tagi eins og gert er hér varðandi vörugjaldið þar sem 3. gr. samanstandur af eintómum tölustöfum og ekki er að finna í neinu fskj. hvaða vöruflokka er um að ræða. Þetta eru alls ekki frambærileg vinnubrögð og gerir okkur auðvitað mjög erfitt fyrir að taka á þessum málum af einhverju viti. En það er hér ein grein, hæstv. ráðherra, sem ég ætlaði að gera að sérstöku umtalsefni og það er 1 1. gr. þessa frv. sem mér sýnist að ekki hafi orðið nein breyting á í Ed., en greinin hljóðar svo: (Fjmrh.: Ég er kvaddur í símann.) — Virðulegur forseti, enn kemur það fram að hér er ekki hægt að eiga eðlilegar viðræður úr ræðustól við hæstv. ráðherra vegna þess að það er vöntun á síma. Hæstv. ráðherrar taka símann fram yfir viðveru í þingsal. Það er nú umhugsunarefni út af fyrir sig að síminn skuli hafa forgang, að það skuli vera forgangsatriði hjá hæstv. ráðherrum að hlaupa í símann. Það væri betur að við hefðum einhverjar slíkar boðleiðir hér í ræðustólnum. — Hæstv. ráðherra, það er 11. gr., hún er svohljóðandi komin frá Ed.:

„Fjármálaráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um tilkynningarskyldu, gjaldstofn, gjaldskyldu, uppgjörstímabil, gjalddaga og aðra framkvæmd laga þessara. Ráðherra er heimilt að undanþiggja einstaka vöruflokka gjaldskyldu skv. 3. gr. eða bæta við upptalningu í 3. gr. einstökum vörum eða tollskrárnúmerum til þess að samræmis gæti í skattlagningu sams konar eða hliðstæðra vara.

Hér er að finna í þessum frumvarpstexta, sem ætlunin er að gera að lögum hið fyrsta skv. ósk ríkisstjórnar, í fyrsta lagi reglugerðarákvæði um tilkynningarskyldu, gjaldstofu, gjaldskyldu, uppgjörstímabil, gjalddaga og framkvæmd laga þessara. Og ég spyr: Hefur reglugerð um þessi efni verið sýnd? Lá hún fyrir, hv. 1. þm. Norðurl. v., í fjh.- og viðskn. þegar um þetta mál var fjallað? Lágu fyrir reglugerðardrög frá hæstv. ráðherra um þetta efni? Og þó enn frekar spyr ég og nú beint til hæstv. ráðherra: Hvers konar heimildarákvæði er það sem hér er á ferðinni í þessari 11. gr. og mun hafa verið, ef trúa má athugasemdum við einstakar greinar í frv. eins og það er lagt fram, efnislega svipað í gildandi lögum um vörugjald sem opnar fyrir heimildir, mjög rúmar að mér virðist, heimildir fyrir ráðherra bara að stokka upp spilin? Stokka upp spilin með tilliti til þessa ákvæðis að samræmis gæti í skattlagningu sams konar eða hliðstæðra vara. Ég átta mig í fljótu bragði ekki á hvað í rauninni hægt er að spila á ákvæði af þessu tagi. En mér sýnist það vera óhugnanlega óljóst og rúmt. Maður setur stórt spurningarmerki við það starf sem hv. fjh.- og viðskn. hefur á sig lagt til þess að fara í gegnum þessa hluti og athuga þá betur en sendir frá sér málið án þess að það séu tillögur um einhverja skýringu eða nánari útfærslu á þessum ákvæðum sem eru jafnrúm og mér virðist a.m.k. vera og gera hæstv. ráðherra kleift bæði að fella niður og auka við talnalyklana skv. 3. gr. Til hvers er þá verkið unnið og hvað felst nánar í þessu?

Ég bið hv. 1. þm. Norðurl. v. að skýra það fyrir okkur, það væri best að hann riði á vaðið og útlistaði því það er þingið sent er að fjalla um málið. Framkvæmdarvaldið hins vegar leggur það fyrir þingið, hæstv. fjmrh., og það væri þá ágætt að hann kæmi líka til að segja hvað honum er í hug í sambandi við þetta efni, hvað hann gæti talið að undir þetta atriði gæti fallið.

Þetta tel ég vera ekkert smámál heldur veigamikið atriði eins og það að reglugerðardrög séu sýnd í sambandi við ákvæði eins og kveður á um í 1. málsl. 11. gr. frv. Í skýringum með 11. gr. í frv. eins og það var lagt fyrir þingið á þskj. 227 segir, með leyfi forseta:

„Grein þessi er efnislega samhljóða ákvæðum gildandi laga um vörugjöld. Í greininni er þó lagt til að ráðherra verði veitt heimild til að leiðrétta ósamræmi sem kann að vera í skattlagningu skv. frv.“ — Sem kann að vera í skattlagningu skv. frv. Þetta virðist samkvæmt þessari skýringu í rauninni vera nýtt og rýmra en ákvæði gildandi laga þannig að ég hef sennilega ekki haft alveg rétt fyrir mér fyrr í ræðu minni þegar ég ályktaði sem svo að þetta væri hliðstætt, því það segir: er þó lagt til að leiðrétta ósamræmi.

Við höfum verið að inna eftir því hér í sambandi við ýmis mál, bæði stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar og stjórnarandstöðuþm., að fá einmitt upplýsingar um svona opin ákvæði, heimildir til ráðherra varðandi einstaka þætti í öðrum málum en þessum og hér sýnist mér ástæða til þess að biðja um skýringar og þær helst sem fyllstar. Ég bið hæstv. ráðh. að reiða hér fram dæmi, skýr dæmi um það hvaða tilvik gætu komið til í sambandi við þetta heimildarákvæði, nefna þar til vöruflokka og nefna til eitthvað úr talnalyklunum skv. 3. gr., hvað það er hugsanlega í þessum talnaröðum hér sem gæti þurft breytinga við vegna þess að menn hafa ekki hlutina á hreinu. Er tilfellið að það sé verið að biðja um þetta heimildarákvæði vegna þess að þetta er svo hraðsoðið plagg að menn eigi eftir að átta sig á hvort samræmis gæti í skattlagningu sams konar eða hliðstæðra vara? Er það hugsanlegt? Hvað segir þingnefndin um þetta? Hvað segja nefndarmenn í fjh.- og viðskn. sem töldu sig hafa dálítinn tíma til að líta á þetta? Var það upplýst í nefndinni að það væri ekki tími til þess að fara nánar í þetta og þess vegna skildu menn eftir opna heimild fyrir ráðherrann til að taka upp 3. gr., undirstöðugrein frv., bæta inn nýju atriði til þess að kleift sé fyrir ráðherrann bara að stokka þetta svona upp að eigin mati?

Hver á að meta þetta? Hver á að meta þetta, hæstv. ráðherra og hv. 1. þm. Norðurl. v.? Hver á að meta það hvort samræmis gæti í skattlagningu sams konar eða hliðstæðra vara? Það er væntanlega framkvæmdarvaldið eins og gengið er frá þessum texta hérna. En er það skynsamlegt að senda frá sér mál þegar ekki er búið að fara yfir það hvort fulls samræmis gæti í þessum efnum? Og er það skynsamlegt að vera að láta menn puða hér vansvefta í þinginu í því að reyna að fara í gengum þessa talnalykla, sem enginn lykill fylgir með í frv. eins og það er lagt fyrir og menn þurfi að fletta upp í gömlum tollskrám og væntanlegum tollalögum til þess að átta sig á hlutunum? Ég veit ekki hverjum það er bjóðandi í rauninni að standa að vinnu með þeim hætti.

Ég verð að segja að það er sannarlega ekki auðvelt að fjalla efnislega um mál sem er svona lagt fyrir. Ætli hv. 10. þm. Reykv. t.d. gæti sagt mér, ef hann mætti koma hér með mér í ræðustólinn og fara yfir þessa 3. gr. með mér, hvað býr á bak við hvert talnanúmer? Ég efast um, þó að hv. þm. sé glöggur maður, að hann réði við það þó hann hafi kynnt sér tollalögin og fjallað um þessi mál. Ég hygg að hv. þm. eigi sæti í fjh.- og viðskn. og áreiðanlega ... (Gripið fram í.) Einmitt, og þá kemur hv. þm. væntanlega hér á eftir, virðulegur forseti, og segir sína túlkun á því sem ég var að fjalla um varðandi 11. gr. Hvaða óvissuatriði eru þetta, hv. 10. þm. Reykv., sem um er að ræða í 11. gr., sem valda því að það þarf að hafa þessa rúmu heimild til ráðherrans, að hann geti bara gripið inn í aðalgrein frv. og hagrætt þar hlutunum, ýmist fellt niður eða aukið við? Er hv. 10. þm. Reykv. sáttur við þessi vinnubrögð? Ég veit að hann ber mikið traust og jafnvel lotningu fyrir hæstv. fjmrh. Það hefur komið fram að hann hefur lýst áhyggjum og ber mikið traust til hans bæði í sambandi við brauð o.fl. Og það virðist eiga að gilda um vörugjaldið í heild sinni að hv. þm. ætlar bara ráðherranum að geta gripið inn í þessa talnalykla alla saman, kippt þar út og bætt við.

En þetta lýsist nú væntanlega allt þegar frsm. meiri hl. nefndarinnar skýrir sinn skilning á þessu og meiri hl. því að það skiptir nokkru máli hvert viðhorfið er. Það liggur ekkert fyrir í nál. það ég hef séð varðandi þetta atriði. Svo kemur væntanlega hæstv. fjmrh. hér og segir okkur dæmi um það hvað það er sem er svo hraðsoðið að það þurfi að hafa þessa heimild fyrir framkvæmdarvaldið. Síðan fáum við að heyra í hv. 10. þm. Reykv. um viðhorf hans til þessa. Ég get vel nefnt úr sæti mínu fyrir þm. einstakar tölur og prófað hann meðan hann er hér í ræðustól. Ég er ekki búinn að fara ofan í þetta mál þannig að ég sé læs á þessa lykla án hjálpargagna.

Og svo er það hæstv. viðskrh., sem nú er kominn hér í þingsal á ný. Það var upplýst af hv. 4. þm. Norðurl. e. í umræðu um málið á fyrri fundi að utanrrn. hefði komið með á síðustu stundu, undir lok nefndarstarfs varðandi þetta mál, ég hygg í gær, upplýsingar um ýmis atriði sem snerta tolla og vörugjöld og samspil þessara þátta og varða samkeppnisstöðu íslensks samkeppnisiðnaðar, þar sem svo virðist sem hæstv. fjmrh. og hans aðstoðarmenn hafi skóflað út ákvæðum í tollalögum að ástæðulausu og, eins og hv. 4. þm. Norðurl. e. nefndi, til veikingar ekki aðeins varðandi samkeppnisstöðu viðkomandi greina eða framleiðslu hér innan lands heldur einnig í hugsanlegum, eigum við að segja væntanlegum samningum eða samningaumleitunum við Efnahagsbandalag Evrópu varðandi tollamál og okkar hagsmunaatriði í þeim efnum. Er það virkilega svo að hæstv. viðskrh. hafi ekki verið með í ráðum í sambandi við þessi efni? Hann ber mikla ábyrgð einmitt á þessum viðskiptum fyrir utan hæstv. utanrrh. sem ætlar reyndar að taka til sín lungann af verkefnunum í sambandi við utanríkisviðskiptin. En ekki virðist aðgæslan hafa verið ýkja mikil á þeim bæ heldur, hjá hæstv. utanrrh. sem er að óska eftir heimildum eða breytingu á lögum til þess að taka til sín utanríkisviðskiptin og fá verkefni sem undir viðskrn. hafa fallið. En þó rumskuðu menn í utanrrn. og það er þakkarvert. Og mér skilst að það séu komnar fram brtt. eftir skjóta skoðun á þeim bæ á þessum þáttum og það er sannarlega eitt af mörgu sem sýnir veilurnar í undirbúningi þessara mála.

Spurning mín til hæstv. viðskrh. er sú að hve miklu leyti hans ráðuneyti hafi að þessum málum komið, hvort þess hafi verið gætt við undirbúning málsins að ekki væri að ástæðulausu verið að veikja samkeppnisaðstöðu íslensks iðnaðar eða samningsstöðu okkar gagnvart viðskiptaaðilum eins og Efnahagsbandalagi Evrópu, hvaða aðilar og embættismenn af hálfu framkvæmdarvaldsins tóku þátt í undirbúningi mála að þessu leyti og hvernig það megi vera að það sé fyrst degi áður en málið er komið til 2. umr. í þinginu að ráðuneytisstjóri utanrrn. mætir til leiks, mér skilst nánast án fyrirmæla og án þess að sérstök ósk hafi komið um það af hálfu nefndarinnar, jafnvel bara fundið það á sér að þarna gætu einhverjir skrýtnir hlutir verið á ferðinni. Þetta veit ég ekki en ég spyr. (Gripið fram í.) Ja, ég hlýt að spyrja hæstv. ráðherra og það væri ágætt ef hæstv. utanrrh. væri hér einnig, sem þriðji aðili og væntanlegur yfirbjóðandi utanríkisviðskipta í landinu, til þess að varpa ljósi á þetta.

En ég treysti því, virðulegur forseti, að umræddir ábyrgðarmenn þessa máls, hv. 1. þm. Norðurl. v. og hæstv. ráðherrar fjármála og viðskipta geri grein fyrir þessum þáttum og lýsi inn í það samhengi sem ég hef komið hér að og þær beinu spurningar sem ég hef lagt fyrir varðandi 11. gr. sérstaklega, reglugerðina, sem þar er um að ræða: Hvort reglugerðin hafi verið kynnt í nefndinni, hvort hún sé undirbúin að einhverju leyti af hálfu fjmrn. og alveg sérstaklega um þessar einkennilegu rúmu heimildir fyrir fjmrh. til þess að stokka upp spilin varðandi 3. gr. Ég bíð spenntur eftir að heyra svörin fyrir utan svo þá kennslu sem ég vænti að við fáum hér frá hv. 10. þm. Reykv. í sambandi við þessi efni og þær flóknu talnaraðir sem er að finna í 3. gr.