06.01.1988
Neðri deild: 47. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3646 í B-deild Alþingistíðinda. (2569)

181. mál, stjórn fiskveiða

Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég vildi aðeins koma inn á nokkur þau atriði sem hafa komið fram hér við umræðuna, en fyrst vildi ég þakka sjútvn. fyrir góð störf í þessu erfiða mali. Það má öllum vera ljóst að það verður ekki gert neitt í þessu máli sem öllum líkar og það er engin ein rétt leið til í því sem þjónar hagsmunum allra þeirra sem við þessa atvinnugrein starfa og eru tengdir henni með einum eða öðrum hætti. En það sem hefur verið reynt að gera er að fara þær leiðir sem þjóna almannahagsmunum og gera kleift að reka þessa atvinnugrein með þeim árangri að hún geti staðið undir góðum lífskjörum í okkar landi. Auðvitað hlýtur það alltaf að vera svo að hagsmunir aðila rekast á í þessum efnum, enda er málið umdeilt af eðlilegum ástæðum.

Ég vildi fyrst gera grein fyrir því, sem hefur komið fram í máli nokkurra aðila, að sjútvrn. hafi ekki sinnt endurskoðunarskyldu á lögunum sem giltu fyrir árið 1986 og 1987.

Þann 15. júlí 1986 var öllum hagsmunaaðilum og nefndarmönnum í sjávarútvegsnefndum Alþingis skrifað svohljóðandi bréf, með leyfi hæstv. forseta:

„Í ákvæði til bráðabirgða I í lögum nr. 97/1985, um stjórn fiskveiða 1986–1987, segir að sjútvrn. skuli láta endurskoða lögin fyrir 1. nóv. 1986 og hafa við þá endurskoðun samráð við sjávarútvegsnefndir Alþingis og samtök helstu hagsmunaaðila í sjávarútvegi. Ráðuneytið telur tímabært að hefja undirbúning þessarar endurskoðunar. Af því tilefni er yður hér með boðið til fundar miðvikudaginn 13. ágúst að Borgartúni 6 kl. 14. Meðal atriða sem ræða þarf sérstaklega á fundinum eru

1. Gildistími laganna.

2. Ákvæðið um sóknarmark. M.a. þarf að meta reynsluna af því árin 1985 og 1986 og leita svara við nokkrum spurningum, svo sem: Hefur sóknarmarkið beint óhæfilega sókn í aðra stofna botnfisks en þorsks? Hvernig virkar sóknardagatalið? Er ástæða til að huga sérstaklega að gámafisksölu sóknarskipa?

3. Mat á aflamagni við ísfisksölur gagnvart kvóta, sbr. 5. mgr. 4. gr.

4. Rækjuveiðar. Þarf að setja kvóta á úthafsrækjuveiðar?

5. Fjölgun smábáta undir 10 brl. síðustu árin.

6. Eftirlit og aflaskýrslur við framkvæmd kvótakerfisins.

Ef þið teljið að fjalla þurfi um önnur atriði en hér að framan er getið væri æskilegt að þeim athugasemdum væri komið á framfæri við ráðuneytið með nokkurra daga fyrirvara.“

Með þessu bréfi var efnt til fyrsta fundar um málið þann 13. ágúst og þau atriði, sem þarna koma fram, eru:

Gildistími laganna. Það þótti ástæða til að ræða hvort ekki væri rétt að framlengja lögin strax á því hausti þannig að þau giltu til lengri tíma. Ég var þeirrar skoðunar að það væri rétt að gera það og sérstaklega með tilliti til þessa var þessi punktur settur á blað.

Ákvæði um sóknarmark. Það liggur alveg fyrir í dag að sóknarmarkið hefur verið tiltölulega rúmt og hefur orðið til þess frekar en margt annað að afli hefur farið fram úr því sem stefnt var að. Því var eðlilegt að taka það til endurskoðunar.

Mat á aflamagni við ísfisksölur. Það er mál sem mikið hefur verið rætt um og þarf ekki að fjalla um frekar.

Rækjuveiðarnar hafa gengið vel á undanförnum árum og það var talið á þessum tíma að það þyrfti að takmarka rækjuveiðarnar sem síðan var gert með reglugerð fyrir árið 1987 með þeim hætti sem heimilt var í lögunum, en á þeim tíma var um það rætt hvort ekki væri rétt að setja kvóta á rækjuveiðarnar.

Fjölgun smábáta er þekkt mál sem mikið hefur verið rætt um að undanförnu.

Um þetta mál var síðan fundað og síðan aftur 17. september og í framhaldi af þessum fundum skrifaði sjútvrn. forseta Sþ. þann 10. okt. 1986 eftirfarandi bréf:

„Í ákvæði til bráðabirgða I í lögum nr. 97/1985, um stjórn fiskveiða 1986–1987, segir að sjútvrn. skuli láta endurskoða lögin fyrir 1. nóv. 1986 og hafa við þá endurskoðun samráð við sjávarútvegsnefndir Alþingis og samtök helstu hagsmunaaðila í sjávarútvegi. Í samræmi við þetta ákvæði ritaði sjútvrn. hinn 15. júlí sl. bréf til þessara aðila. Var þar óskað eftir að fram væru settar hugmyndir um atriði sem sérstaklega þyrfti að ræða í þessu sambandi og boðað til fundar um málið hinn 13. ágúst. Fjallað var um málið í sjútvrn. í framhaldi af fundinum í ágúst og síðan haldinn fundur með sömu aðilum þann 17. okt.“, segir í þessu bréfi, en það mun vera rangt, það er 17. sept., enda er bréfið skrifað 10. okt. „Það er niðurstaða sjútvrn. á grundvelli þeirra umræðna er þar urðu og umfjöllunar um málið í ráðuneytinu sjálfu að á þessu hausti sé ekki ástæða til að breyta ákvæðum laga um stjórn fiskveiða á næsta ári. Telur sjútvrn. að þar með sé lokið þeirri endurskoðun á ákvæðum laga nr. 97/1985, um stjórn fiskveiða, sem ráðuneytinu var falin.“

Með þessu bréfi taldi, ráðuneytið að það hefði sinnt skyldu sinni samkvæmt þessu ákvæði og það kom skýrt fram á þessum fundum að það var ekki áhugi og ekki tillögur um breytingar á lögunum á því stigi. Hagsmunaaðilar voru ekki tilbúnir að mæla með slíkum breytingum og vildu frekar mæla með vissum breytingum á reglugerð og ég man ekki til þess að það hafi komið fram hugmyndir hjá þeim aðilum, sem sátu þá í sjávarútvegsnefndum Alþingis, um að slíkar breytingar yrðu gerðar á lögunum. Það voru kosningar fram undan á árinu þar á eftir og eftir því sem ég best man töldu menn eðlilegt að ný ríkisstjórn að því loknu tæki á þessu máli.

Síðan var ný ríkisstjórn mynduð um mánaðamótin júní/júlí 1987 og var þá þegar hafinn undirbúningur að frv. Það má öllum vera ljóst að það lá ekki fyrir eftir þá stjórnarmyndun að samstaða væri um það í öllum atriðum hvernig að þessari endurskoðun skyldi staðið, þ.e. hvaða breytingar skyldu verða á lögunum. Það fyrsta sem sjútvrn. gerði var að fela ýmsum sérfræðingum að vinna að undirbúningi málsins. Bæði voru það starfsmenn ráðuneytisins, það voru sérfræðingar frá Þjóðhagsstofnun, raunvísindadeild Háskólans, viðskiptadeild Háskóla Íslands og einnig var sóttur enn einn utanaðkomandi aðili frá Verslunarháskólanum í Bergen, prófessor Rögnvaldur Hannesson. Þessum aðilum var falið að gera úttekt á því kerfi sem hafði verið í gildi á undanförnum árum og skila niðurstöðum þar um. Þetta verk leystu þeir ágætlega af hendi og hafa skýrslur um það verið kynntar á Alþingi og í framhaldi af því var boðað til funda um málið í septembermánuði, en eins og allir vita er ekki mjög auðvelt að ná saman fundum í júlí- og ágústmánuði. Það eru hefðbundnir sumarleyfismánuðir sem ekki gengur vel að ná saman fjölmennum fundum í.

Það má vissulega um það deila hverjir skuli til kvaddir við endurskoðun slíkra laga. Það hefur komið fram á Alþingi að eðlilegast sé að fulltrúar þingflokka starfi fyrst og fremst að þeirri endurskoðun en ekki hinir svokölluðu hagsmunaaðilar. Það hefur verið mín skoðun og er enn að það sé einmitt eðlilegt að kalla til hina ýmsu hagsmunaaðila við slíka endurskoðun. það fólk sem lifir og starfar við þessi lög á degi hverjum, og það sé hins vegar eðlilegt af Alþingis hálfu að taka þau mál til ítarlegrar umfjöllunar í þinginu þótt það sé einnig gott að þingflokkarnir eigi aðild að slíkri endurskoðun þannig að þeir séu sem best kunnugir þeim viðhorfum sem liggja að baki þeim frv. sem kynnt eru. Þetta var gert og olli nokkrum vandkvæðum hversu fjölmennur hópur þar kom saman. Mér er fyllilega ljóst að það hefði sjálfsagt mátt gera með öðrum hætti, með því að skipta þessum hóp. Ég held að það sé mög gott fyrir alþm. og fulltrúa þingflokka að starfa að slíkum málum með fulltrúum hagsmunaaðilanna til þess að kynnast sem best þeirra viðhorfum og komast inn í þann hugsunarhátt sem liggur að baki þeirra sjónarmiða.

Þetta hefur verið mikið starf og mér finnst vera nokkuð langt gengið þegar því er haldið fram af ýmsum að þetta mál hafi fyrst komið til umfjöllunar í byrjun desember. Það hafði verið til umfjöllunar í allt haust. Það hafði verið kynnt öllum alþm. í frumvarpsdrögum um leið og þau lágu fyrir nokkru áður. Fulltrúar ráðuneytisins höfðu mætt hjá þeim þingflokkum sem óskuðu eftir því til að gera grein fyrir þessum frumvarpsdrögum þannig að málið hefur meira og minna verið til umfjöllunar á Alþingi og í þingflokkum í allt haust þótt það hafi ekki komið með formlegum hætti inn á Alþingi fyrr en 2. desember. Vissulega er það allt of seint. Það er ekki gott að standa að endurskoðun mikilvægra laga sem þessara svo seint eins og raun ber vitni, en ég tel að á því séu ýmsar skýringar sem verði að hafa í huga þegar slíkar fullyrðingar eru settar fram að mjög illa hafi verið staðið að endurskoðun laganna. Mér er ekki ljóst með hvaða öðrum hætti hefði verið hægt að standa að slíkri endurskoðun þótt ég taki undir að málið kom of seint til umfjöllunar á Alþingi með formlegum hætti.

Annað það atriði sem mikið hefur verið til umræðu á Alþingi eru veiðar minni bátanna, þ.e. veiðar báta 10 lestir og minni, og jafnvel verið látið að því liggja að það væri sérstaklega verið að veitast að þeim aðilum og þeir meðhöndlaðir með óréttmætum hætti. Auðvitað er það alltaf matsatriði hvenær hagsmunir eins hagsmunahóps í sjávarútvegi eru bornir sérstaklega fyrir borð og annarra ekki, en ég mótmæli því að það hafi ekki verið hugað sérstaklega að hagsmunum þessara aðila. Ég minni á að áður en kvótakerfið var tekið upp er hlutdeild þessara báta undir 10 brl. á árinu 1983 12 600 tonn, þá er ég að tala um þorsk, eða 4,3%. Sú áætlun sem er fyrir árið 1987 er að það séu um 30 500 tonn, sem getur orðið eitthvað meira en þar er ekki um nein veruleg frávik að ræða, eða 8%, en það er svipað hlutfall og var á árnu 1986. Ég held að það fari ekki fram hjá neinum að hlutdeild þessara aðila í veiðunum hefur vaxið mjög mikið af ýmsum ástæðum, bæði vegna fjölgunar báta, vegna ágætrar tíðar og af ýmsum öðrum ástæðum. En þetta er að sjálfsögðu ekki aðalatriði heldur er aðalatriðið hver hlutdeild þessara aðila eigi að vera í aflanum 1988 og síðar. Það er gert ráð fyrir því að afli á árinu 1988 verði 345 þús. tonn á móti 381 þús. tonnum á árinu 1987 og ef sá samdráttur á að eiga sér stað, þó að það sé erfitt að tala um nákvæmar tölur í þessu, hvort sem það eru nú 345 þús. tonn eða 350 þús. tonn er það samdráttur um 30 þús. tonn, verður samdrátturinn að koma niður á aðila með réttmætum hætti.

Ég vil aðeins í því sambandi víkja að ákveðnu plaggi, vegna þess að það var lesið upp í gær af einum hv. þm. athugasemdalaust, og ég get ekki látið hjá líða að mótmæla því sem þar kemur fram, en það er fréttatilkynning frá Landssambandi smábátaeigenda undir fyrirsögninni „Örgustu öfugmæli.“ Það er að vísu sett fram vegna ákveðinna ummæla í fjölmiðlum, en þar kemur fram m.a.:

„Eins og kvótafrv. hefur verið afgreitt frá Ed. Alþingis, þá er gert ráð fyrir að skip sem velja sér sóknarmark geti árlega aukið afla sinn um 10%. Sé gert ráð fyrir að um eða yfir helmingur þorskafla 1988 verði veiddur samkvæmt slíku sóknarmarki þýðir það að þeim skipum leyfist sjálfkrafa á næsta ári að auka veiðikvóta sinn um 20 þús. tonn eða meir. Ætla verður að þetta aukna aflamagn sé að dómi frumvarpshöfundanna innan áhættumarka um ofveiði þorskstofnsins. Að auki er svo helmingur línuafla skipa 10 brl. og stærri utan kvóta á besta línuveiðitíma ársins og mun þorskafla heldur ekki talin hætta við ofveiði vegna þeirra mörgu þúsunda tonna sem þannig bætast við árlegt aflamagn.“ Síðan er feitletrað: „Með þessar leiðir opnar í frv. til sjálfvirkrar aukningar á kvóta á veiði, þá hlýtur að vera gert ráð fyrir því af höfundum þess að þorskstofninn geti þolað 25–35 þús. tonna veiðiaukningu.“

Hver er nú sannleikurinn í þessu máli? Hann er sá að það stendur til og skv. þessu frv. gert ráð fyrir að sóknarmarkið verði ekki 25% ofan á aflaheimildir, þ.e. aflamark, heldur 10%, þ.e. samdráttur um helming. Þar að auki er gert ráð fyrir að það verði að skerða aflamark hinna einstöku skipa um a.m.k. 6%. Eftir því sem rýmkað er í frv. þeim mun meira þarf að skera aflamarkið niður. 3000 tonn gera u.þ.b. 1% og það tekur ekki langan tíma, ef haldið verður áfram að rýmka hinar ýmsu heimildir, þar til niðurskurðurinn gæti orðið 10%.

Og hvaða áhrif skyldi þetta hafa á hin einstöku skip? Við skulum taka sem dæmi togara, þó að þeir séu ekki margir, sem eru 2000 tonn í aflamark á árinu 1987. Hans aflamark yrði á árinu 1988 a.m.k. 6% lægra eða 1880 tonn. Hann fengi ef hann veldi sóknarmark að veiða 10% ofan á það eða 180 tonnum meira eða u.þ.b. 2060 tonn, en hafði heimild á árinu 1987 til að veiða 20% ofan á 2000 tonnin eða 2400 tonn, þ.e. samdráttur um 340 tonn.

Ég hlýt að undrast að þeir aðilar sem hafa verið að vinna með öðrum að endurskoðun þessara mála, ekki aðeins í ár heldur í gegnum tíðina, skuli geta sett fram fullyrðingar eins og hér eru. Annaðhvort er það að þeir fylgjast ekki með því sem fram fer eða þetta er sett fram af einhverjum í nafni þessara ágætu samtaka án þess að hann viti hvað hann er að fjalla um og hafi ekki borið það undir þá aðila sem vita gleggst um það. Er nú von að vel gangi í málum þegar slíkar upplýsingar eru settar fram og þær eru lesnar upp athugasemdalaust af hv. þm.? Ég held að það hafi verið hv. þm. Hreggviður Jónsson sem las þetta hér upp og þess vegna vildi ég geta þess hér. Hann hefur starfað að málinu í sjútvn. Hann taldi að hér væri um ágætar upplýsingar að ræða og lýsti yfir vanþóknun sinni á því að með þessum hætti skyldi vera staðið að málum.

Auðvitað er umdeilanlegt eins og annað í þessu máli hvernig skuli staðið að veiðum smábáta, en sú grundvallarhugsun sem liggur að baki þeirri frvgr. eins og hún liggur nú fyrir er sú að línu- og handfæraveiðar séu nokkuð frjálsar og séu háðar ákveðnum banndögum. Hins vegar séu þeir sem stunda netaveiðar og hafa stundað netaveiðar undir öðru kerfi og því fylgi jafnframt ákveðin réttindi.

Það fylgi því þau réttindi að þeir fái 90% aflaheimild af tveimur bestu viðmiðunarárunum sem þar eru tekin til viðmiðunar, þ.e. árunum 1985–1987. Sú viðmiðun sem flotinn býr almennt við er árin 1981–1983, þegar veiðar smábáta voru miklu minni, og sem betur fer hafa veiðar þessara báta margra hverra gengið vel. Með þessu er verið að tryggja hagsmuni þeirra aðila sem þessar veiðar hafa stundað og þeir fá 90% af tveimur bestu árunum. Þar að auki fá þeir heimild til að sækja þennan afla á þeim tíma sem þeim best hentar og eru utan banndagakerfisins.

Ég held að menn verði að líta á þetta með nokkurri sanngirni og ég fullyrði að þessir aðilar mega vel við una þennan kost. Þar við bætist að þeir hafa rétt á eins og aðrir að hálfur línuafli í nóvember, desember, janúar og febrúar sé utan þessa aflamarks. Að vísu er sett hámark á þessa aflaheimild, þ.e. 200 tonn, sem snertir tiltölulega fáa, en það má færa nokkuð gild rök gegn því að það sé rétt að menn njóti þessarar aflareynslu upp úr öllu valdi á sama tíma og aðrir mega búa við að njóta aflareynslu á öðrum árum. Það er alveg ljóst að ef aflareynsla þessara aðila væri tekin á árunum 1981–1983 kæmu allt aðrar og lægri tölur út úr því.

Það er hins vegar gert ráð fyrir því að þeir sem ekki hafa slíka aflareynslu fái ákveðinn meðaltalsafla. Sá meðaltalsafli hefur verið nokkuð lengi í undirbúningi og úrvinnslu því sannleikurinn er sá að skýrslur liggja ekki nægilega vel fyrir í þessu máli. T.d. liggur ekki fyrir afli smábátanna á árinu 1987. En fyrst var tekið mið af meðaltalsaflanum eins og hann var hjá öllum bátunum. Síðan hefur verið unnið að því að taka sérstaklega út meðalafla þeirra báta sem stundað hafa netaveiðarnar. Þá kom í ljós að meðalafli þeirra af eðlilegum ástæðum var mun hærri. Er nú í þeim reglugerðardrögum sem liggja fyrir tekið mið af þessum staðreyndum.

Hitt er svo annað mál að eftir því sem þessi meðaltöl eru hækkuð þeim mun eftirsóknarverðara verður að stunda netaveiðina, sérstaklega með tilliti til þess að þeir bátar eru utan banndagakerfisins. Það má að sjálfsögðu eins og í öðru ganga of langt í því, því að það mun þá geta valdið því að fjölgun verður þar, sem mun þá óhjákvæmilega leiða til þess að það verður að grípa til meiri almennra stöðvana, þ.e. almennra netaveiðibanna. Það verður nefnilega ekki bæði haldið og sleppt í þessu máli. Ef það er ætlan stjórnvalda og Alþingis að vernda hagsmuni þeirra manna sem fyrst og fremst stunda þessar veiðar og hafa stundað þær verður að gera það með því að takmarka aðganginn. Það eru svo mörg dæmi fyrir því að það hafi illa tekist til víðs vegar í heiminum að við mættum láta þau verða okkur að kenningu.

Ég hef oft nefnt það að sennilega er frægasta dæmið lúðuveiðar við Alaska, en þar gátu allir stundað lúðuveiðar þar til veiðin var orðin svo mikil að nú er heimilt að stunda þær einn dag í mánuði. Þá fara allir á sjó og veiða lúðu, en það er ansi mikið af henni sem kemur á markað þann dag og er ekki mikil hagkvæmni í þeim veiðum. Þetta eru dæmi sem menn sjá víða um heim og þótt ég sé ekki að gera því skóna að til slíks mundi koma hér á landi er það svo að þetta er hér vandamál.

Það hefur verið lagt til af ýmsum aðilum að öll fjölgun þessara báta yrði bönnuð og þeir háðir endurnýjunarreglum. Það er ekki gert ráð fyrir því í frv., slík ákvæði ná eingöngu til báta niður að 6 tonnum. Ég geri mér fyllilega grein fyrir að það getur vissulega skapað ákveðin vandamál. En það er nokkur mótsögn í því, sem fram kemur í máli margra, að annars vegar ríki hér ofríki og ofstjórn og það sé verið að loka fyrir að menn geti keypt sér lítinn bát til að sækja á sjó, en jafnvel sömu aðilar gera um það tillögur að þetta skuli alls ekki heimilað nema gegn úreldingu á móti. Bátar undir 6 tonn voru skráðir rúmlega 1400 1. jan. 1987 og hefur fjölgað allmikið síðan og ef á að fara að fylgjast með því í einu og öllu hvernig þeirri endurnýjun er háttað held ég að það sé ekki ofsögum sagt að það verður heilmikið viðfangsefni. Ég held að það sé rétt að reyna að halda í það eins lengi og við getum að menn geti víðs vegar um landið keypt litla báta til að stunda handfæra- og línuveiðar.

Ég ætla ekki að fara frekar yfir málefni smábátanna, en ég er þeirrar skoðunar að eins og þessi mál standa nú sé þeirra kostur alls ekki síðri en annarra og ef eitthvað er betri. Hins vegar má lengi um það della hver skuli vera meðaltalsaflinn sem miðað er við og það eru engin algild sannindi í því. Það er t.d. gert ráð fyrir því nú að það séu 55 tonn fyrir neðsta flokkinn. Hvort það á að vera eitthvað minna eða eitthvað meira er að sjálfsögðu matsatriði. Það sem er slæmt í þessu máli er að það skuli ekki liggja fyrir meðaltalsafli þeirra á árinu 1987 til að hafa heldur betri viðmiðun. En þetta er atriði sem verður að vera til endurskoðunar á hverjum tíma í samræmi við aflaheimildir annarra skipa í flotanum.

Ég ætlaði að fara örfáum orðum um nokkrar breytingahugmyndir sem hafa verið settar fram og vildi ég fyrst fara yfir þær brtt. sem hv. þm. Matthías Bjarnason, formaður sjútvn., hefur sett fram.

Það er í fyrsta lagi að rækjuafli skuli reiknaður með allt að 15% álagi þegar metið er hversu mikið af aflahámarki skips er náð hverju sinni. Auðvitað má færa að því rök að slík heimild sé í lögum. En ég vil minna á að þetta hefur ekki verið vandamál utan einu sinni að um tveggja mánaða skeið var mikið sótt eftir óunninni rækju af verksmiðjum í Noregi og þá voru það ekki eingöngu skip sem seldu þeim verksmiðjum heldur einnig rækjuverksmiðjur í landinu. Það brást algerlega veiðin í Barentshafi sem gerði að verkum að rækjuverksmiðjur í Noregi vildu næstum því borga hvað sem var fyrir rækju til að geta uppfyllt ákveðna samninga og skapaði þess vegna mikla eftirspurn eftir óunninni rækju héðan frá Íslandi. Þetta er eina tilfellið sem upp hefur komið að því er varðar útflutning á óunninni rækju og hvort er ástæða til að setja slíka heimild inn vegna þessa er mér til efs. Ég minni á að útflutningur á rækju eins og öðrum fiskafurðum er háður leyfum og það er að sjálfsögðu hægt að meta hvort útflutningur á slíkum afurðum skuli heimilaður af því stjórnvaldi sem ákveður það.

Í 2. brtt. er gert ráð fyrir því að það sé heimilt að flytja aflahámark sóknarmarksskipa milli skipa. Ef slík heimild yrði opnuð mundi það einfaldlega þýða að stærsti hluti flotans, jafnvel allur flotinn, mundi velja sóknarmark vegna þess að sóknarmarkið gefur heimild til 10% aukningar. Þá yrði einfaldlega að skera aflamarkið meira niður þannig að ég efast um að það mundi gera mikið gagn, ekki nema með því sé stefnt að mun meiri afla en verið er að tala um.

Í þriðja lagi er tillaga um að ráðherra verði heimilt að bæta viðkomandi byggðarlagi aflatap ef skip er selt úr byggðarlaginu. Hér er um mjög vandmeðfarið mál að ræða. Mér hefur skilist á mörgum hv. þm. að þeim finnist nóg af heimildum í þessu frv. En heimild sem þessi væri sennilega sú vandasamasta sem í þessum lögum yrði þá. Auðvitað geri ég mér grein fyrir því að það geta komið upp þau tilvik í einstökum byggðarlögum í landinu að það sé nauðsynlegt að taka á málum sem þessu, en það er mjög teygjanlegt hvenær og hvernig væri réttlætanlegt að beita slíkri heimild.

Það er alveg ljóst að það eru mörg byggðarlögin í landinu sem teldu að þetta ætti við sig. Ég veit ekki um það byggðarlag í okkar ágæta landi sem vill ekki auka og efla atvinnulífið á viðkomandi stað og telur mikilvægt að sjávarútvegurinn sé byggður betur upp og hann fái sterkari rætur. Skip geta að sjálfsögðu verið seld í burtu af ýmsum ástæðum. Það gæti verið freistandi að selja í burtu skip ef menn gætu gengið út frá því að það væri hægt að leggja þann þrýsting á stjórnvöld að þau yrðu að bæta byggðarlaginu það upp, án þess að ég sé neitt að gera því skóna að nokkur aðili leiki sér að slíku.

Hins vegar verður Alþingi á hverjum tíma að vera tilbúið að taka á ýmsum þeim vandamálum sem upp koma í landinu og ætli gæti ekki verið eðlilegt að það væri í verkahring Alþingis, ef einhver slík vandamál koma upp þar sem liggur við mikilli byggðaröskun á einstökum stöðum, að taka á þeim vanda og flytja um hann frv. þannig að á það sé látið reyna hvort þingið sé tilbúið að meta aðstæðurnar svo að gerð skuli sérstök undantekning? Ég er þeirrar skoðunar að það sé ekki eðlilegt að fela slíkt mat einstökum ráðherra, hver svo sem hann er, það sé eðlilegt að slíkt mat fari fram á Alþingi og fái þar eðlilega umfjöllun.

Í fjórða lagi er gert ráð fyrir að sérstök samráðsnefnd skuli kosin af Alþingi. Hér er um að ræða nefnd sem fjallar um ágreiningsmál á þessu viðkvæma sviði og þar er sú skipan að þar er einn fulltrúi sjómanna, einn fulltrúi útvegsmanna og einn starfsmaður ráðuneytisins. Það þótti rétt að þeir aðilar sem best þekkja til í flotanum ættu aðild að slíkri nefnd og ynnu með ráðuneytinu að úrlausn þeirra mála. Hér er að sjálfsögðu um málefni framkvæmdarvaldsins að ræða og það er að mínu mati fullkomlega óeðlilegt að Alþingi kjósi slíka nefnd. (SJS: Vill ráðherrann endurtaka „fullkomlega óeðlilegt“?) Fullkomlega óeðlilegt. (SJS: Það er gaman að heyra það.) Já, ég skal færa að því nokkur rök.

Alþingi hefur fyrst og fremst löggjafarvald og það er óeðlilegt að mínu mati að Alþingi sé að þrýsta sér á hverjum tíma meira og meira inn í framkvæmdarvaldið sjálft. Ég hef lengi verið þessarar skoðunar og ég minni á að ég flutti á sínum tíma frv. til l. um ríkisendurskoðun þar sem ég lagði á það áherslu að komið yrði upp stofnun sem hefði eftirlit með framkvæmdarvaldinu. Það er ekki hægt að setja stóran hluta af verkefnum ráðuneyta undir þingkjörnar nefndir. Ég tel að slík skipan gangi ekki, hvorki að því er varðar sjútvrn. né önnur ráðuneyti. Hins vegar á Alþingi að reyna að styrkja eftirlitshlutverk sitt sem mest og ég tel að það hafi verið lagður góður grunnur að því með lögunum um ríkisendurskoðun.

Í fimmta lagi er talað um gildistíma og ég ætla ekki að ræða um það. Ég hef áður sagt að ég tel að gildistími laganna eigi að vera sem allra lengstur. Út af fyrir sig get ég tekið undir þau sjónarmið, sem komu fram hjá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni, að það væri eðlilegast að það væri með þessi lög eins og önnur lög að þau hefðu ótakmarkaðan gildistíma, en gætu verið til endurskoðunar á hverjum tíma. Það er ekkert annað sem gerist með þessum hætti en að það er þá tryggt að það verður að setja ný lög að þessum tíma liðnum. En auðvitað getur Alþingi hvenær sem er tekið löggjöf til endurskoðunar, hvort sem hún gildir ótakmarkað eða til þriggja ára, og það er ekkert sem segir að þessi löggjöf muni ekki þarfnast einhverrar endurskoðunar á þessu þriggja ára tímabili og jafnvel a næsta ári.

Í sjötta lagi er talað um endurskoðun laganna. Ég endurtek þá skoðun mína að ég tel að hagsmunaaðilar eigi að eiga ríkan þátt í þeirri endurskoðun og minni á að þeir hafa langflestir lagt sig mjög fram í þessu mali, samþykkt að það yrði að takmarka fiskafla í landinu, samþykkt að fiskafli yrði skertur með ýmsum hætti. Það hlýtur að vera mikilvægt að reyna að tryggja slíkt samstarf í landinu. Hér er um að ræða aðila sem snerta hagsmuni einstakra fjölskyldna í landinu öllu og sennilega langflestra fjölskyldna í landinu. Það ætti að vera tryggt að sjónarmið þessara aðila tryggðu betri umfjöllun um málið en ella.

Að því er varðar 7. liðinn, sem mikið hefur verið rætt um, þ.e. þau skip sem hafa farist á árunum 1983–1984, er það eins í því máli og öðru að það er ekki bæði gefið og tekið í þessu. Þar er um að ræða m.a. tvö loðnuskip. Ef tveimur loðnuskipum væri bætt inn í flotann þýddi það að þeir sem fyrir eru í greininni fengju skerðingu um 4%. Það yrði þá að sjálfsögðu að tilkynna öllum loðnusjómönnum að þeirra hlutur væri frá og með þeim tíma skertur um 4%. Að því er varðar önnur skip má gera ráð fyrir að aflaheimildir þeirra þyrftu að vera ekki minni en 3 þús. tonn af þorski sem þýddi þá um það bil 1% skerðingu í flotanum í heild.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð mín fleiri. Ég hef ekki við umfjöllun þessa máls hér á Alþingi haft um það mörg orð og það var ekki ætlun mín að lengja þessar umræður. Hins vegar taldi ég óhjákvæmilegt að minnast á nokkur þau atriði sem hér hafa komið fram í umræðunum þótt ég hefði viljað koma inn á mörg fleiri, sérstaklega vegna þess að hér hefur í sumum tilfellum verið um misskilning að ræða, í öðrum tilvikum um atriði sem ég taldi rétt og nauðsynlegt að lýsa mínum skoðunum á og vænti þess að með því hafi ég jafnframt svarað nokkrum fyrirspurnum sem til mín hafa komið um þetta mál. Ég vænti þess að það fái sem skjótasta meðhöndlun í deildinni þótt ég geri mér grein fyrir að það þarf að fá þá efnisumfjöllun í umræðum sem nauðsynleg er talin.