05.01.1988
Efri deild: 49. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3642 í B-deild Alþingistíðinda. (2559)

196. mál, söluskattur

Landbúnaðarráðherra (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að metast um það hver ræður mestu í þessari ríkisstjórn. Það eru sjálfsagt aðrir sem munu fella þann dóm. En ég held að þessar auknu niðurgreiðslur, sem nú hafa verið ákveðnar til landbúnaðarvara, hljóti samt frekar að teljast í samræmi við stefnu Framsfl. en annarra flokka. Við vitum að við þessa fjárlagagerð hefur verið lögð til grundvallar ákveðin verðbólguspá. Ef þar út af víkur held ég að ríkisstjórn hljóti að verða að taka til athugunar hvort það þurfi að breyta útgjaldaliðum í samræmi við það. En hins vegar er nauðsynlegt líka að fylgjast með söluþróun á þessum vörum, í hvaða átt þessi breyting hefur áhrif, því að að öðru jöfnu ætti sú vara sem greidd er svo mikið niður að standa betur að vígi eftir breytinguna en áður.