04.01.1988
Sameinað þing: 40. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3510 í B-deild Alþingistíðinda. (2494)

210. mál, samkomulag um loðnuveiðar Norðmanna

Frsm. utanrmn. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Herra forseti. Gleðilegt nýár.

Mál það sem hér er á dagskrá þekkja hv. alþm. vel og um það er full samstaða þingflokkanna hygg ég og væntanlega þm. allra. Efni þess er að heimila Norðmönnum á ný loðnuveiðar í íslenskri efnahagslögsögu í samræmi við samningsbundna heimild þeirra til nokkurrar hlutdeildar í veiðum úr íslenska loðnustofninum.

Vonandi tekur það enginn óstinnt upp að tækifærið sé notað til að minna á þá gífurlegu hagsmuni sem við eigum að gæta í náinni samvinnu við Norðmenn og raunar aðra nágranna í hafréttarmalunum. Þau málefni eru enn sem fyrr meginviðfangsefni hv. utanrmn. þar sem gott samkomulag er um að reyna að brjóta þau til mergjar án þess að ræða þau stöðugt opinberlega. Eðlilegt er þó að geta þess nú að síðar í mánuðinum verða hér í Reykjavík viðræður Íslendinga, Norðmanna og Dana fyrir hönd Grænlendinga um hafsbotnsréttindi á norðurslóðum þar sem um er að ræða réttargæslu á geysivíðáttumiklu hafsvæði sent þjóðirnar geta gert tilkall til að réttum alþjóðalögum. Jafnframt er unnið að því að tryggja íslensk hafsbotnsréttindi á Hatton-Rockall svæðinu, en 350 sjómílna réttindi höfum við nú þegar á Reykjaneshrygg þótt áhugi á hagnýtingu þeirra hafi kannski verið helst til lítill hingað til. Þessi stórmál verða í sviðsljósinu áður en langt líður og þá auðvitað rædd á Alþingi.

Þar sem þáltill. er flutt af hv. utanrmn. hefur að sjálfsögðu ekki verið lagt til að henni væri vísað til nefndar heldur að hún verði nú samþykkt hér.