05.01.1988
Neðri deild: 46. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3590 í B-deild Alþingistíðinda. (2538)

196. mál, söluskattur

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Það er nú ljóst að þessi tillaga verður felld. Þetta var lokatilraun okkar andstæðinga frv. til að forða þingheimi frá því að leggja matarskatt á landsmenn og það var leitt að verða vitni að því að ekki skyldu fleiri fulltrúar jafnaðarmanna treysta sér til að feta í fótspor hv. þm. Karvels Pálmasonar sem greiddi atkvæði gegn matarskattinum í Ed. Meginatriði þessa frv., 25% söluskattur á matvæli, er óhæfuverk. Slík hækkun brýnustu nauðsynja er áfall fyrir heimilin, sérstaklega lágtekjuheimilin, og þessi ráðstöfun er storkun við launafólk og sú olía sem breytt gæti verðbólguglæðunum í bál. Þetta er því ekki aðeins vond ráðstöfun og óréttlát heldur einnig heimskuleg. Þessi tillaga felur í sér að matvæli verði undanþegin söluskatti. Ég segi já.